Ferill 361. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 361 . mál.


587. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 1994.

    Þátttaka Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins í starfi sambandsins á árinu 1994 var með hefðbundnum hætti. Íslandsdeildin tók þátt í báðum reglulegum þingum sambandsins. Það fyrra var haldið í París (91. þing) í mars og hið síðara í Kaupmannahöfn (92. þing) í septem ber.
    Stjórn Íslandsdeildarinnar skipa Geir H. Haarde, formaður, Ólafur Þ. Þórðarson, varafor maður, Gunnlaugur Stefánsson, Margrét Frímannsdóttir og Einar K. Guðfinnsson. Áheyrnar fulltrúi Kvennalistans er Anna Ólafsdóttir Björnsson.

A. ÞINGIÐ Í PARÍS


I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt sitt 91. þing í París dagana 21.–26. mars 1994. Þingið sóttu fulltrúar 111 þinga, en á þinginu voru auk þess áheyrnarfulltrúar frá fjölmörgum alþjóða samtökum, þar á meðal ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuþinginu.
    Fyrir hönd Íslandsdeildarinnar sóttu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður, Ólafur Þ. Þórðarson, varaformaður deildarinnar, Gunnlaugur Stefánsson og Einar K. Guðfinns son, auk Þorsteins Magnússonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Alþjóðaþingmannasambandið gefur út greinargóða skýrslu, á ensku og frönsku, um hvert þing sambandsins og geta þeir sem þess óska fengið eintak af henni hjá ritara Íslandsdeildarinn ar.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu auk þess sem fram fóru almennar stjórnmálaumræður. Þau þrjú efni, sem fjallað var um, voru eftirfarandi:
     a .     hlutverk Sameinuðu þjóðanna í því að koma í veg fyrir átök,
     b .     umhverfismál með sérstöku tilliti til bætts eftirlits með eyðingu úrgangsefna,
     c .     mikilvægi þess að þjóðir heims virði samninginn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna.
    Um öll þessi efni samþykkti þingið sérstakar ályktanir.
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum þingsins. Geir H. Haarde talaði í umræðunni um hlutverk Sameinuðu þjóðanna. Gunnlaugur Stefánsson flutti ræðu í umræðunum um um hverfismál og gagnrýndi þar harðlega áform Breta um endurvinnslustöðina í Sellafield. Einar K. Guðfinnsson talaði í almennu stjórnmálaumræðunum og fjallaði ræða hans m.a. um GATT-samkomulagið og fór hann hörðum orðum um aðgerðir Frakka til að hefta fiskinnflutning frá Íslandi. Í framhaldi af ræðu Gunnlaugs Stefánssonar áttu Gunnlaugur og Ólafur Þ. Þórðarson fund með einum fulltrúa bresku sendinefndarinnar, Lindsay lávarði, til að ræða málið frekar og var ákveðið að skiptast á viðbótarupplýsingum í kjölfarið. Allir í sendinefndinni tóku jafnframt þátt í nefndastörfum.

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingstörf niðri. Ráðið fjallar um og tekur ákvarðanir um innri málefni sambandsins. Í ráð inu eiga sæti tveir fulltrúar frá hverri þjóðdeild. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Geir H. Haarde og Ólafur Þ. Þórðarson fundi ráðsins.
    Fyrir ráðinu lágu umsóknir um aðild frá Saír, Makedóníu, Kómoreyjum, Búrúndí og Mið-Afríkulýðveldinu. Allar þessar umsóknir voru samþykktar. Þar með voru aðildar þing sambandsins orðin 129, en auk þess eiga þrjú fjölþjóðaþing aukaaðild að því.
    Að vanda var lögð fram ítarleg skýrsla þeirrar nefndar Alþjóðaþingmannasambands ins sem hefur það verkefni að fylgjast með mannéttindabrotum gagnvart þingmönnum og reyna að fá þingmenn leysta úr haldi hafi þeir verið fangelsaðir án dóms og laga. Í skýrslu nefndarinnar var gerð grein fyrir málum rúmlega 120 þingmanna í níu ríkjum sem nefndin hefur haft til rannsóknar. Ríkin, sem hér um ræðir, eru Búlgaría, Kólumbía, Haítí, Hondúras, Indónesía, Myanmar, Senegal, Tógó, Tyrkland og Úzbekistan.
    Ráðið samþykkti að senda sumarið 1994 nefnd þriggja þingmanna til fyrrum lýðvelda Júgóslavíu til að kynna sér aðstæður þar, ekki síst með tilliti til mannréttindabrota, og kanna með hvaða hætti sambandið getur orðið að liði í því uppbyggingarstarfi sem við tekur að loknu stríðinu í Bosníu. Í sendinefndina voru valdir þingmenn frá Ástralíu og Argentínu, auk Geirs H. Haarde.
    Ráðinu var gerð ítarleg grein fyrir þátttöku sambandsins í kosningaeftirliti, en slíkt eft irlit er vaxandi þáttur í starfsemi þess. Í framhaldi af því samþykkti ráðið sérstaka yfir lýsingu um viðmiðanir fyrir frjálsar og heiðarlegar kosningar. Í þessu sambandi má nefna að Alþjóðaþingmannasambandið hefur gefið út ritið Free and Fair Elections: International Law and Practice (123 blaðsíður) sem skrifað er af Guy S. Goodwin-Gill, lagaprófessor við Carleton-háskóla í Kanada.
    Líkt og á fyrri fundum fjallaði ráðið um fjölmörg önnur mál er varða innra starf sam bandsins, svo sem fjármál og skýrslur forseta ráðsins, framkvæmdastjórnar, framkvæmda stjóra og sérnefnda. Þá samþykkti ráðið að framlengja ráðningu Pierre Cornillon sem framkvæmdastjóra sambandsins til fjögurra ára.

IV. Störf pólitískra svæðahópa á þinginu.


    Á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins er mikið um fundi pólitískra svæðahópa (nokkurs konar þingflokkar) sem þingfulltrúar skiptast í. Segja má að veigamesta fram lag Íslandsdeildarinnar til þingsins í París hafi verið formennska deildarinnar í hinum svo kallaða 12-plúshópi sem skipaður er þingmönnum frá flestum ríkjum í Evrópu auk Banda ríkjanna, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands. Þá eiga Ísrael, Evrópuþingið og Evrópu ráðsþingið áheyrnaraðild að hópnum. 12-plúshópurinn hefur stækkað verulega í kjölfar stjórnarfarsbreytinganna í Mið- og Austur-Evrópu. Á árunum 1993 og 1994 bættust Búlgaría, Slóvenía, Tékkland, Eistland, Litáen og Rúmenía í hópinn en áður höfðu Pól land og Ungverjaland fengið aðild.
    Geir H. Haarde stýrði störfum hópsins bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefndastarfi. Á síðasta fundi hópsins í París samþykkti hópurinn að gera tillögu um að Geir H. Haarde yrði kjörinn í 13 manna framkvæmdastjórn sambandsins fyrir hönd hópsins á næsta þingi þess í Kaup mannahöfn.

B. ÞINGIÐ Í KAUPMANNAHÖFN


    

I. Inngangur.


    Alþjóðaþingmannasambandið hélt sitt 92. þing í Kaupmannahöfn dagana 12.–17. sept ember 1994. Þingið sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður Íslandsdeildarinnar, og Margrét Frímannsdóttir, auk Þorsteins Magnússonar, rit ara deildarinnar. Alls sóttu þingið fulltrúar 117 þinga.

II. Störf og ályktanir þingsins.


    Að venju var fjallað um þrjú málefni á þinginu auk þess sem fram fóru almennar stjórnmálaumræður. Þau þrjú efni, sem fjallað var um, voru eftirfarandi: Efling mann réttinda, baráttan við fátækt og frjáls heimsviðskipti. Samþykktar voru ályktanir um þessi þrjú mál.
    Íslenska sendinefndin tók virkan þátt í störfum þingsins, bæði í umræðum og nefnda störfum.
    Að tillögu ráðs sambandsins samþykkti þingið að kjósa Geir H. Haarde í 13 manna framkvæmdastjórn sambandsins. Tók hann sæti Ástralans Leo McLeay sem einn full trúa 12-plúshópsins í framkvæmdastjórninni. Geir er fyrsti íslenski þingmaðurinn sem tek ur sæti í framkvæmdastjórn sambandsins.
    

III. Störf og ákvarðanir ráðsins.


    Ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fundaði tvívegis meðan þingið stóð yfir en á meðan lágu þingfundir niðri. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu Geir H. Haarde og Mar grét Frímannsdóttir fundi ráðsins.
    Við upphaf þingsins áttu 129 þing aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu en á þing inu lágu jafnframt fyrir umsóknir um aðild frá Suður-Afríku, Bosníu-Hersegóvínu og Máritaníu. Ráðið fjallaði um þessar umsóknir og voru þær samþykktar. Við lok þings ins í Kaupmannahöfn voru aðildarþing Alþjóðaþingmannasambandsins því orðin 132, en auk þess eiga þrjú fjölþjóðaþing aukaaðild að þinginu. Þessi fjölþjóðaþing eru Evrópu ráðsþingið, þing Andean-ríkjanna í rómönsku Ameríku og þing ríkja rómönsku Amer íku.
    Að vanda var lögð fram í ráðinu ítarleg skýrsla um mannréttindamál þingmanna en mannréttindanefnd sambandsins gerði grein fyrir málum rúmlega 80 þingmanna í 13 ríkj um þar sem brotin höfðu verið mannréttindi á þingmönnum. Þau ríki, sem um var að ræða, voru Albanía, Búlgaría, Búrúndí, Kólumbía, Haítí, Hondúras, Indónesía, Maldíveyj ar, Myanmar, Nígería, Senegal, Tógó, Tyrkland og Úzbekistan.
    Bretinn Sir Michael Marshall, sem verið hefur forseti Alþjóðaþingmannasambands ins undanfarin þrjú ár, lét af störfum á þinginu og kaus ráðið nýjan forseta fyrir sam bandið. Kosið var á milli tveggja frambjóðenda, þeirra Gabriel Valdes Subercaseaux, for seta öldungadeildar sílenska þingsins, og Ahmed Fathy Sorour, forseta egypska þings ins. Baráttan milli þessara tveggja frambjóðenda var mjög hörð og jöfn og lyktaði með því að Ahmed Fathy Sorour var kjörinn forseti Alþjóðaþingmannasambandsins með naumum atkvæðamun.
    Fyrir ráðinu lágu tillögur um ýmsar breytingar á skipulagi þinghaldsins sem m.a. fela í sér að stytta þingið um einn dag og leggja aukna áherslu á nefndastarf þess. Ráðið féllst á slíkar breytingar og fól framkvæmdastjórn að leggja nauðsynlegar breytingartillögur við lög sambandsins fyrir fund ráðsins í Madrid í mars 1995 þar sem endanlega yrði geng ið frá skipulagsbreytingum sambandsins.
    Ráðið fjallaði einnig um skýrslu þriggja manna sendinefndar sambandsins er fór til Bosníu, Króatíu og Júgóslavíu dagana 31. júlí til 8. ágúst sl. Sendinefndin var skipuð Sol ari Yrigoyen frá Argentínu, Leo McLeay frá Ástralíu og Geir H. Haarde.
    Þá fjallaði ráðið að vanda um fjölmörg önnur mál er varða innra starf sambandsins, svo sem fjármál og skýrslur forseta ráðsins, framkvæmdastjórnar, framkvæmdastjóra og sérnefnda.

IV. Störf pólitískra svæðahópa á þinginu.


    Líkt og á þinginu í París má segja að veigamesta framlag Íslandsdeildarinnar til þings ins í Kaupmannahöfn hafi verið formennska deildarinnar í hinum svokallaða 12-plús hópi sem skipaður er þingmönnum frá 35 ríkjum Evrópu og Norður-Ameríku auk Ástr alíu og Nýja-Sjálands. Hópurinn fundaði bæði helgina fyrir upphaf þingsins og síðan á hverjum morgni áður en þingfundir hófust. Á þessum samráðsfundum var, líkt og á fyrri fundum, tekin afstaða til einstakra mála, kosninga í trúnaðarstörf og þátttöku í nefnda starfi. Geir H. Haarde hefur verið formaður hópsins undanfarin tvö ár og kom hann fram fyrir hönd hópsins á þinginu. Við lok þingsins lét Geir, að eigin ósk, af störfum sem for maður 12-plúshópsins. Tveir þingmenn gáfu kost á sér í embættið. Þeir voru Peter Bosa frá Kanada og Leo McLeay frá Ástralíu. Niðurstaðan var sú að Kanadamaðurinn hlaut kosningu.

C. NORRÆNT SAMSTARF


    Auk þátttöku Íslandsdeildarinnar í þingum sambandsins í París og Kaupmannahöfn tók formaður deildarinnar þátt í samráðsfundum norrænu deildanna sem haldnir voru í Kaup mannahöfn fyrir bæði þingin. Á síðari samráðsfundinum var samþykkt tillaga formanns Íslandsdeildarinnar um að hætta að efna til samráðsfunda fyrir þingin þar sem slíkri fund ir fælu í sér óþarflega mikinn kostnað og ákveðið að fundirnir yrðu framvegis haldnir á sjálfum þingunum eftir því sem þörf væri á. Finnar áttu á Kaupmannahafnarfundinum að taka við formennsku af Dönum í norræna hópnum en vegna kosninga í Finnlandi í mars var ákveðið að Danir mundu hafa frumkvæði að því að kalla saman fund norrænu deildanna á Madrid-þinginu.
    

D. NÆSTU ÞING


    Næstu reglulegu þing sambandsins verða í Madrid (mars/apríl 1995), Búkarest (sept ember 1995), Istanbúl (apríl 1996), Beijing (september 1996) og Seoul (apríl 1997).

Alþingi, 1. febr. 1995.



    Geir H. Haarde,     Gunnlaugur Stefánsson.     Margrét Frímannsdóttir.
    form.          

Einar K. Guðfinnsson.