Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 373 . mál.


602. Skýrsla



Íslandsdeildar RÖSE-þingsins fyrir árið 1994.

    Í yfirlýsingu þjóðarleiðtoga RÖSE-ríkjanna, sem undirrituð var 21. nóvember 1990 í París, var hvatt til þess að komið yrði á fót þingmannasamkundu ríkjanna. Fyrsti undirbúningsfundur til að hrinda þessu ákvæði Parísaryfirlýsingarinnar í framkvæmd var haldinn í apríl 1991 í Ma drid. Á Madrid-fundinum var ákveðið að koma á fót RÖSE-þingi er kæmi saman einu sinni á ári (í júlí). Þar var samþykkt svokölluð Madrid-yfirlýsing sem er grundvallarskjal RÖSE-þing mannasamstarfsins. Að loknum tveimur undirbúningsfundum á árinu 1992 var fyrsti fundur RÖSE-þings haldinn í júlí 1992 í Búdapest. RÖSE-þingið er því ungt að árum og starf þess er eðlilega enn í mótun. Þingið getur tvímælalaust orðið mikilvægur hlekkur í RÖSE-keðjunni á öllum sviðum RÖSE-samstarfsins. Þó er ljóst að hvað þingfundina sjálfa varðar er nauðsynlegt að taka vinnubrögð og skipulag til endurskoðunar ef samstarf þetta á að skila sér í einhverjum raunverulegum árangri. Sú vinna er nú hafin með endurskoðun á starfsreglum sem væntanlega verður afgreidd á árinu 1995.
    
I. Markmið og skipulag RÖSE-þingsins.
    Samkvæmt starfsreglum RÖSE-þingsins er því ætlað eftirfarandi hlutverk:
     1 .     Að meta árangurinn af RÖSE-samstarfinu.
     2 .     Að ræða mál sem eru á dagskrá funda leiðtoga og utanríkisráðherra RÖSE-ríkjanna.
     3 .     Að þróa leiðir til að koma í veg fyrir og leysa úr átökum.
     4 .     Að stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana í RÖSE-ríkjunum.
     5 .     Að leggja sitt af mörkum til þróunar, samskipta og samstarfs stofnana RÖSE.
    Samkvæmt starfsreglum RÖSE-þingsins er aðild að þinginu miðuð við þing þeirra ríkja sem undirritað hafa Helsinki-yfirlýsinguna frá 1977 og Parísaryfirlýsinguna frá 1990 og að ríkin taki þátt í RÖSE-samstarfinu. Í dag eiga 52 þing RÖSE-ríkjanna aðild að RÖSE-þinginu. Samkvæmt samþykkt, sem gerð var í Kaupmannahöfn, er gert ráð fyrir 312 þingfulltrúum og þar af á Al þingi þrjá fulltrúa.
    Starfsreglurnar gera ráð fyrir að RÖSE-þingið komi saman í júlí ár hvert og standi fundur þess eigi lengur en fimm daga. Auk þingfunda er gert ráð fyrir að á þinginu starfi þrjár fasta nefndir er fjalli um mál er falla undir svið þeirra. Formaður, varaformaður og framsögumaður hverrar nefndar eru kjörnir af nefndunum í lok allsherjarfundar ár hvert. Framsögumaður nefnd ar velur umræðuefni það sem tekið er fyrir í nefndinni það ár í samráði við formann og varafor mann nefndarinnar. Hann undirbýr skýrslu sem lögð er fyrir nefndina ásamt drögum að ályktun. Fastanefndirnar þrjár eru: nefnd um stjórn- og öryggismál (fyrsta nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (önnur nefnd) og nefnd um lýðræði og mannréttindamál (þriðja nefnd). Heimilt er forseta þingsins að boða til aukaþings ef stjórnarnefnd þingsins ákveður svo.
    Framkvæmdastjórn þingsins (Bureau) er skipuð forseta þess, níu varaforsetum og gjaldkera. Stjórnarnefnd þingsins (Standing Committee) er skipuð forseta RÖSE-þingsins, varaforsetum, gjaldkera, formönnum nefnda þingsins og formönnum sendinefnda einstakra þjóðþinga, og er nefndinni ætlað að undirbúa störf þingsins.
    Þingsköp RÖSE-þingsins gera ráð fyrir að þingið og framkvæmdastjórnin taki ákvarð anir sínar með meiri hluta atkvæða en að ákvarðanir stjórnarnefndarinnar skuli teknar samkvæmt afbrigði af svokallaðri „samstöðu-reglu“ (consensus rule) en henni er fylgt á fundum fulltrúa ríkisstjórna RÖSE-ríkjanna. Stjórnarnefnd þingsins fylgir svokallaðri „consensus minus one“ reglu sem felur í sér að til að ákvörðun nái fram að ganga má ekki nema fulltrúi eins aðildarríkis vera henni andvígur.
    Fulltrúi ráðherraráðs RÖSE ávarpar þingið á árlegum fundi þess og gefur þinginu skýrslu um málefni RÖSE og þau verkefni sem verið er að vinna að á þeim vettvangi. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til þess ráðherra er mætir sem fulltrúi ráðherra ráðsins.
    Líkt og almennt hefur gilt í RÖSE-samstarfi eru opinber tungumál þingsins sex: enska, franska, þýska, ítalska, rússneska og spænska.

II. Íslandsdeild RÖSE-þingsins.
    Íslandsdeildin var skipuð sem hér segir árið 1994:
    Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki, formaður, Finnur Ingólfsson, Framsóknarflokki, varaformaður, Sigbjörn Gunnarsson, Alþýðuflokki, Guðjón Guðmundsson, Sjálfstæðis flokki, Ólafur Ragnar Grímsson, Alþýðubandalagi, og Anna Ólafsdóttir Björnsson, Kvennalista (áheyrnarfulltrúi). Ritari deildarinnar er Belinda Theriault alþjóðaritari. Ís landsdeildin hélt fjóra formlega fundi á árinu.

III. Starfsemi á árinu 1994.
a. Fundur stjórnarnefndar.
    Stjórnarfundur RÖSE-þingsins var haldinn mánudaginn 17. janúar sl. í Kaupmanna höfn. Fundinn sóttu f.h. Íslandsdeildarinnar formaður og ritari.
    Forseti RÖSE-þingsins, Ilkka Suominen, setti fundinn og lagði í inngangsorðum sín um áherslu á mikilvægi kosningaeftirlits sem eins af aðalverkefnum þingsins. Hann lýsti yfir ánægju með kosningaeftirlit RÖSE-þingsins í Rússlandi. Hann ræddi stöðu mála í Eystrasaltsríkjunum og setti fram þá hugmynd að RÖSE-þingið sendi þangað sendinefnd sem gæfi þinginu skýrslu næst þegar það kæmi saman.
    Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, ávarpaði fundinn og svaraði síð an spurningum fundarmanna. Hann ræddi m.a. um kosti og galla RÖSE og lagði í því sambandi þunga áherslu á að breyta þyrfti, að hans mati, reglum RÖSE um ákvarðana töku. Hann sagði „samstöðu-regluna“ úrelta og sagði jafnframt dönsku stjórnina fylgj andi því að öryggisráð yrði sett á stofn innan RÖSE þar sem aðildarríkin skiptust á að taka sæti eftir nánari reglum. Framkvæmdastjóri RÖSE, dr. Wilhelm Höynck, ræddi um niðurstöður ráðherrafundarins sem haldinn var í Róm í lok nóvember 1993 og svaraði fyr irspurnum fundarmanna um RÖSE-starfið.
    Ryabov skýrði frá úrslitum kosninganna í Rússlandi og svaraði fyrirspurnum. Hann þakkaði RÖSE-þinginu framlag þess til kosningaeftirlitsins. Lögð var fram skýrsla um kosningaeftirlit RÖSE-þingsins í Rússlandi en 35 þingmenn tóku þátt í því auk starfs manna. Framkvæmdastjóri RÖSE-þingsins taldi aðgerðina hafa heppnast vel, en þetta var frumraun RÖSE-þingsins á þessu sviði. Hann taldi mikilvægt að huga að því í framtíð inni hvernig best mætti samhæfa starf hinna mismunandi stofnana á sviði kosningaeft irlits þannig að hægt yrði að auka enn árangur um leið og dregið yrði úr kostnaði. Rætt var um skipulagningu kosningaeftirlits vegna kosninga fram undan í Úkraínu og í Mold óvu.
    Starfsreglur RÖSE-þingsins voru endurskoðaðar á fundinum. Flestar breytingar voru tæknilegs eðlis eða orðalagsbreytingar. Ein grundvallarbreytingartillaga var lögð fram, en þar var lagt til að því afbrigði af samstöðureglunni „consensus minus one“, sem gildir í stjórnarnefndinni, yrði breytt í átt að meirihlutareglu. Sú tillaga um þetta mál, sem flest ir gátu sameinast um, var tillaga Frakka sem gekk út á það að þegar stjórnarnefndin fjall aði um ályktanir nægði aukinn meiri hluti atkvæða eða 2 / 3 greiddra atkvæða en að nú verandi regla væri óbreytt að öðru leyti. Ekki náðist þó sátt um þessa tillögu. Þar sem sýnt var að a.m.k. tveir fulltrúar voru á móti breytingum á núverandi reglu, þ.e. fulltrú ar Tyrklands og Ítalíu, ákvað forseti RÖSE-þingsins að tilgangslaust væri að ganga til at kvæðagreiðslu um þessa tillögu eða aðrar um þetta mál.
    Tvær ályktanir voru lagðar fram á fundinum. Önnur fjallaði um málefni Bosníu en hin um inngöngu Makedóníu í RÖSE. Í báðum tilfellum voru minnst tveir fulltrúar andvíg ir ályktuninni og því var hvoruga hægt að samþykkja.

b. Annar fundur RÖSE-þingsins.
    Dagana 4.–8. júlí sl. var haldinn þriðji árlegur fundur RÖSE-þingsins, að þessu sinni í Vínarborg. Aðild að RÖSE-þinginu eiga 53 aðildarlönd RÖSE. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Tómas Ingi Olrich, formaður, Finnur Ingólfsson og Sigbjörn Gunn arsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Áður en þingið hófst formlega fundaði stjórnarnefnd þingsins. Á fundinum var m.a. lögð fram tillaga um að breyta starfsreglum þingsins í þá veru að varamönnum yrði al mennt leyft að mæta og fylgjast með þingstörfum. Þessi tillaga var felld og mega því varamenn áfram sem hingað til einungis sækja þingið í forföllum aðalmanna.
    Þingstarfið skiptist í þingfundi og nefndarstarf en auk þess funduðu stjórnmálahóp ar þeir er starfa innan þingsins. Við setningarathöfn þingsins fluttu ávörp Ilkka Suominen, fráfarandi forseti RÖSE-þingsins, dr. Heinz Fischer, forseti austurríska þingsins, dr. Franz Vranitzky, kanslari Austurríkis, og Antonio Martino, formaður ráðherraráðs RÖSE, sem jafnframt svaraði fyrirspurnum.
    Íslandsdeildin tók fullan þátt í nefndarstarfi og skiptist þannig í nefndir:
     1.     nefnd um stjórn- og öryggismál: Tómas Ingi Olrich,
     2.     nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál: Finnur Ingólfsson,
     3.     nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Sigbjörn Gunnarsson.
    Nefndirnar fengu til sín gesti til að flytja erindi um afmörkuð mál og svara fyrir spurnum. Í fyrstu nefndina kom Gerbhardt von Moltke, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, í aðra nefndina Jean Claude Paye, framkvæmdastjóri OECD, og í þriðju nefndina Max van der Stohl, umboðsmaður RÖSE í málefnum minnihlutahópa. Skýrslur voru lagðar fram til umræðu í öllum nefndum.
    Á þinginu fór fram kjör forseta RÖSE-þingsins og sex varaforseta af níu. (Varafor setar eru kjörnir til þriggja ára, þrír á hverju ári. Nú þurfti hins vegar að kjósa aukalega nýja varaforseta til að ljúka kjörtímabili þriggja varaforseta sem sitja ekki lengur á þingi.) Frank Swaelen frá Belgíu var sjálfkjörinn í embætti forseta. Frambjóðendur til varafor seta voru fimmtán en eftirfarandi náðu kosningu:

    Francis LeBlanc     Kanada     til þriggja ára
    Iwan P. Rybkin     Rússland     til þriggja ára
    Willy Wimmer     Þýskaland     til þriggja ára
    Kuanysh Sultanov     Kazakhstan     til tveggja ára
    Jan Carnogursky     Slóvakía     til eins árs
    Nilde Iotte          Ítalía     til eins árs

    Ályktun fundarins var unnin þannig að lagðar voru fram skýrslur í hverri nefnd en á grundvelli þeirra höfðu verið samin drög að ályktunum. Voru þessi drög rædd í viðkom andi nefnd, breytingartillögur lagðar fram og ályktun afgreidd. Jafnframt voru lögð fram drög að ályktun um málefni fyrrum Júgóslavíu sem rædd voru og afgreidd með breyt ingartillögum í hverri nefnd fyrir sig eftir efni máls. Þessum ályktunum var síðan steypt saman í eina heildarályktun í fjórum köflum sem lögð var fyrir þingið. Ályktun þings ins er tuttugu og níu síðna skjal. Eru þar vandfundin áhersluatriði og stefnumarkandi sam þykktir. Er hér eflaust ein af ástæðunum fyrir því að þingmannasamtök RÖSE hafa ekki haft þau áhrif sem vonir hafa verið bundnar við. Eins og segir í inngangsorðum skýrsl unnar er brýnt að taka vinnubrögð og skipulag þingsins til endurskoðunar með það fyr ir augum að gera þingstarfið markvissara ef raunverulegs árangurs á að vænta af þess um vettvangi.

c. Kosningaeftirlit.
    RÖSE-þingið ákvað frá upphafi að taka virkan þátt í kosningaeftirliti og leggja áherslu á það starf sem mikilvægan lið í eflingu lýðræðis og virðingar fyrir mannréttindum. Jafn framt hefur RÖSE hvatt þingið til þess að sinna þessu starfi af fullum krafti. Á árinu 1994 tók RÖSE-þingið þátt í kosningaeftirliti vegna kosninga í Moldóvu, Kazakhstan, Úkraínu og Makedóníu. Íslandsdeildin tók ekki þátt í þessu starfi þar sem fjárveiting deildarinnar gerði ekki ráð fyrir slíkri þátttöku.

d. Annað.
    RÖSE-þingið hefur átt fulltrúa á fundum embættismannanefndar RÖSE. Það hefur tek ið þátt í fundum efnahagsmálanefndarinnar og í námsstefnum lýðræðis- og mannrétt indaskrifstofunnar. Þingið sendi sendinefnd til fyrrum Júgóslavíu á árinu, tók þátt í ferð um formanns ráðherraráðs RÖSE til ýmissa svæða og sendi fulltrúa til að kynna sér starf sendinefndar RÖSE í Moldóvu.

Alþingi, 4. febr. 1995.



    Tómas Ingi Olrich,     Finnur Ingólfsson,     Sigbjörn Gunnarsson.
    form.     varaform.     

    Guðjón Guðmundsson.     Ólafur Ragnar Grímsson.

Fylgiskjal I.



SKIPAN RÖSE-ÞINGSINS



         Fjöldi þingsæta     Fjöldi þingsæta
         hvers aðildarríkis     eftir þinghópum

A.     Bandaríkin     17     17
B.     Rússland     15     15
C.     Þýskaland, Frakkland, Ítalía og
    Bretland     13     52
D.     Kanada og Spánn     10     20
E.     Úkranía, Belgía, Holland,
    Pólland, Svíþjóð og Tyrkland     8     48
F.     Rúmenía     7     7
G.     Austurríki, Danmörk, Finnland,
    Grikkland, Ungverjaland, Írland,
    Noregur, Portúgal, Tékkneska
    lýðveldið, Sviss, Hvíta-Rússland,
    Úzbekistan, Kazakhstan     6     78
H.     Búlgaría og Lúxemborg     5     10
I.     Júgóslavía og Slóvakía     4     8
J.     Kípur, Ísland, Malta, Eistland,
    Lettland, Litáen, Albanía,
    Slóvenía, Króatía, Moldóva,
    Tajikistan, Túrkmenistan,
    Georgía, Kyrgízía, Armenía,
    Azerbaijan, Bosnía-Herzegovína     3     51
K.     Liechtenstein, Mónakó,
    San Marínó     2     6

              Samtals 312
Fylgiskjal II.

Starfsreglur


fyrir Íslandsdeild RÖSE-þingsins.



1. gr.

    Íslandsdeild RÖSE-þingsins (The Icelandic delegation to the CSCE Parliamentary Ass embly) er skipuð fimm alþingismönnum. Íslandsdeildin sendir þrjá fulltrúa á RÖSE-þingið hvert ár, sbr. ákvæði Madrid-yfirlýsingarinnar frá apríl 1991 og viðauka við starfs reglur þingsins frá janúar 1993 um fjölda fulltrúa frá einstökum aðildarþingum.

2. gr.

    Þingflokkar skulu tilnefna í Íslandsdeildina eftir hverjar alþingiskosningar og gildir til nefningin út kjörtímabilið nema þingflokkar ákveði annað.


3. gr.

    Þingflokkur skal tilnefna í deildina eftir hlutfallsreglu jafnmarga þingmenn og hann á rétt til samkvæmt stærð flokksins nema samkomulag sé um aðra skiptingu fulltrúa. Þingflokki, sem ekki hefur styrkleika til að hljóta fulltrúa í Íslandsdeildina, skal heim ilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum deildarinnar. Áheyrnarfulltrúi skal hafa rétt til þátttöku í starfi RÖSE-þingsins samkvæmt almennum reglum 7. gr.
    


4. gr.

    Fulltrúi stærsta þingflokksins skal kalla Íslandsdeildina saman til fyrsta fundar og skal þá kjósa formann og varaformann deildarinnar fyrir kjörtímabilið.
    Formaður situr í stjórnarnefnd (Standing Committee) RÖSE-þingsins, sbr. 32. gr. starfsreglna þess.

5. gr.

    Íslandsdeildin hefur ritara sem er nefndinni til aðstoðar, sbr. 3. mgr. 35. gr. þing skapa Alþingis.

6. gr.

    Íslandsdeildin skal árlega leggja fyrir forsætisnefnd Alþingis, innan þess frests sem nefndin ákveður, tillögur um fjárveitingar til starfsemi deildarinnar. Tillagan skal við það miðuð að fjárveiting nægi til að greiða árgjald til aðalskrifstofu þingsins, ferðakostnað fulltrúa og annan kostnað sem af starfsemi deildarinnar leiðir. Reikningar skulu endur skoðaðir með sama hætti og önnur útgjöld Alþingis.

7. gr.

    Í upphafi hvers kjörtímabils skipuleggur Íslandsdeildin þátttöku deildarinnar í starfi RÖSE-þingsins fyrir kjörtímabilið í heild, sbr. 2. mgr.
    Formaður deildarinnar skal að jafnaði sækja öll þau þing sem Íslandsdeildin tekur þátt í. Við val á öðrum þátttakendum á þingin skal fylgja hlutfallsreglu eftir stærð þingflokka ef ekki er samkomulag um annað.

8. gr.

    Starfsreglur þessar taka þegar gildi.



(Samþykktar á fundi forsætisnefndar 28. apríl 1993.)