Ummæli félagsmálaráðherra um EES-samninginn

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 13:33:55 (304)


[13:33]
     Guðmundur Árni Stefánsson :
    Herra forseti. Sá fáheyrði atburður átti sér stað í umræðum á hinu háa Alþingi í gær að einn hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar lét svo ummælt að hann teldi alþjóðlegan samning, EES-samninginn, sem Alþingi hefur staðfest, skýlaust brot á stjórnarskránni. Hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarskráin er jafnbrotin og hún var fyrir tveimur árum síðan og við verðum að búa við það.``
    Þetta lét hæstv. félmrh. ummælt á sama tíma og hann mælti fyrir frv. sem til er orðið vegna skuldbindinga Íslendinga af þessum samningi. Með öðrum orðum mælir hæstv. ráðherra fyrir því að Alþingi í heild brjóti enn frekar á stjórnarskránni.
    Nú er þetta viðhorf hæstv. ráðherra um EES-samninginn og stjórnarskrána að sönnu mjög umdeilanlegt svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það breytir þó ekki hinu að þessi hæstv. ráðherra, sem jafnframt er kjörinn til setu á hinu háa Alþingi, hefur undirritað eið eða drengskaparheit að þeirri sömu stjórnarskrá sem hann nú samkvæmt eigin sannfæringu og samvisku er að brjóta gegn. Þessu til viðbótar er ljóst að hæstv. ráðherra brýtur skýlaust gegn lögum um ráðherraábyrgð með þessari afstöðu sinni en þar er kveðið á um að ráðherra megi krefja ábyrgðar fari hann af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi í bága við stjórnarskrána. Ásetningur hæstv. ráðherra í þessum efnum samkvæmt hans eigin orðum er dagljós. Í þessum lögum um stjórnskipun Íslands segir enn fremur í 8. gr. laga um ráðherraábyrgð að það varði ábyrgð ráðherra eftir lögum þessum og vitna ég nú beint til c-liðar 8. gr., með leyfi forseta ,,ef hann annars framkvæmir sjálfur, fyrirskipar framkvæmd á eða lætur viðgangast að framkvæmt sé nokkuð það er fer í bága við stjórnarskrá lýðveldisins eða lætur farast fyrir að framkvæma nokkuð það sem þar er fyrirskipað eða veldur því að framkvæmd þess farist fyrir.``
    Því liggur í hlutarins eðli að hæstv. forsrh. hljóti að láta þetta mál til sín taka. Þetta varðar meint vanhæfi eins ráðherra í ríkisstjórn hans og ég vænti þess að hér á þessum fundi svari hæstv. forsrh. fyrir um það hvað hann hyggist gera í málinu.
    Á sama hátt beini ég því til herra forseta hvort í huga hans leiki á því vafi hvort hv. þm. Páll Pétursson hafi með þessu viðhorfi sínu brotið og gert ómerkt drengskaparheit sitt er hann undirritaði er hann tók sæti á hinu háa Alþingi.