Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:00:44 (553)


[22:00]
     Einar Oddur Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það vill þannig til að í umræðum milli mín og hv. 15. þm. Reykv. um það hvernig hefði staðið á því að hann hefði verið einn af þeim sem samþykktu þessi hörmulegu lög um banndagakerfið þá tjáði hann mér á sínum tíma að það hefði verið af tillitssemi við sjútvrh. Ég er því ekki sá eini sem er með svona stórt hjarta. Hann stóð að þessu en sagði mér líka að hann hefði barist hetjubaráttu svo lengi sem stætt var. Veit ég að þetta er allt satt og rétt. Hitt þykir mér verra ef hann er að hvika frá því sem ég skoraði á hann að við skyldum koma við 3. umr. . . .  ( ÖS: Ég hvika ekkert frá því, ég lýsti því yfir að ég mundi taka . . .  ) Nú jæja, þá lítur þetta vel út fyrir krókaleyfismenn því við munum sjá þá á þinginu hvort við eigum einhverja stuðningsmenn eða hvort meiri hlutinn mun fordæma okkur. Það verður þá að reyna á það.
    Hitt er annað mál að ég er alveg tilbúinn til þess að styðja það að taka þetta ákvæði út sem hamlar því að sjútvrh. geti á hverjum tíma gripið til viðkomandi aðgerða ef ráðgjöfin er slík. Það held ég að hafi verið mistök en enginn hefur rætt það þessu sinni og einhvern tímann getum við komið að því. Ég er alveg sammála honum.
    Ég hef verið að berjast fyrir því að fá annað róðrarkerfi fyrir smábátamenn en samþykkt var hér fyrir ári. Ég sé núna mikla möguleika á að það verði að veruleika innan tíðar.