Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:24:16 (674)

[15:24]
     Hjálmar Árnason :
    Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu og eftir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað kann kannski engan að undra. Hér er til atkvæðagreiðslu yfir til 3. umr. frv. til laga um fiskveiðistjórn. Ég hef áður lýst því yfir að um ákveðna þætti frv. er ég sammála, en ég hef líka lýst efasemdum um tiltekna þætti, einkum 2. gr. Það er ljóst að í gildi eru lög um fiskveiðistjórn og verði ekkert að gert þá munu taka gildi slíkur fjöldi banndaga að krókabátaútgerð mun ugglaust leggjast af. Frv. felur í sér stefnu að róðrardögum en sem að því er virðist fyrsta skref er leið í gegnum aflahámark og banndaga. Það eru þættir sem ég hef verulegar efasemdir um og hef áður lýst á þessum vettvangi. En til þess að stoppa ekki málið og vísa því til 3. umr., í þeirri von að ná megi fram breytingu á málinu þar sem upp verði tekið róðrardagakerfi, þá finnst mér ástæða til þess að samþykkja, en ég lýsi því jafnframt yfir að náist sú breyting ekki fram milli 2. og 3. umr. þá lýsi ég mig óbundinn af því að greiða frv. endanlegt atkvæði. Ég segi já.