Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:30:35 (3776)

1996-03-11 17:30:35# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:30]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra staðfesti nákvæmlega það sem ég var að segja hér áðan. Hann flutti frv. á þingi fyrir jólin sem fól í sér verulegar skerðingar á þeim úrræðum sem voru til staðar um skuldbreytingu. Ráðherrann sá vissulega að sér eftir að félmn. hafði bent félmrn. og hæstv. félmrh. á þau mistök sem hann var að gera. Þingið staðfesti því og gerði að lögum þau úrræði sem verið höfðu til staðar frá 1993. Enn einu sinni er ráðherrann að skapa fólki væntingar um að hér sé um einhver ný úrræði til skuldbreytinga að ræða. Ég fæ ekki betur séð en að reglugerð sem á að gefa út á grundvelli þeirra laga sem voru sett fyrir jólin feli í sér nákvæmlega sömu úrræði og hafa verið til staðar frá 1993. Sem betur fer kom þingið í veg fyrir mistök hæstv. ráðherra, en hann hafði haft nefnd starfandi í marga mánuði til að undirbúa mál sitt varðandi skuldbreytingu heimilanna sem Framsfl. hafði lofað. Niðurstaðan varð sú að ráðherrann boðaði við fyrstu umræðu verulegar þrengingar á úrræðum til skuldbreytinga sem verið höfðu til staðar í tvö ár.