Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 12:18:56 (4375)

1996-03-22 12:18:56# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GE
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[12:18]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég mun reyna að laga ræðu mína að þeim tímamörkum sem menn ætluðu að vinna eftir og ég mun virða þau svo framarlega sem ég get.

Það sem er kannski málið er að samningar voru í góðum gangi á milli aðila þegar frv. var tekið og sett inn. Samningarnir sem voru í gangi snerust um samskiptareglur en ekki löggjöf. VSÍ og VMS kröfðust þess að það yrði gefið að niðurstaðan yrði að lögum. En ASÍ var ekki sammála og neitaði því í rauninni fyrir fram að niðurstaðan yrði að lögum. Það er kannski rétt að hafa þetta í huga. Af hálfu ASÍ var talið að innihaldið í samningi skipti mestu máli en að auðvitað gætu samtökin ekki komið í veg fyrir að löggjafinn tæki niðurstöðu sem ASÍ væri í sátt við og gæfi henni víðtækara gildi. Þess vegna langar mig, herra forseti, að ræða málið frá þeim sjónarhóli sem mér finnst vera formbrot. Í umfjöllun um þetta mál og aðkomu þess að Alþingi var rík ástæða til að velta fyrir sér siðferðilegum háttum við það atferli sem notað er við að keyra þetta mál inn í vinnuferli eða þinglega meðferð Alþingis. Það sem ástæða er til að staldra við áður en fjallað er beinlínis um frv. og einstakar greinar þess eru vinnubrögð. Í fyrsta lagi, herra forseti, er það að notaður var skemmsti mögulegur tími sem unnt var til að koma þessu máli fyrir sem dagskráratriði. Í öðru lagi er fyrir fram ákveðið að með góðu eða illu skuli málið til nefndar sem verður að hefja vinnu, þótt samkvæmt starfsáætlun sé reiknað með að tekið verði þinghlé frá og með deginum í dag að telja til 10. apríl. Í þriðja lagi er allt gert sem unnt er til að skapa stríðsástand milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga bæði hvað varðar málatilbúnað og vinnuferli. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvaða hugtak á að nota um svona háttalag. Það er ekki hægt að flokka þetta háttalag undir daður. Það er varla hægt að flokka þetta háttalag undir áleitni. Það er ekki einu sinni hægt að flokka þetta háttalag undir áreitni. Hér er á ferðinni valdbeiting sem undir öðrum kringumstæðum væri kölluð öðru nafni sem ég nefni ekki hér. En það er það eina sem kviknar sem hugtaksheiti í tengslum við þessi vinnubrögð. Ætli það sé ekki nærtækt nú fyrir þessa virðulegu stofnun, hið háa Alþingi, að velta fyrir sér því sem efst hefur verið á baugi í íslensku þjóðfélagi undanfarnar vikur, þ.e. siðferði. Já, herra forseti, ég er að tala um siðferði í íslenskum stjórnmálum, þótt það sé e.t.v. að bera í bakkafullan lækinn og fólki finnist það kannski hlægilegt að gera tilraun til þess að ræða um siðferði eða siðgæði í stjórnmálum okkar. Það má líka velta því fyrir sér hvað stjórnmál eru. Eru þau bara vinna eða eitthvað sem fólk lætur kjósa sig til til að hafa eitthvert starf? Ég lít svo á að hér vinnum við á starfssviði þar sem er verulegur áherslumunur á milli manna hvað varðar vinnulag og jafnvel áhugaatriði. Stjórnmál snúast um völd og baráttu. Um að halda völdum eða ná völdum. Þetta er auðvitað ekkert annað en sannleikur sem flestir hafa gert sér grein fyrir og í því ljósi má sjá að þetta frv. er keyrt fram með afli meiri hlutans þar sem hæstv. félmrh. er tæki stjórnarinnar í flóknu tafli valdaátaka milli aðila vinnumarkaðarins.

Af þessu tilefni má ég til með að vitna, með leyfi forseta, í Pælingar prófessors Páls Skúlasonar sem orðaður hefur verið við forsetaframboð. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Satt að segja held ég að engin störf reyni eins á heilsteypta skapgerð manna og stjórnmálin vegna þess um hvað menn telja þau snúast, að ná völdum, klekkja á andstæðingi og alls þess sem valdabaráttunni fylgir. Dylja staðreyndir (ekki síst fyrir fréttamönnum), segja hálfan sannleikann, kunna að sitja á sér undir dylgjum eða móðgandi ummælum. Ég þarf ekki að lýsa fyrir neinum sem fylgist örlítið með íslenskri pólitík hvað um er að ræða. Samkvæmt ríkjandi viðhorfi lýtur pólitíkin ekki neins konar siðgæðislögum.``

Ég tek það fram, herra forseti, að þetta er tilvitnun í rit prófessors Páls Skúlasonar.

,,Almenningur gerir ekki ráð fyrir því að menn sem standa í harðri baráttu um völd og eru settir í þá aðstöðu að þurfa hvenær sem er að verja sig, flokk sinn eða skoðanir fyrir alls kyns ásökunum eða árásum bæði pólitískra andstæðinga og fréttamanna séu fyrst og síðast að hugsa um siðferðisgildi á borð við sannleika, réttlæti, kærleika. Þegar best lætur gerir almenningur ráð fyrir að þeir séu að hugsa um þjóðarhag og almannaheill sem þeir eru kjörnir til að sinna og ætla má að þeir séu sannfærðir um að hvergi sé betur borgið en í þeirra höndum eða flokksins sem þeir tilheyra.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Ég er ekki sammála því sem hér stendur en það er ástæða til að velta því fyrir sér hvort það er svona sem fólk lítur á stjórnmálamenn.

Ég sagði að hæstv. félmrh. væri tæki stjórnarinnar í flóknu tafli valdaátaka. Um leið finnst mér hann gerast riddarinn brynjulausi og taka á sig svipuskelli og spjótlög sem hann gat sloppið við að mínu mati ef hann hefi ekki lagt slíkt ofurkapp á að efna til stríðsátaka í kringum þetta einstæða mál. Það getur ekki verið að hæstv. ráðerra ætli sér að fá stimpil upp á þekkingu eða hugvitssemi út á þetta mál. Hann getur fengið stimpil fyrir einhvers konar hörku, jafnvel að fara offari og fær það sjálfsagt fyrir ónauðsynlega framgöngu í aðgerðum sem lúta að þessu máli. Þær mun ég fara nánar yfir síðar í umfjöllun minni. Ég segi bara að ef siðferðið á bak við þessi vinnubrögð á að vera til að klekkja á einhverjum, virðist það takast bærilega. Ef siðferðið á bak við þessar aðgerðir er tengt einhverjum blekkingum, má vel vera að það hafi tekist.

Í umræðum sl. miðvikudag hélt hæstv. félmrh. því fastlega fram að hér væri alls ekki verið að veitast að verkalýðshreyfingunni á neinn hátt heldur væri þvert á móti verið að gera verkalýðshreyfingunni og aðilum vinnumarkaðarins hærra undir höfði. Það má vel vera að þetta sé satt. En mér virðist á þeim viðbrögðum sem eru í þjóðfélaginu að það standist ekki.

Hvers vegna, herra forseti, gerast þessir hlutir sem við stöndum frammi fyrir og erum að gagnrýna? Hvers vegna fordæmir miðstjórn ASÍ einhliða framlagningu frumvarpsins? Það má vel vera að það þyrfti að spyrja fleiri spurninga og er kannski rétt að gera það nú. Hvers vegna var rokið til þegar góð samstaða virtist vera um málatilbúnað og málinu kastað inn á þing í þeim búningi sem það er? Hvers vegna þurfti að slíta viðræðum með þessum hætti? Hvers vegna er verið að rifta áralangri hefð um samskipti aðila að vinnulöggjöf á þessari ögurstundu? Ég met það svo af þeim viðtölum sem ég hef átt við aðila sem að þessu hafa staðið að það hafi verið sátt í sjónmáli. Hvers vegna er svo einhliða tekið undir með atvinnurekendum eins og mér finnst vera gert í þessu frv.? Hvers vegna er verið að kasta stríðshanska að verkalýðshreyfingunni? Ég læt þessar spurningar nægja og vona að það gefist einhvern tímann, þótt ekki verði fyrr en í lok umræðu, tími til að svara. Ég ætlast ekki til að þessum spurningum verði svarað á þessari stundu en í lok umræðunnar tel ég ástæðu til að biðja um svör við þessum spurningum, herra forseti.

Um sjálft frv. er mjög margt að segja og hægt að fara í hverja grein og þarf í rauninni að fara í hverja grein fyrir sig til að gera samanburð á því sem var og því sem er áætlað að verði. Ef stiklað er á stóru má segja að það sem kannski er alvarlegast og varasamast sé sá fjöldi afbrigða í atkvæðagreiðslum sem þetta frv. felur í sér. Ég held að það hljóti að þurfa að taka vel á því máli í þeirri umfjöllun sem verður væntanlega í nefnd því að ég veit að málið kemst í gegn og það fer einhvern tíma í nefnd. Ég tel að þetta verði að laga.

[12:30]

Ég get tekið undir með hv. 11. þm. Reykn., Ágústi Einarssyni, sem ræddi áðan um vinnustaðarsamninga. Ég tel að það sé nokkuð sem við eigum að stefna í átt að. Sem fyrrv. trúnaðarmaður fyrir 25 árum tók ég þátt í vinnustaðarsamningum. Þá stóðu að þeim samningum átta stéttarfélög. Það reyndi gífurlega á innviði stéttarfélaganna en reynslan af þeim samningum, sem voru nánar tiltekið gerðir hjá Sementsverksmiðju ríkisins, er sú að betri vinnufriður hefur haldist til reksturs fyrirtækinu og staðreyndin er sú að laun þar eru betri en almennt gengur og gerist. Þess vegna hef ég alltaf verið svolítið hrifinn af hugmyndinni um vinnustaðarsamninga en ég set fyrirvara við það að gera vinnustaðarstéttarfélag því að það getur við ákveðnar aðstæður orðið til þess að taka máttinn úr stéttarfélögum í minni sveitarfélögum. Það er það sem ég óttast.

Herra forseti. Ég hef fyrst og fremst talað gegn vinnuaðferðinni sem er beitt og ég gagnrýni að ríkisstjórninni skuli vera svo brátt í brók að þurfa að þeyta frv. svona í þinglega meðferð. Ég held því fram að við höfum nægan tíma og við eigum að nýta hann betur. Ég met það svo að mörg af þeim atriðum sem er þó sátt um í frv. séu til bóta þó ég tíni það ekki nákvæmlega út. En til þess að hafa meiri tíma væri rétt að fresta málinu um stund, taka það út af dagskrá og fara með það í meiri umfjöllun við aðila vinnumarkaðarins og koma síðan með það inn því að ég reikna með að það sé einlægur vilji til að koma þessu máli í lagafrv.

Með framlagningu frv. hefur það gerst sem margir þóttust sjá fyrir þegar frumvarpsdrögin komu fram í janúar að ríkisstjórnin hefur ákveðið að láta gera breytingar á vinnulöggjöfinni sjálfri, þ.e. lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938. Ég get tekið undir að það er ástæða til að skoða ýmsa hluti en ég held að það hefði verið nauðsynlegt að það gerðist í samkomulagi og sátt.

Þetta gerist með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að gert er ráð fyrir að lögin um sáttastörf í vinnudeilum hætti að vera til sem sérstök löggjöf og verði aftur eins og var fyrr á öldinni og að hverfa aftur til gamla tímans, til hluta af lögum nr. 80/1938. Í öðru lagi með því að í þessu frv. eru margar tillögur um breytingar á því sem er að finna í lögum nr. 80/1938. Frá tæknilegu sjónarmiði hafa þessar tillögur tekið gagngerum breytingum frá því sem var í drögum í janúar en það eru tæknilegir hnökrar sem hefði þurft að leiðrétta. Sem betur fer eru þeir þó minni háttar hjá því sem var í upphafi. Ef maður skoðar frv. efnislega frá sjónarhóli þess sem vill koma fram breytingum þá eru nokkur alvarleg atriði sem vinna gegn yfirlýstum tilgangi frv. Þá má vísa sérstaklega til ákvæðanna varðandi framkvæmd verkfalla sem mun fjölga og jafnvel lengjast ef frv. verður að lögum. Þá má líka nefna framsetningu heimildar um að semja sig undan sameiginlegri miðlunartillögu. Þetta er flókið mál og snúið og ég held að þarna þurfi að taka betur á og skoða.

Um einstök atriði er kannski rétt að nefna að stærstu tíðindin sem birtast okkur í þessu frv. eru að stjórnvöld eru að gefa yfirlýsingu um að því hefðbundna þríhliða samstarfi um þróun vinnulöggjafarinnar sem verið hefur í gangi sé lokið. Þetta eru alvarleg tíðindi og ég er ekki viss um að menn hafi gert sér grein fyrir þessu. Eins og ég nefndi áðan tel ég varasamast að gert er ráð fyrir í þessu frv. sex mismunandi tegundum af atkvæðagreiðslum sem hlýtur að teljast mjög merkilegt. Mér virðist að það muni flækja meðferð mála sé þetta gert viljandi.

Herra forseti. Ég er að hugsa um að ljúka mínu máli á þennan hátt. Ég harma það að hæstv. félmrh., sem ég hef mikið álit á, skuli hafa lent í því að taka svona á málinu, að hrifsa það úr höndum þessarar nefndar sem ég tel að hefði getað klárað málið fyrir páska. Það má ekki gerast að aðilum vinnumarkaðarins sé mismunað. Það gerir það að verkum að það mun aldrei ríkja sátt um frv. ef mat mitt er rétt að það sé um mismunun að ræða.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka máli mínu með þessum orðum. Ég mun að sjálfsögðu nýta mér rétt til að fjalla um frv. en ég tek fullt tillit til starfsáætlunar þingsins um að það átti að fresta fundi kl. hálfeitt.