Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Mánudaginn 03. júní 1996, kl. 16:46:44 (7026)

1996-06-03 16:46:44# 120. lþ. 158.9 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 158. fundur

[16:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra fullyrðir að þetta mál varðandi dótturfyrirtækin og samrunafyrirtækin hafi verið rætt rækilega í samgn. Hvernig stendur þá á því að minni hluti samgn. segir að engin fullnægjandi svör hafi fengist við þessum spurningum? Það er með ólíkindum ef þetta frv. á að fara í gegn án þess að þetta atriði liggi ljóst fyrir.

Hæstv. ráðherra er mjög laginn við að koma sér hjá því að svara spurningum sem til hans er beint. Ég var að spyrja um það hvort ráðherrann væri tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þessi þriggja manna undirbúningsnefnd, að starfsfólkið fengi einn fulltrúa í þeirri nefnd sem fjalla á um réttarstöðu þess. Hér stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin skal hafa heimild til þess að gera hvers kyns löggerninga sem eru nauðsynlegir til undirbúnings stofnun félagsins og fyrirhugaðri starfrækslu. Við stofnun skal félagið bundið við umrædda löggerninga.``

Er það virkilega svo að ráðherrann ætlar ekki að hleypa starfsfólkinu að þessari undirbúningsnefnd sem á að fjalla um réttarstöðu þess? Þetta getur ekki verið skýrara, fyrirspurnin, herra forseti. Ég spyr hvort ráðherrann sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að einn af þessum þremur fulltrúum verði fulltrúi starfsmannanna.