Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 109 . mál.


115. Tillaga til þingsályktunar



um rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir, Ögmundur Jónasson, Bryndís Hlöðversdóttir,


Hjörleifur Guttormsson, Kristinn H. Gunnarsson, Ólafur Ragnar Grímsson,


Ragnar Arnalds, Steingrímur J. Sigfússon, Svavar Gestsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera rækilega og víðtæka rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna. Rannsóknin taki bæði til opinberra starfsmanna og launafólks á almennum vinnumarkaði. Hugað verði að samanburði á milli einstakra hópa og samspili samningsbundinna launataxta og yfirborgana.

Greinargerð.


    Þörfin á því að gera rækilega úttekt á launa- og starfskjörum landsmanna er brýn. Hér er flutt tillaga um það efni.
     Í kjölfarið á úrskurði kjaradóms um launakjör ráðherra, alþingismanna og embættismanna sem heyra undir kjaradóm hefur orðið vakning í þjóðfélaginu. Fullyrðingar hafa komið fram um að launa- og kjaramisrétti í landinu fari almennt vaxandi. Fjölmiðlar hafa birt samanburð á launakjörum starfshópa og er undirtónninn sá að launamisréttið beri að leiðrétta. Mikilvægt er að fá sem nákvæmastar upplýsingar um þetta efni því að óyggjandi upplýsingar eru forsenda þess að hægt sé að taka á vandanum.
    Niðurstöður launakönnunar sem unnin var fyrir Norræna jafnlaunaverkefnið og Jafnréttisráð sem birtar voru fyrr á þessu ári eiga að auðvelda það verkefni að jafna launamun kynjanna ef vilji er á annað borð fyrir hendi. Næsta skref hlýtur að vera að fá upplýsingar um þóknunargreiðslur og önnur ósamningsbundin kjör hjá ríkisstofnunum, en samkvæmt niðurstöðum fyrrnefndrar launakönnunar má að miklu leyti rekja kynjabundið kjaramisrétti til ósamningsbundinna kjara.
    Ljóst er af þeirri umræðu sem nú fer fram í þjóðfélaginu að gögn eru iðulega ófullnægjandi og umræðan eftir því yfirborðskennd. Mjög mikilvægt er að þegar í stað verði hafinn undirbúningur að ítarlegri könnun á kjaramálum landsmanna. Það þarf að liggja ljóst fyrir hvernig launa- og starfskjörum í landinu er háttað til þess að unnt reynist að ná árangri í jöfnun kjara með ákvörðunum á vegum hins opinbera og í samningum á vinnumarkaði.
    Heppilegt væri að skipuð yrði nefnd til að stýra þeirri rannsókn sem tillagan gerir ráð fyrir. Vel mætti hugsa sér að í nefndinni væru fulltrúar eftirtaldra aðila: fjármálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, ASÍ, BSRB, BHMR, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra bankamanna, VSÍ og Vinnumálasambands Íslands.