Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 67 . mál.


152. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um stuðning Landsvirkjunar við fiskirækt.

    Hvaða framkvæmdir hefur Landsvirkjun ráðist í, eða stutt fjárhagslega, til að efla fiskigengd á vatnasvæðum sem tengjast virkjunum á hennar vegum annars staðar en í Soginu?

Blönduvirkjun.
    Yfirgripsmiklar rannsóknir hafa farið fram á lífríki vatnakerfis Blöndu og Svartár allt frá árinu 1982 í því skyni að fylgjast með breytingum sem kynnu að verða á lífríki ánna af völdum Blönduvirkjunar. Eftir að virkjunin var tekin í rekstur árið 1991 urðu töluverðar rennslisbreytingar í Blöndu og í framhaldi af því voru gerðar úrbætur á laxastiga við Ennisflúðir. Jafnframt hefur seiðum verið sleppt í árnar til að forðast óeðlileg afföll á gönguseiðum og göngufiski vegna rasks og annarra áhrifa virkjunarframkvæmdanna. Alls hefur verið varið 107 millj. kr. til veiðimála í Blöndu og Svartá, en þar af er langstærstur hluti eða 101 millj. kr. til rannsókna á lífríki áa og vatna í vatnakerfinu.

Laxárvirkjun.
    Í samningi stjórnar Laxárvirkjunar, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og forsætisráðherra, f.h. ríkisstjórnar Íslands, frá árinu 1973 var ákvæði um að Laxárvirkjun skyldi greiða árlega 0,2% af tekjum sínum af orkuverum við ána til eflingar fiskirækt í Laxá. Greiðslur samkvæmt þessari grein skyldi endurskoða að 10 árum liðnum í samræmi við nánari ákvæði í samningnum. Gjald þetta hefur verið greitt að fullu til ársloka 1993 og er samkomulag milli aðila um að Landsvirkjun beri ekki skylda til að greiða slíkt gjald eftir þann tíma.

Þjórsársvæðið.
    Landsvirkjun og fjórir hreppar austan Þjórsár, þ.e. Ása-, Djúpár-, Holtamanna- og Landmannahreppur, gerðu árið 1981 með sér samning um umhverfismál og bætur fyrir skerðingu hagsmuna á afréttum hreppanna, þ.e. Holtamannaafrétti og Landmannaafrétti. Í þessum samningi voru m.a. ákvæði um byggingu klak- og seiðaeldisstöðvar og var hún reist í landi Fellsmúla árið 1987. Var stærð fiskeldisstöðvarinnar miðuð við þarfir seiðasleppinga í ár og vötn í Rangárvallasýslu auk sölu nokkurs magns seiða til útlanda sem þá var talið hagkvæmt. Í samningnum skuldbatt Landsvirkjun sig jafnframt til að stuðla að laxgengd um fossinn Búða í Þjórsá með gerð laxastiga eða sprengingum ef þess yrði óskað af þar til bærum aðilum, sbr. lög um lax- og silungsveiði. Að undangengnum athugunum á aðstæðum var ráðist í gerð stiga í Árnesi við Búðafoss og lauk smíði hans árið 1992. Stiginn hefur enn ekki verið formlega afhentur Veiðifélagi Þjórsár. Hefur Landsvirkjun því síðustu ár haft eftirlit með göngum laxa upp stigann og hefur fyrirtækið jafnframt keypt af fiskeldisstöðinni í Fellsmúla seiði til sleppinga í Þjórsá ofan Búðafoss. Landsvirkjun hefur auk þess veitt nokkurn styrk til Veiðifélags Landmannaafréttar til rannsókna á fiskstofnum í Veiðivötnum, einkum vegna þess að fiskur þaðan var notaður í klak í fiskeldisstöðinni við Fellsmúla.

    Hvað kostuðu þær á verðlagi ársins 1994?
    Heildarkostnaður af framkvæmdum og stuðningi Landsvirkjunar til eflingar fiskigengd á áðurnefndum vatnasvæðum er eftirfarandi (í millj. kr.):

Blöndusvæðið
   6

Laxársvæðið
   7

Þjórsársvæðið
158

Samtals
171