Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 415 . mál.


739. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



1. gr.


    2. gr. laganna orðast svo:
    Stéttarfélag skal opið öllum sem uppfylla almenn skilyrði lögmætra samþykkta þess.
    Félagssvæði stéttarfélags má aldrei vera minna en eitt sveitarfélag.
    Starfsmönnum fyrirtækis, þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 250 starfsmenn, er þó heimilt að stofna þar stéttarfélag, enda séu að lágmarki ¾ þeirra félagsmenn. Fer það þá eitt stéttarfélaga með samningsumboð fyrir starfsmenn.

2. gr.

    Við 5. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Samninganefnd eða fyrirsvarsmaður, sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, hefur umboð til þess að setja fram tillögur að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita kjarasamning fyrir hönd hlutaðeigandi félags eða samtaka. Samninganefnd er heimilt að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar að hluta eða að öllu leyti. Þá er samninganefnd heimilt að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.
    Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungi atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun, sé ekki á annan veg samið. Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð framangreindu. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í kjarasamningi að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu. Slíkur kjarasamningur telst þá því aðeins felldur að meiri hluti þátttakenda og minnst þriðjungur atkvæðisbærra greiði atkvæði gegn honum.
    Skylt er samningsaðilum að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða kjarasamninga.

3. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ófélagsbundnir atvinnurekendur og launamenn utan stéttarfélaga bera einir ábyrgð á samningsrofum af sinni hálfu. Nú er ekki sýnt fram á aðild samningsaðila að aðgerðum sem jafna má til vinnustöðvunar og ber félagsmaður þá sjálfur ábyrgð á þátttöku sinni í þeim.

4. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Þegar félag atvinnurekenda eða stéttarfélag ætlar að hefja vinnustöðvun er hún því aðeins heimil að ákvörðun um hana hafi verið tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða. Heimilt er að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku.
    Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Þarf þá helmingur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun.
    Í tillögu um vinnustöðvun skal koma skýrt fram til hverra henni er ætlað að taka og hvenær vinnustöðvun er ætlað að koma til framkvæmda. Þá er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.
    Samninganefnd eða til þess bærum fyrirsvarsmönnum samningsaðila er jafnan heimilt að aflýsa boðaðri vinnustöðvun. Sömu aðilum er heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun, einu sinni eða oftar, um allt að 14 sólarhringa samtals án samþykkis gagnaðila, enda sé það gert með minnst sólarhrings fyrirvara.

5. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 19. gr. laganna og orðast svo:
    Vinnustöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um fjöldauppsagnir og aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.

6. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Um sáttastörf í vinnudeilum, með 18 nýjum greinum, svohljóðandi:


    a. (20. gr.)
    Félagsmálaráðherra skipar ríkissáttasemjara til fjögurra ára í senn. Hann skal vera íslenskur ríkisborgari, fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð. Þess skal gætt að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda.
    Félagsmálaráðherra skipar einnig vararíkissáttasemjara til fjögurra ára í senn og skal hann fullnægja sömu skilyrðum og ríkissáttasemjari.
    Vararíkissáttasemjari tekur við störfum ríkissáttasemjara þegar hann er forfallaður og er honum til aðstoðar þegar þörf krefur.
    Ríkissáttasemjari getur skipað aðstoðarsáttasemjara til að aðstoða sig við lausn vinnudeilu eða vinna sjálfstætt að lausn einstakrar vinnudeilu. Það er borgaraleg skylda að taka að sér aðstoðarsáttasemjarastarf.
    Ef sýnt þykir að vinnudeila hafi mjög alvarlegar afleiðingar getur ríkisstjórnin skipað sérstaka sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar. Skal samráð haft við ríkissáttasemjara og deiluaðila áður en sáttanefnd er skipuð.
    Vararíkissáttasemjari, aðstoðarsáttasemjari og sáttanefndarmenn hafa réttindi og bera skyldur ríkissáttasemjara þegar þeir eru að störfum.
    Laun ríkissáttasemjara skulu ákveðin á sama hátt og laun ráðherra og hæstaréttardómara. Félagsmálaráðherra ákveður laun vararíkissáttasemjara og aðstoðarsáttasemjara og þóknun sáttanefndarmanna.


    b. (21. gr.)
    Skrifstofa ríkissáttasemjara er í Reykjavík og ræður hann til hennar starfsfólk eftir þörfum og í samræmi við heimildir.
    
    c. (22. gr.)
    Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar.
    Hann skal fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði um allt land. Hann skal fylgjast með þróun kjaramála og atriðum sem valdið gætu ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga.
    Ríkissáttasemjari skal halda skrá yfir gildandi kjarasamninga og er samtökum launafólks og atvinnurekenda, svo og ófélagsbundnum atvinnurekendum, skylt að senda honum samrit allra kjarasamninga sem þeir gera jafnskjótt og þeir hafa verið undirritaðir. Breytingar á áður gildandi kjarasamningum skulu sendar með sama hætti. Sömu aðilar skulu einnig senda sáttasemjara samrit allra kauptaxta og kjaraákvæða sem út eru gefin á grundvelli gildandi kjarasamninga.
    Samningsaðilar skulu enn fremur senda ríkissáttasemjara samrit af uppsögn kjarasamninga, svo og kröfugerð, jafnskjótt og hún er send gagnaðila.


    d. (23. gr.)
    Atvinnurekendur eða samtök þeirra og stéttarfélög skulu gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamnings. Samningsaðilum er heimilt að veita landssamböndum eða heildarsamtökum sérstakt umboð til að gera viðræðuáætlun fyrir sína hönd ef slíkt umboð leiðir ekki af lögmætum samþykktum sambanda eða samtaka samningsaðila. Viðræðuáætlun, undirrituð af báðum samningsaðilum, skal þegar í stað send ríkissáttasemjara.
    Viðræðuáætlun skal gerð í síðasta lagi 10 vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Ef samningsaðilar hafa þá ekki gert viðræðuáætlun skal sáttasemjari gefa út viðræðuáætlun fyrir þá samningsaðila í síðasta lagi átta vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus og skal sáttasemjari þá taka mið af öðrum viðræðuáætlunum sem hafa þegar verið gerðar.

    e. (24. gr.)
    Samningsaðilar geta hvenær sem er eftir útgáfu viðræðuáætlunar óskað milligöngu sáttasemjara eða aðstoðar hans og skal hann þá þegar beita sér fyrir því að samningaumleitanir fari fram í samræmi við viðræðuáætlun. Samningsaðilar skulu gefa sáttasemjara kost á að fylgjast með vinnudeilu og samningaumleitunum hvenær sem hann óskar þess.
    Ef slitnar upp úr samningaviðræðum aðila eða annar hvor þeirra telur vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum getur hvor þeirra um sig eða báðir sameiginlega vísað deilunni til sáttasemjara. Þegar sáttasemjari hefur fengið tilkynningu þess efnis er honum skylt að kveðja aðila eða umboðsmenn þeirra til fundar svo skjótt sem kostur er og halda síðan áfram sáttaumleitunum meðan von er til þess að þær beri árangur.
    Sáttasemjari tekur enn fremur við stjórn viðræðna eftir því sem ákveðið hefur verið í viðræðuáætlun. Honum er þó jafnan heimilt að fresta formlegri sáttameðferð og beina því til samningsaðila að þeir láti reyna á samkomulagsmöguleika í beinum viðræðum sín á milli telji hann það líklegra til árangurs. Ríkissáttasemjara er ávallt heimilt að taka í sínar hendur stjórn samningaviðræðna ef hann telur það heppilegt.
    Ef tilkynning berst um vinnustöðvun skv. 16. gr. er sáttasemjara skylt að annast sáttastörf með deiluaðilum og stýra viðræðum þeirra.

    f. (25. gr.)
    Samningsaðilum er skylt að sækja eða láta sækja samningafund sem sáttasemjari kveður þá til.
    Sáttafundi skal halda fyrir luktum dyrum.
    Á sáttafundi skal leggja fram eftirrit þeirra skjala sem farið hafa milli aðila í deilunni, enda hafi þau ekki verið send ríkissáttasemjara áður.
    Bannað er að skýra frá eða leiða vitni um umræður á sáttafundum og tillögur sem fram kunna að hafa verið bornar nema með samþykki beggja samningsaðila.

    g. (26. gr.)
    Sáttasemjari getur krafið aðila vinnudeilu um hverjar þær skýrslur og skýringar sem hann telur nauðsynlegar til að leysa vinnudeilur. Hann getur krafið allar opinberar stofnanir um þær upplýsingar og skýrslur sem hann telur þörf á. Með öll slík gögn skal fara sem trúnaðarmál ef þess er óskað.

    h. (27. gr.)
    Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.
    Ef ágreiningur snertir aðeins ákveðna félagsdeild eða starfsgrein innan félags eða félagasambands eða tiltekið fyrirtæki getur sáttasemjari ákveðið að atkvæðagreiðsla taki eingöngu til deildarinnar eða starfsgreinarinnar eða fyrirtækisins.

    i. (28. gr.)
    Telji sáttasemjari að það sé til þess fallið að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála er honum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum heimilt að leggja fram eina sameiginlega miðlunartillögu eða fleiri:
    að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun,
    að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist,
    að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli,
    að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar,
    að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.
Sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun sameiginlegrar miðlunartillögu. Atkvæðagreiðsla samningsaðila á almennum vinnumarkaði og þeirra sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til um sameiginlega miðlunartillögu skal fara fram með aðgreindum hætti. Niðurstaða hjá hvorum hópnum fyrir sig, óháð niðurstöðu hins, ræður úrslitum um samþykkt eða synjun.
    Sáttasemjara er heimilt að láta sameiginlega miðlunartillögu ná til allra hópa sem eru með lausa samninga eða setja fram miðlunartillögu sem tekur aðeins til tiltekinna samningssviða, félagsdeilda eða fyrirtækja sem svo er ástatt um. Sú heimild er óháð aðild að félögum, samböndum eða samtökum atvinnurekenda og launafólks.
    Samningsaðilum er þó heimilt að takmarka í viðræðuáætlun heimild sáttasemjara til að tengja framlengingu á hlutaðeigandi kjarasamningi framlengingu annarra kjarasamninga á óskyldum samningssviðum með sameiginlegri atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.     


    j. (29. gr.)
    Aðilar skulu eftir því sem við verður komið sjá um að atkvæðisbærir félagsmenn geti kynnt sér miðlunartillögu í heild. Sáttasemjara er heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að draga fram meginatriði úr miðlunartillögu til þess að auðvelda félagsmönnum þeirra að kynna sér efni hennar og taka málefnalega afstöðu til tillögunnar og áhrifa hennar á hag þeirra og afkomu. Öðrum aðila vinnudeilu er heimilt að vinna útdrátt úr miðlunartillögu fyrir félagsmenn sína í samráði við sáttasemjara. Eigi má birta miðlunartillögu öðrum en þeim sem hlut eiga að máli án samþykkis sáttasemjara fyrr en greidd hafa verið atkvæði um hana.
    Miðlunartillaga skal borin undir atkvæði við atkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra aðila eins og sáttasemjari gekk frá henni og henni svarað játandi eða neitandi.
    Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skal fara fram á kjörfundi sem standi í fyrir fram ákveðinn tíma. Ríkissáttasemjari getur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu ákveðið að atkvæðagreiðsla fari jafnframt fram utan kjörfundar á tilteknum stöðum eða svæðum. Í stað atkvæðagreiðslu innan og utan kjörfundar er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma. Ríkissáttasemjari gefur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu nánari fyrirmæli um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, svo sem hvenær og hvernig hún skuli fara fram. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg og leynileg.
    
    k. (30. gr.)
    Jafnskjótt og atkvæðagreiðslu er lokið skulu atkvæði og kjörgögn afhent sáttasemjara. Talning atkvæða fer fram undir stjórn sáttasemjara og er hverjum aðila heimilt að hafa umboðsmann viðstaddan talninguna.

    l. (31. gr.)
    Miðlunartillaga telst felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða, og þá minnst þriðjungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá, er mótatkvæði.

    m. (32. gr.)
    Sáttasemjarar geta borið fram miðlunartillögu eins oft og þeim þykir þurfa.

    n. (33. gr.)
    Ef sáttatilraunum í mikilvægri deilu er hætt án árangurs getur ríkissáttasemjari birt skýrslu um málið á þann hátt sem hann álítur heppilegastan til þess að almenningur fái rétta hugmynd um deiluna.

    o. (34. gr.)
    Ef annar hvor aðili vill samþykkja miðlunartillögu sáttasemjara eftir að sáttaumleitun hefur verið hætt án árangurs sendir hann sáttasemjara yfirlýsingu um það. Sáttasemjara ber þegar að láta gagnaðila vita um yfirlýsinguna. Vilji hann einnig fallast á miðlunartillöguna sér sáttasemjari um að aðilar gangi frá samningum sín á milli.

    p. (35. gr.)
    Nú hefur sáttaumleitunum sáttasemjara lokið án árangurs og ber honum þá að hefja þær á ný ef annar hvor aðili óskar þess eða hann telur það heppilegt. Þó ber honum ætíð að gera tilraun til sátta með aðilum innan 14 sólarhringa frá því hann hætti síðustu samningatilraunum sínum.

    q. (36. gr.)
    Sáttasemjarar skulu halda gerðabækur og skrá þar hvar og hvenær sáttafundir eru haldnir, nafn sáttasemjara og viðstaddra aðila eða fulltrúa þeirra. Geta skal framlagðra skjala og hins helsta sem fram fer.

    r. (37. gr.)
    Ríkissáttasemjari skal senda félagsmálaráðherra skýrslur um störf sín samkvæmt lögum þessum svo oft sem þurfa þykir og ekki sjaldnar en einu sinni á ári.

7. gr.

    39. gr. laganna orðast svo:
    Í dóminum eiga sæti fimm menn, sem skipaðir eru til þriggja ára þannig: Einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, annar af Alþýðusambandi Íslands, þriðji af félagsmálaráðherra úr hópi þriggja manna, sem Hæstiréttur tilnefnir, og tveir af Hæstarétti, og sé annar þeirra sérstaklega tilnefndur til þess að vera forseti dómsins. Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í Vinnuveitendasambandi Íslands, skal dómari sá, sem tilnefndur er af því, víkja sæti, en í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það áður en hálfur stefnufrestur er liðinn, ella tilnefnir forseti dómsins dómarann. Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara, skipuðum af Alþýðusambandi Íslands.
    Sömu aðilar tilnefna varadómendur er taka sæti í forföllum aðaldómenda.
    Þegar mál þau, sem um ræðir í 2. mgr. 44. gr., koma til meðferðar í Félagsdómi, skulu dómendur þeir, sem tilnefndir eru af Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, víkja sæti, en í þeirra stað tilnefna stefnandi og stefndur hvor sinn mann úr hópi 18 manna, sem tilnefndir eru í því skyni af Iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands og Samtökum iðnaðarins til þriggja ára í senn. Iðnsveinaráð ASÍ tilnefnir sex menn og Samtök iðnaðarins tólf menn. Nefnd samtök nefna með sama hætti jafnmarga varamenn. Nú tilnefnir aðili ekki dómara eða ekki næst samkomulag um tilnefninguna milli samaðila máls, og nefnir forseti Félagsdóms þá dómara í hans stað úr hópi sömu manna.

8. gr.

    Í stað orðsins „Atvinnumálaráðherra“ í 1. málsl. 40. gr. laganna kemur: Félagsmálaráðherra.

9. gr.

    Við 56. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Skattyfirvöld skulu veita nauðsynlegar upplýsingar um fjölda starfsmanna fyrirtækis vegna réttarstöðu vinnustaðarfélags, sbr. 3. mgr. 2. gr.

10. gr.

    Við 70. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ábyrgð skv. 2. mgr. 8. gr. varðar þó ekki sektum.

11. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Ákvæði III. kafla laganna, 20.–37. gr., gilda eftir því sem við á um opinbera starfsmenn sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna ná til.
    Jafnframt falla úr gildi lög nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Inngangur.


    
Hér á landi hafa um langt skeið farið fram umræður um nauðsyn þess að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði með það að markmiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Þannig yrði stuðlað að friðsamlegum samningum og dregið úr átökum á vinnumarkaði og oft langvinnum vinnustöðvunum. Afskipti íslenskra stjórnvalda af einstökum kjaradeilum hafa vakið athygli alþjóðastofnana, t.d. Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Þannig virðist hafa skort á að leikreglur hafi með fullnægjandi hætti stuðlað að frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Aðilar kunna að hafa treyst um of á íhlutun stjórnvalda. Mikilvægt er því að setja almennar og skýrar leikreglur til þess að tryggja frjálsa samninga á vinnumarkaði. Loks hafa nýjar þarfir komið til með auknu vægi alþjóðasamninga af ýmsum toga sem gefa aðilum vinnumarkaðarins færi á að skipa málum með heildarsamningum. Lög um stéttarfélög og vinnudeilur hafa staðið óbreytt frá því að þau voru sett fyrir tæpum sextíu árum að frátöldum reglum um sáttastörf í vinnudeilum. Sérstök lög um sáttastörf í vinnudeilum voru sett árið 1978. Frá árinu 1938 hafa orðið gagngerar breytingar á atvinnuháttum. Sérhæfing hefur aukist og starfsstéttum fjölgað til muna en stéttarfélög eru enn í flestum tilvikum byggð á starfsstétt. Einstakir atvinnurekendur eru þannig bundnir kjarasamningum við fjölmörg félög sem hvert fyrir sig fer með samnings- og verkfallsrétt samkvæmt lögum. Mjög fámennir hópar geta knúið fram sérhagsmuni sína í krafti lykilaðstöðu. Þá skortir á að tryggt sé að vel sé vandað til afgreiðslu kjarasamninga og ákvarðana um vinnustöðvanir. Á það bæði við um samtök atvinnurekenda og stéttarfélög. Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á vinnulöggjöf, eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, enda miða þær að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum félagsmanna í stéttarfélögum. Nauðsynlegt er því að taka til endurskoðunar ýmis ákvæði gildandi vinnulöggjafar, þ.e. bæði laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, og laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, og breyta þeim í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu.
    Félagsmálaráðherra skipaði 4. október 1994 vinnuhóp til að fjalla um samskiptareglur á vinnumarkaði. Í vinnuhópinn voru skipuð frá Alþýðusambandi Íslands Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, og Bryndís Hlöðversdóttir, lögfræðingur ASÍ, og til vara Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, 1. varaforseti ASÍ, og Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ; frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, og til vara Svanhildur Halldórsdóttir, skrifstofustjóri BSRB; frá fjármálaráðuneyti Birgir Guðjónsson, skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, og til vara Gunnar Björnsson, deildarstjóri á starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins; frá Vinnumálasambandi Árni Benediktsson, formaður VMS, og til vara Jóngeir Hlinason, framkvæmdastjóri VMS; frá Vinnuveitendasambandi Íslands Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, og til vara Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ. Félagsmálaráðherra skipaði Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, formann vinnuhópsins. Frá því í maí 1995 hafa starfað með nefndinni Jón Sveinsson hdl. sem lögfræðilegur ráðgjafi og Gísli Tryggvason laganemi sem ritari. Í skipunarbréfi kemur fram að vinnuhópnum sé falið að kynna sér þróun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks í öðrum löndum og bera þróunina saman við stöðu mála hérlendis. Fyrir hópinn var lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kæmi að breyta þyrfti íslenskri löggjöf var hópnum falið að setja fram tillögur um það efni. Hinn 22. nóvember 1995 skilaði vinnuhópurinn áfangaskýrslu sem ber heitið Samskiptareglur á vinnumarkaði og er hún birt sem fylgiskjal I með frumvarpi þessu. Vinnuhópurinn hefur fram til þessa haldið 48 fundi.
    Í áfangaskýrslu vinnuhópsins frá 22. nóvember 1995 er gerð grein fyrir nýjum hugmyndum í sambandi við gerð kjarasamninga sem hópurinn taldi mikilvægt að fengju sem fyrst umfjöllun í hlutaðeigandi samtökum. Hugmyndir hópsins, sem fram koma í áfangaskýrslunni, lúta fyrst og fremst að svonefndri viðræðuáætlun, miðlunartillögu, tengingarreglu og meðferð samningsumboðs, en hópurinn leggur í umfjöllun sinni áherslu á leiðir til að gera kjaraviðræður markvissari og styttri. Í niðurlagi skýrslunnar kemur og fram að hópurinn telur að einnig þurfi að huga að reglum um vinnudeilur, inntak þeirra og hvort efni séu til að setja nánari formreglur um ákvarðanir um vinnustöðvanir og framkvæmd þeirra. Í áfangaskýrslunni kemur loks fram að ýmis atriði, sem tengjast þeim hugmyndum sem fram eru settar, hafi ekki verið rædd til hlítar, svo sem miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun vinnustöðvana, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðarfyrirkomulag.
    Eftir að áfangaskýrslan var lögð fram í nóvember 1995 hafa fulltrúar aðila vinnumarkaðarins í nefndinni ekki náð samstöðu um tillögur til breytinga á ákvæðum gildandi laga til að hrinda í framkvæmd framangreindum hugmyndum vinnuhópsins. Lagafrumvarp þetta hefur því verið samið á vegum félagsmálaráðherra, m.a. á grundvelli ábendinga sem fram koma í áfangaskýrslu vinnuhópsins og umræðna sem hafa farið fram í vinnuhópnum. Rétt þykir nú að fella lög um sáttastörf í vinnudeilum inn í lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem III. kafli um sáttatilraunir í vinnudeilum var upphaflega, enda þykja öll þessi efnisatriði eiga heima í einum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
    Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið gætt að stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga, svo og að alþjóðasamþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að á sviði vinnuréttar.


Helstu nýmæli.

    Helstu breytingar og nýmæli, sem fram koma í frumvarpi þessu, eru eftirfarandi:
    Vinnustaðarfélög. Vinnustaðarfélag starfsmanna í fyrirtækjum með a.m.k. 250 starfsmenn að jafnaði öðlast réttarstöðu stéttarfélags, enda eigi a.m.k. ¾ starfsmanna aðild að því. Fer vinnustaðarfélag þá eitt með samningsumboð fyrir starfsmenn þar (1. gr. frumvarpsins).
    Samningsumboð og samþykkt kjarasamninga. Settar eru skýrar reglur um samningsumboð atvinnurekenda og stéttarfélaga. Tekin eru af tvímæli um að heimilt er að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri samningsaðila samningsumboð. Er það í sumum tilvikum nauðsynlegt vegna samstarfsins á Evrópska efnahagssvæðinu. Samninganefnd verður heimilt að ákveða sameiginlega atkvæðagreiðslu. Undirritaðir kjarasamningar öðlast gildi frá undirskriftardegi, nema þeir séu felldir með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungi atkvæða alls. Fari póstatkvæðagreiðsla fram ræður einfaldur meiri hluti greiddra atkvæða. Um kjarasamninga, sem taka einungis til tiltekins hluta félagsmanna eða starfsmanna tiltekins fyrirtækis, gildir önnur regla. Þar er áskilið að hlutfall mótatkvæða sé jafnan þriðjungur atkvæða alls (1. og 2. mgr. 2. gr.).
    Skyldur og ábyrgð samningsaðila. Skylda er lögð á samningsaðila að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða samninga. Kveðið er á um ábyrgð ófélagsbundinna og einstakra félagsmanna þegar ekki er sýnt fram á aðild samningsaðila að ólögmætum aðgerðum (3. mgr. 2. gr. og 3. gr.).
    Formleg skilyrði fyrir vinnustöðvun. Settar eru skýrari reglur um hvað þurfi að koma fram í tillögu um vinnustöðvun. Jafnframt skulu kröfur liggja fyrir, viðræðna þarf að hafa verið leitað og sáttasemjari þarf að hafa leitað sátta milli aðila (3. mgr. 4. gr.).
    Ákvörðun um vinnustöðvun. Ákvörðun um vinnustöðvun skal tekin af félagsmönnum við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. 20% atkvæðisbærra félagsmanna. Samkvæmt þessu er í raun nauðsynlegt að 10% atkvæða séu greidd með tillögu um vinnustöðvun enda ræður meiri hlutinn. Þetta skilyrði gildir þó ekki ef póstatkvæðagreiðsla fer fram. Ef um er að ræða vinnustöðvun af hálfu tiltekins hluta félagsmanna eða í tilteknu fyrirtæki þarf þó jafnan þátttöku helmings atkvæðisbærra þannig að fjórðungur atkvæðisbærra þarf að greiða tillögu atkvæði. Félagsmenn taka ákvörðun um vinnustöðvun í beinni atkvæðagreiðslu. Heimildir samninganefndar og félagsstjórnar eða trúnaðarmannaráðs samtaka atvinnurekenda eða stéttarfélaga eiga því ekki lengur við. Þá er tekin upp í lögin skilgreining á hugtakinu vinnustöðvun, sbr. skýringar með 5. gr. (1. og 2. mgr. 4. gr. og 5. gr.).
    Póstatkvæðagreiðsla. Heimiluð er póstatkvæðagreiðsla um gerða kjarasamninga og um ákvörðun um vinnustöðvun. Ef sú heimild er nýtt þarf að jafnaði ekki að ná tilteknu hlutfalli mótatkvæða gegn samningsniðurstöðu eða tiltekinni þátttöku við almenna ákvörðun um vinnustöðvun. Ríkissáttasemjara er veitt heimild til að ákveða í samráði við aðila að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með pósti (2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 4. gr. og 3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).
    Viðræðuáætlun. Samkvæmt gildandi reglum er ekki tryggður réttur aðila til viðræðna við gagnaðilann. Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu gera viðræðuáætlun um skipulag viðræðna og gerð kjarasamnings. Er það gert að danskri fyrirmynd, þar sem samið hefur verið um slíkt fyrirkomulag (d-liður 6. gr. (23. gr.)).
    Skýrari miðlunarheimildir. Lagaskilyrði fyrir heimild sáttasemjara til að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu eru gerð mun skýrari. Tekið er fram með ótvíræðum hætti að sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun. Atkvæði skulu talin með aðgreindum hætti hjá annars vegar samningsaðilum á almennum vinnumarkaði og hins vegar hjá þeim sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til. Niðurstaða hjá hvorum hópnum fyrir sig, óháð niðurstöðu hins, ræður úrslitum um samþykkt eða synjun. Einnig er kveðið á um til hverra sameiginleg miðlunartillaga geti tekið og hvernig samningsaðilar geti sett sameiginlegri miðlunartillögu takmörk (i-liður 6. gr. (28. gr.)).
    Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Ríkissáttasemjara eru fengnar heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Ávallt skal haft samráð við aðila vinnudeilu áður en slíkar ákvarðanir eru teknar (3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).
    Afgreiðsla miðlunartillögu. Miðlunartillaga er felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða og jafnframt að minnsta kosti þriðjungur atkvæða alls er mótatkvæði. Er sú breyting gerð með vísan til heimilda ríkissáttasemjara til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ef þær heimildir verða nýttar mun þátttaka aukast. Skilyrðið um lágmarkshlutfall mótatkvæða á við óháð tilhögun atkvæðagreiðslu (l-liður 6. gr. (31. gr.)).


Um efni frumvarpsins.
Vinnustaðarfélög.

    Rétt þykir að gefa kost á að í fyrirtækjum með a.m.k. 250 starfsmenn verði unnt að gera vinnustaðarsamninga. Það hefur sýnt sig að þörf getur verið á slíku í mjög stórum fyrirtækjum. Starfsmönnum slíkra fyrirtækja er því veitt heimild til að stofna og starfrækja stéttarfélag er taki til fyrirtækisins. Til þess að tryggja að víðtæk samstaða ríki um það fyrirkomulag er gert að skilyrði að a.m.k. ¾ starfsmanna séu félagsmenn. Félag nýtur þá réttarstöðu sem stéttarfélag og fer eitt með samningsumboð starfsmanna þar. Einn samningur, sem þannig er gerður milli starfsmanna sjálfra og atvinnurekanda, gildir þá um starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtæki af þessari stærð eru nú um 50 talsins samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda.
    Að óbreyttum lögum er sá möguleiki ekki fyrir hendi að gera vinnustaðarsamninga á almennum vinnumarkaði þar sem félagssvæði stéttarfélags verður að ná a.m.k. til eins sveitarfélags. Það skilyrði er óbreytt um stéttarfélög sem ekki geta talist vinnustaðarfélög, enda virðist þróunin frekar stefna í þá átt að félögin verði færri og stærri. Eitt af vandamálum íslensks vinnumarkaðar hefur verið fjöldi viðsemjenda. Sama fyrirtækið getur verið bundið af kjarasamningum við allt að tuttugu eða fleiri félög með mismunandi reglum og óvissu um vinnufrið. Þar sem sveiflur í starfsmannafjölda geta haft áhrif á réttarstöðu félags sem ætlað er að vera vinnustaðarfélag er öruggara að stofna aðeins slík félög í fyrirtækjum sem hafa styrka stöðu. Stofnun vinnustaðarfélags væri þó vitaskuld háð frjálsum vilja starfsmanna sjálfra og hvers kyns íhlutun af hálfu atvinnurekenda eða stjórnvalda í því efni gæti falið í sér brot á 4. gr. laganna.
    Lagaheimild til að stofna stéttarfélög er taki til eins vinnustaðar er þegar fyrir hendi hvað varðar opinberra starfsmanna, enda taki félagið til a.m.k. 2 / 3 hluta starfsmanna sem undir lögin heyra hjá tiltekinni stofnun og þeir félagsmenn séu 100 eða fleiri. Slíkt vinnustaðarfélag er lögformlegur samningsaðili og getur með lögmætum hætti boðað verkfall fyrir hönd þess launafólks sem á í hlut. Heimild samkvæmt frumvarpinu til að stofna vinnustaðarfélag sem hefði að öllu leyti réttarstöðu stéttarfélags er í hátt við þá stefnu að samræma eftir föngum reglur sem gilda hjá opinberum starfsmönnum og launafólki á almennum vinnumarkaði um gerð kjarasamninga og verkfallsrétt. Það getur því alls ekki flokkast undir íhlutun í innri málefni verkalýðshreyfingarinnar að bjóða upp á slíka heimild í lögum.
    Helstu röksemdir með vinnustaðarfyrirkomulagi eru þær að raunveruleg áhrif starfsmanna sjálfra geta aukist, lýðræði verður virkara og vald færist nær þeim sem hafa beinna hagsmuna að gæta. Fyrirkomulagið er til þess fallið að draga úr miðstýringu og umboðsvanda og ákvarðanavald mun í einhverjum tilvikum færast heim í hérað til forustu launafólks þar. Þá er vinnustaðarfyrirkomulag til þess fallið að stuðla að auknum jöfnuði, samkennd innan fyrirtækja, vinnufriði og aukinni framleiðni í þágu heildarinnar. Loks býður það upp á meiri sveigjanleika í samningum. Um það eru dæmi frá stórum orkufrekum vinnustöðum hérlendis. Meðal ókosta vinnustaðarfyrirkomulags hafa verið nefndir hagsmunaárekstrar, slæmur starfsandi og minna sóknarfæri. Kostirnir eru þó fleiri.
    Heimild til að stofna vinnustaðarfélag má á hinn bóginn ekki stofna í hættu markmiðum um mótun launastefnu og fylgni við hana. Fjölgun samningsaðila er ekki æskileg. Því er heimildin bundin við tiltekinn lágmarksfjölda (250) og ákveðið lágmarkshlutfall ¾ starfsmanna í fyrirtæki — með sama hætti og lágmarksstærð félagssvæðis stéttarfélaga er nú miðuð við eitt sveitarfélag. Með þeim skilyrðum er unnt að koma í veg fyrir að vinnustaðarfyrirkomulag geti leitt til minni samstöðu og rýrt réttindi og hagsmuni einstaklinga í fámennum eða dreifðum stéttum. Ekki er gert ráð fyrir vinnustaðarfyrirkomulagi sem aðalreglu hérlendis vegna smæðar fyrirtækja.

Samningsumboð og samþykkt kjarasamninga.

    Í frumvarpinu er nýtt ákvæði sem mælir skýrt fyrir um hvað felist í umboði samninganefndar eða fyrirsvarsmanns sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila, atvinnurekenda eða stéttarfélaga. Nokkur vafi getur verið um samningsumboð sem jafnvel getur leitt af sér deilur fyrir dómstólum eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir. Leiðir slíkur vafi til óvissu fyrir fjölda launafólks og atvinnurekendur. Því þykir til bóta að kveða skýrt á um þennan formlega þátt í samningsumboði samningsaðila.
    Frumvarpinu er einnig ætlað að taka af tvímæli um heimildir stéttarfélaga til að fela sameiginlegri samninganefnd samningsumboð, sem þau hafa lögum samkvæmt, ef þau kjósa sjálf. Slíkri heimild er ekki fyrir að fara í settum lögum. Atvinnurekendur hafa hins vegar þegar að lögum frelsi til þess að fela sameiginlegum samninganefndum samningsumboð sitt og nýta þeir það frelsi almennt. Að þessu leyti er ójafnræði milli aðila á vinnumarkaði. Í 5. gr. laganna kemur fram að stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna. Umboð stéttarfélaga til að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna sinna er því lögbundið. Því þykir nauðsyn bera til að setja ótvíræðar lagareglur um heimildir stéttarfélaga að þessu leyti. Heimildin er til þess fallin að styrkja stöðu stéttarfélaga og sambanda þeirra við almenna endurnýjun kjarasamninga í því sem nefnt hefur verið samflot — ef þau kjósa sjálf að fara þá leið. Með slíkri reglu í lögum er komið á jafnræði milli aðila á vinnumarkaði að þessu leyti.
    Umboð stéttarfélaga til gerðar kjarasamninga er í sumum tilvikum jafnvel nauðsynlegt að framselja til landssambanda eða heildarsamtaka vegna samstarfsins á Evrópska efnahagssvæðinu. Í Maastricht-samningi Evrópusambandsins (ESB) er gert ráð fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins gegni auknu hlutverki við að hrinda í framkvæmd tilskipunum sem snerta t.d. samskipti á vinnumarkaði, réttindi launafólks, vinnuvernd og jöfn tækifæri karla og kvenna til atvinnuþátttöku. Í ákvæðum nokkurra tilskipana, sem þegar eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er gert ráð fyrir þessari leið. Benda má á tilskipun ESB um skyldu atvinnurekenda til að skýra launamönnum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi (91/533/ESB), tilskipun ESB um skipulag vinnutíma (93/104/ESB) og tilskipun ESB um upplýsingar og samráð við starfsmenn fyrirtækja (94/45/ESB). Helstu samtök aðila vinnumarkaðarins á Íslandi hafa lýst yfir eindreginni ósk um það að fá tækifæri til að hrinda í framkvæmd ákvæðum þessara tilskipana með kjarasamningum. Nauðsynlegt er að greiða fyrir þessari leið með því að kveða skýrt á um samningsumboð og heimildir til að framselja það til landssambanda og heildarsamtaka.
    Oft háttar þannig til að mörg félög standa að gerð fleiri samninga á sama tíma þannig að samningsniðurstöður eru háðar hver annarri. Því er nauðsynlegt að kveða skýrt á um heimild samninganefnda til að viðhafa sameiginlega atkvæðagreiðslu þegar samningar eru innbyrðis tengdir með þessum hætti, t.d. vegna launahlutfalla. Með frumvarpinu er samninganefndum, sem koma fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, veitt almenn heimild til þess að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna hlutaðeigandi samtaka atvinnurekenda og hlutaðeigandi stéttarfélags eða stéttarfélaga um samningsniðurstöðu. Ákvörðun í þessu efni er alfarið í höndum samninganefnda, enda er þá eingöngu verið að auka heimildir stéttarfélaga.
    Við almenna endurnýjun kjarasamninga fyrri hluta ársins 1995 var um það samið með mörgum kjarasamningum að samningur tæki gildi, nema hann yrði felldur innan tiltekins tíma. Var í fyrsta lagi samið um að samningsaðilar skyldu bera samninginn upp til afgreiðslu á lögmætan hátt innan samtaka sinna og víða var tekið fram að það skyldi gerast innan tiltekins tíma. Í einu tilviki var skýrt tekið fram að afgreiðslan væri til samþykktar eða synjunar. Í öðru lagi var samið um að hefði gagnaðila ekki borist tilkynning um niðurstöðu afgreiðslunnar fyrir tiltekinn tíma eða innan tiltekins frests frá undirritun skoðaðist kjarasamningurinn samþykktur. Frestur til þess að tilkynna um niðurstöðuna var frá sex dögum og allt að mánuði en víðast var hann ákveðinn þrjár vikur. Var síðarnefnda ákvæðið sett í kjarasamning að frumkvæði launafólks vegna þeirrar óvissu sem hefur komið upp þegar öðrum samningsaðila hefur láðst að samþykkja kjarasamning formlega í samræmi við eigin reglur og síðar færst undan að hlíta samningi. Vafi um formlegt gildi kjarasamnings getur leitt af sér deilur fyrir dómstólum eftir að kjarasamningar hafa verið gerðir. Kjarasamningar eru gerðir fyrir þorra launafólks innan stéttarfélaga og hafa jafnframt almennt gildi sem lágmarkskjör skv. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Sérhver vafi um formlegt gildi kjarasamninga hefur því í för með sér mikla óvissu fyrir fjölda launafólks og atvinnurekendur um hag þeirra og afkomu. Er það og jafnan forsenda efnislegrar samningsniðurstöðu að báðir samningsaðilar staðfesti hana með formlega réttum hætti. Því þykir til bóta að kveða skýrt á um þennan formlega þátt í samningsumboði samningsaðila þannig að mælt sé fyrir um það í lögum að tómlæti annars samningsaðila í þessu efni komi ekki í koll formlegum gagnaðila eða öðrum sem hlut eiga að máli. Með vísan til þeirrar framkvæmdar sem höfð var á við almenna endurnýjun kjarasamninga fyrri hluta árs 1995 er með þessu verið að taka af tvímæli um að sú venja á almennum vinnumarkaði sé lögleg og réttmæt. Hér þykir rétt að samningsaðilum sé með lögum tryggður fjögurra vikna frestur til þess að hafna samningsniðurstöðu samninganefndar, enda er atvikum háð hversu fljótt er unnt að efna til atkvæðagreiðslu.
    Þá er í frumvarpinu regla um hlutfall atkvæða sem þarf til að fella niðurstöðu lögmætra fulltrúa samningsaðila, samninganefnda eða annarra fyrirsvarsmanna. Ákvæðinu svipar til reglunnar um nauðsynlegt hlutfall mótatkvæða í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu en hlutfallið er lægra. Til þess að fella löglega gerðan kjarasamning þarf að vera ljóst að um raunverulega andstöðu félagsmanna sé að tefla. Lítil þátttaka á fundum og í afgreiðslu samninga er afar óheppileg og til þess fallin að grafa undan virku starfi samtaka á vinnumarkaði, ekki síst stéttarfélaga. Þar sem gera verður ráð fyrir að fulltrúar atvinnurekenda og launafólks njóti trausts umbjóðenda sinna má telja eðlilegt að marktæka andstöðu félagsmanna þurfi til að hnekkja samningsniðurstöðu þannig að tilviljunarkennd þátttaka á fámennum fundi ráði ekki úrslitum. Verður að telja að félagsmenn megi almennt treysta því að kjarasamningar, sem fulltrúar launafólks gera fyrir þess hönd, endurspegli mat þeirra á því hvað sé besta möguleg niðurstaða samningaviðræðna. Til að hnekkja þessu mati kjörinna fulltrúa félaganna hlýtur því að þurfa meira en örlítinn hluta félagsmanna. Lagt er til að fimmtung atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagskrá þurfi til þess að fella niðurstöðu sem undirrituð hefur verið af samninganefnd eða fyrirsvarsmanni sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings og er til þess bær samkvæmt skráðum samþykktum hans. Í því felst töluverð breyting á almennum vinnumarkaði en niðurstaðan gildir óháð hlutfalli mótatkvæða ef póstatkvæðagreiðsla fer fram.
    Ef kjarasamningur tekur aðeins til tiltekins hluta félagsmanna eða starfsmanna tiltekins fyrirtækis er heimilt að ákveða í kjarasamningi að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann. Þá þarf jafnan þriðjung atkvæða til að fella niðurstöðu lögmætra fulltrúa félagsmanna. Er eðlilegt að setja ríkari skilyrði þegar um takmarkaðan hóp eða takmarkað gildissvið kjarasamnings er að ræða, enda er þá að jafnaði auðveldara að ná til þeirra sem eru atkvæðisbærir. Póstatkvæðagreiðsla hefur ekki áhrif á nauðsynlegt hlutfall mótatkvæða.


Skyldur og ábyrgð samningsaðila.

    Samkvæmt 5. gr. laganna hafa stéttarfélög ein lögformlegt samningsumboð um kaup og kjör félagsmanna sinna. Skv. 14. gr. laganna hafa þau jafnframt einkarétt á því að ákveða og boða lögmætt verkfall. Réttindum þessum fylgir ábyrgð, þar á meðal á því að gerðir samningar séu virtir. Í 8. gr. laganna er kveðið á um ábyrgð stéttarfélaga á samningsrofum. Ábyrgðin er að meginstefnu til hlutlæg að því er varðar stéttarfélagið sjálft og löglega skipaða trúnaðarmenn þess, enda skiptir að jafnaði ekki máli hvort fyrirsvarsmönnum er eða má vera ljóst að í tilteknum aðgerðum felist samningsrof, þ.e. ólögmæt athöfn. Aðgerðirnar sjálfar eru vitaskuld að jafnaði saknæmar þeim sem eiga í hlut.
    Sakarábyrgð stéttarfélags kemur hins vegar ein til greina vegna samningsrofa einstakra félagsmanna og er ekki gert ráð fyrir breytingu á þeirri reglu. Samkvæmt gildandi rétti er á hinn bóginn ekki ljóst hvort og þá að hvaða marki samtök atvinnurekenda og stéttarfélög bera sakarábyrgð vegna athafnarleysis af sinni hálfu í tengslum við samningsrof félagsmanna. Sú ábyrgð ræðst af þeim skyldum sem samningsaðili telst bera gagnvart gagnaðila sínum — þar með talið athafnarskyldum. Í frumvarpinu eru tekin af tvímæli um að samningsaðila er skylt að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði samninga sem gerðir hafa verið við gagnaðilann. Er sú regla eðlileg og í samræmi við réttarvitund og réttarhefð Íslendinga.
    Að meginstefnu til er áfram byggt á ábyrgð samningsaðila einna vegna aðgerða sem ætlað er að knýja fram kröfur í vinnudeilu, enda er gert ráð fyrir að launafólk starfi í skipulögðum samtökum. Ef ekki er sýnt fram á aðild samningsaðila eða hún viðurkennd af hans hálfu ber félagsmaður sjálfur ábyrgð. Ófélagsbundnir bera á hinn bóginn ábyrgð eftir almennum reglum en ófélagsbundir launamenn geta ekki átt þátt í sameiginlegum aðgerðum — verkfalli eða sambærilegum aðgerðum — enda bera stéttarfélög ekki ábyrgð á þeim.

Formleg skilyrði fyrir vinnustöðvun.

    Vinnustöðvun hefur víðtækar afleiðingar — ekki aðeins fyrir samningsaðila og einstaka félagsmenn þeirra heldur einnig fyrir aðra, bæði einstaklinga og fyrirtæki, sem ekki hafa nokkurn möguleika á að hafa áhrif á kjaradeilu þeirra. Því úrræði á ekki að beita fyrr en fullreynt er að ekki gengur saman með samningsaðilum. Er því lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að ekki sé heimilt að bera fram tillögu um vinnustöðvun fyrr en kröfur liggja skýrt fyrir. Samkvæmt gildandi rétti hefur verið talið nægjanlegt að kröfur væru komnar fram áður en til verkfalls kemur. Kröfur samningsaðila verða einnig að vera þess eðlis að gagnaðili geti mætt þeim án þess að það brjóti gegn öðrum skuldbindingum hans. Þessi meginregla kemur skýrt fram í dómum Félagsdóms, sbr. t.d. dóm hans frá 5. desember 1993. Gert er að skilyrði að leitað hafi verið milligöngu sáttasemjara áður en tillaga um vinnustöðvun er borin fram. Í því felst jafnframt að sáttasemjara hafi gefist tóm til að leita sátta í samræmi við reglur þar um og í samræmi við viðræðuáætlun.
    Því er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður — eða viðræðutilraunir — um framlagðar kröfur, og þá fyrst og fremst kröfur þess aðila sem ráðgerir vinnustöðvun, hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Tómlæti gagnaðila með tilliti til þess að leggja fram kröfur sínar eða sinna viðræðuskyldu getur ekki komið í veg fyrir lögmæta ákvörðun um vinnustöðvun.
    Eftir að ákvörðun um boðun vinnustöðvunar hefur verið tekin í atkvæðagreiðslu samkvæmt framansögðu geta komið til þau atvik sem kalla á tímabundna frestun eða afturköllun vinnustöðvunar án þess að sú ákvörðun verði borin undir atkvæði félagsmanna. Er því lagt til að samninganefnd eða til þess bærum aðilum séu veittar heimildir til þessa. Engin takmörk eru sett fyrir því hve oft má fresta framkvæmd vinnustöðvunar þegar svo ber undir en sá tími sem fresta má framkvæmd vinnustöðvunar er alls 14 sólarhringar. Ekki er átt við að leggja megi saman þau tímabil sem frestun varir þannig að frestunin verði samtals lengri en 14 sólarhringar. Að þeim tíma liðnum þarf annaðhvort að hrinda vinnustöðvun í framkvæmd eða afturkalla hana og boða hana á ný ef ástæða þykir til.

Ákvörðun um vinnustöðvun.

    Boðun vinnustöðvana og framkvæmd getur haft mikil áhrif á hagsmuni fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem ýmist eiga beina aðild að deilunni eða verða fyrir áföllum vegna deilna sem þeir hafa engin áhrif á. Að sjálfsögðu hefur vinnustöðvun áhrif á gagnaðila, enda er henni ætlað að knýja á um kröfur í vinnudeilu. Auk gagnaðilans eru hins vegar margir sem vinnustöðvun bitnar beinlínis jafnharkalega á og þeim sem henni er ætlað að knýja til samninga. Má þar nefna neytendur þeirrar þjónustu sem vinnustöðvun bitnar á. Einnig má nefna félagsmenn í öðru stéttarfélagi en því sem gerir verkfall en oft stöðvast vinna og verðmætasköpun eða þjónusta í fyrirtæki eða stofnun þegar áhrifamikil en stundum fámenn starfsstétt leggur niður störf. Á það sérstaklega við þegar atvinnurekandi bregst við verkfalli eins starfsgreinarfélags með verkbanni á önnur. Þolendur vinnustöðvunar geta jafnvel orðið fyrir meira tjóni en þeir sem að henni standa beint, þ.e. félagsmenn þess stéttarfélags sem gerir verkfall. Því er í frumvarpinu lagt til að ákveðnar reglur gildi um almennan vinnumarkað rétt eins og nú er um opinbera starfsmenn. Samkvæmt frumvarpinu þurfa 10% atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá að vera fylgjandi tillögu um vinnustöðvun, enda þarf 20% þátttöku auk þess sem meiri hluti greiddra atkvæða ræður úrslitum. Með tilteknu hlutfalli atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá er stefnt að því að sömu reglur gildi um atvinnurekendur og launafólk hvað varðar samþykkt kjarasamnings sem er eðlileg jafnræðisregla en það hefur ekki verið tryggt fram að þessu.
    Samkvæmt framansögðu falla niður heimildir samninganefndar og félagsstjórnar eða trúnaðarmannaráðs samtaka atvinnurekenda eða stéttarfélaga til að ákveða vinnustöðvun. Í stað þess skal slík ákvörðun tekin í almennri atkvæðagreiðslu eða með póstatkvæðagreiðslu.
    Sjónarmið að baki reglunni, sem eftirleiðis mun gilda um almennan vinnumarkað, eru svipuð þeim sem nú eiga við um opinbera starfsmenn, en þó eru sett mun vægari skilyrði. Almennt er stefnt að því að samræma eftir föngum reglur sem gilda hjá opinberum starfsmönnum og á almennum vinnumarkaði um gerð kjarasamninga og um verkfallsrétt. Skv. 15. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er tilskilið að a.m.k. helmingur þeirra félagsmanna, sem starfa hjá þeim sem verkfall beinist gegn, hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu um ákvörðun um boðun verkfalls. Jafnframt þarf meiri hluta greiddra atkvæða og hefur það verið skýrt þannig að átt sé við meiri hluta allra atkvæða, þar með taldir auðir seðlar og ógildir, en Félagsdómur hefur ekki talið nægilegt að fleiri séu hlynntir tillögu en andvígir. Þetta þýðir að hlutfall þeirra sem hlynntir eru ákvörðun um boðun verkfalls þarf að vera a.m.k. fjórðungur — eða helmingi hærra en samkvæmt frumvarpi þessu.
    Við útreikning fjórðungshlutfalls samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er miðað við þá félagsmenn sem starfa hjá þeim sem verkfall beinist gegn, þ.e. fyrirtæki eða stofnun. Vegna lagasamræmis og þar sem auðveldara er að ná til afmarkaðs hluta félagsmanna eða starfsmanna tiltekins fyrirtækis þykir eðlilegt að gera sams konar kröfu þegar vinnustöðvun tekur aðeins til tiltekins hluta félagsmanna, en ekki þeirra allra, eða aðeins til tiltekins fyrirtækis. Þarf þá helmingur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun.

Póstatkvæðagreiðsla.

    Því hefur verið hreyft að með skilyrði um að fimmtung atkvæða þurfi til að fella niðurstöðu samningaviðræðna séu möguleikar félagsmanna á að hafna samningsniðurstöðu takmarkaðir óeðlilega. Komið er til móts við þessi sjónarmið með því að heimila í þeim tilvikum sérstaklega að atkvæði séu greidd með pósti. Ef samningsaðili kýs að viðhafa póstatkvæðagreiðslu um samningsniðurstöðu gildir að jafnaði ekki reglan um að fimmtung atkvæða þurfi til að fella niðurstöðu, enda er póstatkvæðagreiðsla til þess fallin að ná til flestra eða allra atkvæðisbærra félagsmanna. Sá háttur á atkvæðagreiðslu miðar að aukinni þátttöku þeirra sem málið varðar. Þess má vænta að samningsaðilar setji sér sjálfir nánari reglur um beitingu og framkvæmd atkvæðagreiðslu — svo sem um rétt félagsmanna til að krefjast atkvæðagreiðslu um samningsniðurstöðu sem kjörnir fulltrúar þeirra hafa ákveðið að sætta sig við. Heimild til póstatkvæðagreiðslu á ekki við þegar um er að ræða afmarkaðan kjarasamning, enda er þá auðvelt að stuðla að þátttöku tiltekinna félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis.
    Samkvæmt frumvarpinu er að jafnaði heimilt að beita póstatkvæðagreiðslu við ákvörðun um vinnustöðvun þannig að niðurstaða hennar gildi óháð þátttöku. Sú undantekning nær þó ekki til ákvörðunar um vinnustöðvun sem tekur aðeins til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilteknum vinnustað.
    Samkvæmt frumvarpinu er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma.
    Með póstatkvæðagreiðslu er í frumvarpi þessu átt við þá tilhögun atkvæðagreiðslu að öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá, þ.e. atkvæðaskrá samtaka atvinnurekenda eða félagaskrá stéttarfélaga, sem eiga í hlut, séu send kjörgögn heim. Kjörgögn skulu vera atkvæðaseðill og ómerkt umslag ásamt umslagi sem unnt er að póstleggja ófrímerkt og sem áritað er með nafni og póstfangi viðtakanda. Lögmætur atkvæðaseðill skal fyrir fram áritaður skýrlega með „já“-reit og „nei“-reit við tillögu um samþykkt meðfylgjandi kjarasamnings þannig að unnt sé að auðkenna annan reitinn. Atkvæðaseðill skal síðan settur í ómerkta umslagið og það inn í hið áritaða sem auðvelt er að póstleggja. Með því er tryggð leynileg atkvæðagreiðsla.
    Viðtakandi er kjörstjórn félags eða samtaka og eftir atvikum sameiginleg kjörstjórn. Þegar greidd eru atkvæði um miðlunartillögu skal slík póstatkvæðagreiðsla framkvæmd með sama hætti og hér er greint frá, en frumkvæði og stjórn póstatkvæðagreiðslu er þá í höndum ríkissáttasemjara auk þess sem embætti hans greiðir kostnað við póstatkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Þá skal áritað umslag merkt ríkissáttasemjara.
    Svipaður háttur á atkvæðagreiðslu hefur verið viðhafður í nokkrum stéttarfélögum hér á landi og er því ekki nýlunda. Þessi leið gefur möguleika á að tryggja enn betur þátttöku félagsmanna í mikilvægum ákvörðunum.

Viðræðuáætlun.

    Í frumvarpinu er að finna nýmæli um samskipti aðila á vinnumarkaði, svonefnda viðræðuáætlun. Er hugmyndin fengin frá samningsbundnu fyrirkomulagi í Danmörku þar sem tíðkast hefur að samningsaðilar á vinnumarkaði semji svonefnda viðræðuáætlun hverju sinni vegna væntanlegra kjaraviðræðna. Í slíkri viðræðuáætlun er tilkynnt af hálfu samningsaðila hver fari með samningsumboð fyrir þeirra hönd í komandi samningaviðræðum. Jafnframt er þar ákveðið hvenær meginmarkmið aðila á vinnumarkaði skuli kynnt. Þá eru samningsaðilar skuldbundnir samkvæmt viðræðuáætlun til þess að setja fram endanlegar kröfur sínar í skriflegu formi fyrir tiltekinn umsaminn tíma. Loks er í viðræðuáætlun mælt fyrir um lok samningaviðræðna og hvenær vinnudeila skuli tekin til meðferðar hjá sáttasemjara. Eftir þann tíma er sáttasemjara heimilt að leggja fram miðlunartillögu ef sættir nást ekki fyrir atbeina hans. Er hún þá gjarnan sameiginleg fyrir stóra hópa sem enn eru með lausa samninga. Í Danmörku hefur viðræðuáætlun stuðlað að skipulegri samningaviðræðum og auðveldað mjög friðsamlega heildarlausn kjaramála.
    Helsti munurinn á tillögunni í frumvarpinu og danska fyrirkomulaginu er formlegs eðlis. Hér yrði lögfestur réttur og skylda til að undirbúa og gefa út viðræðuáætlun. Í Danmörku er slíkt á hinn bóginn eingöngu undir samningsaðilum á vinnumarkaði komið líkt og tíðkast hefur um samskipti á dönskum vinnumarkaði. Rétt eins og í Danmörku er samningsaðilum ætlað frumkvæði og úrslitaáhrif í þessu efni eins og eðlilegt má telja. Er því á engan hátt raskað frelsi aðila á vinnumarkaði til þess að ráða sínum málum sjálfir í lengstu lög án afskipta ríkisvaldsins. Eftir sem áður mun milliganga ríkissáttasemjara standa aðilum vinnudeilu til boða. Hann tekur þó aðeins við stjórn samningaviðræðna að ósk aðila eða ef í óefni er komið.
    Á hinn bóginn er einnig um að ræða efnislegan mun sem felst í því að réttur aðila á vinnumarkaði er betur tryggður hér en í Danmörku. Með hinni dönsku viðræðuáætlun geta heimildir til vinnustöðvunar verið takmarkaðar nokkuð þegar viðræðuáætlun er skoðuð í samhengi við heimildir sáttasemjara til þess að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu. Hér er ekki hróflað við frelsi aðila til að grípa til vinnustöðvunar að uppfylltum formreglum að loknum viðræðum um framlagðar kröfur um leið og friðarskyldu lýkur, enda er sérstaklega tekið fram að meðal skilyrða miðlunartillögu sé ,,að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar“. Að þessu leyti er frelsi aðila á vinnumarkaði til að grípa til vinnustöðvana meira en í Danmörku. Um leið er tryggður réttur samningsaðila til efnislegra og eiginlegra viðræðna um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál.
    Ekki er hér hróflað við frelsi aðila, að uppfylltum lagaskilyrðum, til að grípa til vinnustöðvunar til stuðnings framlögðum kröfum sínum um leið og friðarskyldu lýkur og viðræður hafa verið reyndar við lausn gildandi kjarasamninga, enda er það frelsi varið af stjórnlögum og alþjóðasáttmálum. Hins vegar er eðlilegt að keppikefli samningsaðila sé að nýr samningur liggi fyrir þegar gildistíma eldri kjarasamninga lýkur eða sem fyrst eftir lausn samninga. Viðræðuáætlun er til þess fallin að flýta fyrir að samningsstaðan skýrist þannig að aðila sé unnt að meta hvort verða á við kröfum gagnaðila til að stuðla að friðsamlegri lausn vinnudeilu eða hvort rétt sé að láta reyna á hagsmunaágreining með vinnustöðvun. Jafnframt er byggt á því sjónarmiði að æskilegt sé að stuðla að því að formlegar kjaraviðræður hefjist fyrr og ljúki fyrr en tíðkast hefur miðað við lausn samninga.
    Þar sem samtökum atvinnurekenda og stéttarfélögum er ætlað frumkvæði í þessu efni er þeim að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvernig og hvenær undirbúningur að viðræðuáætlun fer fram af þeirra hálfu. Ekki er hins vegar óeðlilegt að gera ráð fyrir að nokkuð löngu áður en kjarasamningar eru lausir setji samningsaðilar sér meginmarkmið og hugi að skipulagi í komandi samningaviðræðum. Að því loknu ræði samningsaðilar kröfugerð og skipulag hver innan sinna samtaka ef því er að skipta. Fulltrúar samningsaðila hafa þannig svigrúm til þess að undirbúa viðræðuáætlun af sinni hálfu. Undirbúningur að viðræðuáætlun gæti falið í sér tillögur um innihald viðræðuáætlunar, þ.e. hvenær tilkynnt yrði um samningsumboð, meginmarkmið, kröfur, lok samningaviðræðna og sáttaumleitana. Gera má ráð fyrir að ákveðið yrði í viðræðuáætlun að óskir um breytingar á einstökum ákvæðum kjarasamninga og um nýmæli kæmu fram um svipað leyti og almennir kjarasamningar væru lausir, eða jafnvel fyrr. Þá er friðarskyldu lokið og ákvörðun um vinnustöðvun lögmæt að öðru jöfnu.

Skýrari miðlunarheimildir.

    Í gildandi lögum eru mjög rúmar heimildir fyrir sáttasemjara til að setja fram miðlunartillögur. Þeim hefur hins vegar lítið verið beitt. Gerð er tillaga um að sáttasemjari haldi þessum heimildum en með nokkrum takmörkunum sem eiga að tryggja að miðlunartillaga verði ekki borin fram nema áður hafi reynt á samningsleiðir til þrautar. Að skilyrðum uppfylltum getur sáttasemjari sett fram miðlunartillögu sem náð getur til fleiri kjaradeilna í einu, einhverra nánar afmarkaðra hópa eða einstakra deilumála. Tekið er fram með ótvíræðum hætti að sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun og að atkvæði skuli talin með aðgreindum hætti hjá annars vegar samningsaðilum á almennum vinnumarkaði og hins vegar hjá þeim sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til, þ.e. annars vegar þeirra sem heyra undir almenn ákvæði laga nr. 80/1938 og hins vegar þeirra sem semja um laun samkvæmt lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Niðurstaða í atkvæðagreiðslu í hvorum hópnum fyrir sig ræður úrslitum um samþykkt eða synjun tillögunnar. Af því leiðir að annar hópurinn getur samþykkt sameiginlega miðlunartillögu en hinn fellt hana. Atkvæði hópanna eru með öðrum orðum ekki talin saman. Þrátt fyrir ákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir því að gildandi sérlög um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins, nr. 34/1977, haldi gildi sínu.
    Sameiginleg miðlunartillaga getur bæði náð til allra hópa sem eru með lausa samninga og einungis til tiltekinna sviða eða deilda sem svo er ástatt um. Ákvæðið ber að skýra með þeim hætti að það eigi við um alla þá hópa sem ekki hafa gert endanlegan og bindandi kjarasamning með undirritun þar til bærra fulltrúa. Eftir atvikum getur ríkissáttasemjari því beitt heimildinni með hliðsjón af framkvæmd í Danmörku.
    Hafi samningsaðilar hvorki komist að niðurstöðu innan þess tíma sem tilgreindur er í viðræðuáætlun né náð sáttum fyrir atbeina sáttasemjara metur sáttasemjari hvort og þá hvenær rétt er að setja fram miðlunartillögu fyrir þá hópa sem í hlut eiga, þ.e. þá hópa sem eru enn með lausa samninga.
    Meginskilyrðið er að sameiginleg miðlunartillaga sé til þess fallin að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Er skilyrðið háð mati sáttasemjara sem ræðst ekki síst af afstöðu samtaka á vinnumarkaði og hugsanlegri niðurstöðu í heildarviðræðum. Gert er ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af slíkri niðurstöðu.
    Formskilyrði fyrir heimild sáttasemjara til að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu eru tæmandi talin í frumvarpinu í fimm atriðum. Sáttasemjari metur hvort skilyrði eru uppfyllt.
    

Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.

    Beinar lagaheimildir ríkissáttasemjara hvað varðar tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu eru auknar í samræmi við hugmyndir sem fram komu í vinnuhóp félagsmálaráðherra um samskiptareglur á vinnumarkaði og ábendingar ríkissáttasemjara. Alls staðar er tekið fram að ríkissáttasemjari skuli hafa samráð við aðila vinnudeilu áður en hann tekur ákvörðun í þessu efni. Breytingarnar eru til þess fallnar að auka þátttöku í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Er það í samræmi við lýðræðishefðir að stuðla að aukinni þátttöku í atkvæðagreiðslu um svo mikilvæg réttindi manna. Einnig er sem mest þátttaka eðlileg með hliðsjón af því að ríkissáttasemjari leggur því aðeins fram miðlunartillögu að samninganefndum aðila einstakrar vinnudeilu hafi ekki sjálfum tekist með frjálsum samningum að ná saman um gerð eða endurnýjun kjarasamnings.

Afgreiðsla miðlunartillögu.

    Lagt er til að meiri hluta greiddra atkvæða og jafnframt þriðjung atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þurfi til þess að fella miðlunartillögu sem sáttasemjari leggur fram. Er það töluverð breyting frá gildandi lögum sem kveða á um lágmarksþátttöku 20% atkvæðisbærra manna. Þarf þá minnst 65% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu sáttasemjara. Samkvæmt gildandi lögum lækkar tilskilið hlutfall atkvæða í hlutfalli við aukna þátttöku miðað við fjölda atkvæðisbærra þannig að ef 35% eða fleiri atkvæðisbærra taka þátt þarf minnst 50% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu. Hér er því gert ráð fyrir verulegri efnisbreytingu en um leið einföldun ákvæðisins.
    Efnisbreytingin er rökrétt afleiðing af þeim formbreytingum sem felast í auknum heimildum ríkissáttasemjara um tilhögun atkvæðagreiðslu. Einnig þykir eðlilegt að í þessu efni gildi sömu reglur um atvinnurekendur og launafólk, en samkvæmt orðanna hljóðan tekur 12. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, aðeins til launafólks.
    Með þriðjungi atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá hér og víðar í frumvarpi þessu er annars vegar átt við þriðjung atkvæða samkvæmt gildandi atkvæðaskrá hjá samtökum atvinnurekenda en þar er fjöldi atkvæða jafnan miðaður við útgreidd laun, þ.e. í raun fjölda launamanna. Hins vegar er átt við þriðjung atkvæðisbærra launamanna sem eru fullgildir félagar í því stéttarfélagi eða þeim stéttarfélögum sem eiga í hlut. Um það hvort miðlunartillaga ríkissáttasemjara eða samningur, sem samninganefndir hafa undirritað, telst felld munu því gilda nákvæmlega sömu reglur hvort sem atvinnurekendur eða launamenn eiga í hlut. Jafnræði er því með aðilum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Í ákvæðum þessarar greinar frumvarpsins (2. gr. laganna) felst töluverð breyting. Gerð er tillaga um að vinnustaðarfélög í mjög stórum fyrirtækjum njóti réttarstöðu sem stéttarfélög þannig að slík réttarstaða á almennum vinnumarkaði verði ekki lengur bundin við stéttarfélög sem uppfylla skilyrði laganna um að vera opin öllum í hlutaðeigandi starfsgrein á félagssvæði. Hér er því lögfest ótvíræð heimild til að stofna og starfrækja vinnustaðarfélög sem teljast stéttarfélög í einu og öllu. Þykir rétt að fara varlega og er lagt til að heimildin takmarkist við fyrirtæki þar sem starfa minnst 250 starfsmenn að jafnaði. Reynslan verður að skera úr um hvort síðar verður talið rétt að breyta þessum viðmiðunarmörkum. Nánari rök fyrir þessari breytingu eru rakin að framan í almennum athugasemdum.
    Orðalagi 1. málsl. 2. gr. laganna er breytt með 1. mgr. Ekki er um efnisbreytingu að ræða. Stéttarfélög skulu áfram vera opin þeim sem uppfylla skilyrði almennra samþykkta þeirra en að því tilskildu að slík skilyrði séu lögmæt.
    Ákvæði 2. mgr. er efnislega óbreytt.
    Í 3. mgr. er að finna nýja reglu um vinnustaðarfélag sem hefur réttarstöðu stéttarfélags. Skilyrði fyrir samningsumboði slíks félags eru tvíþætt. Annars vegar lúta þau að stærð fyrirtækis og hins vegar að nauðsynlegu hlutfalli félagsmanna í vinnustaðarfélagi miðað við fjölda starfsmanna fyrirtækis. Eingöngu er átt við fjölda starfsmanna en ekki ársverk. Þau skilyrði skulu uppfyllt þegar reynir á stöðu vinnustaðarfélags sem stéttarfélags, þ.e. fyrst og fremst hvað varðar samningsumboð og verkfallsrétt fyrir hönd starfsmanna fyrirtækis sem á í hlut.
    Samkvæmt ákvæðinu þarf a.m.k. ¾ starfsmanna til að stofna vinnustaðarfélag í þessum skilningi. Er því ljóst að í hverju fyrirtæki telst aðeins eitt vinnustaðarfélag stéttarfélag. Ekkert er því til fyrirstöðu að aðrir starfsmenn séu félagsmenn í annars konar stéttarfélagi og jafnframt geta launamenn eftir sem áður verið félagsmenn í fleiri en einu stéttarfélagi. Aðeins eitt stéttarfélag fer þó með samningsumboð og verkfallsrétt fyrir starfsmenn fyrirtækis ef nýtt er heimild til að stofna vinnustaðarfélag. Á samningsrétt slíks félags getur fyrst reynt þegar samningar eru lausir.
    Skilyrði heimildarinnar eru nokkuð ströng til að tryggja eftir sem áður öfluga samstöðu launafólks. Með orðalaginu „fyrirtækis, þar sem starfa a.m.k. 250 starfsmenn“ eru tekin af tvímæli um að lágmarkstöluna þarf að uppfylla með starfandi félagsmönnum en ekki fyrrverandi starfsmönnum eða einhvers konar aukaaðilum sem ekki starfa á vinnustaðnum. Ekki skal telja með þá starfsmenn fyrirtækis sem taka ekki laun samkvæmt kjarasamningi. Þannig eru undanskildir stjórnendur og ráðgjafar þeirra. Ekki ber að telja með þá sem sitja í stjórn fyrirtækis enda þótt þeir fái laun fyrir störf sín. Með orðalaginu „að jafnaði” er átt við að litið sé til starfsmannafjölda á 12 mánaða tímabili næst á undan þeim tíma er reynir á réttarstöðu vinnustaðarfélags sem stéttarfélags.
     Með ¾ starfsmanna er átt við hlutfall allra starfsmanna á hverjum tíma, jafnt fastráðinna og þeirra sem ráðnir eru tímabundið, en í íslenskum vinnumarkaðsrétti hefur ekki verið gerður greinarmunur á launamönnum eftir ráðningartíma eða -formi. Ekki er heldur sett skilyrði um að félagsmenn séu í fullu starfi. Því er hugsanlegt að í vinnustaðarfélagi séu aðeins starfsmenn í hlutastarfi enda séu skilyrði 3. mgr. uppfyllt. Félagsaðild annarra starfsmanna að öðrum stéttarfélögum hefur enga þýðingu að uppfylltum skilyrðum frumvarpsins.
    Samkvæmt 3. gr. laganna eru þeir samningar, sem starfsmenn urðu bundnir af á meðan þeir voru félagsmenn annars félags, skuldbindandi fyrir þá á meðan þeir vinna þau störf sem samningurinn tekur til þar til þeir fyrst gætu fallið niður samkvæmt uppsögn. Skiptir þá ekki máli þótt starfsmennirnir séu farnir úr félaginu. Gerður samningur heldur gildi sínu út gildistíma sinn.
    Samningsumboð félagsins ræðst samkvæmt framansögðu af tvennu: Í fyrsta lagi er um að ræða fjölda starfsmanna fyrirtækisins að jafnaði og í öðru lagi hlutfall félagsmanna af starfsmönnum fyrirtækis þegar reynir á réttarstöðu vinnustaðarfélags. Félag, sem uppfyllir framangreind skilyrði, ber að öllu leyti réttindi og skyldur sem stéttarfélag samkvæmt lögum. Vinnustaðarfélag þarf vitaskuld að setja sér samþykktir með sama hætti og önnur stéttarfélög.
    Fyrirtæki skv. 3. mgr. telst hvers konar fyrirtæki eða stofnun sem hefur sjálfstæða og sameiginlega yfirstjórn. Er þá ekki gerður greinarmunur á atvinnurekendum. Ekki er átt við vinnustað eða vinnusvæði í landfræðilegri merkingu og hefur staðsetning vinnusvæðis eða einstakra starfsmanna enga þýðingu við mat á þessu skilyrði. Staða fyrirtækis — og þar með réttarstaða starfsmanna í vinnustaðarfélagi — að þessu leyti ræðst eingöngu af því hvert er raunverulegt form á eignarhaldi og stjórnun fyrirtækis eða stofnunar. Að því leyti væri hugtak eins og vinnustaður villandi en samsetningar, svo sem vinnustaðarfélag og vinnustaðarfyrirkomulag, hafa unnið sér nokkurn sess í þessu samhengi og eru lýsandi fyrir stöðu slíkra félaga sem stéttarfélaga sem bundin eru við einn og sama atvinnurekanda. Með skilyrðinu um sjálfstæða og sameiginlega yfirstjórn er stefnt að því að hugtakið fyrirtæki verði skilgreint fremur rúmt vegna kröfunnar um að þar starfi að jafnaði 250 starfsmenn. Hér er þannig gerð tillaga um að fyrirtæki sé skilgreint með hliðsjón af stjórnunarlegri stöðu þess. Úrslitum ræður hin sjálfstæða og sameiginlega stjórn sem mótar stefnuna innan ramma sem eigendur eða lög setja.
    Hlutafélög og eftir atvikum einkahlutafélög eru dæmigerð fyrirtæki í skilningi frumvarpsins, enda er stjórn slíkra félaga sjálfstæð og sameiginleg yfirstjórn. Skiptir þá ekki máli hvernig eignarhaldi á hlutum er háttað. Dótturhlutafélög teldust hins vegar sérstök fyrirtæki. Sama á við um aðra lögaðila þar sem stjórn eða eignaraðilar teldust sjálfstæð og sameiginleg yfirstjórn. Einstaklingar með svo umfangsmikinn atvinnurekstur sem getur í 3. mgr. eru fáir ef nokkrir hér á landi, en skilyrðið um sjálfstæða og sameiginlega yfirstjórn væri þá varla nokkrum vafa undirorpið.
    Sérhver tilraun af hálfu atvinnurekenda til þess að hafa áhrif á fyrrgreind skilyrði án þess að aðgerðir eigi sér málefnalega og rekstrarlega stoð gæti fallið undir 4. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að þrjár nýjar málsgreinar bætist við 5. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins (sem verður 2. mgr. 5. gr. laganna) er að finna reglur sem ætlað er að kveða skýrar á um umboð og fyrirsvar við gerð og samþykkt kjarasamnings en í 2. mgr. felst hins vegar sá fyrirvari að félagsmenn í samtökum atvinnurekenda og stéttarfélögum geta eftir sem áður hnekkt niðurstöðu samninganefndar sem kemur fram fyrir hönd þeirra við gerð kjarasamnings.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er mælt fyrir um hvað felist í umboði samninganefnda eða annarra fyrirsvarsmanna sem koma fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings hverju sinni. Tekur ákvæðið af vafa í því efni. Með samninganefnd í þessu sambandi er átt við hvers konar nefnd sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings og er kjörin eða skipuð til þess á lögmætan hátt, hvort sem hún er fastanefnd eða skipuð í hverju tilviki. Einnig getur ákvæðið um samninganefnd átt við stjórn samningsaðila. Með fyrirsvarsmanni er átt við einstaka fulltrúa samningsaðila sem eru kjörnir eða skipaðir á lögmætan hátt til þess að koma fram fyrir hönd samningsaðila á vinnumarkaði. Lögmætt fyrirsvar samkvæmt eigin skráðum reglum samningsaðila verður því ekki vefengt eftir á og er slík regla til þess fallin að skapa festu og eyða óvissu eins og fram kemur í almennum athugasemdum.
    Að gildandi lögum getur einnig leikið vafi á hvort heimilt sé að fela sameiginlegri samninganefnd samningsumboð samningsaðila. Í 2. málsl. 1. mgr. eru tekin af tvímæli um að samninganefnd samningsaðila getur ákveðið að fela sameiginlegri samninganefnd samningsumboð sitt samkvæmt lögum og þær heimildir sem því fylgja að lögum. Í ákvörðun um að fela sameiginlegri samninganefnd samningsumboð skv. 2. málsl. felst ekki sjálfkrafa ákvörðun um sameiginlega atkvæðagreiðslu skv. 3. málsl. Slík ákvörðun er tekin sérstaklega hverju sinni eftir því sem hentar að mati þeirrar samninganefndar sem á hverjum tíma kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, sbr. 1. og 2. málsl. 1. mgr.
    Orðalag 3. málsl. 1. mgr. vísar til þeirra réttaráhrifa að þegar lagaskilyrði eru uppfyllt hefur samninganefnd, sem á hverjum tíma kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, sbr. 1. eða 2. málsl. 1. mgr., heimild samkvæmt lögum til að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu. Slík ákvörðun getur bæði verið einhliða af hálfu viðkomandi samninganefndar annars samningsaðila eða sameiginleg niðurstaða beggja samningsaðila sem samið er um með kjarasamningi. Ákvæðið tekur jafnt til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna í samtökum atvinnurekenda samkvæmt atkvæðaskrá og til atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna stéttarfélags eða stéttarfélaga samkvæmt félagaskrá.
    Í 2. mgr. (sem verður 3. mgr. 5. gr. laganna) er sett sú regla að kjarasamningur, sem undirritaður er af samninganefnd, gildi frá undirskriftardegi ef ekki er öðruvísi um samið. Það er meginregla sem almennt hefur verið lögð til grundvallar kjarasamningum undanfarin ár. Þetta er þó háð því að samningurinn sé ekki felldur í leynilegri atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna þannig að gildistakan er í reynd skilyrt. Sé kjarasamningur felldur verður ekki byggður réttur á honum, hvorki fyrir þann tíma sem liðinn er né það sem á eftir fer. Er það í samræmi við þá reglu sem fylgt hefur verið.
    Til að auka réttaröryggi við framkvæmd kjarasamninga er ákveðið að ef kjarasamningur er ekki felldur innan tilgreinds frests sé hann endanlega bindandi fyrir báða aðila. Kjarasamningar eru sérstaks eðlis þar sem þeim er ætlað að gilda í skiptum fjölmargra og óvissa um gildi þeirra getur því haft afar óheppileg áhrif fyrir þá sem vilja byggja rétt á þeim. Raunar hefur komið fyrir að dómstólar hafi viðurkennt að tilteknir samningar væru ekki skuldbindandi sökum þess að atvinnurekendur höfðu látið undir höfuð leggjast að taka þá formlega til afgreiðslu og samþykktar. Við gerð síðustu almennra kjarasamninga (1995) varð það samkomulag að gildistökuákvæði þeirra væru eins og hér er gert ráð fyrir, þ.e. oftast að samningur skoðist samþykktur hafi gagnaðila ekki borist tilkynning um annað innan tiltekins frests frá undirritun. Því hefur verið hreyft að vafi kunni að leika á lögmæti ákvæða í heildarsamningum um slíkan afgreiðslumáta. Ástæða er til að taka af tvímæli um það að sá háttur sem landssambönd ASÍ og samtök atvinnurekenda hafa tekið upp varðandi gildistökuákvæði hafi örugga lagastoð. Með því er tryggt að grandlausir félagsmenn og aðrir sem byggja vilja rétt á kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, geti treyst því að þeir séu gildir hafi þeim ekki verið hafnað innan tiltekins tíma.
    Í greininni kemur enn fremur fram að til þess að fella löglega gerðan kjarasamning þurfi að vera um að ræða raunverulega andstöðu félagsmanna. Lítil þátttaka í fundum og afgreiðslu samninga er afar óheppileg og til þess fallin að grafa undan virku starfi samtaka á vinnumarkaði, ekki síst stéttarfélaga. Stjórnarmenn og trúnaðarmenn eru kjörnir með lýðræðislegum hætti og því verður að telja að félagsmenn megi almennt treysta því að kjarasamningar, sem fulltrúar launafólks gera fyrir þess hönd, endurspegli mat þeirra á því hvað sé besta möguleg niðurstaða samningaviðræðna. Til að hnekkja þessu mati kjörinna fulltrúa félaganna hljóti því að þurfa meira en örlítinn hluta félagsmanna. Á það hefur verið bent að ekki megi krefjast svo mikillar þátttöku að í reynd verði ómögulegt að fella kjarasamning sem samninganefnd hefur gert. Taka verður fullt tillit til þessara viðhorfa, enda er markmiðið ekki að torvelda starfsemi stéttarfélaga heldur að tryggja virkni og lágmarksþátttöku í mikilvægustu ákvörðunum. Þykir því ekki ósanngjarnt að áskilja að 20% félagsmanna þurfi til að fella gerðan kjarasamning. Þótt fimmtungur félagsmanna sé ekki hátt hlutfall kann það sjónarmið að vera uppi að erfiðara sé fyrir félagsmenn í stórum verkalýðsfélögum en þeim minni að hnekkja niðurstöðu samninganefndar með kröfum um lágmarkshlutfall mótatkvæða. Til að koma til móts við þessi sjónarmið og jafnframt til að örva enn frekar þátttöku félagsmanna í atkvæðagreiðslum um mikilvægustu mál er gert ráð fyrir að niðurstaða atkvæðagreiðslu gildi að jafnaði óháð hlutfalli mótatkvæða ef viðhöfð er svonefnd póstatkvæðagreiðsla. Um skilgreiningu á póstatkvæðagreiðslu er vísað til umfjöllunar í almennum athugasemdum með lagafrumvarpi þessu.
    Loks er í greininni kveðið á um það að ef kjarasamningur tekur einungis til hluta félagsmanna stéttarfélags eða til starfsmanna í einu fyrirtæki sé heimilt að ákveða í samningi að þeir einir skuli greiða atkvæði um hann sem eftir samningi vinna. Þetta getur einnig átt við um afmarkað starfssvið innan stéttarfélags þar sem gildir sjálfstæður kjarasamningur, svo og um afgreiðslu á sameiginlegum samningi fleiri félaga vegna félagsmanna þeirra á sama vinnustað. Má í þessu sambandi t.d. minna á nýlegt samkomulag þeirra stéttarfélaga sem standa að samningum fyrir starfsmenn ÍSALs, en þar er miðað við sameiginlega atkvæðagreiðslu í fyrirtækinu um samningamál. Við þessar aðstæður þykir ekki þörf á sérstökum frávikum frá lágmarkshlutfalli mótatkvæða, svo sem vegna póstatkvæðagreiðslu. Á hinn bóginn þykir eðlilegt að gera ríkari kröfur til lágmarkshlutfalls mótatkvæða gegn gerðum samningi þar sem auðvelt er að koma á leynilegri atkvæðagreiðslu meðal allra starfsmanna eða tiltekins félags starfsmanna, þ.e. þriðjung allra atkvæða þarf til að fella gerðan samning.
    Í 3. mgr. (sem verður 4. mgr. 5. gr. laganna) er lagt til að tekinn verði af allur vafi um að samningsaðilum sé skylt að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða kjarasamninga. Í almennum athugasemdum er fjallað nánar um inntak skyldna beggja samningsaðila kjarasamnings gagnvart gagnaðila. Samkvæmt því er lögfest athafnarskylda þannig að samningsaðila er skylt að stuðla beinlínis að því að samningar séu virtir. Ekki er nægilegt að samningsaðili hafi ekki stuðlað beinlínis að samningsrofi til þess að fría hann ábyrgð á (sameiginlegu) samningsrofi. Í því felst ákveðin skylda til aðgerða ef ástæða er til að ætla að athafnir félagsmanna, hvort heldur er hópa eða einstaklinga, brjóti gegn ákvæðum kjarasamninga eða friðarskyldu sem menn eru bundnir samkvæmt þeim. Samningsaðila eða samtökum þeirra ber þá, svo dæmi sé tekið, að upplýsa hlutaðeigandi félagsmenn um samningsskuldbindingar sínar, skora á þá að sinna vinnuskyldu sinni eða stuðla með öðrum hætti að því að samningurinn sé virtur. Ákvæðið tekur til allra samninga milli samningsaðila á vinnumarkaði. Ætlast er til að rúm lögskýring sé ráðandi við skýringu þessa ákvæðis enda taki það t.d. til eiginlegra kjarasamninga, rammasamninga og viðræðuáætlunar samkvæmt frumvarpi þessu. Um ábyrgð í tengslum við þessa skyldu er fjallað í 3. gr. frumvarpsins (sem verður 2. mgr. 8. gr. laganna).

Um 3. gr.

    Eins og fyrr greinir er samningsaðila skylt að stuðla að því að samningar séu hafðir í heiðri. Um ábyrgð atvinnurekenda fer þá eftir almennum reglum, en í 8. gr. laganna er fjallað um ábyrgð stéttarfélaga. Tekin eru af tvímæli um þessar efnislegu skyldur samningsaðila í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins (sem verður 4. mgr. 5. gr. laganna). Í 5. gr. frumvarpsins (sem verður 19. gr. laganna) er ný regla um að aðgerðir, sem samningsaðili á ekki aðild að, geti talist ólögmætar ef þær eru sambærilegar vinnustöðvunum samkvæmt skilgreiningu og dæmatalningu þar um.
    Í 3. gr. frumvarpsins (sem verður 2. mgr. 8. gr. laganna) er lagt til að ný málsgrein bætist við 8. gr. laganna. Þar er vikið að formlegum atriðum að því er varðar ábyrgð ófélagsbundinna og einstakra félagsmanna vegna aðgerða sem heyra undir samskipti á vinnumarkaði samkvæmt lögunum, svo breyttum. Um efnisatriði er fjallað í skýringum við 10. gr. frumvarpsins. Um leið og sýnt er fram á þátt samningsaðila í aðgerð sem hér um ræðir fellur einstaklingsbundin ábyrgð brott að því leyti — jafnvel þótt aðeins sé um beint athafnarleysisbrot samningsaðila að ræða. Í fyrri málslið felst engin efnisbreyting. Aðeins er áréttað að rof ófélagsbundinna launamanna á ráðningarsamningi varðar hann ábyrgð samkvæmt almennum reglum. Reglur vinnumarkaðsréttar eiga ekki beinlínis við. Sama á við um aðgerðir ófélagsbundinna atvinnurekenda á kjarasamningum og ráðningarsamningum sem ekki teljast til lögmætra verkbanna. Félagsdómur getur þó dæmt um slík mál, sbr. niðurlag 1. mgr. 45. gr. laganna. Því þykir rétt að árétta hér að launamenn geta einnig verið utan félaga og er þá kveðið á um aðild þeirra hér, enda geta þeir ekki notið verndar stéttarfélaga í þessu efni.

Um 4. gr.

    Formkröfum til þess að standa að boðun lögmætrar vinnustöðvunar er breytt töluvert frá gildandi lögum í 4. gr. frumvarpsins (15. gr. laganna). Er þar m.a. horft til reynslu af lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og þess að æskilegt sé að ekki gildi í grundvallaratriðum ólíkar réttarreglur um boðun vinnustöðvunar á mismunandi sviðum vinnumarkaðarins. Því er valin sú leið að gera það að ótvíræðri aðalreglu að vinnustöðvun sé aðeins boðuð að fengnu samþykki félagsmanna í leynilegri allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna.
    Samkvæmt gildandi lögum er það skilyrði vinnustöðvunar meðal opinberra starfsmanna að minnsta kosti helmingur félagsmanna sem eiga í hlut hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra samþykkt vinnustöðvun. Samkvæmt því þarf í reynd a.m.k. fjórðungur félagsmanna að samþykkja vinnustöðvun. Þótt margt mæli með því að láta sömu viðmiðun gilda á öllum vinnumarkaðnum þykir óvarlegt að ganga svo langt á einkamarkaði. Því veldur m.a. að dreifing félagsmanna stéttarfélaga á vinnustaði er stórum meiri en meðal opinberra starfsmanna. Aðstaða félaganna til að nálgast félagsmenn er ekki eins góð. Af þeim ástæðum er lagt til að einungis sé gerð krafa um fimmtungs þátttöku og meirihlutastuðning þeirra sem greiða atkvæði. Þetta þýðir að minnsti mögulegur stuðningur fyrir lögmætu verkfalli þarf að vera 10% félagsmanna samanborið við 25% meðal opinberra starfsmanna.
    Fram hefur komið gagnrýni á það hversu fáir koma að afgreiðslu samninga og að ákvörðun um verkbönn í samtökum atvinnurekenda. Þar hafa tiltölulega fámennar stjórnir farið með allt vald í þessu efni og verið taldar jafngilda trúnaðarmannaráðum stéttarfélaga með hliðstæðar heimildir til boðunar vinnustöðvana. Frumvarpinu er m.a. ætlað að breyta þessari skipan. Samkvæmt því þarf að bera meiri háttar ákvarðanir undir atkvæði samkvæmt atkvæðaskrám hlutaðeigandi samtaka. Þetta er hliðstæður háttur og hafður er á í Danmörku þar sem samtök atvinnurekenda þurfa að taka afstöðu til miðlunartillagna samkvæmt atkvæðaskrá sem gildir á aðalfundi hlutaðeigandi samtaka.
    Markmið þessara reglna er að tryggja að raunverulegur stuðningur sé við svo mikilvæga ákvörðun sem boðun vinnustöðvunar er. Ekki er ætlunin að torvelda félögum boðun vinnustöðvana heldur að tryggja lýðræðislega umfjöllun um slíka tillögu. Því marki má ná með öðrum hætti svo að ekki sé þörf á að krefjast tiltekinnar lágmarksþátttöku, þ.e. með almennri leynilegri póstatkvæðagreiðslu um tillöguna þar sem kjörgögn eru send öllum atkvæðisbærum félagsmönnum til síns heima. Sé sá háttur á hafður er ekki gert ráð fyrir lágmarksþátttöku skv. 1. mgr.
    Ef vinnustöðvun er eingöngu ætlað að taka til hluta félagsmanna eða eins fyrirtækis er skv. 2. mgr. heimilt að taka ákvörðun þar um með atkvæðagreiðslu hlutaðeigandi félagsmanna. Þá eru aðstæður orðnar fullkomlega sambærilegar við það sem gerist meðal opinberra starfsmanna og því eðlilegt að krefjast sömu þátttöku og þar í atkvæðagreiðslu og sama stuðnings — óháð tilhögun atkvæðagreiðslu.
    Í 3. mgr. er staðfest það meginsjónarmið að vinnustöðvun sé neyðarúrræði þess sem ekki hefur að eigin mati fengið viðhlítandi viðbrögð við kröfum sínum. Það er því formbundið sem skilyrði lögmætrar ákvörðunar vinnustöðvunar að kröfur hafi komið skýrt fram og að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar. Þá er þess krafist að deiluaðili, sem leita vill ákvörðunar um vinnustöðvun, hafi reynt til þrautar að ná samningi og í því skyni leitað milligöngu sáttasemjara. Við það er miðað að sáttasemjara hafi gefist tækifæri til að kalla deiluaðila saman og freistað þess að ná sáttum áður en leitað er eftir því við félagsmenn að boða til vinnustöðvunar. Þá fyrst eiga þeir þess kost að meta hvort árangur hafi náðst í viðræðum sem þeir sætti sig við eða hvort þeir telji rétt að þrýsta á um frekari framgang krafna sinna. Vert er að árétta að mat á því hvenær sáttatilraunir eru fullreyndar hlýtur að vera hjá samninganefnd þess sem leitar eftir ákvörðun um vinnustöðvun.
    Í gildandi lögum eru engin bein ákvæði um heimildir samninganefnda til að aflýsa eða fresta vinnustöðvun. Rétt þykir að taka af tvímæli um þetta efni. Er því í 4. mgr. tekin upp sú regla að samninganefnd hafi jafnan heimild til að aflýsa verkfalli. Frestun verkfalls er í raun aflýsing og boðun annars verkfalls. Því hefur það verið viðurkennd regla í samskiptum á almennum vinnumarkaði að til að fresta verkfalli þurfi samþykki gagnaðila. Sama gildir um frestun og afboðun verkbanns. Í lögum um samninga opinberra starfsmanna er engin frestunarheimild og þykir það óheppilegt. Á hinn bóginn er mikilvægt að sú heimild til frestunar sé ekki svo rúm að ákvörðun um vinnustöðvun hafi ekki á sér þann raunveruleikablæ sem nauðsynlegur er. Því er miðað við að samninganefnd hafi heimild til að fresta boðaðri vinnustöðvun um allt að 14 sólarhringa samtals án samþykkis gagnaðila. Þótt í raun megi oft ætla að boðun vinnustöðvunar ein sér valdi mikilli röskun og því eðlilegt að gagnaðili hafi um það að segja hvort hann sætti sig við einhliða frestun vinnustöðvunar þykir rétt að gefa boðanda færi á að fresta boðaðri vinnustöðvun. Þegar mjög skammur tími er til þess að vinnustöðvun skellur á kann hins vegar að hátta svo til að frestun hafi fyrst og fremst þau áhrif að firra boðanda aðgerða tjóni. Því þykir rétt að binda heimild til einhliða frestunar því skilyrði að frestunin sé kynnt viðsemjanda með minnst eins sólarhrings fyrirvara.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að ný grein bætist við lögin sem verði 19. gr. þeirra. Í henni er hugtakið vinnustöðvun í skilningi laganna skilgreint. Til þess að um verkfall sé að ræða þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt: Annars vegar að launamenn hafi lagt niður venjubundna vinnu sína að einhverju eða öllu leyti og hins vegar að tilgangurinn sé að ná fram sameiginlegu markmiði. Fjöldauppsagnir og aðrar sambærilegar aðgerðir, hvort heldur er af hálfu atvinnurekenda eða launamanna, sem jafna má til vinnustöðvana, teljast einnig til vinnustöðvana, svo og verkbönn atvinnurekenda. Það á við um allar vinnustöðvanir sem gerðar eru á félagslegum grunni til að ná fram sameiginlegu markmiði, hvort heldur er af stéttarfélagi, starfsmönnum sjálfum eða atvinnurekendum. Aðgerðir, svo sem verkbönn, verkföll, yfirvinnubönn, hægagangur, ráðningarbönn og fjöldauppsagnir, teljast því til vinnustöðvana í skilningi laganna séu þær gerðar í sameiginlegum tilgangi. Aðeins er hér um auðkennatalningu að ræða enda ekki unnt að telja upp með tæmandi hætti hvaða aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launafólks geta flokkast undir rof á friðarskyldu sem jafna má til eiginlegrar vinnustöðvunar.
    Byggt er á þeirri skilgreiningu sem lögð hefur verið til grundvallar samkvæmt gildandi lögum að öðru leyti en því sem varðar aðild stéttarfélags. Er hér lagt til að þátttaka þess verði ekki lengur hugtaksskilyrði þar sem eðlilegt er að vinnustöðvanir, sem gerðar eru í sameiginlegum tilgangi, oftast til að knýja á um kaup og kjör, skoðist sem vinnustöðvanir í skilningi laganna hvort sem stéttarfélag á sannanlega aðild að þeim eða ekki. Er það í fullu samræmi við þær reglur sem gilda í nágrannalöndum okkar. Samkvæmt dönskum rétti telst það verkfall þegar hópur launamanna leggur sameiginlega niður störf til að ná sameiginlegu markmiði. Slík skilgreining hefur ekki verið lögð til grundvallar samvæmt íslenskum lögum. Bæði lög um stéttarfélög og vinnudeilur og lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna eru túlkuð þannig að einungis þær vinnustöðvanir, sem stéttarfélög eiga sannanlega aðild að, teljast verkfall í skilningi þeirra. Þessi skilningur er til þess fallinn að leiða til misbeitingar þar sem kleift er að sniðganga reglur laganna um vinnustöðvanir, hvort heldur um er að ræða friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings eða boðun vinnustöðvunar, með því að stéttarfélög eigi ekki aðild að aðgerðum svo sannanlegt sé. Þá hefur einnig verið á það bent að óánægja með þá skipan sem lögin ákveða leiði til þess að menn leiti annarra leiða til að þrýsta á um kröfur sínar, svo sem hópuppsagna.
    Nauðsynlegt er því að kveða á um það í löggjöf með ótvíræðum hætti að vinnustöðvun í skilningi laganna taki til aðgerða sem jafna má til vinnustöðvunar án tillits til þess hver á aðild að þeim.
    Engin breyting er gerð hvað varðar heimild til að ákveða verkfall. Sú heimild er áfram í höndum stéttarfélaga einna. Til þess að verkfall sé lögmætt er gerð krafa um að ákvörðun sé tekin á lögmætan hátt og að það sé löglega boðað, enda sé friðarskylda því ekki til fyrirstöðu.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er gert ráð fyrir að öll helstu efnisákvæði laga um sáttastörf í vinnudeilum, nr. 33/1978, verði tekin upp í nýjan III. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur, nr. 80/1938, með síðari breytingum. Þar sem sáttastörf í vinnudeilum tengjast beint og óbeint ákvæðum laganna er rökrétt að ákvæði á þessu sviði sé að finna í sömu lögum en ekki tvennum lagabálkum. Inniheldur kaflinn alls 18 greinar. Reglur kaflans gilda um önnur svið vinnumarkaðar með sama hætti og lög nr. 33/1978 hafa gert.

    Um a-lið (20. gr.).
    Við lögin bætist ný 20. gr. sem er sama efnis og 1. gr. laga um sáttastörf í vinnudeilum, nr. 33/1978. Þó er fellt brott niðurlagsákvæði 5. mgr. greinarinnar, enda ætti slíkt undanþáguákvæði að taka til fleiri ef það ætti rétt á sér. Meginefni 3. gr. sömu laga er tekið upp í 5. mgr.

    Um b-lið (21. gr.).
    Við lögin bætist ný 21. gr. sem er sama efnis og 2. gr. laga nr. 33/1978.

    Um c-lið (22. gr.).
    Við lögin bætist ný 22. gr. sem er sama efnis og 4. gr. laga nr. 33/1978 en orðalagi er þó lítillega breytt.

    Um d-lið (23. gr.)
    Við lögin bætist ný 23. gr., en reglur sem þar koma fram er ekki að finna í gildandi lögum.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að atvinnurekendur eða samtök þeirra og stéttarfélög skuli gera áætlun um fyrirkomulag viðræðna um gerð kjarasamninga, svonefnda viðræðuáætlun. Tekið er fram með ótvíræðum hætti að heimilt er að veita landssamböndum eða heildarsamtökum sérstakt umboð til að gera viðræðuáætlun fyrir hönd einstakra félaga. Skylt er að senda slíka viðræðuáætlun, staðfesta af aðilum, þegar í stað til ríkissáttasemjara.
    Samkvæmt 2. mgr. er gert ráð fyrir að viðræðuáætlun liggi fyrir eigi síðar en 10 vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Ef tilteknir samningsaðilar hafa þá ekki gert viðræðuáætlun hvílir sú skylda á ríkissáttasemjara, vararíkissáttasemjara eða aðstoðarsáttasemjara að grípa inn í og gera slíka bindandi viðræðuáætlun fyrir aðila. Skal slíkt gert í síðasta lagi átta vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Aðrar viðræðuáætlanir, sem þá kunna að hafa verið gerðar, skulu við þessar aðstæður hafðar til hliðsjónar.


    Um e-lið (24. gr.).
    Við lögin bætist ný 24. gr. sem er í meginatriðum samhljóða 5. gr. laga nr. 33/1978, en bætt er við ákvæði er varðar framkvæmd viðræðuáætlunar. Ríkissáttasemjari getur kallað til aðstoðarsáttasemjara, einn eða fleiri, sbr. 4. mgr. a-liðar 6. gr. frumvarpsins (sem verður 20. gr. laganna), við þessar aðstæður, sérstaklega ef margir samningar eru lausir á sama tíma. Taka verður tillit til þessara aðstæðna ríkissáttasemjara við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni og aukins kostnaðar sem af þessu kann að leiða.
    
    Um f-lið (25. gr.).
    Við lögin bætist ný 25. gr. sem er samhljóða 6. gr. og lokamálsgrein 5. gr. laga nr. 33/1978.

    Um g-lið (26. gr.).
    Við lögin bætist ný 26. gr. sem er samhljóða 7. gr. laga nr. 33/1978.


    Um h-lið (27. gr.).
    Við lögin bætist ný 27. gr. Fyrri málsgreinin er samhljóða 8. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum. Síðari málsgreinin er sama efnis og 2. mgr. 9. gr. sömu laga að viðbættum orðum um það ef ágreiningur snertir aðeins tiltekið fyrirtæki. Rétt þykir að hafa það ákvæði í grein þessari með hinni almennu heimild til að setja fram miðlunartillögu, enda fjallar i-liður 6. gr. frumvarpsins (sem verður 28. gr. laganna) einungis um sameiginlegar miðlunartillögur.
    
    Um i-lið (28. gr.).
    Við lögin bætist ný 28. gr. Þar er fjallað um heimild sáttasemjara til þess að leggja fram eina sameiginlega miðlunartillögu eða fleiri til lausnar vinnudeilu ef hann telur hana til þess fallna að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Réttaráhrifin verða þau sömu og að gildandi lögum, þ.e. að sameiginlegt atkvæðamagn þeirra hópa sem tillagan nær til ræður úrslitum um samþykkt eða synjun sameiginlegrar miðlunartillögu. Ákvæðið kemur í stað 3. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978. Ákvæði 4. mgr. 9. gr. sömu laga fellur brott eins og lagt er til í áfangaskýrslu vinnuhóps félagsmálaráðherra um samskiptareglur á vinnumarkaði. Ákvæði 1. og 5. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978 eru flutt efnislega óbreytt í 3. mgr. j-liðar 6. gr. frumvarpsins (sem verður 29. gr. laganna) þar sem þau eiga betur heima, sbr. athugasemdir við j-lið 6. gr. frumvarpsins. Einnig er rétt að árétta að heimildum sáttasemjara til þess að leggja fram miðlunartillögu skv. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978 er ekki raskað, en þau ákvæði er nú að finna lítið breytt í h-lið 6. gr. frumvarpsins (sem verður 27. gr. laganna). Ástæða er til að taka fram að skýrari ákvæði í greininni fela í sér heldur þrengri heimildir sáttasemjara til að setja fram sameiginlega miðlunartillögu en hann hefur að gildandi lögum.
    Formskilyrðin fyrir sameiginlegri miðlunartillögu eru í greininni talin upp með tæmandi hætti í fimm stafliðum:
    Í fyrsta skilyrðinu (a-lið) er vikið að réttaráhrifum viðræðuáætlunar. Samkvæmt gildandi lögum eru engin formleg takmörk fyrir því við hvaða skilyrði sáttasemjari getur tengt saman lausnir mismunandi deilna með einni sameiginlegri miðlunartillögu. Í gildandi lögum er ekki skilyrði að viðræður hafi farið fram milli aðila. Úr þessu er bætt og sett það skilyrði að áður en sáttasemjari fellir hópa undir sameiginlega miðlunartillögu verði að vera tryggt að þeir hafi fengið tækifæri til eiginlegra og efnislegra viðræðna um framlagðar kröfur hvors aðila við sinn viðsemjanda, þar á meðal um sérmál, en sú trygging er ekki fyrir hendi í gildandi lögum. Að sjálfsögðu getur aðili að vinnudeilu ekki með tómlæti sínu í þessu efni komið í veg fyrir að sáttasemjari leggi fram miðlunartillögu. Því er settur fyrirvari um að nægilegt sé að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun. Þetta skilyrði er auðsannað, sbr. 3. mgr. f-liðar 6. gr. frumvarpsins (sem verður 25. gr. laganna) þar sem kveðið er á um framlagningu skjala. Þannig er tryggður réttur og um leið skylda hvers samningsaðila til þess að semja um sín sérmál. Er slík trygging í lögum í samræmi við álit nefndar stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi, en samkvæmt áliti hennar (mál nr. 1768) er það meginregla að jafnt atvinnurekendur og stéttarfélög skuli ganga til samninga í góðri trú og leggja sig fram um að ná samningi.
    Í öðru skilyrðinu (b-lið) er ætlast til þess að viðræðutími samkvæmt tiltekinni tímasetningu í útgefinni viðræðuáætlun sé liðinn. Er um að ræða hlutlægt skilyrði sem ekki er komið undir mati eða umfangsmikilli sönnun. Viðræðum þarf hins vegar ekki að vera lokið, enda væri þar um að ræða of matskennt skilyrði.
    Með þriðja skilyrðinu (c-lið) er átt við að tilraun til sátta með aðstoð sáttasemjara hafi verið reynd. Auðvelt er að sannreyna það, en síðara skilyrðið um horfur á samkomulagi er vitaskuld háð mati sáttasemjara.
    Í fjórða skilyrðinu (d-lið) kemur fram að ekki sé heimilt að leggja fram miðlunartillögu um leið og gildandi kjarasamningar renna út og friðarskyldu lýkur. Er það augljóst skilyrði og ekki háð miklu mati.
    Í fimmta skilyrðinu (e-lið) er kveðið á um að öllum sem telja sig málið varða er heimilt að koma á framfæri athugasemdum við áform sáttasemjara um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu. Gert er ráð fyrir að á því stigi kynni sáttasemjari slík áform sín opinberlega með hæfilegum fyrirvara. Slík yfirlýsing sáttasemjara bindur þó ekki hendur hans í neinu tilliti. Aðilar á vinnumarkaði, sem telja sig hafa hagsmuna að gæta í þessu sambandi, bera sjálfir ábyrgð á því að athugasemdir þeirra komist til skila. Ágreiningur um það hefur þó ekki áhrif á hvort skilyrðið teljist uppfyllt.
    Í lokamálslið 1. mgr. er tekið skýrt fram að sáttasemjari geti ekki látið úrslit sameiginlegrar miðlunartillögu ná til aðila á almennum vinnumarkaði og aðila sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til. Þótt sáttasemjari meti og ákveði hvort hann kýs að láta setja fram sameiginlega miðlunartillögu í deilum fleiri félaga eða hópa er heimild hans bundin skilyrðum og takmörkunum. Þannig er honum eins og áður greinir óheimilt að fella saman atkvæðagreiðslu um sameiginlega miðlunartillögu fyrir félög sem falla undir almenn ákvæði laga nr. 80/1938 og þau sem falla undir lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Það er í samræmi við ríkjandi viðhorf og í samræmi við það sem tíðkast í Danmörku. Sáttasemjari getur því samtímis lagt fram samkynja miðlunartillögu en slíkar tillögur fara ekki undir sameiginlega atkvæðagreiðslu á almennum vinnumarkaði og opinberum vinnumarkaði.
    Með 2. mgr. er sáttasemjara falið frjálst mat á því hve víðtæk sameiginleg miðlunartillaga skuli vera, sbr. þó 3. mgr. Getur hann þá valið á milli þess að sameiginleg miðlunartillaga nái aðeins til fárra hópa eða deilda eða hvort miðlunartillaga skuli vera sameiginleg fyrir tiltekin svið eða stóra hópa. Loks getur miðlunartillaga náð til allra hópa sem eru með lausa samninga eins og gjarnan er gert í Danmörku til þess að stuðla að friðsamlegri samtímalausn kjaramála. Meðferð hins frjálsa mats mundi ráðast af framkvæmd af hálfu sáttasemjara í samráði við aðila vinnumarkaðarins og má í því efni líta til danskra fyrirmynda. Aðilar á vinnumarkaði geta í því sambandi beint því til sáttasemjara að efni niðurstöðu samninganefnda þeirra verði tekið upp í miðlunartillögu eða að hún verði miðuð við nýgerða kjarasamninga.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að allir samningsaðilar, stéttarfélag og atvinnurekendur eða samtök þeirra, geti sjálfir afmarkað til hvaða samningssviða innan sinna vébanda sameiginleg miðlunartillaga geti tekið. Í Danmörku er t.d. samkomulag um að skipta vinnumarkaði í tilgreind svið sem ekki verði tengd saman, eitt eða fleiri, við sameiginlega afgreiðslu á miðlunartillögu sem taki til fleiri samningssviða. Ekki er við því að búast að verklag við gerð kjarasamninga breytist í einu vetfangi og verður því að miða við að samningsaðilar þrói sjálfir á næstu árum grunnreglur um gerð viðræðuáætlana og viðhorf til þess hvernig heimildum III. kafla laganna, svo breyttra, verði í reynd beitt. Árétta ber að takmörkunarheimild samningsaðila skv. 3. mgr. á valdi sáttasemjara í þessu efni verður aðeins beitt ef um það er samið milli aðila — í viðræðuáætlun. Hér gildir því hinn almenni frestur til að gera viðræðuáætlun, þ.e. 10 vikum áður en kjarasamningar aðila eru lausir. Eftir þann tíma verður vald sáttasemjara ekki takmarkað af aðilum. Fulltrúar samningsaðila, sem hafa fengið framselda heimild til að gera viðræðuáætlun, sbr. 2. málsl. 1. mgr. d-liðar 6. gr. frumvarpsins (sem verður 23. gr. laganna), geta nýtt þessa heimild til takmörkunar á sameiginlegri miðlun í meira eða minna mæli. Slíkt samkomulag aðila verður að sjálfsögðu aðeins gert hverju sinni í viðræðuáætlun fyrir næstu samninga, enda endurnýjast viðræðuáætlun samkvæmt lögunum aldrei heldur er hún bundin við næstu endurnýjun samninga. Hún telst því ekki kjarasamningur í þeim skilningi að hún endurnýist eins og kjarasamningar milli aðila. Það er því mat samningsaðila sjálfra hverju sinni hvort ástæða er til að takmarka vald sáttasemjara en það mat ræðst af aðstæðum.

    Um j-lið (29. gr.).
     Við lögin bætist ný 29. gr., en í henni er fjallað um kynningu á og atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara og er þar að finna nýja reglu auk óbreyttra eldri ákvæða. Ákvæðið á jafnt við um h-lið 6. gr. frumvarpsins (sem verður 27. gr. laganna) og miðlunartillögu í tilefni af einstakri vinnudeilu og um sameiginlega miðlunartillögu samkvæmt heimildum i-liðar 6. gr. frumvarpsins (sem verður 28. gr. laganna).
    Í 1. mgr. er skýrð réttarstaða aðila við kynningu miðlunartillögu sáttasemjara vegna atkvæðagreiðslu um hana.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er að finna ákvæði sem nú eru í 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.
    Bent hefur verið á þá erfiðleika sem tengjast því að enginn kynnir og skýrir út miðlunartillögu. Í gildandi lögum er sú regla að sjálfur texti miðlunartillögunnar í heild sinni skuli birtur félagsmönnum við atkvæðagreiðslu. Sambærilegt ákvæði er í dönskum lögum um sáttastörf í vinnudeilum. Aðila vinnudeilu er óheimilt samkvæmt dönskum lögum að vinna útdrátt úr miðlunartillögu fyrir félagsmenn sína. Samkvæmt frumvarpinu er ekki gengið svo langt. Þvert á móti er slíkt beinlínis heimilað en verður þó að gerast í samráði við sáttasemjara. Því er í 2. málsl. 1. mgr. tekin upp sérstök heimild fyrir sáttasemjara til þess að gera útdrátt úr miðlunartillögu sem hann hefur lagt fram til þess að auðvelda félagsmönnum samtaka atvinnurekenda og launafólks að taka málefnalega afstöðu til miðlunartillögu og áhrifa hennar á hag þeirra og afkomu. Áður en heimildin er nýtt skal hafa samráð við aðila vinnudeilu. Eins og fyrr greinir á reglan einnig við um sameiginlega miðlunartillögu samkvæmt heimildum i-liðar 6. gr. þessa frumvarps (sem verður 28. gr. laganna). Í því sambandi skal tekið fram að útdrættir sáttasemjara geta verið margir og geta því haft mismunandi áherslur eftir því hvernig sameiginleg miðlunartillaga snertir hagsmuni hvers einstaks hóps eða jafnvel deildar innan stéttarfélags sem miðlunartillaga tekur til. Þá er hægt að fjalla sérstaklega um þau atriði sem snerta tiltekna hópa launamanna beint.
    Aðila vinnudeilu er skv. 3. málsl. 1. mgr. heimilt að vinna útdrátt úr miðlunartillögu fyrir félagsmenn sína í samráði við sáttasemjara.
    Regla, sem nú er í 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. gildandi laga, er hér tekin upp óbreytt í 4. málsl. 1. mgr.
    Í 2. mgr. er tekið upp óbreytt ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.
    Í 3. mgr. er safnað saman öllum ákvæðum um tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu og eru beinar lagaheimildir ríkissáttasemjara í því efni auknar eins og fjallað var um í almennum athugasemdum.
    Í 1. málsl. 3. mgr. kemur fram meginreglan um tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sem er í fullu samræmi við framkvæmd atkvæðagreiðslu hingað til.
    Í 2. málsl. 3. mgr. er hins vegar ákvæði sem felur í sér tilbrigði við meginregluna en ekki sjálfstæða tilhögun atkvæðagreiðslu. Auk kjörfundaratkvæðagreiðslu er ríkissáttasemjara heimilað að efna til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á tilteknum stöðum eða svæðum. Er þá unnt að nýta hvers konar tækni til utankjörfundaratkvæðagreiðslu hvar sem er í lögsögu íslenska ríkisins án þess að öllum félagsmönnum, sem miðlunartillagan tekur til, sé gert að mæta á kjörfund. Gæti þetta tilbrigði t.d. átt við um bifreiðarstjóra og sjómenn. Sem dæmi má nefna að bréfsími eða tölvutækni sé notuð í þessu sambandi. Þó verður að árétta að ávallt gildir í hvívetna sú grunnregla 5. málsl. 3. mgr. um að atkvæðagreiðsla skuli vera skrifleg og leynileg. Því verður að tryggja að hæfur aðili, svo sem sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans eða skipstjóri, sé tilnefndur hverju sinni af ríkissáttasemjara til þess að votta að atkvæðisbær félagsmaður hafi gert grein fyrir sér og greitt leynilega atkvæði að honum nærstöddum á til þess gerða ómerkta atkvæðaseðla. Atkvæðin eru síðan send nafnlaus með tiltækri tækni á skrifstofu ríkissáttasemjara sem sér um að þau fari strax í kjörkassa þegar sannreynt hefur verið að atkvæðin séu send frá til þess bærum aðila. Fulltrúum aðila vinnudeilu er heimilt að vera við atkvæðagreiðslu og talningu atkvæða eftir því sem við verður komið á eigin kostnað og ábyrgð svo sem almennt tíðkast í lýðræðislegum í kosningum, sbr. niðurlag k-liðar 6. gr. frumvarpsins (sem verður 30. gr. laganna).
    Í 3. málsl. 3. mgr. er nýtt ákvæði sem heimilar ríkissáttasemjara að ákveða að atkvæðagreiðsla skuli fara fram með almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðila vinnudeilu, sem miðlunartillaga tekur til, í stað meginreglunnar um atkvæðagreiðslu á kjörfundi og eftir atvikum utan kjörfundar eins og fyrr greinir. Ekki er um að ræða undantekningarákvæði heldur frávik í þeim skilningi að ríkissáttasemjari getur valið að fara þessa leið þegar honum þykir það henta. Kostnaður við almenna póstatkvæðagreiðslu um miðlunartillögu yrði greiddur af ríkinu og bókfærður hjá embætti ríkissáttasemjara og felst því jafnframt í ákvæðinu efnisleg lagaheimild fyrir ríkissáttasemjara til að efna til slíks kostnaðar sem greiddur yrði samkvæmt fjárlögum ríkisins. Póstatkvæðagreiðslan er að sjálfsögðu leynileg og skrifleg í samræmi við grunnreglu 5. málsl. 3. mgr. Að þessum þætti verður því að huga við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni í ljósi þeirrar reynslu sem skapast.
    Í 4. málsl. 3. mgr. er almenn heimild ríkissáttasemjara til þess að setja nánari fyrirmæli um tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu og er hún efnislega sú sama og fram kemur í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978. Ákvæðið gildir um kjörfundaratkvæðagreiðslu og eftir atvikum utankjörfundaratkvæðagreiðslu jafnt sem um almenna póstatkvæðagreiðslu innan þess ramma sem fyrrgreind ákvæði setja.
    Í 5. málsl. 3. mgr. er tekin upp óbreytt grunnreglan um skriflega og leynilega atkvæðagreiðslu sem nú er í 5. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978.

    Um k-lið (30. gr.).
    Við lögin bætist ný 30. gr. sem er samhljóða 11. gr. laga nr. 33/1978.

    Um l-lið (31. gr.).
    Við lögin bætist ný 31. gr. sem felur í sér töluverða efnisbreytingu og einföldun á reglu 12. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, sem fjallar um úrslit atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Gerð er sú tillaga að bæði þurfi meiri hluta greiddra atkvæða og þriðjung atkvæða samkvæmt atkvæða- og félagaskrá til þess að fella miðlunartillögu. Um rökstuðning fyrir breytingunni vísast til almennra athugasemda.

    Um m-lið (32. gr.).
    Við lögin bætist ný 32. gr. sem er samhljóða 13. gr. laga nr. 33/1978.

    Um n-lið (33. gr.).
    Við lögin bætist ný 33. gr. sem er samhljóða 14. gr. laga nr. 33/1978.

    Um o-lið (34. gr.).
    Við lögin bætist ný 34. gr. sem er samhljóða 15. gr. laga nr. 33/1978.

    Um p-lið (35. gr.).
    Við lögin bætist ný 35. gr. sem er efnislega samhljóða 16. gr. laga nr. 33/1978.

    Um q-lið (36. gr.).
    Við lögin bætist ný 36. gr. sem er samhljóða 17. gr. laga nr. 33/1978.

    Um r-lið (37. gr.).
    Við lögin bætist ný 37. gr. sem er samhljóða 18. gr. laga nr. 33/1978.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. 39. gr. laganna er tekið upp heitið Vinnuveitendasamband Íslands í stað Vinnuveitendafélag Íslands og orðið félagsmálaráðherra í stað atvinnumálaráðherra.
    Bætt er við nýjum 3. málsl. í 1. mgr. í samræmi við úrskurð Félagsdóms frá 10. október 1994 í máli nr. 11/1994, sbr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með því verður ljóst að jafnræði er um rétt aðila á vinnumarkaði að því er varðar skipun eða tilnefningu dómara. Stéttarfélag á almennum vinnumarkaði, sem er utan landssambands eða heildarsamtaka, getur samkvæmt þessu tilnefnt dómara þegar það er málsaðili. Samkvæmt orðalagi gildandi ákvæðis hafa einungis ófélagsbundnir atvinnurekendur þennan rétt, sem og stéttarfélög utan heildarsamtaka samkvæmt lögum nr. 94/1986. Breytingin er í samræmi við ríkjandi hæfissjónarmið sem meiri hluti Félagsdóms hefur staðfest, auk þess sem líta má á regluna sem staðfestingu réttar stéttarfélaga til þess að vera utan sambanda og samtaka.
    2. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í 3. mgr. er heitið Samtök iðnaðarins tekið upp í stað Landssamband iðnaðarmanna og Félag íslenskra iðnrekenda.

Um 8 gr.

    Í greininni er lögð til orðalagsbreyting í 1. málsl. 40. gr. laganna sem leiðir af því að félagsmálaráðherra fer nú með vinnumarkaðsmál sem atvinnumálaráðherra fór áður með, sbr. lög nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 96/1969, með síðari breytingum.

Um 9. gr.

    Samkvæmt greininni bætist ný málsgrein við 56. gr. laganna. Nauðsynlegt er vegna sönnunaraðstöðu annars vegar og trúnaðarskyldu hins vegar að veita skattyfirvöldum lagaheimild til þess að veita aðilum máls upplýsingar, sem að öðru leyti eru trúnaðarmál, hvað varðar skilyrði fyrir stofnun vinnustaðarfélags í tilteknu fyrirtæki og réttarstöðu þess sem stéttarfélags, sbr. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins (2. gr. laganna). Ef aðili á lögvarða hagsmuni af svari er skattyfirvöldum skylt að veita nauðsynlegar upplýsingar. Mundu aðilar geta lagt slík gögn fram í Félagsdómi ef á þyrfti að halda. Ef ágreiningur um réttarstöðu vinnustaðarfélags sem stéttarfélags er borinn undir Félagsdóm í tengslum við samningsumboð eða verkfallsrétt er litið til upplýsinga 12 mánuði aftur í tímann, enda er með orðunum „að jafnaði“ í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins (2. gr. laganna) átt við það tímabil.

Um 10. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að ný málsgrein bætist við 70. gr. laganna. Er um að ræða undantekningu frá reglu þeirrar greinar um að brot á lögunum geti varðað sektum auk bóta. Brot, sem hér er fjallað um, eru samkvæmt því ekki refsinæm og er þar fylgt ábendingu danskra fræðimanna um að þau skuli aðeins varða bótum. Félagsdómur dæmir um slík mál og renna bætur til málsaðila, sbr. 45. gr. laganna, nema hann geri kröfu um annað.
    Hér á beinlínis við ákvæði 1. mgr., sbr. 3. mgr., 23. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Er því aðeins unnt að krefja starfsmann um bætur að því marki sem telja má sanngjarnt þegar litið er til sakar og stöðu starfsmannsins og atvika að öðru leyti vegna kröfu atvinnurekanda á hendur starfsmanni vegna tjóns sem hann veldur atvinnurekanda í starfi sínu. Samkvæmt skýringum, sem fylgdu þessum ákvæðum frumvarps sem varð að skaðabótalögum, tekur ákvæðið, sem er almennt orðað, einnig til ábyrgðar sem stofnast ef starfsmaður vanefnir vinnusamning, t.d. með því að hverfa á brott án þess að gæta ákvæða um uppsagnarfrest. Hér sé um að ræða vægari bótareglu en áður gilti um ábyrgð starfsmanna eftir almennum bótareglum. Á þetta því vel við um nýja aðildarreglu 3. gr. frumvarpsins (um nýja 2. mgr. 8. gr. laganna) miðað við danska réttarframkvæmd sem hér er höfð til hliðsjónar, sbr. og skilgreiningu vinnustöðvunar samkvæmt nýju ákvæði 5. gr. frumvarpsins (19. gr. laganna).
    Málsbætur og íþyngjandi atvik geta haft áhrif á fjárhæð bóta, enda er samkvæmt fyrirmyndinni um viðurlagakenndar bætur að ræða en ekki hreinar skaðabætur. Byggt er á svipuðum sjónarmiðum við skýringu 26. gr. skaðabótalaga sem einnig fjallar um bætur sem ekki er fyrst og fremst ætlað að bæta fjárhagslegt tjón. Jafnframt á hér við almenn lækkunarregla 24. gr. skaðabótalaga, enda réttlæta sérstök sjónarmið á sviði vinnumarkaðsréttar að litið sé til atvika og aðstæðna sem þar eru greind. Samkvæmt þeim skulu bætur metnar að álitum miðað við atvik, hagsmuni, saknæmi og launataxta, en einnig má hafa nokkra hliðsjón af raunverulegu tjóni.
    Ætlast til þess að höfð verði hliðsjón af danskri réttarframkvæmd við framkvæmd reglunnar enda er fyrirmyndin dönsk. Í Danmörku er til að mynda byggt á því í sambærilegum lögum að skaðabótaréttarleg sjónarmið ráði ekki úrslitum en hafa megi tjón til hliðsjónar við ákvörðun bóta. Þar er byggt á mannlegum sjónarmiðum fremur en fjármunaréttarlegum við ákvörðun bótagrundvallar og fjárhæðar bóta. Að því leyti yrðu mál og niðurstöður Félagsdóms tilvikabundnar. Á hinn bóginn er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að sams konar venja myndist um almennar reglur við ákvörðun bóta og jafnvel fasta bótataxta eins og tíðkast í framkvæmd Arbejdsdomstolen í Danmörku á slíkum lagareglum. Ekki er ólíklegt að sams konar dómvenjur myndist hér og í Danmörku. Í því sambandi er sérstök áhersla lögð á þá meginreglu þar í landi að stuttar vinnustöðvanir eða aðrar skyndilegar ólögmætar aðgerðir varði ekki bótum — enda þótt þær séu ólögmætar í sjálfu sér. Undantekningar eru þó gerðar frá þeirri meginreglu. Í fyrsta lagi varðar það samt sem áður bótum ef um endurteknar og skipulagðar aðgerðir er að ræða. Í öðru lagi er gerð undantekning frá þeirri meginreglu um bótaleysi við stuttar aðgerðir ef ekki er réttmæt ástæða til vinnustöðvunar, en þar er rúmur skilningur lagður í hugtakið réttmæta ástæðu — út frá huglægum sjónarmiðum launafólks. Ef vinnustöðvun dregst á hinn bóginn getur hún varðað bótum frá upphafi.
    Ólögmæti aðgerða sem hér um ræðir ræðst fyrst og fremst af kjarasamningum og almennum reglum. Því er ekki um að ræða íhlutun í samskipti aðila á vinnumarkaði heldur lagareglur um réttarvörslu lögmætra hagsmuna. Í Danmörku er það til að mynda talið til eftirfarandi samningsbrots ef samningsaðili bætir einstökum félagsmönnum sínum eða aðilum tjón vegna dæmdra bóta, enda er í því fólginn stuðningur við ólögmætar aðgerðir. Varðar slíkt eftirfarandi samningsbrot háum bótum til gagnaðila, þ.e. samtaka á sama stigi, sem er málsaðili. Bæturnar geta þó runnið til raunverulegs aðila í stað þess sem fer með málsóknarumboð fyrir hann skv. 45. gr. laganna.
    Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir bótagrundvellinum, sbr. meginreglur íslensks réttar. Að öðru leyti er ætlast til að skýring ákvæðanna ráðist af réttarframkvæmd sem aðilar á vinnumarkaði móta sjálfir — eftir atvikum með fulltingi Félagsdóms.
    Taka ber fram að ætlast er til að lög nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups, eigi við um ábyrgð einstakra launamanna samkvæmt þessari grein frumvarpsins; því er skuldajöfnuður vegna bóta óheimill, sbr. niðurlag 1. mgr. 1. gr. laga nr. 28/1930. Á hinn bóginn eru dómar og úrskurðir Félagsdóm aðfararhæfir í þessu efni eins og að öðru leyti, sbr. 2. mgr. 65. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Í 2. mgr. er tekið fram með skýrum hætti að III. kafli laganna með efnisákvæðum gildandi laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, skuli eftir því sem við á taka til opinberra starfsmanna, sbr. lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Við gildistöku laganna falla úr gildi lög nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum. Þrátt fyrir það hefur sú breyting sem slík engin áhrif á stöðu og valdsvið ríkissáttasemjara eða starfsmanna hans. Hér er til að mynda átt við lög nr. 34/1977, um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins.
    Eftir staðfestingu laganna er gert ráð fyrir að meginmál þeirra verði fellt inn í gildandi lög og þau gefin út svo breytt.




Fylgiskjal I.


SAMSKIPTAREGLUR Á VINNUMARKAÐI
Áfangaskýrsla vinnuhóps félagsmálaráðherra.
(Félagsmálaráðuneyti — nóvember 1995.)

I. Inngangur.

    Hinn 4. október 1994 skipaði félagsmálaráðherra vinnuhóp til að fjalla um samskiptareglur á vinnumarkaði.
    Í vinnuhópinn voru skipuð:
     Fulltrúar Alþýðusambands Íslands:
         Benedikt Davíðsson, forseti ASÍ, og
         Bryndís Hlöðversdóttir, lögfræðingur ASÍ.
         Til vara:
         Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, 1. varaforseti ASÍ, og
         Ari Skúlason, framkvæmdastjóri ASÍ.
     Fulltrúi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja:
         Ögmundur Jónasson, formaður BSRB.
         Til vara:
         Svanhildur Halldórsdóttir, skrifstofustjóri BSRB.
     Fulltrúi fjármálaráðuneytis:
        
Birgir Guðjónsson, skrifstofustjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.
         Til vara:
        Gunnar Björnsson, deildarstjóri í starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins.     
     Fulltrúi Vinnumálasambandsins:
         Árni Benediktsson, formaður VMS.
         Til vara:
         Jóngeir Hlinason, framkvæmdastjóri VMS.
     Fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands:
         Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ.
         Til vara:
         Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur VSÍ.
    Félagsmálaráðherra skipaði Gylfa Kristinsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, formann vinnuhópsins. Í maí 1995 var Gísli Tryggvason laganemi skipaður ritari vinnuhópsins og Jón Sveinsson lögmaður lögfræðilegur ráðunautur hópsins.
    Í skipunarbréfi kemur fram að vinnuhópnum er falið að kynna sér þróun samskiptareglna samtaka atvinnurekenda og launafólks í öðrum löndum og bera þróunina saman við stöðu mála hérlendis. Fyrir hópinn er lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kemur að breyta þurfi íslenskri löggjöf er hópnum falið að setja fram tillögur um það efni.
    Vinnuhópur um samskiptareglur á vinnumarkaði hefur fram til þessa haldið 34 fundi. Á fyrstu fundum vinnuhópsins áttu sér stað almennar umræður um samskiptareglur aðila vinnumarkaðarins á Íslandi. Í framhaldi af þeim var talin ástæða til þess að taka til sérstakrar athugunar reglur um gerð kjarasamninga og vinnustöðvun. Hefur víða verið leitað fanga um heimildir til samanburðar í þessu efni.
    Vinnuhópurinn telur að um fleiri en eina leið sé að velja hvað varðar fyrirkomulag samninga um kaup og kjör launafólks. Nefna má í fyrsta lagi þann kost að byggja á einstaklingsbundnum samningum launafólks við atvinnurekendur án þátttöku stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda svo sem gert er á Nýja-Sjálandi. Í öðru lagi er sú leið að stéttarfélög standi að gerð kjarasamninga fyrir hönd launafólks. Hér á landi og í nágrannalöndunum hefur verið miðað við það skipulag og það er sá grundvöllur sem gildandi löggjöf hvílir á. Vinnuhópurinn telur rétt að byggja áfram á því skipulagi.
    Samstaða er því um það innan vinnuhópsins að fjalla fyrst og fremst um samskiptareglur samtaka launafólks og atvinnurekenda enda telur vinnuhópurinn að vinnulöggjöf eigi að taka mið af skipulögðum samtökum.
    Vinnuhópurinn telur að vinnulöggjöf eigi að setja samskiptum þessara aðila ramma sem efli ábyrgð þeirra sem samningsaðila og auðveldi gerð kjarasamninga, stuðli að ásættanlegu jafnræði og skilyrðum fyrir sáttum um kaup og kjör. Það er ekki síður markmið að draga svo sem kostur er úr hættu á átökum og tjóni af völdum deilna launafólks og atvinnurekenda svo og að tryggja stöðu og réttindi launafólks til að semja sameiginlega.
    Í samræmi við framanritað hefur hópurinn einkum litið til þess hvort setja megi nánari reglur um verklag og vinnubrögð við gerð kjarasamninga þar sem höfuðábyrgð verði þó lögð á sjálfstæði, frumkvæði og ábyrgð samningsaðila en þess jafnframt freistað að færa í skipulegra horf þann viðræðuferil sem óhjákvæmilega verður að eiga sér stað sem undanfari hverra kjarasamninga. Hefur m.a. verið unnið út frá því sjónarmiði að samningsferillinn hefjist fyrr og að honum ljúki fyrr en tíðkast hefur miðað við lausn samninga.
    Að mati vinnuhópsins er eðlilegt að samræma eftir föngum reglur sem gilda hjá opinberum starfsmönnum og á almennum vinnumarkaði um gerð kjarasamninga og verkfallsrétt. Í því sambandi þarf að fjalla um rétt launafólks til þess að skipuleggja sig í stéttarfélög sem taka til starfsmanna á einum vinnustað eða hjá sama atvinnurekanda ef slíkum rétti er til að dreifa að gildandi lögum. Vera kann að rétt sé að hafa sérreglur sem miðaðar séu við eðli tiltekinna starfa.
    Með þessari áfangaskýrslu vill vinnuhópurinn greina ráðherra frá umfjöllun hópsins og athugunum fram til dagsetningar þessarar áfangaskýrslu. Engar endanlegar niðurstöður liggja fyrir en stefnt er að því að kynna málið á vettvangi þeirra samtaka sem að málinu koma. Hópurinn telur mikilvægt að breytingar á samskiptareglum séu gerðar í sem mestri sátt.


II. Gerð kjarasamninga.
A. Almennt.

    Eitt mikilvægasta hlutverk stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda er að gera sín á milli kjarasamninga sem gildi í skiptum umbjóðenda þeirra á samningstímabili. Formbundnar reglur um gerð kjarasamninga eru ekki margþættar fyrr en kemur til boðunar vinnustöðvana. Þá kemur til kasta laga um stéttarfélög og vinnudeilur, laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og laga um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins svo og laganna um sáttastörf í vinnudeilum en samkvæmt þeim tekur ríkissáttasemjari við stjórn viðræðna um leið og verkfall er boðað. Venjulega hafa samningar þá verið lausir um alllanga hríð.
    Fjöldi samningsaðila á vinnumarkaði er mjög mikill og má ætla að stéttarfélög með sjálfstæðan samningsrétt séu nokkuð á fjórða hundrað. Samningar þessara félaga eru þó mun fleiri, m.a. vegna mismunandi viðsemjenda í hópi atvinnurekenda. Hópurinn telur ekki koma til álita að hlutast til um skipulag samtaka á vinnumarkaði að þessu leyti en viðurkennir jafnframt að þessi mikli fjöldi viðsemjenda getur gert samningaviðræður margþættar og langvinnar. Af þessu leiðir að langur tími kann að líða frá því að kjarasamningar losna þar til fyrstu samningar eru gerðir og enn lengri uns síðustu samningar nást. Þetta er því óheppilegra í ljósi þess að almenn sátt hefur að jafnaði verið um að gildistíma kjarasamninga ljúki yfirleitt á sama tíma — og það eins þótt þeir séu gerðir á mismunandi tímum. Iðulega kvarta stéttarfélög yfir því að raunverulegar viðræður hefjist ekki fyrr en seint og um síðir, hvorki til þess að ræða innri mál né til þess að hafa áhrif á mótun almennrar kjarastefnu. Þá getur reynst erfitt að marka launastefnu sem víðtæk sátt næst um þegar samningar dreifast á langt tímabil. Ómarkviss vinnubrögð við kjarasamninga leiða til óvissu á vinnumarkaði og geta haft slæm áhrif á framkvæmdir og atvinnustarfsemi.
    Í ljósi þess sem nú er rakið hefur hópurinn lagt höfuðáherslu á að kanna leiðir til að skipuleggja kjaraviðræður þannig að þær taki sem skemmstan tíma og að allir meginhópar undirbúi gerð kjarasamninga samtímis. Til þess þarf að setja viðræðum um endurnýjun kjarasamninga tiltekið form með markmiðum um það hvenær einstökum þáttum í samningaferlinum verði lokið.
    Hópurinn telur óhjákvæmilegt að samtök vinnumarkaðarins hafi sem mest frumkvæði og ábyrgð á skipulagi viðræðna hverju sinni enda eiga engir meira undir því að vel takist til en umbjóðendur þessara samtaka. Ábyrgð þeirra er því mikil og hvorki æskilegt né eðlilegt að láta aðra axla hana.
    Augljóst er að markmið beggja samningsaðila er jafnan að ná samningum sem stuðli að vexti og viðgangi atvinnulífs og velmegun starfsmanna og að friðsamleg samskipti séu keppikefli beggja aðila. Í ljósi þessa telur hópurinn rétt að setja skýrar reglur um skyldu samtaka vinnumarkaðarins til að setja sér markmið um vinnulag við gerð samninga og um það hvaða tíma ætla skuli til samningsgerðarinnar hverju sinni.
    Vinnuhópurinn hefur í ljósi framangreindra markmiða leitast við að setja fram hugmyndir um feril sem auðveldar gerð kjarasamninga á vinnumarkaði.

B. Viðræðuáætlun.

    Samstaða er um það í vinnuhópnum að æskilegt sé að afmarka hverju sinni þann tíma sem ætlaður er til endurnýjunar kjarasamninga fyrir komandi samningstímabil með því að gera sérstaka skriflega viðræðuáætlun með tímasetningum um kjaraviðræður þannig að séð verði fyrir endann á þeim.
    Í viðræðuáætlun verði fyrst og fremst lögð áhersla á vinnulag við gerð kjarasamninga en ekki efnislega þætti væntanlegra viðræðna. Umfjöllun um einstök viðfangsefni skal hins vegar ætlaður tími í viðræðuáætlun eftir því sem samkomulag verður um hverju sinni.
    Eins og fyrr segir telur hópurinn æskilegt að stuðla að því að formlegar viðræður hefjist fyrr en oftast hefur verið. Keppikefli samningsaðila eigi að vera að nýr samningur liggi fyrir þegar gildistíma eldri kjarasamninga lýkur. Að mati hópsins stuðlar viðræðuáætlun að því að kjaraviðræður hefjist áður en samningar losna. Einnig að þær fari að mestu fram samtímis og að þeim ljúki fyrr en tíðkast hefur.
    Markmið viðræðuáætlunar er að skapa samfelldan ramma um allar kjaraviðræður, hvort heldur þar komi að samtök á opinberum markaði eða einkamarkaði, innan eða utan heildarsamtaka. Einnig að setja því tímamörk hvenær stefnt er að lokum kjarasamninga hverju sinni svo að samningaviðræður einstakra hópa dragist ekki langt fram eftir því samningstímabili sem í hönd fer. Viðræðuáætlun hlýtur því að vera formleg og staðfest og gefin út með þeim hætti að hún taki til allra samningsaðila sem vilja endurnýja kjarasamning hverju sinni og eiga rétt á að beita vinnustöðvunum til að knýja gagnaðila til samninga.
    Ríkissáttasemjara er að lögum ætlað það hlutverk að greiða fyrir gerð kjarasamninga milli samtaka launafólks og atvinnurekenda og hann hefur samkvæmt gildandi löggjöf allvíðtækar heimildir til þess að hlutast til um samningaviðræður eftir að vinnustöðvun er boðuð. Hins vegar hefur hann að óbreyttri löggjöf þrengri stöðu til að hlutast til um viðræður milli aðila á fyrri stigum. Vinnuhópurinn telur æskilegt að auka þátt sáttasemjara í skipulagi samningaviðræðna áður en til átaka kemur. Því er um margt eðlilegt að ætla honum sem hlutlausum aðila hlutverk við undirbúning og gerð áætlunar um viðræður samningsaðila í tilefni af endurnýjun kjarasamninga. Hópurinn telur hins vegar hvorki æskilegt né eðlilegt að létta ábyrgð eða frumkvæðisskyldu af samningsaðilum. Því hljóti þeir fyrst og fremst að þurfa að komast að samkomulagi um efni og tímasetningar viðræðuáætlana.
    Þetta má gera á eftirfarandi hátt:
    Þremur mánuðum áður en almennir kjarasamningar eru lausir boðar sáttasemjari á sinn fund fulltrúa heildarsamtaka á vinnumarkaði til þess að undirbúa áætlun um viðræður vegna endurnýjunar kjarasamninga fyrir komandi samningstímabil.
    Til að auðvelda gerð viðræðuáætlunar sýnist óhjákvæmilegt og raunar eðlilegt að ætla heildarsamtökum á vinnumarkaði í samráði við aðildarfélög sín frumkvæðis- og forustuhlutverk í þessu efni þannig að þeim beri að semja viðræðuáætlun og kynna hana sáttasemjara. Sáttasemjari kynni síðan tillögu samtakanna og efni hennar fyrir öðrum þeim sem telja sig málið varða, taki afstöðu til athugasemda og gefi síðan að höfðu samráði við heildarsamtökin út viðræðuáætlun fyrir þær viðræður sem í hönd fara til undirbúnings að endurnýjun þágildandi kjarasamninga.
    Ríkissáttasemjari tekur á móti tillögu samtakanna, kynnir efni hennar fyrir öðrum þeim sem telja sig málið varða og tekur afstöðu til athugasemda. Í síðasta lagi tveimur mánuðum áður en kjarasamningar losna gefur ríkissáttasemjari síðan að höfðu samráði við heildarsamtökin út viðræðuáætlun fyrir viðræður vegna komandi kjarasamninga.
    Í viðræðuáætlun komi fram hvenær samningsaðilar tilkynna gagnaðila hver fari með samningsumboð í komandi samningaviðræðum og hvenær meginmarkmið samningsaðila eru kynnt. Þar sé einnig greint frá því hvenær óskir um breytingar á einstökum ákvæðum kjarasamninga komi fram, hvenær samningum skuli lokið og hvenær vinnudeila er tekin til meðferðar hjá sáttasemjara.
    Sáttasemjari fylgist síðan með því að allir samningsaðilar eigi kost á að fylgja viðræðuáætlun þannig að tryggt sé að allir sem óska þess að endurnýja kjarasamninga geti hafið efnislegar viðræður í því skyni.

C. Miðlunartillaga og tengingarregla.
1. Almennt.

    Svo sem fyrr segir telur vinnuhópurinn það kappsmál að kjaraviðræður allra stétta og starfshópa fari að mestu fram samtímis, bæði til þess að tryggja öllum aðild að viðræðum og stefnumótun og eins til þess að stuðla að því að kjaraviðræður einstakra hópa dragist ekki úr hömlu. Viðræðuáætlun sú sem áður er gerð að umtalsefni miðar að þessu og er þá gert ráð fyrir að áætlunin setji viðmið fyrir því hvenær samningum skuli lokið.
    Þótt æskilegt sé að samningaviðræðum ljúki svo fljótt að einn samningur geti tekið við af öðrum er ekki unnt að ganga út frá því sem vísu að svo verði. Þvert á móti bendir reynslan til þess að samningar takist ekki fyrr en einhver tími er liðinn eftir að samningar losna. Mun raunar ekki óþekkt viðhorf að stéttarfélögunum sé ekki mögulegt að semja af styrk nema hugsanleg vinnustöðvun eða aðrar aðgerðir vofi yfir; möguleikinn á að beita henni sé nauðsynleg forsenda árangursríkra samningaviðræðna. Vegna þessa telur hópurinn augljóst að ætla verði nokkurn tíma eftir að samningar losna fyrir samningsaðila til að ná saman áður en þess er freistað að ná sáttum með atbeina sáttasemjara. Er þá sérstaklega litið til heimilda hans samkvæmt gildandi lögum til þess að leggja fram formlegar miðlunartillögur sem geta tekið til deilna mismunandi hópa.
    Samkvæmt gildandi lögum er sáttasemjara heimilt að bera fram eina miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu er taki til fleiri en eins deiluaðila. Skilyrði eru að tvö eða fleiri félög eða félagasambönd eigi saman í deilu og að samráð sé haft við samninganefndir. Er sáttasemjara einnig heimilt að efna til sameiginlegrar atkvæðagreiðslu þótt hann beri fram fleiri en eina miðlunartillögu enda sé það gert samtímis.
    Sáttasemjari getur þannig ákveðið að atkvæðagreiðsla verði sameiginleg fyrir fleiri félög þannig að heildarniðurstaða ráði úrslitum án tillits til úrslita í atkvæðagreiðslu einstakra félaga. Þetta getur hann gert hvort heldur borin er fram ein miðlunartillaga sem tekur til deilna fleiri félaga eða þótt tillögurnar séu fleiri ef þær eru bornar fram samtímis.
    Þótt þessum reglum hafi ekki verið beitt mikið eru þess dæmi að sáttasemjari hafi borið fram miðlunartillögur sem taka til samkynja deilna fleiri félaga, jafnvel félaga í mismunandi landssamböndum. Þá eru þess einnig dæmi að sáttasemjari hafi borið fram miðlunartillögu sem náði til yfirgnæfandi hluta vinnumarkaðarins þar sem í reynd var byggt á samkomulagi aðila um alla höfuðdrætti deilunnar. Sáttatillagan var því í raun form um samningsniðurstöðu og sett fram til að niðurstaða fengist á sama tíma og samkvæmt sömu reglum um form atkvæðagreiðslu og þátttöku hjá öllum aðilum. Sama tillaga var borin undir alla en sáttasemjari ákvað að talið skyldi sjálfstætt í hverju félagi. Engin ákvæði hindra sáttasemjara í þessu efni og hann hefur heimild til að láta telja sameiginlega þannig að sameiginlegt atkvæðamagn ráði úrslitum ef hann telur það henta.
    Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um sáttastörf í vinnudeilum eru engin formleg takmörk við því hvenær sáttasemjari getur tengt lausnir mismunandi deilna saman með einni sameiginlegri miðlunartillögu eða mismunandi tillögum sem samt eru afgreiddar í einni sameiginlegri atkvæðagreiðslu. Raunar er ekki skilyrði að viðræður hafi farið fram en þó ber sáttasemjara að ráðgast við deiluaðila áður en hann setur fram tillögur af þessum toga þar sem að því er stefnt að tengja saman lausnir fleiri deilna.
    Í Danmörku er löng hefð fyrir því að tengja saman réttaráhrif viðræðuáætlunar og formlegra afskipta sáttasemjara. Með löggjöf er þar tryggt að sáttasemjari geti haft frumkvæði að því að allir þeir hópar sem tengst hafa kjaradeilu vegna endurnýjunar samninga taki sameiginlega afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem fæst í samningaviðræðum. Þannig hefur verið algengast að sáttasemjari leggi fram eina allsherjartillögu til lausnar öllum yfirstandandi kjaradeilum. Tillaga sáttasemjara byggir að jafnaði á höfuðlínum sem verða til í kjarasamningum en samningarnir eru felldir inn í tillöguna og skoðast hluti hennar. Eiginleg miðlun nær aðeins til þeirra hópa sem ekki hafa lokið samningum á meðan á viðræðum stóð — þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Tillaga sáttasemjara að heildarlausn kjaradeilna hefur því næst verið lögð fyrir alla, sem hafa átt aðild að félögum sem að deilunum stóðu, með sameiginlegri atkvæðagreiðslu.
    Þessi aðferð hefur verið nefnd tenging og byggir á þeirri afstöðu að æskilegt sé að ljúka kjaradeilum samtímis og þannig að allir hópar taki samtímis sameiginlega afstöðu til mála. Gagnrýnendur benda á að með þessu móti sé svigrúm smærri hópa til þess að knýja fram aðra niðurstöðu en almennt gerist mjög skertir en meðmælendur benda einmitt á það sem rök fyrir þessu fyrirkomulagi.
    Vinnuhópurinn hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort svo rúmar heimildir fyrir sáttasemjara séu æskilegar við íslenskar aðstæður. Í öllu falli leggur hópurinn áherslu á að áður en til þess komi að sáttasemjari felli hópa undir sameiginlega miðlunartillögu verði að vera tryggt að þeir hafi fengið tækifæri til viðræðna við sína viðsemjendur og jafnframt átt þess kost að þrýsta á um kröfur sínar með vinnustöðvun — en sú trygging er ekki fyrir hendi í gildandi lögum. Þá telur hópurinn orka mjög tvímælis að sáttasemjari hafi heimild til að láta greiða sameiginlega atkvæði um mismunandi tillögur þannig að sameiginleg úrslit ráði niðurstöðu eins og heimilt er samkvæmt íslenskum lögum. Ef tengja eigi saman lausnir í deilum mismunandi hópa með sameiginlegri atkvæðagreiðslu sé að öllu leyti eðlilegra að það sé gert með einni tillögu sem atkvæði eru greidd um. Einfalt sé að tilgreina sérákvæði fyrir einstaka hópa í mismunandi köflum miðlunartillögu svo sem venja hefur staðið til í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Þá er lögð sérstök áhersla á að hugmyndir um sameiginlega tillögu eða afgreiðslu samninga geta verið leið til að stuðla að því að samningar séu gerðir sem mest samtímis svo langvinnur óróleiki á vinnumarkaði skaði ekki langtímahagsmuni samningsaðila.
    Þetta má gera með eftirfarandi hætti:
    Hafi samningsaðilar hvorki komist að niðurstöðu innan þess tíma sem tilgreindur er í viðræðuáætlun né náð sáttum fyrir atbeina ríkissáttasemjara fyrir tiltekinn tíma metur sáttasemjari hvort rétt er að setja fram miðlunartillögu fyrir þá hópa sem í hlut eiga.
    Ef sáttasemjari telur það geta leitt til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála er honum — að uppfylltum neðangreindum skilyrðum — heimilt að leggja fram eina sameiginlega miðlunartillögu þar sem sameiginlegt atkvæðamagn ráði úrslitum um samþykkt eða synjun. Sáttasemjari metur þá í samræmi við neðangreind skilyrði hvort sameiginleg miðlunartillaga nær til allra hópa sem eru með lausa samninga eða hvort hann setur fram sérstaka miðlunartillögu fyrir tiltekin svið sem svo er ástatt um.

2. Skilyrði sameiginlegrar miðlunartillögu.

    Vinnuhópurinn telur að eftirtalin meginskilyrði verði að vera uppfyllt til þess að sáttasemjara sé heimilt að bera fram eina sameiginlega miðlunartillögu:
    Að viðræðutíma samkvæmt viðræðuáætlun sé lokið án þess að samningar hafi tekist.
    Að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar.
    Að sáttasemjari telji að sameiginleg miðlunartillaga sé til þess fallin að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála.
    Að eiginlegar og efnislegar viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur — þar á meðal sérmál — eða að gefinn hafi verið kostur á viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun.
    Eftir að sáttasemjari hefur kynnt opinberlega hugmyndir sínar um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu gefist aðilum kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum um þær.

3. Kynning miðlunartillögu.

    Í vinnuhópnum hefur verið minnst á erfiðleika sem tengjast því að enginn mælir fyrir samþykkt miðlunartillögu — jafnvel þvert á móti — enda getur sáttasemjari ekki verið í hlutverki málflytjanda. Í gildandi lögum er sú regla að sjálfur texti miðlunartillögunnar í heild sinni skuli birtur félagsmönnum við atkvæðagreiðslu. Sambærilegt ákvæði er í dönskum lögum um sáttastörf í vinnudeilum. Aðila kjaradeilu er óheimilt samkvæmt dönskum lögum að vinna útdrátt úr miðlunartillögu fyrir félagsmenn sína. Vinnuhópurinn telur eðlilegt að sams konar regla sé áréttuð hér en sáttasemjara ætti á hinn bóginn sem hlutlausum aðila að vera heimilt að draga fram meginatriði úr miðlunartillögu í samráði við aðila kjaradeilu til þess að auðvelda félagsmönnum þeirra að taka hlutlæga afstöðu til tillögunnar og áhrifa hennar á kjör þeirra og afkomu.

4. Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu.

    Vinnuhópurinn hefur rætt ýmsar hugmyndir varðandi form atkvæðagreiðslu um sameiginlega miðlunartillögu fyrir samtök sem eiga samtímis í kjaradeilu.
    Í gildandi lögum um sáttastörf í vinnudeilum kemur fram sú regla að hafi sáttasemjari borið fram miðlunartillögu, sem taki til fleiri en eins deiluaðila eða þeirra allra, fari atkvæðagreiðsla og talning atkvæða fram í sameiningu hjá öllum þeim félögum eða samböndum sem miðlunartillaga nær til. Sú regla gildir nú að sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun sameiginlegrar miðlunartillögu sem sáttasemjari telur rétt að leggja fram og að tiltekið hlutfall félagsmanna þarf til að fella miðlunartillögu.
    Í lögunum er enn fremur fjallað um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Þar er tekið fram að atkvæðagreiðsla skuli vera skrifleg og leynileg. Að öðru leyti kemur einungis fram að sáttasemjari ákveði í samráði við samninganefndir aðila hvenær og hvernig atkvæðagreiðsla skuli fara fram. Þannig eru ekki í lögum reglur um það hvernig atkvæðagreiðslu skuli háttað. Um afgreiðslu á miðlunartillögu virðist einkum tvennt koma til greina, annaðhvort að það gerist með leynilegri atkvæðagreiðslu á kjörfundi sem standi í tiltekinn tíma eða með leynilegri almennri póstkosningu meðal félagsmanna. Báðar aðferðirnar eru þekktar. Æskilegt er að mati hópsins að settar verði skýrar formreglur um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu.

D. Samningsumboð.

    Í vinnuhópnum hefur verið rætt um að kveða skýrar á um samningsumboð og eru fulltrúar fylgjandi eftirfarandi hugmyndum í því efni.
    Stéttarfélög séu lögformlegir samningsaðilar um kaup og kjör félagsmanna sinna við atvinnurekendur og samtök þeirra enda hafi þau ákveðið í samþykktum sínum að láta þá starfsemi til sín taka.
    Samninganefnd sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings teljist hafa umboð til þess að setja fram tillögur að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita kjarasamning fyrir hönd hlutaðeigandi félags eða samtaka. Samninganefnd geti falið sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar að hluta eða að öllu leyti. Þá verði samninganefnd heimilt að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.
    Þegar samningur hefur verið undirritaður af samninganefndum samningsaðila gildi hann frá undirskriftardegi nema hann sé felldur í atkvæðagreiðslu innan fjögurra vikna frá undirritun, sé ekki á annan veg samið.

III. Aðgerðir í vinnudeilum.

    Í könnun vinnuhópsins hefur komið fram að sums staðar erlendis virðist friður á vinnumarkaði fremur byggjast á samningum og samstarfsreglum milli aðila og langri hefð fyrir heildarlausn mála en settum lagareglum. Hér á landi hafa reglur um vinnudeilur lengi verið í lögum. Hópurinn telur ekki rétt að takmarka verkfallsrétt efnislega en eðlilegt að meðal formlegra skilyrða fyrir beitingu hans gildi ákveðnar málsmeðferðarreglur.
    Þótt hópurinn telji að höfuðáherslu beri að leggja á skipulegan viðræðuferil sem stuðlað geti að gerð kjarasamninga án átaka milli samningsaðila verður ekki fram hjá því litið að þeir kunna að telja hagsmunum sínum betur borgið með því að efna til lögmætrar þvingunar á borð við verkfall eða verkbann. Hópurinn telur að sterk rök þurfi ef lögbinda ætti efnisleg takmörk við rétti stéttarfélags til að fylgja eftir lögmætum kröfum í vinnudeilum. Hins vegar sé eðlilegt að gera ríkar kröfur til þess að verkfalli eða verkbanni sé þá fyrst beitt þegar aðilar hafi látið á það reyna í viðræðum hvort ekki geti náðst niðurstaða þeirra í milli.
    Samkvæmt gildandi löggjöf er ekkert sem knýr beinlínis á um að viðræður hafi farið fram milli aðila áður en verkfallsheimilda er leitað eða verkfall boðað. Sáttasemjara ber þá fyrst að taka deilu til sáttameðferðar þegar verkfall hefur verið boðað og ekkert segir í lögum um það hvort viðræður þurfi að hafa átt sér stað.
    Þótt heimild gildandi laga til að boða verkfall sé bundin við að fylgja fram kröfum í kjaradeilum hefur leikið á tveimur tungum hversu skýr kröfugerðin þurfi að vera eða hvenær setja þurfi hana fram. Eina formlega takmörkunin er sú að óheimilt er að hefja vinnustöðvun til að þvinga stjórnvöld til að framkvæma athafnir sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma eða til að framkvæma ekki athafnir sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma. Eðlilegt er að þessi formlega takmörkun sé áfram í lögum. Jafnframt er eðlilegt að kveða skýrt á um að kröfur verði að vera með þeim hætti að það sé lögmætt fyrir gagnaðila að verða við þeim.
    Í ljósi þess hversu víðtækar afleiðingar boðun vinnustöðvunar getur haft á hagsmuni fjölda aðila verður að gera ríka kröfu til þess að þá fyrst sé gerður reki að vinnustöðvun þegar ljóst þykir af viðræðum að ekki náist samningar með friðsamlegum hætti. Hér er sérstaklega til þess að líta að boðun vinnustöðvana og framkvæmd þeirra hefur mikil áhrif á hagsmuni fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem ýmist eiga beina aðild að deilunni eða verða fyrir áföllum vegna deilna sem þeir hafa engin áhrif á. Þolendur vinnustöðvana geta oft orðið fyrir meira tjóni en þeir sem að henni standa beint.
    Af þessum sökum telur vinnuhópurinn rétt að gera það að formlegu skilyrði fyrir lögmætri ákvörðun um boðun verkfalls og verkbanns að viðræður hafi farið fram milli samningsaðila, kröfur hafi verið lagðar fram og milligöngu sáttasemjara hafi verið leitað — allt áður en ákvörðun er tekin um að boða vinnustöðvun. Þá og þá fyrst hafi þeir möguleika á að taka afstöðu til þess hvort rétt sé að semja á þeim grundvelli sem fram hafi komið í samningaviðræðum aðila eða hvort rétt sé að efna til vinnustöðvunar. Þá eigi tilboð hvors aðila að liggja fyrir með þeim hætti að hægt sé að leysa sig undan vinnudeilu með því að samþykkja tillögur gagnaðila.

IV. Niðurlag.

    Hér að framan hefur vinnuhópurinn gert grein fyrir nýjum hugmyndum í sambandi við undirbúning og gerð kjarasamninga sem hann telur mikilvægt að fái sem fyrst umfjöllun í hlutaðeigandi samtökum. Hópurinn hefur lagt áherslu á umfjöllun um leiðir til að gera kjaraviðræður markvissari og styttri.
    Ljóst er að huga þarf einnig að reglum um vinnudeilur, inntak þeirra og hvort efni séu til að setja nánari formreglur um ákvarðanir um verkfall og verkbann og framkvæmd vinnustöðvana.
    Mismunandi reglur gilda um almennan vinnumarkað og þann opinbera að því er varðar skipulag stéttarfélaga. Til umræðu er í vinnuhópnum hvort unnt sé að samræma þessar reglur.
    Það er áréttað að hugmyndir í áfangaskýrslu vinnuhópsins þarf að ræða frekar áður en þær eru útfærðar nánar enda þarf víðtæk umræða að eiga sér stað um þetta efni. Ýmis atriði sem tengjast þessum hugmyndum hafa auk þess ekki enn verið rædd til hlítar og má þar nefna miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun verkfalls og verkbanns, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðafyrirkomulag.



Fylgiskjal II.



LÖG UM STÉTTARFÉLÖG OG VINNUDEILUR, NR. 80, 11. JÚNÍ 1938,


MEÐ INNFELLDUM BREYTINGUM SAMKVÆMT FRUMVARPINU




I. KAFLI

Um réttindi stéttarfélaga og afstöðu

þeirra til atvinnurekenda.

1. gr.

    Rétt eiga menn á að stofna stéttarfélög og stéttarfélagasambönd í þeim tilgangi, að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt.

2. gr.

     Stéttarfélag skal opið öllum sem uppfylla almenn skilyrði lögmætra samþykkta þess.
    Félagssvæði stéttarfélags má aldrei vera minna en eitt sveitarfélag.
    Starfsmönnum fyrirtækis, þar sem starfa að jafnaði a.m.k. 250 starfsmenn, er þó heimilt að stofna þar stéttarfélag, enda séu að lágmarki ¾ þeirra félagsmenn. Fer það þá eitt stéttarfélaga með samningsumboð fyrir starfsmenn.


3. gr.

    Stéttarfélög ráða málefnum sínum sjálf með þeim takmörkunum, sem sett eru í lögum þessum. Einstakir meðlimir félaganna eru bundnir við löglega gerðar samþykktir og samninga félagsins og stéttarsambands þess, sem það kann að vera í.
    Meðlimur stéttarfélags hættir að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.

4. gr.

    Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:
         
    
    uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,
         
    
    fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.

5. gr.

    Stéttarfélög eru lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna, enda hafi félagið í samþykktum sínum ákveðið að láta starfsemi sína taka til slíkra málefna.
     Samninganefnd eða fyrirsvarsmaður, sem kemur fram fyrir hönd samningsaðila við gerð kjarasamnings, hefur umboð til þess að setja fram tillögur að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita kjarasamning fyrir hönd hlutaðeigandi félags eða samtaka. Samninganefnd er heimilt að fela sameiginlegri samninganefnd fleiri félaga eða sambanda umboð sitt til samningsgerðar að hluta eða að öllu leyti. Þá er samninganefnd heimilt að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu félagsmanna hlutaðeigandi félaga eftir því sem nefndin kann að ákveða hverju sinni eða um kann að semjast með kjarasamningi.
    Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftardegi, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungi atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun, sé ekki á annan veg samið. Fari fram almenn leynileg póstatkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð framangreindu. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í kjarasamningi að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu. Slíkur kjarasamningur telst þá því aðeins felldur að meiri hluti þátttakenda og minnst þriðjungur atkvæðisbærra greiði atkvæði gegn honum.
    Skylt er samningsaðilum að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða kjarasamninga.


6. gr.

    Allir samningar milli stéttarfélaga og atvinnurekenda um kaup og kjör verkafólks skulu vera skriflegir og samningstími og uppsagnarfrestur tilgreindur. Ella telst samningstími eitt ár og uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Sé samningi ekki sagt upp innan uppsagnarfrests, telst hann framlengdur um eitt ár, nema annað sé ákveðið í samningnum sjálfum. Samningsuppsögn skal vera skrifleg.

7. gr.

    Samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.

8. gr.

    Stéttarfélög bera ábyrgðina á samningsrofum þeim, sem félagið sjálft eða löglega skipaðir trúnaðarmenn þess gerast sekir um í trúnaðarstörfum sínum fyrir félagið. Þó er ekki heimilt að gera aðför í fundarhúsum, sjúkrastyrktarsjóðum né slysa- og menningarsjóðum félaganna vegna þessarar ábyrgðar, enda séu eignir sjóðanna skýrt aðgreindar frá eignum félagsins og óheimilt að verja þeim til almennra þarfa þess. Á samningsrofum einstakra meðlima sinna ber félagið því aðeins ábyrgð, að því verði gefin sök á samningsrofinu.
     Ófélagsbundnir atvinnurekendur og launamenn utan stéttarfélaga bera einir ábyrgð á samningsrofum af sinni hálfu. Nú er ekki sýnt fram á aðild samningsaðila að aðgerðum sem jafna má til vinnustöðvunar og ber félagsmaður þá sjálfur ábyrgð á þátttöku sinni í þeim.

9. gr.

    Á hverri vinnustöð, þar sem a.m.k. 5 menn vinna, hefur stjórn stéttarfélags þess, sem á staðnum er í viðkomandi starfsgrein, rétt til að tilnefna 2 menn til trúnaðarmannsstarfa, úr hópi þeirra, sem á staðnum vinna. Skal atvinnurekandi samþykkja annan þeirra sem trúnaðarmann stéttarfélagsins á vinnustöðinni. Trúnaðarmaður skal gæta þess, að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna. Þetta ákvæði nær þó ekki til landbúnaðarverkafólks né áhafna skipa eða báta, sem ekki er skylt að lögskrá á.
    Sjálfstæð vinnustöð telst í þessu sambandi sérhvert atvinnufyrirtæki, þar sem hópur manna vinnur undir stjórn sérstaks verkstjóra og flokksstjóra, svo sem: Verksmiðjur, fiskverkunarstöðvar, skipaafgreiðslur, skip, bifreiðastöðvar o.fl.
    Verði ágreiningur á milli stéttarfélaga um, hvert þeirra skuli skipa trúnaðarmann, úrskurðar Alþýðusamband Íslands ágreininginn.

10. gr.

    Verkamönnum ber að snúa sér til trúnaðarmanns stéttarfélagsins með umkvartanir sínar yfir atvinnurekanda og fulltrúum hans.
    Strax og trúnaðarmanni hefur borist umkvörtun verkamanns eða hann telur sig hafa ástæðu til að ætla, að gengið sé á rétt verkamanns eða verkalýðsfélags á vinnustöð hans af hálfu atvinnurekandans eða fulltrúa hans, ber honum að rannsaka málið þegar í stað. Komist hann að þeirri niðurstöðu, að umkvartanir eða grunur hans hafi haft við rök að styðjast, ber honum að snúa sér til atvinnurekandans eða umboðsmanns hans með umkvörtun og kröfu um lagfæringu. Trúnaðarmönnum stéttarfélags ber að gefa félagi því, sem hefur valið þá, skýrslu um umkvartanir verkamanna strax og við verður komið. Enn fremur skulu þeir gefa félaginu skýrslu um það, sem þeir telja að atvinnurekandi eða fulltrúar hans hafi brotið af sér við verkamenn og félög þeirra.

11. gr.

    Atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess, að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Nú þarf atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum, og skal þá trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.

12. gr.

    Nú vanrækir trúnaðarmaður störf sín samkvæmt lögum þessum að dómi stéttarfélags þess, sem hefur útnefnt hann og er þá stjórn viðkomandi stéttarfélags heimilt að svipta hann umboði sínu og tilnefna annan trúnaðarmann í hans stað úr hópi verkamanna á vinnustaðnum samkvæmt reglum 9. gr.

13. gr.

    Heimilt er stéttarfélögum, eða stéttarfélögum og samböndum stéttarfélaga, að gera með sér samning um gagnkvæman stuðning. Er atvinnurekendum og öllum trúnaðarmönnum þeirra óheimilt að láta starfsmenn sína á nokkurn hátt gjalda þess, að þeir hafi gert slíka samninga eða stuðlað að því, að þeir yrðu gerðir.

II. KAFLI

Um verkföll og verkbönn.

14. gr.

    Heimilt er stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi, að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum.

15. gr.

     Þegar félag atvinnurekenda eða stéttarfélag ætlar að hefja vinnustöðvun er hún því aðeins heimil að ákvörðun um hana hafi verið tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða. Heimilt er að viðhafa almenna leynilega póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um tillögu um vinnustöðvun og gildir niðurstaða hennar þá óháð þátttöku.
    Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Þarf þá helmingur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun.
    Í tillögu um vinnustöðvun skal koma skýrt fram til hverra henni er ætlað að taka og hvenær vinnustöðvun er ætlað að koma til framkvæmda. Þá er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.
    Samninganefnd eða til þess bærum fyrirsvarsmönnum samningsaðila er jafnan heimilt að aflýsa boðaðri vinnustöðvun. Sömu aðilum er heimilt að fresta boðaðri vinnustöðvun, einu sinni eða oftar, um allt að 14 sólarhringa samtals án samþykkis gagnaðila, enda sé það gert með minnst sólarhrings fyrirvara.


16. gr.

    Ákvörðun um vinnustöðvun, sem hefja á í þeim tilgangi að knýja fram breytingu eða ákvörðun um kaup og kjör, ber að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem hún beinist aðallega gegn, 7 sólarhringum áður en tilætlunin er að hún hefjist.

17. gr.

    Óheimilt er og að hefja vinnustöðvun:
    Ef ágreiningur er einungis um atriði, sem Félagsdómur á úrskurðarvald um, nema til fullnægingar úrskurðum dómsins.
    Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi. Gildandi lög um opinbera starfsmenn haldist óbreytt þrátt fyrir þetta ákvæði.
    Til styrktar félagi, sem hafið hefur ólögmæta vinnustöðvun.

18. gr.

    Þegar vinnustöðvun hefur verið löglega hafin, er þeim, sem hún að einhverju leyti beinist gegn, óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa.

19. gr.


    Vinnustöðvanir í skilningi laga þessara eru verkbönn atvinnurekenda og verkföll þegar launamenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um fjöldauppsagnir og aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu atvinnurekenda eða launamanna sem jafna má til vinnustöðvunar.


III. KAFLI


Um sáttastörf í vinnudeilum.


20. gr.

    Félagsmálaráðherra skipar ríkissáttasemjara til fjögurra ára í senn. Hann skal vera íslenskur ríkisborgari, fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð. Þess skal gætt að afstaða hans sé slík að telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda.
    Félagsmálaráðherra skipar einnig vararíkissáttasemjara til fjögurra ára í senn og skal hann fullnægja sömu skilyrðum og ríkissáttasemjari.
    Vararíkissáttasemjari tekur við störfum ríkissáttasemjara þegar hann er forfallaður og er honum til aðstoðar þegar þörf krefur.
    Ríkissáttasemjari getur skipað aðstoðarsáttasemjara til að aðstoða sig við lausn vinnudeilu eða vinna sjálfstætt að lausn einstakrar vinnudeilu. Það er borgaraleg skylda að taka að sér aðstoðarsáttasemjarastarf.
    Ef sýnt þykir að vinnudeila hafi mjög alvarlegar afleiðingar getur ríkisstjórnin skipað sérstaka sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar. Skal samráð haft við ríkissáttasemjara og deiluaðila áður en sáttanefnd er skipuð.
    Vararíkissáttasemjari, aðstoðarsáttasemjari og sáttanefndarmenn hafa réttindi og bera skyldur ríkissáttasemjara þegar þeir eru að störfum.
    Laun ríkissáttasemjara skulu ákveðin á sama hátt og laun ráðherra og hæstaréttardómara. Félagsmálaráðherra ákveður laun vararíkissáttasemjara og aðstoðarsáttasemjara og þóknun sáttanefndarmanna.

21. gr.

    Skrifstofa ríkissáttasemjara er í Reykjavík og ræður hann til hennar starfsfólk eftir þörfum og í samræmi við heimildir.
    

22. gr.

    Ríkissáttasemjari annast sáttastörf í vinnudeilum milli launafólks og félaga þess annars vegar og atvinnurekenda og félaga þeirra hins vegar.
    Hann skal fylgjast með ástandi og horfum í atvinnulífi og á vinnumarkaði um allt land. Hann skal fylgjast með þróun kjaramála og atriðum sem valdið gætu ágreiningi í samskiptum samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga.
    Ríkissáttasemjari skal halda skrá yfir gildandi kjarasamninga og er samtökum launafólks og atvinnurekenda, svo og ófélagsbundnum atvinnurekendum, skylt að senda honum samrit allra kjarasamninga sem þeir gera jafnskjótt og þeir hafa verið undirritaðir. Breytingar á áður gildandi kjarasamningum skulu sendar með sama hætti. Sömu aðilar skulu einnig senda sáttasemjara samrit allra kauptaxta og kjaraákvæða sem út eru gefin á grundvelli gildandi kjarasamninga.
    Samningsaðilar skulu enn fremur senda ríkissáttasemjara samrit af uppsögn kjarasamninga, svo og kröfugerð, jafnskjótt og hún er send gagnaðila.

23. gr.


    Atvinnurekendur eða samtök þeirra og stéttarfélög skulu gera áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamnings. Samningsaðilum er heimilt að veita landssamböndum eða heildarsamtökum sérstakt umboð til að gera viðræðuáætlun fyrir sína hönd ef slíkt umboð leiðir ekki af lögmætum samþykktum sambanda eða samtaka samningsaðila. Viðræðuáætlun, undirrituð af báðum samningsaðilum, skal þegar í stað send ríkissáttasemjara.
    Viðræðuáætlun skal gerð í síðasta lagi 10 vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Ef samningsaðilar hafa þá ekki gert viðræðuáætlun skal sáttasemjari gefa út viðræðuáætlun fyrir þá samningsaðila í síðasta lagi átta vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus og skal sáttasemjari þá taka mið af öðrum viðræðuáætlunum sem hafa þegar verið gerðar.

24. gr.

    Samningsaðilar geta hvenær sem er eftir útgáfu viðræðuáætlunar óskað milligöngu sáttasemjara eða aðstoðar hans og skal hann þá þegar beita sér fyrir því að samningaumleitanir fari fram í samræmi við viðræðuáætlun. Samningsaðilar skulu gefa sáttasemjara kost á að fylgjast með vinnudeilu og samningaumleitunum hvenær sem hann óskar þess.
    Ef slitnar upp úr samningaviðræðum aðila eða annar hvor þeirra telur vonlítið um árangur af frekari samningaumleitunum getur hvor þeirra um sig eða báðir sameiginlega vísað deilunni til sáttasemjara. Þegar sáttasemjari hefur fengið tilkynningu þess efnis er honum skylt að kveðja aðila eða umboðsmenn þeirra til fundar svo skjótt sem kostur er og halda síðan áfram sáttaumleitunum meðan von er til þess að þær beri árangur.
    Sáttasemjari tekur enn fremur við stjórn viðræðna eftir því sem ákveðið hefur verið í viðræðuáætlun. Honum er þó jafnan heimilt að fresta formlegri sáttameðferð og beina því til samningsaðila að þeir láti reyna á samkomulagsmöguleika í beinum viðræðum sín á milli telji hann það líklegra til árangurs. Ríkissáttasemjara er ávallt heimilt að taka í sínar hendur stjórn samningaviðræðna ef hann telur það heppilegt.
    Ef tilkynning berst um vinnustöðvun skv. 16. gr. er sáttasemjara skylt að annast sáttastörf með deiluaðilum og stýra viðræðum þeirra.

25. gr.

    Samningsaðilum er skylt að sækja eða láta sækja samningafund sem sáttasemjari kveður þá til.
    Sáttafundi skal halda fyrir luktum dyrum.
    Á sáttafundi skal leggja fram eftirrit þeirra skjala sem farið hafa milli aðila í deilunni, enda hafi þau ekki verið send ríkissáttasemjara áður.
    Bannað er að skýra frá eða leiða vitni um umræður á sáttafundum og tillögur sem fram kunna að hafa verið bornar nema með samþykki beggja samningsaðila.

26. gr.

    Sáttasemjari getur krafið aðila vinnudeilu um hverjar þær skýrslur og skýringar sem hann telur nauðsynlegar til að leysa vinnudeilur. Hann getur krafið allar opinberar stofnanir um þær upplýsingar og skýrslur sem hann telur þörf á. Með öll slík gögn skal fara sem trúnaðarmál ef þess er óskað.

27. gr.

    Ef samningaumleitanir sáttasemjara bera ekki árangur er honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Miðlunartillögu skal leggja fyrir félög eða félagasambönd launafólks og atvinnurekenda eða einstakan atvinnurekanda, eigi hann í vinnudeilu, til samþykkis eða synjunar. Sáttasemjara ber að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu.
    Ef ágreiningur snertir aðeins ákveðna félagsdeild eða starfsgrein innan félags eða félagasambands eða tiltekið fyrirtæki getur sáttasemjari ákveðið að atkvæðagreiðsla taki eingöngu til deildarinnar eða starfsgreinarinnar eða fyrirtækisins.

28. gr.

    Telji sáttasemjari að það sé til þess fallið að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála er honum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum heimilt að leggja fram eina sameiginlega miðlunartillögu eða fleiri:
    að viðræður hafi átt sér stað um framlagðar kröfur, þar á meðal sérmál, eða að leitað hafi verið árangurslaust eftir viðræðum í samræmi við viðræðuáætlun,
    að tíma, sem ætlaður er til viðræðna milli aðila án milligöngu sáttasemjara samkvæmt viðræðuáætlun, sé lokið án þess að samningar hafi tekist,
    að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli,
    að samningar hafi verið lausir um tíma þannig að samningsaðilum hafi gefist kostur á að þrýsta á um kröfur sínar,
    að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu.
Sameiginlegt atkvæðamagn ræður úrslitum um samþykkt eða synjun sameiginlegrar miðlunartillögu. Atkvæðagreiðsla samningsaðila á almennum vinnumarkaði og þeirra sem lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna taka til um sameiginlega miðlunartillögu skal fara fram með aðgreindum hætti. Niðurstaða hjá hvorum hópnum fyrir sig, óháð niðurstöðu hins, ræður úrslitum um samþykkt eða synjun.
    Sáttasemjara er heimilt að láta sameiginlega miðlunartillögu ná til allra hópa sem eru með lausa samninga eða setja fram miðlunartillögu sem tekur aðeins til tiltekinna samningssviða, félagsdeilda eða fyrirtækja sem svo er ástatt um. Sú heimild er óháð aðild að félögum, samböndum eða samtökum atvinnurekenda og launafólks.
    Samningsaðilum er þó heimilt að takmarka í viðræðuáætlun heimild sáttasemjara til að tengja framlengingu á hlutaðeigandi kjarasamningi framlengingu annarra kjarasamninga á óskyldum samningssviðum með sameiginlegri atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.

29. gr.

    Aðilar skulu eftir því sem við verður komið sjá um að atkvæðisbærir félagsmenn geti kynnt sér miðlunartillögu í heild. Sáttasemjara er heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að draga fram meginatriði úr miðlunartillögu til þess að auðvelda félagsmönnum þeirra að kynna sér efni hennar og taka málefnalega afstöðu til tillögunnar og áhrifa hennar á hag þeirra og afkomu. Öðrum aðila vinnudeilu er heimilt að vinna útdrátt úr miðlunartillögu fyrir félagsmenn sína í samráði við sáttasemjara. Eigi má birta miðlunartillögu öðrum en þeim sem hlut eiga að máli án samþykkis sáttasemjara fyrr en greidd hafa verið atkvæði um hana.
    Miðlunartillaga skal borin undir atkvæði við atkvæðagreiðslu allra atkvæðisbærra aðila eins og sáttasemjari gekk frá henni og henni svarað játandi eða neitandi.
    Atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skal fara fram á kjörfundi sem standi í fyrir fram ákveðinn tíma. Ríkissáttasemjari getur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu ákveðið að atkvæðagreiðsla fari jafnframt fram utan kjörfundar á tilteknum stöðum eða svæðum. Í stað atkvæðagreiðslu innan og utan kjörfundar er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma. Ríkissáttasemjari gefur að höfðu samráði við aðila vinnudeilu nánari fyrirmæli um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu, svo sem hvenær og hvernig hún skuli fara fram. Atkvæðagreiðsla skal vera skrifleg og leynileg.

30. gr.

    Jafnskjótt og atkvæðagreiðslu er lokið skulu atkvæði og kjörgögn afhent sáttasemjara. Talning atkvæða fer fram undir stjórn sáttasemjara og er hverjum aðila heimilt að hafa umboðsmann viðstaddan talninguna.

31. gr.

    Miðlunartillaga telst felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða, og þá minnst þriðjungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá, er mótatkvæði.

32. gr.

    Sáttasemjarar geta borið fram miðlunartillögu eins oft og þeim þykir þurfa.

33. gr.

    Ef sáttatilraunum í mikilvægri deilu er hætt án árangurs getur ríkissáttasemjari birt skýrslu um málið á þann hátt sem hann álítur heppilegastan til þess að almenningur fái rétta hugmynd um deiluna.

34. gr.

    Ef annar hvor aðili vill samþykkja miðlunartillögu sáttasemjara eftir að sáttaumleitun hefur verið hætt án árangurs sendir hann sáttasemjara yfirlýsingu um það. Sáttasemjara ber þegar að láta gagnaðila vita um yfirlýsinguna. Vilji hann einnig fallast á miðlunartillöguna sér sáttasemjari um að aðilar gangi frá samningum sín á milli.

35. gr.

    Nú hefur sáttaumleitunum sáttasemjara lokið án árangurs og ber honum þá að hefja þær á ný ef annar hvor aðili óskar þess eða hann telur það heppilegt. Þó ber honum ætíð að gera tilraun til sátta með aðilum innan 14 sólarhringa frá því hann hætti síðustu samningatilraunum sínum.

36. gr.

    Sáttasemjarar skulu halda gerðabækur og skrá þar hvar og hvenær sáttafundir eru haldnir, nafn sáttasemjara og viðstaddra aðila eða fulltrúa þeirra. Geta skal framlagðra skjala og hins helsta sem fram fer.

37. gr.


    Ríkissáttasemjari skal senda félagsmálaráðherra skýrslur um störf sín samkvæmt lögum þessum svo oft sem þurfa þykir og ekki sjaldnar en einu sinni á ári.


IV. KAFLI

Um Félagsdóm.

38. gr.

    Í höfuðstað landsins skal setja á stofn dómstól fyrir allt landið. Nefnist hann Félagsdómur. Dómurinn hefur það verksvið, sem tekið er fram í lögum þessum.

39. gr.

    Í dóminum eiga sæti fimm menn, sem skipaðir eru til þriggja ára þannig: Einn af Vinnuveitendasambandi Íslands, annar af Alþýðusambandi Íslands, þriðji af félagsmálaráðherra úr hópi þriggja manna, sem Hæstiréttur tilnefnir, og tveir af Hæstarétti, og sé annar þeirra sérstaklega tilnefndur til þess að vera forseti dómsins. Ef atvinnurekandi, sem er málsaðili, er ekki meðlimur í Vinnuveitendasambandi Íslands, skal dómari sá, sem tilnefndur er af því, víkja sæti, en í staðinn tilnefnir atvinnurekandinn dómara í málinu og skal hann hafa gert það áður en hálfur stefnufrestur er liðinn, ella tilnefnir forseti dómsins dómarann. Sama á við þegar málsaðili er stéttarfélag eða samband stéttarfélaga utan heildarsamtaka launafólks gagnvart dómara, skipuðum af Alþýðusambandi Íslands.
    Sömu aðilar tilnefna varadómendur er taka sæti í forföllum aðaldómenda.
    Þegar mál þau, sem um ræðir í 2. mgr. 44. gr., koma til meðferðar í Félagsdómi, skulu dómendur þeir, sem tilnefndir eru af Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, víkja sæti, en í þeirra stað tilnefna stefnandi og stefndur hvor sinn mann úr hópi 18 manna, sem tilnefndir eru í því skyni af Iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands og Samtökum iðnaðarins til þriggja ára í senn. Iðnsveinaráð ASÍ tilnefnir sex menn og Samtök iðnaðarins tólf menn. Nefnd samtök nefna með sama hætti jafnmarga varamenn. Nú tilnefnir aðili ekki dómara eða ekki næst samkomulag um tilnefninguna milli samaðila máls, og nefnir forseti Félagsdóms þá dómara í hans stað úr hópi sömu manna.


40. gr.

     Félagsmálaráðherra tilkynnir, hvenær tilnefning dómara skuli fara fram. Ef aðili hefur ekki tilkynnt ráðherra tilnefningu innan tveggja vikna frá því tilkynning um, að tilnefning skuli fram fara, var honum send, tilnefnir ráðherra dómara af hálfu þess aðilja.

41. gr.

    Það er borgaraleg skylda að taka sæti í dómnum. Ef aðaldómari og varadómari hans neita að dæma í ákveðnu máli, skal sá, sem hefur tilnefnt þá, tilnefna dómara í þeirra stað, ella gerir dómsforseti það.

42. gr.

    Dómarar skulu vera íslenskir ríkisborgarar, fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð. Þeir tveir, sem skipaðir eru af hæstarétti, skulu hafa lokið embættisprófi í lögfræði.

43. gr.


    Áður en dómarar taka sæti í dómnum í fyrsta skipti skulu þeir vinna eið að því eða drengskaparheit, að þeir muni rækja dómarastarfið eftir bestu vitund.

44. gr.

    Verkefni Félagsdóms er:
    Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á lögum þessum og tjóni, sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.
    Að dæma í málum, sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.
    Að dæma í öðrum málum milli verkamanna og atvinnurekenda, sem aðiljar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti 3 af dómendunum því meðmæltir.
    [Heimilt skal stéttarfélögum, félögum meistara og iðnrekenda og einstökum atvinnurekendum að leita úrskurðar Félagsdóms um það, hvort starfsemi falli undir I. og II. kafla laga um iðju og iðnað, svo og um það, til hvaða löggiltrar iðngreinar hún taki.] 1)
     1) L. 70/1954, 2. gr.

45. gr.

    Sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga reka fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir dómnum. Félög, sem ekki eru meðlimir sambandanna, reka sjálf mál sín og meðlima sinna. Ófélagsbundnir aðiljar reka mál sín sjálfir.
    Ef samband eða félag neitar að höfða mál fyrir meðlimi sína, er aðilja heimilt að höfða málið sjálfur. En leggja skal hann fram sönnun um synjun viðkomandi félags eða sambands fyrir formann Félagsdóms, áður en stefna er gefin út.

46. gr.

    Málsaðiljar geta gefið íslenskum ríkisborgurum, sem eru fjár síns ráðandi og hafa óflekkað mannorð, umboð til að reka mál sín fyrir dómnum.

47. gr.

    Mál, sem höfða má fyrir Félagsdómi, skulu ekki flutt fyrir almennum dómstólum, nema Félagsdómur hafi neitað að taka það til meðferðar, sbr. 44. gr. 3. tölul.

48. gr.

    Dómarar þeir, sem tilnefndir eru af hæstarétti, víkja sæti eftir sömu reglum, sem gilda um hæstaréttardómara. Dómurinn úrskurðar, hvort dómari skuli víkja sæti. Dómurinn er ekki starfhæfur, nema hann sé fullskipaður. Dómarar, sem hafa byrjað meðferð mála, skulu ljúka því, þó kjörtímabil þeirra sé á enda.

49. gr.

    Formaður dómsins ákveður, hvenær dómþing skuli halda. Hann stýrir þinghöldum, heldur þingbók, dómabók og aðrar bækur eftir nánari fyrirmælum dómsins.

50. gr.

    Formaður gefur út stefnur í nafni dómsins. Í stefnu skal taka fram: nöfn aðilja og heimilisfang, ítarlega frásögn um málavexti og kröfur stefnanda. Enn fremur skal stefnandi, eftir því sem frekast verður unnt, gera grein fyrir, með hvaða hætti hann hyggst að sanna staðhæfingar sínar og kröfur, og leggja fram 5 afrit af sönnunarskjölum, sem fyrir hendi eru. Með stefnu skal fylgja afrit fyrir hvern dómara, og sér formaður um, að öll afrit verði send dómurum þegar í stað.

51. gr.

    Formaður ákveður stefnufrest með hliðsjón af því, með hve stuttum fyrirvara stefndur getur mætt á dómþingi.
    Stefnandi sér um birtingu, og skal stefna birt af [stefnuvotti] 1) á venjulegan hátt. ... 1)
     1) L. 91/1991, 161. gr.

52. gr.

    Mál skal flytja munnlega. Þó má flytja mál skriflega:
    Ef stefndur hvorki mætir né lætur mæta.
    Ef málsaðiljar eða umboðsmenn þeirra óska og dómurinn álítur, að mál upplýsist betur með þeim hætti.

53. gr.

    Stefndi getur komið fram gagnkröfu, án þess að höfða þurfi gagnsóknarmál.

54. gr.

    Ef mál er ekki nægilega upplýst, ef leiða þarf vitni, ef skoðunar- eða matsgerð þarf fram að fara, ef aðili þarf að gefa skýrslu eða ef stefndi, að áliti dómsins, þarf frest til andsvara, getur dómurinn frestað máli. Við ákvörðun frests skal þess gætt, að mál tefjist ekki að óþörfu.

55. gr.

    Heimilt er að stefna vitnum fyrir Félagsdóm. Dómurinn eiðfestir vitni samkvæmt gildandi lögum.

56. gr.

    Dómurinn sér um, að mál upplýsist sem best. Hann getur krafið aðilja um skýrslu, ef hann álítur það nauðsynlegt til að upplýsa málið.
     Skattyfirvöld skulu veita nauðsynlegar upplýsingar um fjölda starfsmanna fyrirtækis vegna réttarstöðu vinnustaðarfélags, sbr. 3. mgr. 2. gr.

57. gr.

    Dómurinn getur ákveðið, að aðiljaskýrslu skuli gefa eða vitnaskýrslu taka fyrir héraðsdómi á varnarþingi hlutaðeigandi vitnis eða aðilja.

58. gr.

    Um vitnaskyldu, sönnunargildi vitnaskýrslu, vitnaleiðslur, svo og um hegningu fyrir rangan framburð, gilda sömu reglur og í einkamálum í héraði.

59. gr.

    Dómarar geta framkvæmt skoðunar- og matsgerðir, allir saman eða nokkrir þeirra eftir ákvörðun dómsins.
    Dómurinn getur enn fremur útnefnt skoðunar- og matsmenn til að framkvæma ákveðna skoðunargerð eða matsgerð, og gilda um það almennar reglur [um meðferð einkamála]. 1)
     1) L. 91/1991, 161. gr.

60. gr.

    Dómurinn getur dæmt vitni, skoðunar- og matsmenn og aðra, sem löglega eru kallaðir til að mæta fyrir dómnum, í sektir eftir sömu reglum og almennir dómstólar.

61. gr.

    Dómurinn ákveður þóknun til vitna og skoðunar- og matsmanna.

62. gr.

    Dómurinn getur hvenær sem er leitað álits sérfróðra manna um ákveðið atriði.

63. gr.

    Dómurinn sektar aðilja, málflytjendur og aðra fyrir vítaverða framkomu í málflutningi eða fyrir dómi, eftir sömu reglum og almennir dómstólar.
    Dómarinn getur vísað mönnum úr þinghaldi fyrir ósæmilega framkomu.

64. gr.

    Í dómum ræður afl atkvæða úrslitum. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns úrslitum. Úrskurði um einstök atriði, sem kveða þarf upp fyrir dómtöku máls, skal kveða upp þegar í stað, eða svo fljótt, sem unnt er, eftir að atriðið er tekið til úrskurðar. Sama gildir í vitna- og matsmálum, eftir því sem við á.
    Í munnlega fluttum málum skal kveða upp dóm innan sólarhrings eftir dómtöku, en í skriflega fluttum málum innan viku. Ef ekki er hægt að kveða upp dóm eða úrskurð svo fljótt, sem sagt hefur verið, skal nákvæmlega greina orsakir þess.
    Málflytjendum skal tilkynnt, hvar og hvenær dómur eða úrskurður verður kveðinn upp og boðið að mæta þar.

65. gr.

    Dómurinn getur dæmt aðilja til að greiða skaðabætur, sektir og til að greiða málskostnað eftir venjulegum reglum. Við ákvörðun skaðabóta má taka tillit til saknæmi brotsins.
    Dómar og úrskurðir Félagsdóms eru aðfararhæfir. Dómurinn ákveður aðfararfrest.

66. gr.

    Allur kostnaður við Félagsdóm, þar með talin þóknun til dómara, greiðist úr ríkissjóði eftir ákvörðun atvinnumálaráðherra.
    Réttargjöld skulu engin vera. Um gjafsókn og gjafvörn gilda almennar reglur.

67. gr.

    Úrskurðir og dómar Félagsdóms eru endanlegir og verður ekki áfrýjað. Þó má innan viku frá dómsuppsögn eða úrskurði [kæra] 1) til hæstaréttar:
    Frávísunardómi eða úrskurði um frávísun.
    Dómi til ónýtingar, sökum þess að málið heyri ekki undir Félagsdóm.
    Úrskurð um skyldu til að bera vitni, um eiðvinning og sektir.
     1) L. 91/1991, 161. gr.

68. gr.

    Formaður gefur út dómsgerðir Félagsdóms í nafni dómsins og með innsigli hans undir. Ritlaun skal greiða samkvæmt venjulegum reglum.

69. gr.

    Um þau atriði viðvíkjandi meðferð mála, sem ekki er kveðið á um í þessum lögum, skal fara eftir hliðsjón af meðferð einkamála í héraði, svo sem við verður komið.

V. KAFLI

Niðurlagsákvæði.

70. gr.

    Brot á lögum þessum varða auk skaðabóta sektum ... 1) Sektirnar renna í ríkissjóð, og má innheimta þær sem fjárkröfur á venjulegan hátt, en um afplánun skal eigi vera að ræða.
     Ábyrgð skv. 2. mgr. 8. gr. varðar þó ekki sektum.
     1) L. 10/1983, 9. gr.



Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 80/1938,


um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum.


    Markmið frumvarpsins er að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Samkvæmt því er vinnustaðarfélögum sköpuð réttarstaða, skýrari reglur settar um samningsumboð atvinnurekenda og stéttarfélaga og skylda lögð á herðar samningsaðilum til að stuðla að því að félagsmenn þeirra virði gerða samninga. Jafnframt eru í frumvarpinu settar skýrari reglur um hvað þurfi að koma fram í tillögum um vinnustöðvun og hvernig ákvörðun um vinnustöðvun skuli tekin. Í því sambandi er heimiluð póstatkvæðagreiðsla um ákvörðun vinnustöðvunar, sem og gerð kjarasamninga. Einnig er í frumvarpinu kveðið á um að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli gera áætlun um skipulag viðræðna og gerð kjarasamnings, skýrari miðlunarheimildir sáttasemjara og hvernig atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu og afgreiðslu hennar skuli háttað.
    Ekki er mögulegt að sjá fyrir hvaða áhrif lögfesting frumvarpsins muni hafa á niðurstöðu í kjaradeilum og áhrif þess á fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Hins vegar kallar það á aukinn kostnað við embætti ríkissáttasemjara. Annars vegar er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða póstatkvæðagreiðslu og utankjörfundaratkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Nýti ríkissáttasemjari þessa heimild ber ríkissjóður kostnað af framkvæmdinni. Kostnaðurinn, sem aðallega felst í póstburðargjöldum, getur verið allt að 1 m.kr. og fer það eftir fjölda kjósenda og fjölda kosninga. Hins vegar er kveðið á um samtímalausnir í kjaradeilum sem kalla á aukna tímabundna starfsemi ríkissáttasemjara. Gera má ráð fyrir að hún útheimti 1–2 m.kr. í auknar launagreiðslur og viðlíka fjárhæð í aukinn húsnæðiskostnað hjá embættinu. Að öllu samanlögðu má því gera ráð fyrir að beinn kostnaður ríkissjóðs geti orðið á bilinu 3–5 m.kr.
Neðanmálsgrein: 1
    Í þessu sambandi hefur verið litið til fyrirkomulags í Danmörku þar sem tíðkast hefur að aðilar geri viðræðuáætlun hverju sinni vegna væntanlegra kjaraviðræðna.
Neðanmálsgrein: 2
    Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 33/1978 um sáttastörf í vinnudeilum er ákvæði sem heimilar sáttasemjara að taka í sínar hendur stjórn samningaviðræðna ef hann telur það heppilegt. Framkvæmdin hefur orðið sú að ekki kemur til kasta sáttasemjara fyrr en deilu hefur formlega verið vísað til hans, sbr. 3. mgr. 5. gr.
Neðanmálsgrein: 3
    Sbr. 3. og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.
Neðanmálsgrein: 4
    Á dönsku er rætt um „sammenkædningsret“.
Neðanmálsgrein: 5
    Sbr. nú 4. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.
Neðanmálsgrein: 6
    Sá háttur er jafnan hafður á í Danmörku.
Neðanmálsgrein: 7
    Þ.e. heildarútkoma í atkvæðagreiðslu þeirra hópa sem sameiginleg miðlunartillaga nær til.
Neðanmálsgrein: 8
    Þannig er tryggður réttur — og skylda — hvers samningsaðila til þess að semja um sín sérmál og jafnframt virtur rétturinn til þess að grípa til aðgerða þeim til stuðnings eins og fyrr segir. Er það í samræmi við álit nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi, sbr. t.d. mál nr. 1725: Complaint against The Government of Denmark presented by The Danish Union of Journalists (DJ), Reports of the Committee on Freedom of Association (292nd and 293rd Reports), Official Bulletin, Vol. LXXVII, 1994, Series B, No. 1, Alþjóðavinnumálastofnunin, Genf 1994, greinar 225 og 226, bls 63.
Neðanmálsgrein: 9
    Sbr. 1. mgr. 10. gr. og 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum.
Neðanmálsgrein: 10
    Sbr. 3. mgr. 9. gr. og 12. gr. laga nr. 33/1978 um sáttastörf í vinnudeilum.
Neðanmálsgrein: 11
    Sbr. 5. mgr. 9. gr. laga nr. 33/1978 um sáttastörf í vinnudeilum og 1. mgr. 9. gr. sömu laga.
Neðanmálsgrein: 12
     Orðalagið atvinnurekendur og samtök þeirra tekur einnig til samningsumboðs fyrir ríki og sveitarfélög — þar sem fjármálaráðherra, forseti Alþingis og sveitarstjórnir fara með fyrirsvar, sbr. nú 3. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Neðanmálsgrein: 13
    Fyrirvari um umræddan tilgang í samþykktum á bæði við um stéttarfélög og samtök atvinnurekenda.
Neðanmálsgrein: 14
    Í slíkri ákvörðun um að fela öðrum umboð til samningsgerðar fælist ekki sjálfkrafa ákvörðun um sameiginlega atkvæðagreiðslu skv. 3. málsl.; sú ákvörðun væri tekin sérstaklega hverju sinni.
Neðanmálsgrein: 15
    Slíkt orðalag fæli einnig í sér heimild til þess að kveða á um sameiginlega atkvæðagreiðslu samtaka.
Neðanmálsgrein: 16
    Sbr. 2. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Sbr. á hinn bóginn 2. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og dóm Félagsdóms frá 19. janúar 1994 í málinu nr. 1/1994.