Viðræðuáætlanir

Miðvikudaginn 12. febrúar 1997, kl. 14:31:14 (3408)

1997-02-12 14:31:14# 121. lþ. 68.5 fundur 307. mál: #A viðræðuáætlanir# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Meðal þeirra nýjunga sem samþykktar voru sl. vor er frv. til laga um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur var afgreitt, var ákvæði um viðræðuáætlanir. Samkvæmt lögunum ber samningsaðilum að gera viðræðuáætlun í síðasta lagi tíu vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus. Í lögunum segir, með leyfi forseta:

,,Ef samningsaðilar hafa þá ekki gert viðræðuáætlun skal sáttasemjari gefa út viðræðuáætlun fyrir þá samningsaðila í síðasta lagi átta vikum áður en gildandi kjarasamningur er laus og skal sáttasemjari þá taka mið af öðrum viðræðuáætlunum sem hafa þegar verið gerðar.``

Í þeim umræðum sem áttu sér stað liðið vor og voru nokkuð ítarlegar var bent á að búast mætti við miklum fjölda viðræðuáætlana, en hæstv. félmrh. sagði þá í einni af sínum ræðum, með leyfi forseta:

,,Menn hafa verið að ímynda sér og fara með furðuleg dæmi um það hvað viðræðuáætlanir gætu orðið margar. Auðvitað verða viðræðuáætlanir ekki nema örfáar þó að mörg félög standi að þeim. Væntanlega mótast viðræðuáætlun sem mörg félög verða aðilar að.``

Samningar nánast allra stéttarfélaga urðu lausir um áramót og því áttu viðræðuáætlanir að liggja fyrir um miðjan október eða þá að málum yrði vísað til sáttasemjara í framhaldi af því ef ekki tækist að semja viðræðuáætlun. Að mínum dómi hefur þetta ákvæði laganna skilað litlu sem engu og ég fæ ekki betur séð en að allt hjakki í sama farinu. En hvernig var framkvæmdin? Hvernig gekk þetta fyrir sig? Og til þess að fá svör við því spyr ég hæstv. félmrh.:

1. Hversu margar viðræðuáætlanir voru gerðar milli stéttarfélaga og atvinnurekenda á síðasta ári í samræmi við breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem samþykktar voru á Alþingi sl. vor?

2. Hversu margar viðræðuáætlanir hefur ríkissáttasemjari gefið út til þessa?