Starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum

Miðvikudaginn 19. febrúar 1997, kl. 15:57:48 (3732)

1997-02-19 15:57:48# 121. lþ. 74.95 fundur 201#B starfskjör yfirmanna í ríkisbönkunum# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur

[15:57]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Árið 1993 sótti ég ráðstefnu um launajafnrétti kynjanna í Stokkhólmi. Þar var kynnt staða launamála í hverju Norðurlandanna fyrir sig og á eftir sátu frummælendur fyrir svörum. Það vakti mikla athygli og kátínu er fulltrúi Íslands kynnti fyrirbærið óunnin yfirvinna. En ráðstefnugestir höfðu aldrei heyrt um slíka vinnu og áttu erfitt með að skilja hvað þar var á ferð enda tíðkast líklega hvergi á byggðu bóli að körlum sér greitt sérstaklega fyrir vinnu sem þeir vinna ekki. En eins og menn vita eru það sérstök forréttindi hóps karla hér á landi, einkum þeirra sem vinna hjá ríkinu, að fá slíkar greiðslur og aðeins örfáar konur sem njóta þeirrar náðar.

Á undanförnum árum höfum við kvennalistakonur margsinnis bent á þá staðreynd að launakerfi ríkisins sé handónýtt og er ofannefnt dæmi um þær ógöngur sem ríkiskerfið er komið í í leit sinni að leiðum til að bæta launakjör ákveðinna hópa ríkisstarfsmanna sem það þarf að keppa um við almennan markað. Launakerfið er ógagnsætt, það byggist upp á margs konar aukagreiðslum og það felur í sér launamun kynjanna sem er algjörlega óþolandi. Við höfum lagt fram tillögu ár eftir ár um uppstokkun á launakerfi ríkisins en það virðist lítill vilji til að ráðast til atlögu við þennan myrka frumskóg. Miklu fremur á nú að taka upp eina greiðsluna enn, eins konar umbun fyrir vel unnin störf, samkvæmt heimild í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem enginn veit enn þá hvernig verður beitt.

Þær upplýsingar sem nýlega komu fram um launakjör bankastjóra ríkisbankanna ættu ekki að koma neinum á óvart, þær hafa komið fram áður. Samsetning þeirra er hins vegar lýsandi fyrir launakerfi ríkisins og afar sérkennilegt hve mjög þau hafa hækkað á undanförnum árum miðað við almennar launahækkanir. Fyrir utan það hve launin eru há, miðað við almenn laun í landinu byggjast þau á margföldum greiðslum fyrir aukaverk sem augljóslega eru unnin í dagvinnu. Það á að sjálfsögðu að greiða bankastjórum góð laun eins og öðrum sem bera mikla ábyrgð en fyrr má nú rota en dauðrota.

Hæstv. forseti. Að mínum dómi bera laun bankastjóra ríkisbankanna vott um of mikinn launamun í landinu en fyrst (Forseti hringir.) og fremst minna þau á hve launin eru almennt lág. Það verður að jafna þennan launamun.