Rafknúin farartæki á Íslandi

Mánudaginn 24. febrúar 1997, kl. 19:36:08 (3884)

1997-02-24 19:36:08# 121. lþ. 76.18 fundur 323. mál: #A rafknúin farartæki á Íslandi# þál., 327. mál: #A notkun vetnis í vélum fiskiskipaflotans# þál., Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur

[19:36]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. og hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir viðbrögð þeirra. Ég vildi aðeins fá að bregðast við athugasemdum sem fram komu. Hæstv. umhvrh. sagði ,,ef hægt yrði að fá menn til þess að skoða þetta mál``. Ég held að málið sé miklu alvarlegra. Ég held að það snúist ekki einungis um að reyna að fá menn. Ég held að okkur beri skylda til þess, umhverfisleg skylda og Ríó-sáttmálinn, þær alþjóðaskuldbindingar sem við höfum tekist á hendur, gefa okkur stefnuna og segja að við þurfum e.t.v. að taka með öðru en silkihönskum á þessu máli.

Til allrar hamingju hafa margir komið að málinu og hér hafa verið nafngreindir ýmsir mætir einstaklingar sem hafa unnið rösklega að þessum málum bæði hvað varðar rafknúna bíla og vetnisframleiðslu og vetnisnotkun hérlendis. Það er ekki síst fyrir tilstilli þessara mætu vísindamanna sem málið er lifandi í dag.

Ég styð hæstv. umhvrh. mjög í þeirri ákvörðun að leggja af nefnd sem hafði starfað í um fjögur ár og sýnt lítið lífsmark. Slíkar nefndir eiga ekki að starfa. Þær eru betur settar án umboðs og nýjar nefndir frekar skipaðar.

Varðandi það atriði sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi um boðleiðir frá hv. flm. til hæstv. umhvrh. þá er það hárrétt að við hæstv. umhvrh. erum flokksbræður og mjög ánægðir og hreyknir af því. Hins vegar tel ég málið það stórt og alvarlegt, eins og hv. þm. tók reyndar undir, og ég ber það mikla virðingu fyrir hv. Alþingi að ég tel að málið eigi erindi hingað og hér sé um að ræða stefnumörkun af hálfu Alþingis fari þetta í gegn. Ráðherrann hafi þá vilja Alþingis í farteski þegar nefndin vonandi tekur til starfa. Ég er sjálfur sannfærður um gildi málsins og styð það þeim efnahagslegu og umhverfislegu rökum sem áður voru nefnd. Ég verð þó að gera aðeins leiðréttingu á máli hv. 4. þm. Austurl. því að í annarri tillögunni er gert ráð fyrir ,,rafknúnum farartækjum`` ekki eingöngu rafbílum. Eins og kom fram í framsöguræðu minni þá er m.a. ætlast til þess að leiðir séu skoðaðar með rafknúna strætisvagna, jafnvel vetnisknúna bíla eða rafknúna sporvagna. Þess gat ég í framsögu en ætla að sjálfsögðu nefnd sérfróðra aðila til að skoða þessa þætti eins og áður hefur verið nefnt. Nefndinni er ætlað að safna saman þeim upplýsingum hérlendis og erlendis sem fyrir liggja. Síðan er þetta spurning um hina pólitísku stefnumörkun og það er hún e.t.v. sem er meginatriðið. Höfum við pólitískan vilja til þess að stíga þetta skref? Hefur ríkisvaldið þann pólitíska vilja til að koma málunum fyrir með þessu móti?

Ég er sannfærður um að mikið er að gerast. Ég nefndi dæmi í framsögu minni sem mér er kunnugt um eftir að hafa rætt við fulltrúa frá ýmsum erlendum stórfyrirtækjum og heyrt vilja þeirra til að gera tilraunir á Íslandi og fjárfesta hér í því skyni vegna þess að þeir sömu erlendu aðilar sjá sér hag í að nota Ísland sem tilraunaland. Auðvitað eru þeir ekki að fara út í slíkar tilraunir nema þeir sjái sér sjálfum hag í því. En það er líka okkar hagur og það er hagur heimsins vegna þess að báðar tillögurnar miða að því að draga úr mengun, einkum á koldíoxíði.

Bara örstutt um vetnið. Hér hafa hv. þingmenn Kvennalistans komið með þáltill. um það, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi. Ég tel að miklu máli skipti sú tilraun sem gerð hefur verið í Gufunesi, en ekki farið hátt um, með tilstilli þeirra prófessora úr háskólanum sem hér hafa verið nefndir og Max Planck Institut og sá vilji sem er frá erlendum kaupendum að fjárfesta og jafnvel kaupa vetni. Það skyldi þó aldrei verða, herra forseti, að um vetnið verði sagt eins og þekktan stórsöngvara úr einni af skáldsögum Nóbelsskáldsins: ,,Mín upphefð kemur að utan.``