Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 18:02:06 (5192)

1997-04-15 18:02:06# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[18:02]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það eru engin rök í þessu máli eins og framsóknarmenn hafa nefnt áður og hv. þm. Jón Kristjánsson gerði núna að verið sé að gera þetta fyrir námsmenn vegna þess að þetta sé námsmönnum gott. Námsmenn, eins og m.a. er tekið sérstaklega fram í grein sem formaður stúdentaráðs skrifar í Morgunblaðið í dag, hefðu frekar viljað sjá samtímagreiðslurnar. Fyrir því eru ýmis rök sem margoft hafa verð tínd til einmitt af námsmönnum. Reynsla námsmanna af bönkunum hefur ekki verið góð. Þegar þetta var á sínum tíma sent út til bankanna átti það að gerast þannig að þegar bankarnir fengju þessi viðskipti til sín mundu þeir allir keppast við að fá námsmennina til sín og fjármagnskostnaður mundi fara niður úr öllu valdi en það gerðist ekki. Þannig að námsmenn hafa ekki góða reynslu af að hafa þessi viðskipti sín í bönkunum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að bein viðskipti við sjóðinn hefðu verið æskilegri. Það er alveg út í hött að færa það fram sem rök í málinu að þetta sé námsmönnum í hag. Nema þeir hafi óskað svona eindregið eftir þessu í nefndinni en það hefur þá algjörlega farið fram há mér. Alls staðar þar sem ég hef heyrt námsmenn eða forustumenn og fulltrúa námsmanna tjá sig um þessi mál hafa þeir einmitt sagt að þeir vildu frekar sjá samtímagreiðslurnar. Þó er þetta skref vissulega skárra en það sem var. Mér finnst engin ástæða til að vera að reyna að sýna fram á annað í þeim efnum. Það er lykilatriði að hefði Framsfl. viljað gera það sem námsmenn vilja þá hefði flokkurinn lagt til samtímagreiðslur námslána.