Umferðarlög

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 16:55:46 (6050)

1997-05-09 16:55:46# 121. lþ. 120.14 fundur 487. mál: #A umferðarlög# (ölvunarakstur, vátryggingarfjárhæðir o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[16:55]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá meiri hluta allshn. um frv. til laga um breyting á umferðarlögum, með síðari breytingum. Nál. er á þskj. 1101.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund ýmsa gesti og auk þess bárust nefndinni umsagnir um málið frá mörgum aðilum. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum umferðarlaganna.

Í fyrsta lagi er lagt til að niðurstaða mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér verði að lögum metin sem fullnægjandi sönnun um ölvunarástand á sama hátt og þegar vínandamagn í blóði er mælt. Þá er lagt til að heimilað verði að setja almennar reglur um undanþágu fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja, en um langt skeið hafa verið í gildi reglur sem lögreglustjórinn í Reykjavík setti um þetta. Einnig eru í frumvarpinu lagðar til breytingar er varða skráningu ökutækja, en þær eru nauðsynlegar vegna skiptingar Bifreiðaskoðunar Íslands í tvö fyrirtæki. Loks eru í frumvarpinu lagðar til hækkanir á vátryggingarfjárhæðum umferðarlaganna.

Í 2. gr. frumvarpsins, þar sem fjallað er um mælingu vínandamagns, er að finna það nýmæli að hjúkrunarfræðingar og meinatæknar geti annast töku blóðsýna sem hingað til hefur einungis verið í höndum lækna. Leggur meiri hlutinn áherslu á að gert er ráð fyrir því að hjúkrunarfræðingar og meinatæknar annist töku blóðsýna innan þeirra reglna sem um störf þeirra gilda.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Leggur meiri hlutinn til að 7. og 8. gr. frumvarpsins falli brott, en þar eru lagðar til hækkanir á vátryggingarfjárhæðum. Hjá viðmælendum nefndarinnar kom fram að brýnt væri að endurskoða XIII. kafla umferðarlaganna, um fébætur og vátryggingu, í heild sinni. Því leggur meiri hlutinn til að breytingum á vátryggingarfjárhæðum verði frestað til heildarendurskoðunar, enda hefur ekki komið fyrir að vátryggingarfjárhæðir hafi ekki dugað fyrir bótum. Því beinir nefndin því til dómsmálaráðherra að skipuð verði nefnd til að fjalla um breytingar á kaflanum í heild og skili nefndin tillögum eigi síðar en í haust. Þessi endurskoðun er að sjálfsögðu afar mikilvæg og skiptir miklu að hún fari strax af stað þannig að tillögur geti legið fyrir sem fyrst eftir að þing kemur saman.

Undir nefndarálitið rita nöfn sín Sólveig Pétursdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Hjálmar Jónsson, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason og Kristján Pálsson, en þau skipa meiri hluta allshn.