Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 21:34:13 (141)

1996-10-08 21:34:13# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[21:34]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 11. þm. Reykn. flutti hér um margt ágæta ræðu og vil ég leyfa mér að nefna tvennt sem kom fram í henni og vekja athygli hv. þm. á.

Í fyrsta lagi talaði hann um rannsóknir. Ég er alveg sammála honum um að eitt það allra mikilvægasta í uppbyggingu þjóðfélagsins og framtíðarhugsuninni sem á auðvitað að koma fram og kemur fram í fjárlagafrv. eru rannsóknir. En það er nú þannig að við höfum hér merka stofnun sem heitir Háskóli Íslands og hlýtur að vera sá aðili í íslensku þjóðfélagi sem þarna á að hafa forustu. Ég vildi spyrja hv. þm. af því að ég veit að hann þekkir nokkuð vel til á þeim bæ: Telur hann að stefnumörkunin og forustan sem háskólinn hefur haft á sviði rannsókna sé viðunandi? Og telur hann að þeim fjármunum sem háskólinn hefur yfir að ráða til rannsókna sé varið með viðunandi hætti? Ég hef haldið því fram, reyndar ekki í þessum stól, að Háskóli Íslands sé með allra verst reknu stofnunum sem íslenska ríkið ber ábyrgð á og væri ágætt að fá umsögn rekstrarhagfræðingsins um það.

Í annan stað nefndi þessi ágæti hv. þm. nýja línu sem lögð er frá hinum nýja þingflokki jafnaðarmanna, þ.e. gagnvart vegamálum, og ég vildi fá tækifæri til þess að ræða þau mál kannski síðar við hv. þm. en það var mjög athyglisvert og umhugsunarvert það sem hann sagði um að við legðum of mikið til vegamála. Um það væri mjög skemmtilegt að taka smáumræðu við hinn nýja þingflokk jafnaðarmanna.