Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 22:39:03 (151)

1996-10-08 22:39:03# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[22:39]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði hér nokkurra spurninga. Hún spurði um forvarnasjóð sem áætlað er 55 millj. kr. á næsta ári en áætlaðar voru 50 millj. kr. á yfirstandandi ári.

Ríkisstjórnin er nú um þessar mundir að ljúka við að vinna að sameiginlegu forvarnaátaki varðandi fíkniefni.

Hv. þm. spyr einnig um þjónustugjöld. Það er rétt sem kom fram í hennar máli að það eru ekki boðuð ný þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu. Hún spyr um tannréttingar og tannlækna sem er áætlað að spara um 80 millj. kr. á næsta ári. Sparnaðurinn felst fyrst og fremst í því að á yfirstandandi ári hefur verið að greiða gamla reikninga, suma tveggja og upp í þriggja ára gamla. Þeir reikningar berast okkur ekki á næsta ári, við erum að hreinsa upp gamlar skuldir. Síðan er áætlað að samræma gjaldtöku í tannréttingum. Það er mikill mismunur á gjaldtöku innan þessa sviðs.

Hv. þm. spyr einnig um sjúkrahúsrekstur og spyr um sjúkrahúsin hér á Reykjavíkursvæðinu og tók sérstaklega fyrir þá umræðu sem undanfarna daga hefur staðið yfir um Sjúkrahús Reykjavíkur. Eins og menn muna er aðeins rúmur mánuður síðan Sjúkrahús Reykjavíkur fékk aukafjárveitingu upp á 230 millj. kr. til rekstursins og yfir 100 millj. kr. til nýframkvæmda. Þessi aukafjárveiting átti að duga til að halda óbreyttum rekstri þetta ár og undirbúa samhæfingu sjúkrahúsanna sem mun hefjast á næsta ári. Ef við náum þeirri samhæfingu sem boðuð er í frv. þá náum við verulegri hagræðingu allt upp í 340 millj. kr.

Ég á eftir að svara hv. þm. varðandi lyfin. Við tökum sérstaklega á innflutningi lyfja og erum um þessar mundir að semja við apótekara varðandi afslátt til Tryggingastofnunar á lyfjakostnaði.