Lögræðislög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:28:32 (1097)

1996-11-12 19:28:32# 121. lþ. 21.23 fundur 49. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:28]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er hrædd um að hv. þm. Pétur Blöndal gæti fengið staðfestingu á því hversu alvarleg sjálfræðissvipting er víða hjá fagfólki sem hefur komið nálægt sjálfræðissviptingu unglinga sem lenda t.d. í þeirri ógæfu að rata í óreglu á þessu aldursbili þannig að ég held að hvað sem hv. þingmönnum finnist um þau rök að sjálfræðissviptingin sé eitthvað sem fólk burðast með alla sína ævi, þá held ég einfaldlega að sýnt hafi verið fram á að svo sé. Þarna er um mjög erfiðan hlut að ræða. Hér er hins vegar ekki verið að tala um að svipta alla unglinga sjálfræði. Þetta er náttúrlega oftúlkun á hlutunum. Það er verið að tala um að færa þetta norm, þ.e. hvenær maður verður fullorðinn úr 16 upp í 18 ár, m.a. með tilliti til þeirra breytinga sem hafa orðið á samfélaginu síðustu áratugina sem m.a. hafa gert það að verkum og haft það í för með sér að forsjárskyldur foreldra t.d. vara mun lengur en áður var. Fólk fer seinna að heiman o.s.frv. Þessi breyting er því fyllilega í takt við þá þróun sem hefur verið að eiga sér stað. Og eins og bent er á í greinargerð með frv. er þessi aldur, 18 ára aldurinn, það sem almennt er miðað við í nágrannalöndum okkar.

Ég vil einnig ítreka það sem ég sagði áðan í fyrra andsvari, að það verður enginn fullorðinn af því einu að um það séu sett lög sem segja: ,,Þú verður fullorðinn við 16 ára aldur.`` Síðan eru einhver ákveðin atriði sem þú færð ekki uppfyllt, skyldur sem þú færð ekki að takast á við fyrr en við 18 ára aldur eins og t.d. fjárræði sem er megininntak þess að verða fullorðinn, ekki satt.