Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:36:57 (1187)

1996-11-14 13:36:57# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:36]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér finnst lágmark ef menn fara með siðaprédikanir upp í þennan stól að þeir reyni að segja satt frá sjálfir. Hv. þm. var að tala um að þessu fé hefði verið úthlutað í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Hann virðist ekki hafa kynnt sér málið mikið. Þessu fé var úthlutað í janúar sl. Alþingiskosningar fóru fram þó nokkrum mánuðum áður. Flestir þingmenn muna hvenær þeir voru kjörnir.

Í annan stað hlýt ég að segja það vegna þess að hinn nútímalegi jafnaðarmannaflokkur, sem er svo mikið fyrir einkaframtakið og vill auðvitað vera nútímalegur í allri hugsun, ætti að muna að það var gamaldagsjafnaðarmaðurinn Sigbjörn Gunnarsson sem var formaður fjárln. þegar ákveðið var að veita 20 millj. kr. í þessu skyni og sú fjárveiting var ekki veitt að beiðni samgrh. Þegar hv. þm. talar um það nú í einhverjum yfirlætistón að það skuli vera vilji minn sem til þess standi að tekið sé tillit til efnahags hótela í sambandi við úthlutun þessara styrkja, þá tók Sigbjörn Gunnarsson, formaður fjárln., það sérstaklega fram í ræðu sinni hvort ekki væri rétt að úthluta þessum styrkjum til skuldbreytinga en ekki til markaðsátaks. Það er öldungis ljóst að sú hugsun var ekki hjá gamaldagsjafnaðarmanninum sem formaður fjárln. þegar þetta var lagt til, að fénu yrði varið til markaðsátaks.

Á hinn bóginn brá þannig við eftir að ný ríkisstjórn var tekin við völdum og nýr formaður fjárln. var tekinn við að hann gat þess í framsöguræðu sinni að rétt væri að veita þessa styrki til markaðsátaks eða eins og hann segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Meginhlutinn, eða 16 millj. kr., fer samkvæmt tillögu nefndarinnar til markaðsátaks hjá þeim hótelum sem helst uppfylla þau skilyrði að mati nefndarinnar og kallast heilsárshótel á landsbyggðinni.`` Ég hygg að nauðsynlegt sé að þetta komi skýrt fram.

Ég vil líka að það komi alveg skýrt fram að það hefur oft borið við á hinu háa Alþingi að menn hafa haft áhyggjur af fjárhag heilsárshótela svokallaðra úti á landsbyggðinni. Sá háttur hefur oftast nær verið á hafður að Alþingi hefur veitt framlag til Ferðamálasjóðs sem hefur síðan verið falið að kaupa hlutabréf í tilteknum hótelum. Þannig á Ferðamálasjóður í Þór hf. 5.826.340 kr. síðan 1983, í Hótel Húsavík hf. 3,5 millj. kr. síðan 1988 og 15 millj. síðan 1989, í Hótel Valaskjálf 15 millj. síðan 1990, í Árey hf. 6 millj. síðan 1990. Auk þessa hefur sjóðurinn eignast hlut og selt aftur í Hótel Borgarnesi 25 millj., selt 1990, og Hótel Ólafsfirði 3 millj., selt 1991.

Ég hef á þskj. 112 gert grein fyrir því eftir hvaða reglum og sjónarmiðum sú nefnd vann sem úthlutaði þessum styrkjum og m.a. í þá tíð er spurt að því hvernig ráðuneytið fylgdist með því að féð væri notað eins og til var ætlast. Féð var veitt á þessu ári þannig að ekki var við því búist að reynsla væri komin á það fyrr en nokkuð liði á seinni hluta ársins hver árangurinn hefði verið en ég hef þegar ákveðið að það verði sent út bréf þar sem spurst er fyrir um það í hvað peningunum hafi verið varið og hvaða árangur hafi orðið af því markaðsátaki sem til var ætlast. Jafnframt hef ég ákveðið að farið verði að tilmælum Samkeppnisstofnunar eða tillögum í sambandi við úthlutun þeirra 15 millj. sem bíða og mun ég auglýsa það og á von á því að umsóknir þurfi að berast ráðuneytinu fyrir miðjan desember nk.