Umferðarlög

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 20:44:29 (1997)

1996-12-10 20:44:29# 121. lþ. 38.12 fundur 55. mál: #A umferðarlög# (EES-reglur, vegheiti o.fl.) frv., Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:44]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að koma að nokkrum athugasemdum vegna ýmissa atriða sem hér hafa komið fram í ræðum hv. þingmanna og vegna fyrirvara hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur við 3. gr. frv. þar sem var m.a. rætt um að ágreiningur hefði verið í Umferðarráði um þá tillögu. Mér er tjáð að þegar þessi mál voru rædd í Umferðarráði í fyrra, hafi verið rætt um víðtækari heimild til hækkunar hraða og raunar upp í 90 km hraða.

Vegagerð ríkisins hefur mælt hraða stórra bifreiða og þar hefur komið fram að meðalhraði þeirra hefur verið u.þ.b. 5--10% undir meðalhraða minni bíla og það er einmitt í samræmi við þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram og eru til umfjöllunar. Það er verið að reyna að jafna ökuhraðann vegna hættu vegna framúraksturs eins og hv. þm. minntist á. Ég vil einnig taka fram að þótt sjálfsagt þyki að beina því til dómsmrn. að gera ákveðna skoðanakönnun eða viðhorfskönnun varðandi hækkun ökuleyfisaldurs, þá voru nefndarmenn í allshn. ekki í sjálfu sér að taka afstöðu til þess hvort hækka beri þennan aldur og um það eru vafalaust mjög skiptar skoðanir á hinu háa Alþingi. Raunar minntist hv. þm. Hjálmar Jónsson einmitt á það mál áðan en hann er fulltrúi í allshn.

Ég vil enn fremur ítreka það sem ég sagði í framsögu um nál. allshn. um það að nefndin getur ekki mælt með brtt. um hækkun hámarkshraða. Ég minni líka á þáltill. um umferðaröryggisáætlun sem samþykkt var á síðasta þingi en markmið hennar er að sjálfsögðu að fækka umferðarslysum verulega. Ég vil líka láta þess getið að a.m.k. 20 aðilar eiga aðild að Umferðarráði þannig að mjög margir koma að umsögn Umferðarráðs og það er vonandi að hinn þögli meiri hluti eigi einhverja fulltrúa þar samanber það sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var að ræða um fyrr í dag.

Enn fremur hefur komið í ljós varðandi þessa umræðu um hækkun hámarkshraða að við hraðamælingar hjá Vegagerðinni 1989--1993, eftir því sem mér er tjáð, var meðalhraði víðast um 90 km og það hafi aðeins verið 15% ökumanna sem aka yfir 100 km og aðeins við bestu aðstæður. Og vegna þessarar umræðu sem var á köflum nokkuð sérstök þá vil ég, með leyfi virðulegs forseta, fá að lesa úr umsögnum. Ég byrja á umsögn frá Slysavarnafélagi Íslands, þar segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að hækkun á hámarkshraða mun auka hættu á slysum, auk þess sem þau yrðu alvarlegri. Fæstir þjóðvegir landsins eru hannaðir fyrir hærri ökuhraða en nú er leyfður og nægir í því sambandi að benda á að enn þá eru á þjóðvegum landsins fjölmargar einbreiðar brýr. Veðurfarsaðstæður á Íslandi eru oft mjög varasamar fyrir akstur, einkum að vetrarlagi og oft hafa hlotist af því alvarleg umferðarslys. Vegir geta til að mynda orðið mjög hálir vegna bleytu eða ísingar og hættulegir sviptivindar myndast víða. Í umferðaráætlun til ársins 2001 kemur fram að ríkisstjórn Íslands samþykkti veturinn 1994--1995 að skipa nefnd sem fjallaði um stefnumörkun í umferðaröryggismálum. Hún fól í sér áætlun um að fækka alvarlegum umferðarslysum á þessum tíma. Aukinn hámarkshraði mundi hafa þveröfug áhrif. Nefndin lauk störfum í janúar 1995 og Alþingi samþykkti í febrúar sl. umferðaráætlunina til ársins 2001.``

Í umsögn frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Samband íslenskra tryggingafélaga leggst eindregið gegn hækkun hámarkshraða utan þéttbýlis eins og fram kemur í tillögunni. Sú fullyrðing að hraðamörk nágrannalanda okkar séu hærri á sambærilegum vegum er afar villandi. Þarna virðast flutningsmenn breytingartillögunnar vera að bera saman tvo ólíka hluti, þ.e. íslenska þjóðvegi annars vegar og svokallaðar hraðbrautir (motorways) hins vegar. Hraðbrautir erlendis hafa yfirleitt minnst tvær til þrjár akreinar í hvora akstursátt og litlar sem engar utanaðkomandi truflanir. Nefna má að vegir sem koma þvert á hraðbrautir eru yfirleitt lagðir yfir eða undir hraðbrautirnar. Gengið er þannig frá að umferð á móti er annað hvort höfð í hæfilegri fjarlægð eða höfð eru vegrið á milli. Á til að mynda íslenska hringveginum er fjöldi slysagildra. Nefna má tugi einbreiðra brúa og nokkuð vantar enn á að bundið slitlag nái allan hringinn. Það er langur vegur frá því að líkja megi íslenskum þjóðvegum við hraðbrautir nágrannalanda okkar. Það er hins vegar staðreynd að flest alvarlegustu umferðarslysin verða á þjóðvegunum og tengjast yfirleitt of miklum hraða. Ef breytingartillagan nær fram að ganga er ljóst að hún leiðir til aukningar alvarlegra umferðarslysa.``

Síðan er gefnar upplýsingar um hámarkshraða einkabíla hinna Norðurlandanna og fyrst eru teknar hraðbrautir, með leyfi forseta:

,,Danmörk 110, Svíþjóð 90/110, Noregur 90, Finnland 100/120.`` Síðan eru aðrir vegir: ,,Danmörk 80, Svíþjóð 70, Noregur 80, Finnland 80/100.

Af ofanrituðu er ljóst, að hámarkshraði hér á landi er nú í raun hærri heldur en í þeim ríkjum, sem Íslendingar bera sig gjarnan saman við. Er þá að sjálfsögðu tekið mið af samanburðarhæfum vegum. Þótt íslenskt vegakerfi hafi batnað hin síðari ár, stendur það enn langt að baki vegakerfi nágrannaþjóðanna. Engin rök mæla með frekari hækkun hámarkshraða en umferðarlög mæla fyrir um nú, og mætti raunar tína til ýmsar röksemdir fyrir því að hámarkshraða ætti jafnvel að lækka.``

Virðulegi forseti. Ég sá ástæðu til þess að gera nokkuð ítarlega grein fyrir þeim umsögnum sem allshn. vann með er hún ræddi þessa brtt. vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað. Ég vil ítreka að þetta mál var rætt vandlega í nefndinni og hlustað á og farið eftir álitum margra þeirra sem bæði komu sem gestir til nefndinarinnar og eins þeirra sem sendu umsagnir.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka hv. þm. fyrir þessar umræður og við skulum vona að samþykkt frv. muni leiða til aukins umferðaröryggis.