Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 19:19:07 (2182)

1996-12-13 19:19:07# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[19:19]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki í hópi þeirra sem hafa viljað útiloka að nýta orkulindir landsins í orkufrekum iðnaði og gæti rakið nokkur dæmi um það efni. Hins vegar held ég að menn þurfi þar eins og víðar að fara með nokkurri gát. Mér finnst vera eitthvað holt undir þessum áformum í sambandi við álbræðslu á Grundartanga. Og sú hugsun að bandarískur fjáraflamaður ætlar að koma þarna upp þýskri álbræðslu, gamalli að stofni til, væntanlega verður eitthvað nýtt í henni ef endurreist verður. Það er dálítið sérstakt hvernig að þessum málum er staðið. Menn ganga ansi langt í fyrirgreiðslunni til þess að láta þetta ganga upp og get ég bara nefnt það fjármagn sem hefur verið reitt fram til þess að gera nauðsynlegar kannanir sem svona áhætturekstur á auðvitað að standa undir sjálfur en ekki ríkisvaldið að ganga þar á undan.

Ég hef miklar áhyggjur af umhverfisþætti málsins. Ég hef verið að líta á tillögur að starfsleyfi og fór yfir þetta efni þegar það fór undir mat á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu fyrir utan hinn almenna þátt sem ekki verður undan komist ef úr þessum rekstri verður, þ.e. að bæta mjög verulega úr varðandi mengun af völdum koldíoxíðs eins og annarra gróðurhúsalofttegunda. Ef þetta vex upp í 180 þúsund tonna álbræðslu og verður að veruleika, þá verða það ekkert minna 360 þúsund tonn á ári sem menn bæta við sem losun af Íslands hálfu á gróðurhúsalofttegundum, já koldíoxíði einu saman, sennilega eitthvað meira ef allt er talið.