Fjárlög 1997

Föstudaginn 13. desember 1996, kl. 22:50:55 (2190)

1996-12-13 22:50:55# 121. lþ. 43.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:50]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir hans einlæga áhuga á heilbrigðismálum almennt og hans ágætu ræðu. Hann talaði um málefni langsjúkra barna og mikilvægi þess að bæta hag þeirra. Ég vil geta þess í þessari umræðu að um áramótin 1997/1998 munum við opna nýja barnadeild á Akureyri sem verið er að vinna að uppbyggingu að. Varðandi Barnaspítala Hringsins vil ég segja það að í 6. grein er heimild, eins og hér hefur komið fram, til að selja land og nú sjáum við fram á það að við getum selt þetta land og þar sem við sjáum það, þá munum við bæta við 6. greinar heimildina nýtingu þess fjár sem fyrir það land kemur og það mun renna óskert til Barnaspítala Hringsins þannig að við getum hafið framkvæmdir þar.

Það er samhugur innan ríkisstjórnarinnar um að byggja barnaspítala og það er gott að heyra að það sé samhugur innan þingsins um þá framkvæmd þannig að um það þyrfti ekki að ræða mikið meira heldur hefjast handa um þá framkvæmd. Hv. þm. sagði áðan að það væri ekkert annað en að taka skóflustunguna. Ég held að hann hafi að vísu tekið hana nokkrum sinnum, en þegar ég tók við embætti heilbrrh. þá hélt ég satt að segja að það væri til samningur um framkvæmdina og það væri til framkvæmdaráætlun og það væru fjármunir til framkvæmdarinnar, en svo var ekki innan ríkisgeirans þannig að það sem við erum núna að vinna að er áætlun um þessa framkvæmd. Í fyrra, þegar við vorum að ræða almennar framkvæmdir sem samningur var um og hv. þm. lagði sjálfur fram þáltill. um framkvæmdir, þá kom í ljós að þessi framkvæmd var ekki með. En ég efast ekki um einlægan áhuga hv. þm. varðandi þessa framkvæmd og við munum þá standa samhuga með ríkisstjórninni um hana.