Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 18. desember 1996, kl. 23:56:55 (2405)

1996-12-18 23:56:55# 121. lþ. 49.3 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv. 147/1996, 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv. 143/1996, 151. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 142/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur

[23:56]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu andsvari svara örfáum af þeim spurningum sem hv. 4. þm. Vestf. lagði hér fram. Í fyrsta lagi varðandi það ákvæði frv. þar sem kveðið er á um fjárhagstengsl starfsmanna Póst- og fjarskiptastofnunar, þá vil ég eingöngu vísa í athugasemdir sem fylgja viðeigandi grein þar sem kemur fram hvað er átt við. Það er auðvitað ekki þannig, eins og hv. þm. reyndar vék að, að það sé átt við fjárhagstengsl eins og þau að eiga viðskipti við tiltekna stofnun heldur er talað um það hér, með leyfi virðulegs forseta: ,,Mega starfsmenn stofnunarinnar þar af leiðandi t.d. ekki eiga hlutabréf í rekstrarleyfishöfum eða póstrekendum ef ástæða er til að ætla að hlutafjáreignin sé til þess fallin að draga óhlutdrægni þeirra í efa. Þetta er þannig rækilega skýrt að mínu mati, virðulegi forseti.

Varðandi athugasemdir hans um hugtakið milliuppgjör, þá verð ég að segja að það kemur mér heldur á óvart að hv. þm. finni að þessu hugtaki vegna þess að þetta er mjög algengt hugtak í viðskiptum. Þetta hugtak milliuppgjör er auðvitað fullkomlega að jöfnu lagt við árshlutauppgjör.

Í þriðja lagi gerði hv. þm. líka að umtalsefni hið sama og hv. 6. þm. Suðurl. um heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til eftirlits inni í fyrirtækjunum. Ég vakti athygli á því fyrr í dag að þetta er mjög sambærilegt ákvæði og í 40. gr. gildandi samkeppnislaga. Og af því að hv. þm. spurði líka um atriði sem hv. 6. þm. nefndi fyrr í umræðunni í dag, það var spurning um saksókn þar sem segir í næstsíðustu mgr. 5. gr., að stofnunin geti krafist opinberrar rannsóknar og saksóknar samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, þá er það að sjálfsögðu þannig að það er eingöngu verið að gefa heimild til stofnunarinnar að vísa þessum málum til ríkissaksóknara eða Rannsóknarlögreglu ríkisins til frekari málsmeðferðar. Það skýrt í lögunum nr. 19/1991, hvernig með þessi mál skuli fara og það er ekki verið að opna á neinar nýjar heimildir umfram það.