Ferill 131. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 131 . mál.


142. Tillaga til þingsályktunar



um aðbúnað um borð í fiskiskipum.

Flm.: Bryndís Hlöðversdóttir, Sigurður Hlöðvesson,


Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er hafi það hlutverk að gera úttekt á aðbúnaði og starfsumhverfi skipverja um borð í íslenskum fiskiskipum og gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um úrbætur í þeim efnum. Í nefndinni eigi sæti átta fulltrúar skipaðir af Vinnueftirliti ríkisins, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum úthafsútgerða, landlæknisembættinu og Félagi íslenskra heimilislækna.
    Úttektin taki til allra fiskiskipa sem gerð eru út af íslenskum útgerðum og taki m.a. til eftirfarandi þátta:
    öryggismála og alls aðbúnaðar í íbúðum og við störf um borð,
    möguleika skipverja til líkamsræktar og tómstundaiðkunar með tilliti til þess tíma sem veiðiferðin tekur,
    möguleika skipverja til að hafa samband við umheiminn, sérstaklega fjölskyldu sína,
    lengd útiveru og hvenær slíkt sé í síðasta lagi ákveðið,
    dvalartíma í landi milli veiðiferða og hvenær hann sé ákveðinn,
    vaktafyrirkomulags og hvíldartíma.
    Að lokinni úttekt skal nefndin gera tillögur um úrbætur á því sem betur má fara til ríkisstjórnarinnar. Skulu þær tillögur liggja fyrir skriflega eigi síðar en 1. júlí 1997 og leggi ríkisstjórnin þær fyrir Alþingi í upphafi þings haustið 1997.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur umræða um aðbúnað skipverja um borð í fiskiskipum sem gerð eru út af íslenskum útgerðum aukist. Bendir margt til þess að aðbúnaður sé ekki alls staðar sem skyldi og standist ekki nútímakröfur. Hefur athyglin þar einkum beinst að svonefndum úthafsveiðiskipum, þ.e. skipum sem fara í langar veiðiferðir á fjarlæg mið, þótt vissulega gildi það sama fyrir skip með langa útiveru innan landhelginnar. Í nýlegri umfjöllun í Vinnunni, tímariti ASÍ, var fjallað um þessi mál og þar kom fram gagnrýni á aðbúnað skipverja sem nauðsynlegt er að taka alvarlega. Skipverjar eru sagðir hafa fábrotna aðstöðu til tómstundaiðkunar, samband við land sé takmarkað, aðstaða til líkamsræktar lítil eða engin, útiverutími óöruggur og dvalartími í landi sömuleiðis og svo mætti lengi telja. Slíkt starfsumhverfi veldur að sjálfsögðu mikilli vanlíðan hjá skipverjum og í umræddri umfjöllun er því lýst að þeir þjáist oft af þunglyndi, sem orsakist ekki síst af því hversu erfitt sé að samhæfa fjölskyldulíf og vinnu, hversu fábrotin aðstaða sé til tómstundaiðkunar og líkamsræktar og samskipti við umheiminn stopul. Þá er því einnig lýst að óljós brottfarartími og heimkomutími sé til þess fallinn að spilla að miklu leyti þeim tíma sem menn eiga í landi hverju sinni og geri það að verkum að hann nýtist ekki sem skyldi til hvíldar og afslöppunar. Ýmislegt fleira mætti nefna sem hnígur í sömu átt og fram hefur komið á undanförnum mánuðum. Í viðtölum í fjölmiðlum við sjómenn, aðstandendur þeirra og jafnvel lækna kemur fram að álagið er mikið, bæði á sjómennina sjálfa og fjölskyldur þeirra.
    Í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er launafólki í landi tryggð ákveðin vinnuvernd, sem felst í lágmarksreglum um öryggi og aðbúnað á vinnustaðnum. Þessi lög taka ekki til skipa og önnur lagaákvæði um vinnuvernd í skipum eru fábrotin. Sérstaklega þykir því ástæða til að gera úttekt á þessum málum um borð í fiskiskipum með það í huga að gerðar verði tillögur til úrbóta sem miði að því að öll fiskiskip uppfylli nútímakröfur um aðbúnað og starfsumhverfi á vinnustöðum.
    Kröfur um aðbúnað til sjós hafa að sjálfsögðu breyst mjög mikið á síðustu árum og tekur það jafnt til íbúða sem vinnuaðstöðu. Nýjustu skip flotans eru flest hönnuð með það í huga að búa sem best að áhöfn og gera lífið um borð sem eðlilegast eftir því sem slíkt er hægt. Í flotanum eru hins vegar misgömul skip og aðbúnaður því mjög mismunandi. Verst er ástandið þegar gömul skip, þar sem mikil þrengsli eru um borð og líkamsræktar- og tómstundaaðstaða lítil eða engin, fara í langar veiðiferðir.
    Einn þátt þessa máls þarf að skoða sérstaklega, en það eru reglur um úreldingu fiskiskipa og að hve miklu leyti þær verka sem hemill á úrbætur.


Fylgiskjal.


Mannlega hliðin á úthafsveiðunum.


(Vinnan, 8. tbl. ágúst 1996.)


    Í umræðum um veiðar í Smugunni og á fleiri fjarlægum miðum hefur mest farið fyrir deilum um hafréttarmál og fréttir af aflabrögðum. Minna hefur verið fjallað um þá staðreynd að einangrun lengst út í hafi, vikum eða mánuðum saman, á skipum sem ekki bjóða upp á aðstöðu til afþreyingar eða líkamsþjálfunar, hefur valdið fjölda sjómanna alvarlegum skaða. Andleg og líkamleg vanlíðan, þunglyndi og sjálfsvíg eru meðal þeirra afleiðinga sem úthafssjómenn og læknar, sem hafa fengið þá til meðferðar, lýsa í viðtölum við Vinnuna.
    „Þetta er í stuttu máli sagt hryllingur,“ segir ungur sjómaður sem er hættur eftir að hafa verið við veiðar í fjögur ár á fjarlægum miðum, lengst af í Smugunni. Hann segir að fólk sem aldrei hafi verið á sjó geti sennilega ekki skilið þessa líðan. Heimilislæknir, sem allmargir sjómenn af úthafsveiðiflotanum hafa leitað til, segir þetta ástand skapast á smærri skipunum sem ekki eru búin til úthafsveiða og hafa ekki aðstöðu til líkamsræktar og fjölbreyttari afþreyingar. Ferlið er alltaf það sama: Fyrst tapa menn framtaksseminni og hafa sig ekki í að lesa eða hafa ofan af fyrir sér. Því fylgir svefnleysi og loks vaxandi pirringur eða ólga. Sé ekkert að gert getur gífurlegt þunglyndi fylgt í kjölfarið.
    Engar reglur eru til um lágmarksafþreyingu eða aðstöðu til einhvers konar líkamsræktar um borð í úthafsveiðiskipum. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, segir nauðsynlegt að vekja máls á þessu vandamáli og að bæta þurfi aðbúnað manna um borð, sérstaklega þeirra sem fiska á fjarlægum miðum.

Hin hliðin á úthafsveiðum.


    Ekki er langt síðan íslenskir útgerðarmenn fóru að senda skip í Smuguna svokölluðu. Síðan þá hefur umræðan um veiðar á fjarlægum miðum snúist um deilur við vinaþjóðir eða þann mokafla og aflaleysi sem virðast einkenna veiðarnar á víxl. Sjómennirnir um borð virðast algerlega falla utan athyglinnar. Túrarnir sem þeir taka eru allt að tveggja mánaða langir og einangrunin er alger. Því gefur augaleið að aðbúnaður um borð þarf að vera fyrsta flokks. En er það alltaf svo? Hvernig er búið að sjómönnum sem sendir eru í hátt í tveggja mánaða einangrun til að afla tekna fyrir þjóðarbúið?
    Smugusiglingarnar hófust fyrir alvöru í fyrra en þá voru það fyrst og fremst nýjustu frystitogararnir sem héldu þangað norður eftir. Þar er aðstaða um borð mjög góð, skipin eru búin fyrir langa túra og bjóða upp á ýmiss konar afþreyingar- og líkamsræktarmöguleika. Í ár hafa siglingar í Smuguna aukist mjög og í mörgum tilvikum er verið að senda skip sem eru hreinlega ekki gerð fyrir slíkar ferðir. Um er að ræða eldri skip þar sem aðstaða fyrir mannskapinn er lítil sem engin. Þar er engin aðstaða til heilsuræktar, vistarverur litlar og til dægradvalar í mesta lagi eitt myndbandstæki. Þegar lítið fiskast, eins og brunnið hefur við, er ekkert sem menn geta fengið útrás á eða dreift huganum við og einangrunin verður yfirþyrmandi.
    Það er staðreynd að nokkur fjöldi Smugusjómanna hefur þurft að leita sér læknishjálpar vegna vanlíðunar og jafnvel þunglyndis sem beinlínis stafar af aðgerðarleysinu. Í verstu tilvikunum endar þetta með því að menn svipta sig lífi.

Ég fer aldrei aftur.
    Vinnan ræddi við ungan mann sem er nýhættur á sjónum eftir að hafa verið í fjögur ár við veiðar á fjarlægum miðum, lengst af í Smugunni en síðustu mánuðina á Flæmska hattinum. Hann segir skipið sem hann var á engan veginn hafa verið búið til slíkra langtímasiglinga og ber dvölinni um borð ekki vel söguna.
    „Ég er hættur, fékk ógeð. Þetta er í stuttu máli sagt hryllilegt. Ég held að fólk verði bara þunglynt á þessu. Ég hef orðið var við það hjá félögum mínum og fundið fyrir því sjálfur, hef þurft að leita til læknis. Ég held að það sé nokkuð algengt. Ég ætlaði að fara út núna, þeir sigldu í Smuguna, en svo gat ég ekki hugsað mér það. Ég sagði þeim að þótt ég fengi milljón fyrir túrinn þá myndi ég ekki fara, ekki fyrir þessa líðan. Ég veit ekki hvað það eru mörg skip þarna úti núna, ég er alveg hættur að fylgjast með þessu. Hef köttað þetta alveg út úr mínu lífi. Ég fer aldrei aftur.“

Ekkert einkalíf.
    „Það var rosalega lítið fiskerí, ekkert að gera og það fer bara illa með fólk. Þá er horft á videó en efnið er fljótt að verða búið. Á allra nýjustu skipunum eru sána, ljósabekkir og líkamsræktartæki en það er ekkert þannig hjá okkur. Við getum haft samskipti við land en bara í gegnum loftskeytastöð sem allir geta hlustað á þannig að maður getur aldrei verið út af fyrir sig, á ekkert einkalíf.
    Fréttir eru líka lengi að berast. Stundum fréttist ekkert. Skipstjórinn heyrir kannski eitthvað í gegnum stöðina en svo segir hann manni þetta kannski nokkrum dögum seinna ef maður spyr. Maður er alveg langt á eftir öllu, á allt annarri bylgjulengd þegar maður kemur í land. Það er rosalega skrýtið að koma í land. Maður nær ekki að gera neitt, reynir að fara út að skemmta sér, finnst maður eiga skilið að djamma, en hugsar samt bara um næstu ferð. Líðanin er samt miklu betri í hléunum, það er rosalega gott að koma í land.“

Fólk getur ekki skilið þetta.
    „Kauptryggingin er ekki neitt og sem betur fer veiðist alltaf eitthvað. Það er mjög mikill munur að hafa eitthvað að gera. Við vorum 25 um borð í Smugunni en á Flæmska hattinum vorum við í rækju, það er öðruvísi vinna og þá vorum við bara 15.
    Þetta eru frá 30 og upp í 50 daga túrar og þriggja til fjögurra daga hlé á milli.
    Þetta er miklu algengara en fólk heldur. Fólk sem hefur aldrei farið á sjó skilur þetta ekki, þetta er allt annað en styttri siglingarnar. Það er allt í lagi að fara einn til tvo túra en þeir sem eru að þessu allt árið án þess að taka sér frí, ég get ekki ímyndað mér hvernig það er. Ég hef alltaf tekið mér reglulega frí en sumir eru mjög fastir þarna og geta ekki hugsað sér að vinna í landi. Ég segi að þeir séu orðnir ruglaðir á þessu.
    Ég frétti þegar ég var úti síðast að það var einn sem byrjaði að babla við aflann og tala til Guðs. Hann klikkaðist alveg, ég held að það hafi þurft að sprauta hann niður. Hann er kominn í land núna.“

Menn byrgja vanlíðanina inni.
    „Það hefur verið læknir um borð í varðskipunum í Smugunni en menn byrgja þetta inni í sér og leita ekki til læknis þótt þeir séu langt niðri. Þeir tala heldur ekki um það við félagana, nema kannski sína bestu vini. Þá segir maður bara að þetta sé ömurlegt og þeir taka undir það en það er ekkert hægt að gera. Maður missir allt skyn, verður drullusama um allt og hættir að upplifa heiminn í kringum sig.
    Ungu strákarnir hætta frekar, þeir eiga kannski auðveldara með að fá aðra vinnu, hinir eru orðnir svo grónir í þessu. Ég held að megnið af þeim sem hætta geri það út af þessari vanlíðan. Þeir segja það bara ekki, þeir eru orðnir hundleiðir enda er þetta ekkert líf. Maður getur alveg eins verið í fangelsi. — Þetta er örugglega verra en að vera í fangelsi.“

Bæði andleg og líkamleg vanlíðan.
    Guðrún Guðmundsdóttir hefur starfað sem heimilislæknir í tveimur bæjum sem gert hafa út skip í Smuguna. Hún segist reglulega hafa fengið sjómenn af Smuguskipunum til sín. Oftast hafi verið um unga fullfríska menn að ræða sem sáu ekki fram á að geta lifað eðlilegu lífi eftir langan tíma í slíkri einangrun.
    „Það sem maður verður var við hjá mönnum sem hafa verið svona lengi úti,“ segir Guðrún, „er mikil vanlíðan. Þeir geta ekki haft samband við sína nánustu, þeim finnst þeir hafa misst tengslin við vini og fjölskyldur og vantar samfellu í það sem er að gerast. Þeir hafa ekki getað haft samband í einrúmi og finnst þeir ekki fá að taka þátt og upplifa tilfinningarnar á sama tíma og allir aðrir, eru eins og áhorfendur en ekki þátttakendur í lífi fjölskyldunnar — og eigin lífi.“

Allt grátt.
    „Einkennin eru alltaf þau sömu. Þetta byrjar á því að menn verða framtaksminni og hafa sig ekki í að lesa eða hafa ofan af fyrir sér. Þessi andlega deyfð verður síðan að líkamlegum pirringi. Menn ná ekki að sofna, finnst vera mikil ólga inni í sér og þeim líður eins og þeir séu fullir umframorku sem þeir geta ekki losnað við. Það er eins og þeir séu allir á nálum.
    Ástæðan er að það er enga örvun að fá, þeir eru búnir að horfa á allt, búnir að tala um allt við félagana. Þegar ekkert veiðist er ekkert að gera og allt er grátt í kring á þessum slóðum. Þeir sem eru veikir fyrir fara verst út úr þessu en ég held því fram að hjá fullfrískum mönnum á togurum þar sem þeir hafa ekkert pláss, ekkert einkalíf og enga möguleika á að fá líkamlega útrás, brjótist út gífurleg vanlíðan. Málið er að við þurfum öll örvun á skynfærin, en á smærri skipunum sem ekki eru sérstaklega gerð fyrir svona siglingar er ekki nein.
    Svo koma menn heim í pirringsfasanum og ná ekki að eiga eðlileg samskipti við fólk og hafa þrjá til fjóra daga í landi til að ná áttum. Það er engan veginn nóg til að jafna sig. Þegar dvalið er lengur í landi lagast þetta yfirleitt því ekki er um varanlegt ástand að ræða.
    Ég hef rætt við nokkra menn út af þessari vanlíðan en þeir koma ekki allir. Stundum frétti ég af skipum sem voru að sigla með menn í land sem þoldu ekki einangrunina en komu þó ekki til læknis.
    Þetta kemur eiginlega ekki fyrir á flottu togurunum. Ég þekki ekki dæmi þess enda er aðstaðan um borð allt önnur. Þar geta menn farið í líkamsrækt og fengið útrás með því sem er mikill munur. Mér finnst því mikil spurning hvort ekki eigi að skylda togara sem eru í jafnlöngum siglingum og Smugutogararnir til að hafa einhvern lágmarksaðbúnað fyrir sjómennina. Það gengur ekki að senda menn í margra vikna útlegð án þess að huga að aðbúnaðinum.“

Sjálfsvíg.
    Að sögn Guðrúnar getur þessi vanlíðan náð þriðja stiginu, sem er gríðarlegt þunglyndi. Menn verða mjög langt niðri en búa samt yfir nægri orku til að svipta sig lífi. Sem betur fer fara fæstir á þetta stig, en sjálfsvíg eru tíðari en fólk grunar. Þá eygja menn enga von og binda enda á líf sitt um borð í skipunum. Sjómaður sem hefur verið í Smugunni benti á hversu mikilvægt það væri að vita af varðskipi í nánd. Á einum togaranum hefði maður svipt sig lífi og ef ekki hefði verið hægt að flytja hinn látna um borð í varðskip hefðu þeir sem eftir lifðu endanlega farið yfir um.

Reglur um aðbúnað.
    Varlega áætlað er um helmingur íslenska flotans í Smugunni ekki búinn til slíkra langtímasiglinga. Verið er að senda þangað skip sem venjulega eru í stuttum túrum innan landhelginnar og því er aðstaða fyrir mannskapinn um borð lítil sem engin. Reglur um lágmarksaðbúnað eru til hjá Siglingamálastofnun og þar á þeim að vera fylgt eftir. Þær kveða á um lágmarksstærð mannaíbúða og aðstöðu til matar og þrifa. Engar reglur eru til um lágmarksafþreyingu eða aðstöðu til einhvers konar líkamsræktar.
    Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir þessi mál vera í sífelldri endurskoðun og tekur mjög ákveðið undir þau sjónarmið að það þurfi að vera lágmarksaðstaða fyrir menn með langa útivist.
    „Það gerist fyrst í fyrra að þeir fara að fara í þessar útlegur,“ segir Sævar, „og byrjunin er að vekja athygli á þessu. Það er hægara sagt en gert að grípa inn í því reglurnar eru ekki til, það veltur alveg á útgerðunum hvaða aðstaða er um borð.“ Sævar segir vandamálið vera þess eðlis að mjög erfitt sé að gera kröfu um að breyta gömlum skipum í ný skip, þá vakni sú spurning hjá útgerðarmönnunum hvar eigi að taka peninginn til þess.
    „Það má ekki stækka skipin nema borga einhver hundruð þúsunda króna fyrir hvert tonn sem skip er stækkað um, jafnvel þótt það sé ekki nema til að gera mannaíbúðir í þeim. Þetta snertir meðal annars lögin um stjórn fiskveiða. En ég tek undir það að það þarf að bæta aðbúnað manna um borð, sérstaklega á fjarlægu miðunum,“ segir Sævar Gunnarsson.

Of hár fórnarkostnaður?
    Það tók langan tíma að berja Vökulögin frægu í gegn á sínum tíma en setning þeirra árið 1921 þótti marka tímamót í vinnuverndarmálum á Íslandi. Þau lög skylduðu útgerðirnar til að sjá til þess að sjómenn fengju eðlilegan hvíldartíma. Rökin gagnvart útgerðunum voru einföld: einungis með fullri heilsu gætu sjómennirnir haldið fullum afköstum. Þau rök halda enn í dag. Velferð mannanna um borð má ekki gleymast þegar leitað er allra leiða til að auka aflann. Veiðar á fjarlægum miðum eru ný leið til að afla útgerðinni tekna en við ættum að spyrja um fórnarkostnaðinn þegar ekkert er lagt í aðstöðuna um borð.