Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 160 . mál.


177. Beiðni um skýrslu



frá menntamálaráðherra um kennslu, nám og rannsóknir á háskólastigi.

Frá Ágústi Einarssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur, Gísla S. Einarssyni,


Guðmundi Árna Stefánssyni, Lúðvík Bergvinssyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni,


Jóhönnu Sigurðardóttur, Rannveigu Guðmundsdóttur, Sighvati Björgvinssyni,


Svanfríði Jónasdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að menntamálaráðherra flytji Alþingi skýrslu um kennslu, nám og rannsóknir í skólum á háskólastigi hérlendis og samanburð þessa við önnur ríki OECD, svo og um þróun kostnaðar við háskólastigið undanfarin ár.
    Í skýrslunni komi m.a. fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:
    Hver hefur verið þróun hjá skólum á háskólastigi (skólum sem veita háskólagráðu og lægri háskólapróf) í fjölda nemenda, kennara og annarra starfsmanna sl. 20 ár, skipt eftir einstökum árum, skólum og eftir kyni?
    Hver hefur verið kostnaður við kennslu og rannsóknir á háskólastigi sl. 20 ár, skipt eftir einstökum árum og á sambærilegu verðlagi?
    Hver hefur verið kostnaður á hvern nemanda í skólum á háskólastigi sl. 20 ár, skipt eftir árum, námssviðum og á sambærilegu verðlagi?
    Hver hefur hlutfallsleg dreifing nemenda á háskólastigi verið hérlendis (háskólagráða) á námssvið sl. 20 ár, borið saman við önnur ríki OECD?
    Hver hefur kostnaður við Háskóla Íslands verið sl. 20 ár, borinn saman við sambærilega háskóla erlendis, á hvern nemanda og skipt eftir einstökum háskóladeildum?
    Hvernig hefur menntun fastráðinna kennara við skóla á háskólastigi hérlendis verið háttað (háskólagráða) sl. 20 ár, flokkuð eftir BA/BS-, kandídats-, meistara- og doktorsgráðu?
    Hve stór hluti þjóðarinnar hefur lokið háskólaprófi hérlendis og erlendis sl. 40 ár, borið saman við önnur ríki OECD?
    Hversu stór hluti þjóðarinnar stundaði nám á háskólastigi sl. 20 ár hérlendis og erlendis, skipt eftir einstökum árum og borið saman við önnur ríki OECD?
    Hvert er fyrirkomulag stjórnsýslu við skóla á háskólastigi hérlendis í samanburði við sambærilega háskóla erlendis?
    Hver hefur fjöldi starfsmanna verið í stjórnsýslu við skóla á háskólastigi hérlendis sl. 20 ár borið saman við sambærilega háskóla erlendis?
    Hversu margir starfsmenn sinntu stjórnsýslu skóla á háskólastigi hérlendis sl. 20 ár, annars vegar á hvern fastráðinn kennara og hins vegar á hvern nemanda, borið saman við sambærilega háskóla erlendis?
    Hver hafa verið framlög, opinber framlög og önnur, til rannsókna- og þróunarstarfsemi sl. 20 ár, skipt eftir árum og á sambærilegu verðlagi, svo og samanburður á þessum framlögum við framlög í öðrum ríkjum OECD miðað við hlutfall af vergri landsframleiðslu?
    Hver hafa verið opinber framlög til háskólastigsins (háskólagráða) sem hlutfall af ríkisútgjöldum og af vergri landsframleiðslu sl. 20 ár í samanburði við opinber framlög í öðrum ríkjum OECD?
    Hvernig er löggjöf háttað í meginatriðum í nágrannalöndum varðandi kennslu, nám og rannsóknir á háskólastigi (háskólagráða) borið saman við íslenska löggjöf?
    Hvert hefur verið umfang rannsókna í íslenskum skólum á háskólastigi (háskólagráða) sl. 20 ár í samanburði við sambærilega háskóla erlendis?
    Hvert hefur verið hlutfall aðstoðarfólks í kennslu og rannsóknum á hvern fastráðinn kennara við skóla á háskólastigi hérlendis sl. 20 ár borið saman við sambærilega háskóla erlendis?
    Hvernig er samvinnu skóla á háskólastigi háttað hérlendis miðað við önnur lönd?
    Hversu stór hluti nemenda við nám á háskólastigi sl. 20 ár kom af landsbyggðinni, þ.e. utan höfuðborgarsvæðisins, borið saman við hlutfall íbúa?
    Hver hefur verið fjöldi nemenda á hvern fastráðinn kennara við skóla á háskólastigi hérlendis sl. 20 ár, borið saman við sambærilega háskóla erlendis?
    Hvernig er háttað stuðningi við námsmenn á háskólastigi (lán og/eða styrkir) hérlendis miðað við önnur ríki OECD?
    Hver er áætluð þróun háskólastigsins hérlendis næstu 20 ár miðað við önnur ríki OECD?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi þegar henni hefur verið dreift meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Kennsla, nám og rannsóknir á háskólastigi skipta verulega máli fyrir lífskjör í framtíðinni. Flestar nágrannaþjóðir okkar leggja mikla áherslu á að auka og bæta menntun landsmanna sinna, ekki síst á háskólastigi. Ljóst er að Íslendingar verða að vinna að stefnumótun á þessu sviði á markvissan hátt í ljósi breyttra aðstæðna og samkeppnisstöðu landsins á næstu öld. Umræða um menntamál, ekki hvað síst um háskólamenntun, er ekki einkamál skóla- og stjórnmálamanna heldur mál alls almennings.
    Stefnumótandi umræða um kennslu, nám og rannsóknir á háskólastigi hefur ekki verið almenn hérlendis og er tilgangur þessarar skýrslubeiðni að afla upplýsinga sem eru forsenda fyrir málefnalegri umræðu um fyrirkomulag háskólakennslu og rannsókna hér á landi. Ýmsar gagnlegar upplýsingar um háskólastigið hafa birst í nýrri tölfræðihandbók um menntun og menningu sem menntamálaráðuneytið gaf út á þessu ári, en hér er farið fram á aðrar nauðsynlegar upplýsingar.
    Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu er háskólstigi skipt í tvennt, þ.e. skólar sem bjóða nám til háskólagráðu, en þeir eru sex hérlendis, og skólar sem bjóða nám til lægri gráðu á háskólastigi, en sjö sérskólar krefjast stúdentsprófs til inngöngu.
    Skólar sem bjóða nám til háskólagráðu eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskóli Íslands, Samvinnuháskólinn á Bifröst, Tækniskóli Íslands og Bændaskólinn á Hvanneyri. Skólar sem bjóða nám til lægri prófgráðu á háskólastigi eru Íþróttakennaraskóli Íslands, Fósturskóli Íslands, Þroskaþjálfaskóli Íslands, sérdeildir Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Leiklistarskóli Íslands, Tölvuháskóli Verzlunarskóla Íslands og sérdeildir Tónlistarskólans í Reykjavík.
    Sérstakra upplýsinga er óskað ýmist um alla skóla á háskólastigi eða eingöngu þá sem veita háskólagráðu. Jafnframt er leitað upplýsinga um Háskóla Íslands en um 70% allra stúdenta á háskólastigi stunda nám við þann skóla og um 90% allra háskólarannsókna fara fram við hann. Einnig er óskað upplýsinga um aðra þætti sem tengjast háskólanámi, svo sem menntun kennara, stjórnsýslu skóla, samvinnu á háskólastigi, löggjöf og stuðning við nemendur.
    Farið er fram á upplýsingar um þróun mannahalds í skólum, svo og kostnað við kennslu. Leitað er upplýsinga um dreifingu nemenda á námssvið í samanburði við önnur lönd og um kostnað við Háskóla Íslands en því er oft haldið fram að hann sé sveltur fjárhagslega.
    Óskað er upplýsinga um menntun kennara, hversu víðtæk háskólamenntun er hérlendis og hve stór hluti þjóðarinnar stundar og hefur stundað háskólanám hérlendis og erlendis. Leitað er upplýsinga um fyrirkomulag stjórnsýslu og umfang hennar miðað við fjölda kennara og nemanda. Enn fremur er óskað eftir upplýsingum um framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi, en ýmsir telja að á því sviði séu Íslendingar eftirbátar annarra þjóða. Einnig er farið fram á upplýsingar um umfang rannsókna hérlendis í samanburði við umfang þeirra í öðrum löndum, svo og um hlut aðstoðarfólks við kennslu og rannsóknir.
    Jafnframt er óskað eftir að skýrt verði frá hvernig samvinna er hérlendis innan háskólastigsins. Fjöldi nemenda af landsbyggðinni óskast tilgreindur í samanburði við íbúadreifingu landsmanna og fjölda nemenda á hvern kennara í alþjóðlegum samanburði. Einnig er óskað eftir að gerð verði grein fyrir löggjöf hérlendis miðað við önnur lönd, svo og hvernig stuðningi við nemendur er háttað hérlendis og hver sé áætluð þróun háskólastigsins. Í flestum tilvikum er beðið um upplýsingar fyrir síðustu 20 ár til að hafa samanburð yfir lengra tímabil og geta dregið ályktanir af þróuninni.
    Allur þingflokkur jafnaðarmanna biður um skýrsluna en jafnaðarmenn hafa af því miklar áhyggjur að ekki sé nægjanleg áhersla lögð á háskólamenntun og rannsóknir og það muni koma niður á lífskjörum á næstu öld. Skýrslunni er ætlað að auðvelda umræðu um úrbætur.