Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 184 . mál.


205. Tillaga til þingsályktunar



um stofnun Menningarráðs Íslands.

Flm.: Hjálmar Árnason, Ólafur Örn Haraldsson, Ísólfur Gylfi Pálmason,


Valgerður Sverrisdóttir, Jónas Hallgrímsson, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að undirbúa stofnun Menningarráðs Íslands. Nefndin verði skipuð fulltrúum allra listgreina ásamt fulltrúum stjórnmálaflokka og menntamálaráðuneytis. Hlutverk ráðsins verði eftirfarandi:
    að móta heildarstefnu í menningarmálum,
    að veita stjórnvöldum ráðgjöf á sviði menningarmála,
    að skipa ásamt menntamálaráðherra fagnefndir sem skipta fjármagni sem veitt er á fjárlögum til einstakra þátta menningarmála.
    Ráðið verði formlegur umræðu- og samráðsvettvangur á sviði menningarmála og hafi jafnframt möguleika á frumkvæði í einstökum málum. Það verði sameiginlegur vettvangur stjórnvalda og þeirra sem að menningarmálum starfa.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 118. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Blómlegt menningarlíf og öflug listsköpun eru mikilvægustu leiðirnar til að örva mannsandann þannig að einstaklingar fái notið sín og þjóðin notið listsköpunar. Með auknu alþjóðlegu samstarfi er öflugt menningarlíf enn mikilvægara en áður og enginn vafi er á því að það styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar.
    Í öðrum norrænum löndum hefur lengi verið til staðar samstarfsvettvangur stjórnvalda og ýmissa listgreina, svokölluð menningarráð. Þau eru mismunandi milli landa hvað snertir fjölda ráðsmanna, verksvið og umfang en eiga það sameiginlegt að vera nokkurs konar brú milli listamanna og stjórnmálamanna. Á þessum vettvangi fer fram upplýsingamiðlun á milli aðila auk þess sem ráðið er formlegur umræðuvettvangur um menningu og listir en slíkur vettvangur er ekki til á Íslandi nú. Það hefur verið gagnrýnt að skilningsleysi ríki í þjóðfélaginu á starfsháttum listamanna. Listamenn virðast einnig hafa óljósar hugmyndir um störf stjórnmálamanna og meðferð menningarmála á vettvangi stjórnmálanna, enda er ekki hægt að segja að í landinu sé við lýði heildarstefna í menningarmálum. Ákvarðanir um forgangsröðun eru allt of oft teknar í tengslum við fjárlagagerð og birtast landsmönnum eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar sem fjárlagafrumvarp lítur dagsins ljós. Þetta býður upp á tortryggni sem er hættuleg bæði fyrir stjórnmálamenn og listamenn og gefur menningarlífinu stundum neikvætt yfirbragð.
    Eftir því sem flutningsmenn hafa kynnt sér stjórn og skipulag menningarmála hjá nágrannaþjóðum okkar virðist það fyrirkomulag sem starfað er eftir í Noregi hvað áhugaverðast fyrir okkur en þó er það danska einnig athyglisvert.
    Norska menningarráðið og fulltrúaráð danska listasjóðsins eiga það sameiginlegt að vera skipuð bæði fulltrúum kosnum af þingi og fulltrúum ýmissa listgreina. Þeir fulltrúar eru ýmist tilnefndir af samtökum listamanna eða einstökum menningarstofnunum. Hlutverk norska menningarráðsins er m.a. að veita stjórnvöldum ráðgjöf í menningarmálum, að sjá um fjárreiður, ráðgjöf og þjónustu fyrir norska listasjóðinn og að hafa frumkvæði í menningarmálum þar sem ástæða þykir til.
    Eitt af verkefnum norrænu menningarráðanna er að deila út þeim fjármunum sem samþykkt er með fjárlögum að verja til ýmissa þátta menningarmála. Fulltrúaráðið í Danmörku og menningarráðið í Noregi skipa síðan tvo aðila í úthlutunarnefndir til þriggja ára og menningarmálaráðherra skipar einn aðila til þriggja ára. Þessar nefndir skipta því fjármagni sem stjórnin hefur úthlutað þeim samkvæmt ákveðinni reiknireglu. Í Danmörku hafa úthlutunarnefndirnar ákvörðunarvald og hugmyndir eru uppi um það í Noregi að breyta fyrirkomulaginu þannig að þær hafi það líka þar. Á þann hátt hafi sjálft ráðið meiri tíma til umræðna um mikilvæg mál sem varða listræna starfsemi.
    Danski listasjóðurinn var stofnaður árið 1964 eftir að mikil umræða hafði farið fram um málið. Aðalástæða þess að það fyrirkomulag var tekið upp var sú að það þótti gagnrýnisvert að embættismenn og ráðherra úthlutuðu peningum til listamanna. Almenn sátt ríkir um danska fyrirkomulagið.
    Sú aðferð, sem hér er beitt við úthlutun á fjármagni til lista, er mjög gamaldags og hefur fyrir löngu runnið sitt skeið. Má þar nefna að of langt er gengið í því að Alþingi skipti fjármagni niður á verkefni samkvæmt tillögum frá fjárlaganefnd og eins hitt að ákvarðanir um háar upphæðir til einstakra aðila eru teknar í ráðuneyti menntamála án umfjöllunar í þjóðfélaginu. Flutningsmenn telja heillavænlegra að það fé, sem veitt er á fjárlögum til hinna ýmsu listgreina, verði sett í sjóð sem síðan yrði hægt að sækja um fjármagn úr og yrðu umsóknir teknar til umfjöllunar og afgreiðslu í undirnefndum skipuðum sameiginlega af Menningarráði og menntamálaráðherra. Auk þess má hugsa sér að ráðið hafi yfirumsjón með listasjóði (starfslaunasjóði), a.m.k. hvað snertir skrifstofuþjónustu.
    Þá er ekki ólíklegt að samskipti við útlönd og skipulag íslenskrar menningarkynningar erlendis yrði að einhverju leyti á verksviði ráðsins. Áhugi Íslendinga á að auka kynningar á list og menningu þjóðarinnar erlendis hefur aukist til muna á síðustu árum. Því er þörf fyrir ákveðið skipulag í þessum efnum hvað varðar meðferð mála. Í dag er óljóst hver á að hafa forustu í þessum málum, en á fjárlögum er menntamálaráðuneytinu ætlað fé til ráðstöfunar til menningarkynninga erlendis. Þá er kveðið á um það í reglugerð um Stjórnarráð Íslands að menntamálaráðuneytið fari með mál er varða „listsýningar og aðra listkynningu innan lands og utan“. Ljóst er að ráðuneytið þarf á ráðgjöf að halda í þessum efnum sem Menningarráð eða fagnefndir þess gæti veitt.
    Flutningsmenn telja aðalávinning af Menningarráði vera eftirfarandi:
    Það bætir upplýsingamiðlun og skýrir ferli fjármagns sem varið er til menningar.
    Það er farvegur faglegrar umræðu um menningarmál á milli opinberra aðila og listamanna sem eyðir tortryggni.
    Það mótar heildarstefnu með samráði fagmanna á ýmsum sviðum menningarmála sem eðli málsins samkvæmt væri til sífelldrar og gagnrýnnar endurskoðunar.