Ferill 289. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 289 . mál.


544. Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 1996.

1. Inngangur.
    Evrópuráðið hefur allt frá falli Berlínarmúrsins gegnt stóru hlutverki í því að styðja þjóðir Mið- og Austur-Evrópu á leið þeirra til lýðræðis. Fjölmargir sáttmálar, sem Evrópuráðið hefur sett um hin ýmsu svið þjóðlífsins, þar sem hæst ber að sjálfsögðu mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að stofna eða endurreisa lýðræði og réttarríki í sínu landi. Að sama skapi hefur aðildarríkjum Evrópuráðsins fjölgað gífurlega frá árinu 1988 er þau voru 22 til ársins 1996 þegar Rússland og Króatía fengu aðild að ráðinu, en þar með eru aðildarríkin orðin fjörutíu. Jafnframt hafa Bandaríki Norður-Ameríku og Japan óskað eftir áheyrnaraðild að Evrópuráðsþinginu. Áhugi á störfum ráðsins fer því sífellt vaxandi og ólíkt flestum öðrum svokölluðum Evrópustofnunum eiga flest Evrópuríki nú sæti og rödd í sal Evrópuráðsþingsins.
    Í upphafi yfirstandandi kjörtímabils voru eftirtaldir þingmenn skipaðir í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins til fjögurra ára, sem aðalmenn: Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Sjálfstæðisflokki, Ólafur Ragnar Grímsson varaformaður, Alþýðubandalagi, og Hjálmar Árnason, Framsóknarflokki; sem varamenn: Tómas Ingi Olrich, Sjálfstæðisflokki, Ólafur Örn Haraldsson, Framsóknarflokki, og Hjálmar Jónsson, Sjálfstæðisflokki. Árið 1996 urðu þær breytingar á skipan Íslandsdeildarinnar að Ólafur Ragnar Grímsson lét af þingsetu og í hans stað var Margrét Frímannsdóttir tilnefnd til setu í Íslandsdeildinni sem aðalmaður. Ritari Íslandsdeildarinnar er Gústaf Adolf Skúlason alþjóðaritari.
    Þá hefur Sveinn Á. Björnsson verið með fast aðsetur í Strassborg síðan í september 1995 og annast daglegan rekstur skrifstofu utanríkisráðuneytisins hjá Evrópuráðinu. Er þessi tilhögun einnig mikill styrkur fyrir Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins hvað varðar upplýsingaflæði og ýmiss konar aðstoð.

2.     Fyrsti hluti þings Evrópuráðsins 1996.
    Dagana 22.–26. janúar var I. hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1996 haldinn í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Hjálmar Árnason, Tómas Ingi Olrich og Hjálmar Jónsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Að vanda fóru meginstörf þingsins fram á þingfundum en auk þess voru fundir í fastanefndum þingsins og í þingflokkum. Aðalumræðuefni þessa þings var aðildarumsókn Rússlands að Evrópuráðinu en hún var tekin til formlegrar afgreiðslu fimmtudaginn 25. janúar.
    Á mánudeginum 22. janúar hófst þingfundur á kjöri forseta Evrópuráðsþingsins og var frú Leni Fischer, kristilegur demókrati frá Þýskalandi, einróma kjörin. Voru Spánverjanum Miguel Angel Martinez, fráfarandi forseta, færðar þakkir fyrir sérstaklega góð störf í þágu Evrópuráðsþingsins. Á fundi í nefnd þingsins um almannatengsl og samskipti við þjóðþing var Lára Margrét Ragnarsdóttir endurkjörin formaður nefndarinnar til eins árs. Auk hefðbundinna þingstarfa var á mánudeginum rætt um skýrslu um sagnfræði og sögukennslu evrópskra barna. Vegna takmörkunar á ræðutíma varð Lára Margrét Ragnarsdóttir að leggja fram ræðu sína skriflega í þessu máli. Í henni lagði Lára Margrét áherslu á mikilvægi þessa málaflokks og vitnaði til Íslendingasagnanna máli sínu til stuðnings. Þá flutti Tomas Savvin, forseti eistneska þingsins, ávarp.
    Þriðjudaginn 23. janúar var fjallað um upplýsingasamfélagið og lýðræði (Electronic democracy) og var fastanefnd þingsins um almannatengsl og tengsl við þjóðþing falið að vinna nánar að þeirri skýrslu í samvinnu við fjórar aðrar nefndir þingsins. Þá var eftir umræður ályktað um vísinda- og tæknisamvinnu við ríki Mið- og Austur-Evrópu, um evrópska umhverfisstefnu og um rétt þjóðarbrota í Evrópu. Þennan dag flutti Flavio Cotti, utanríkisráðherra Sviss og formaður ráðherraráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ávarp og svaraði fyrirspurnum þingmanna.
    Miðvikudaginn 24. janúar var eftir umræður ályktað um evrópska uppeldisstefnu (European strategy for children) og lagði Hjálmar Jónsson fram skriflega ræðu í málinu vegna takmörkunar á ræðutíma. Í henni lagði hann áherslu á að frumábyrgð á uppeldi barna beri foreldrar þeirra. Þá var rætt um skýrslu um ástand flóttamanna og uppbyggingu í nokkrum ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu og ályktað um hana. Marti Ahtissari, forseti Finnlands, ávarpaði þingið og svaraði fyrirspurnum. Þá gerði Niels Helveg Petersen, utanríkisráðherra Dana og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, grein fyrir störfum ráðherranefndarinnar. Á miðvikudeginum átti íslenska sendinefndin hádegisverðarfund með Sverri Hauki Gunnlaugssyni sendiherra og Sveini Á. Björnssyni sendifulltrúa, en Sveinn hefur fast aðsetur í Strassborg eins og getið er að framan.
    Fimmtudagurinn 25. janúar var eingöngu helgaður umræðum um aðild Rússlands að Evrópuráðinu. Níutíu þingmenn voru á mælendaskrá en ræðutími var takmarkaður við fimm mínútur. Þrátt fyrir takmörkun ræðutíma gátu einungis rúmlega 50 þingmenn flutt ræður sínar munnlega en aðrir þurftu að leggja þær fram skriflega. Lára Margrét Ragnarsdóttir og Hjálmar Árnason fluttu munnlegar ræður en Tómas Ingi Olrich lagði fram skriflega ræðu. Í ræðu sinni lýsti Lára Margrét yfir vonbrigðum með hve hægt miðaði í lýðræðisátt í Rússlandi og lagði áherslu á að með frestun á afgreiðslu umsóknarinnar væri Evrópuráðsþingið ekki að hafna Rússum heldur hvetja þá til að hraða umbótum. Hjálmar Árnason lagði áherslu á að lýðræðisþróun í Rússlandi hlyti óhjákvæmilega að taka langan tíma en Rússland hefði lýst sig reiðubúið að virða lýðréttindi og hagsmunum lýðræðisaflanna væri best borgið með aðild að Evrópuráðinu. Tómas Ingi Olrich varaði við því að gera of mikið úr afleiðingum ákvörðunar þingsins í þessu máli og taldi það ekki skaða lýðræðisþróun í Rússlandi þótt aðildarumsókn þess yrði frestað. Hann benti á að efnahagsmál skiptu fólkið í landinu mestu og góður eða slæmur efnahagur skipti sköpum um framgang lýðræðis. Eftir mjög ítarlegar umræður samþykkti þingið, að viðhöfðu nafnakalli, að mæla með inngöngu Rússlands í Evrópuráðið. Alls greiddu 214 þingmenn atkvæði, 164 voru fylgjandi inngöngu Rússlands, 35 greiddu atkvæði gegn henni en 15 sátu hjá. Hjálmar Árnason greiddi atkvæði með inngöngu Rússlands, Tómas Ingi Olrich greiddi atkvæði á móti henni en Lára Margrét Ragnarsdóttir sat hjá. Á fimmtudeginum voru þar að auki flutt þrjú ávörp. Fyrst flutti forseti þings Slóvakíu, Ivan Gasparovic, ávarp, þá forseti tékkneska þingsins, Milan Uhde, og að lokum ávarpaði John Bruton, forsætisráðherra Írlands, þingið og svaraði fyrirspurnum.
    Á lokadegi þingsins var rætt og ályktað um skýrslur um ástand efnahagsmála í Hvíta-Rússlandi, Rússlandi og Úkraínu og um dýravernd og gripaflutninga innan Evrópu.

3.     Annar hluti þings Evrópuráðsins 1996.
    Dagana 22.–26. apríl var II. hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1996 haldinn í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Hjálmar Árnason og Ólafur Örn Haraldsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Að vanda fóru meginstörf þingsins fram á þingfundum en auk þess voru fundir í fastanefndum þingsins og í þingflokkum.
    Á mánudeginum 22. apríl var, auk hefðbundinna þingstarfa, rætt um mat á hæfi dómara sem eru í kjöri til setu í mannréttindadómstóli Evrópu. Þá flutti Kirsti Kolle Gröndahl, forseti norska Stórþingsins, ávarp.
    Þriðjudaginn 23. apríl var eftir umræður ályktað um stefnu Evrópulandanna í samgöngumálum, um sáttmála um málefni dreifbýlis í Evrópu og um þátt stjórnmálamanna í mati á nýjum vísindalegum og tæknilegum úrlausnum. Við umræðuna um samgöngumál flutti ávarp formaður ráðstefnu evrópskra samgönguráðherra, Karoly Lotz frá Ungverjalandi. Þá ávarpaði Leonid Kutchma, forseti Úkraínu, þingið og svaraði fyrirspurnum þingmanna.
    Miðvikudaginn 24. apríl var rætt um aðild Króatíu að Evrópuráðinu og flutti Lára Margrét Ragnarsdóttir ræðu og Hjálmar Árnason lagði fram skriflega ræðu í málinu vegna takmörkunar á ræðutíma. Bæði studdu aðild Króatíu og lögðu áherslu á að í ljósi þess að þingið samþykkti aðild Rússlands að ráðinu í janúar væri ekki réttlætanlegt að hafna umsókn Króata. Evrópuráðsþingið samþykkti að mæla með inngöngu Króata í ráðið með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða og flutti Vlatko Paveltic, forseti króatíska þingsins, ávarp af því tilefni. Riita Ousokainen, forseti finnska þingsins, ávarpaði þingið þennan dag og Niels Helveg Petersen, utanríkisráðherra Dana og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, gerði grein fyrir störfum ráðherranefndarinnar og svaraði fyrirspurnum þingmanna. Eftir umræður um störf ráðherranefndarinnar var rætt og ályktað um málefni Alþjóða rauða krossins. Í þeirri umræðu benti Lára Margrét Ragnarsdóttir á að auk hjálparstarfa sinnti Rauði krossinn mikilvægum verkefnum, m.a. á sviði blóðsöfnunar, og einnig hvatti hún þingmenn til að styðja baráttu samtakanna gegn notkun jarðsprengna og leysigeislavopna sem ætlað er að blinda fólk. Þá benti hún á að stríðandi fylkingar í heiminum sýndu hlutlausum mannúðarsamtökum sífellt meiri óvirðingu og virtist sem árás Ísraelsmanna á búðir friðargæsluliða í Líbanon þann 18. apríl sl. væri nýjasta dæmið um þetta. Tók hún fram að íslenski utanríkisráðherrann hefði fordæmt árásina. Síðasta umræða þessa dags var um ályktun um þróun samskipta Rússlands og Tsjetsjeníu og ástandið þar. Auk þess flutti ávarp Babken Ararktsian, forseti armenska þingsins.
    Fimmtudaginn 25. apríl var rætt og ályktað um framkvæmd Dayton-samkomulagsins um frið í Bosníu-Hersegóvínu. Var fulltrúum hinna ýmsu stofnana sem tengjast samkomulaginu boðið að taka þátt í umræðunni. Meðal þeirra sem töluðu voru Elizabeth Rehn fyrir mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), Gret Haller, umboðsmaður mannréttindanefndar Bosníu-Hersegóvínu, Rolf Ryssdal, forseti mannréttindadómstóls Evrópu, Antonio Cassese, forseti alþjóðalega stríðsglæpadómstólsins í Haag, og Sir Peter Emery, gjaldkeri ÖSE-þingsins. Lára Margrét Ragnarsdóttir flutti ræðu um þetta mál og lagði megináherslu á að dvöl friðargæsluliða undir stjórn NATO, svokallað IFOR-lið, í Bosníu-Hersegóvínu yrði lengri en eitt ár eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Þá kvað hún mikilvægt að Bandaríkjastjórn framlengdi veru 20.000 bandarískra hermanna á svæðinu og benti á mikilvægi NATO og Bandaríkjanna í varnar- og öryggismálum í Evrópu. Að lokum var rætt um framkvæmd Tyrkja á þeim skuldbindingum sem þeir hafa gengist undir til að bæta stjórnskipun og löggjöf í landinu. Þennan dag ávarpaði Guennady Selesnev, forseti rússnesku Dúmunnar, Evrópuráðsþingið.
    Á lokadegi þingsins var þess minnst að nákvæmlega tíu ár voru liðin frá Chernobylslysinu. Var rætt um afleiðingar slyssins og flutti Ólafur Örn Haraldsson ræðu en Hjálmar Árnason lagði fram skriflega ræðu vegna takmörkunar á ræðutíma. Lögðu þeir báðir áherslu á að skoða þyrfti þá hættu sem stafaði af notkun kjarnorku í víðu samhengi og bentu á þá hættu sem lífríki Norður-Atlantshafs væri búin ef kjarnorkuslys yrðu t.d. á Kólaskaganum eða í kjarnorkuendurvinnsluverum Breta í Dounreay og Sellafield. Að lokum var rætt um ástand mála fyrir botni Miðjarðarhafsins og þeirri hættu sem friðarsamningum Ísraela og Palestínumanna gæti stafað af vaxandi átökum í Líbanon.

4.     Þriðji hluti þings Evrópuráðsins 1996.
    Dagana 24.–28. júní var III. hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1996 haldinn í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Hjálmar Árnason, Hjálmar Jónsson og Ólafur Örn Haraldsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar.
    Að vanda fóru meginstörf þingsins fram á þingfundum þar sem rætt var um einstakar skýrslur sem unnar hafa verið af nefndum þingsins en auk þess voru nefndafundir og fundir þingflokka.
    Á þessu þingi var tekin upp í dagskrá sú nýbreytni að gefa þingmönnum kost á að vekja athygli á málefnum sem þeir telja brýnt að beina augum þingsins að hverju sinni, án þess að umræða fari fram um einstök mál. Nýtti Hjálmar Árnason sér þetta tækifæri til að vekja athygli á hinu válega ástandi kjarnorkuflota og kjarnorkustöðva Rússa í Múrmansk og nágrenni og afleiðingum sem kjarnorkuslys á þessum slóðum gæti haft á lífríki Norðaustur-Atlantshafs.
    Þingið ræddi og ályktaði um menningarsamstarf í Evrópu, sérstaklega á milli ESB og Evrópuráðsins, um vernd réttinda minnihlutahópa, um þá þætti Dayton- og Erdut-samninganna er snúa að óbreyttum borgurum og lýðréttindum (kosningar í Bosníu-Hersegóvínu), um afnám dauðarefsingar í Evrópu, um störf Evrópska þróunar- og endurreisnarbankans á árinu 1995, um þingkosningar í Albaníu og um hvernig vinna megi gegn óæskilegum áhrifum sem arfleifð stjórnkerfis kommúnista hefur á hin nýju lýðræðisríki í Austur-Evrópu. Þá samþykkti þingið álit um fjárlög þess fyrir árið 1997. Þar að auki var fjallað um ástand mála í Tsjetsjeníu og um stöðu ungs fólks í Evrópu.
    Á þinginu flutti Siim Kallas, utanríkisráðherra Eistlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, skýrslu ráðherranefndarinnar. Jafnframt fluttu ávörp Kiro Gligorov, forseti fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu (FYROM), Vladimir Meciar, forsætisráðherra Slóvakíu, Ugo Mifsud Bonnici, forseti Möltu, og Jacques de Larosiére, forseti Evrópska þróunar- og endurreisnarbankans.
    Kosnir voru dómarar í mannréttindadómstól Evrópu frá Moldóvu og Hollandi.

5.     Fjórði hluti þings Evrópuráðsins 1996.
    Dagana 23.–27. september var IV. hluti þings Evrópuráðsins á árinu 1996 haldinn í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sóttu þingið Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Tómas Ingi Olrich og Ólafur Örn Haraldsson, auk ritara Íslandsdeildarinnar. Að vanda fóru meginstörf þingsins fram á þingfundum en auk þess voru fundir í fastanefndum þingsins og í þingflokkum.
    Á mánudeginum 23. september var dagskrá IV. hluta þingsins lögð fram til samþykktar. Þar var gert ráð fyrir að sérstök umræða færi fram um kynferðislega misnotkun barna í ljósi voveiflegra tíðinda vikurnar á undan, einkum frá Belgíu, og var gert ráð fyrir að umræðan færi fram í lok þingsins föstudaginn 27. september. Lára Margrét Ragnarsdóttir mótmælti þeirri tímasetningu og sagði málefnið allt of mikilvægt til að réttlætanlegt væri að ræða það í hálftómum sal í lok þingsins. Lagði hún til að umræðan færi fram á miðvikudeginum þar sem fimm klukkustundir voru ætlaðar umræðum um starfsemi Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD), og var tillagan samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta þrátt fyrir andmæli Leni Fischer, forseta þingsins. Þá var rædd skýrsla framkvæmdastjórnar þingsins um starfsemi þess og innri málefni. Loks ávarpaði Jorge Sampaio, forseti Portúgals, þingið og svaraði spurningum þingmanna.
    Þriðjudaginn 24. september var rædd tillaga þess efnis að mælt yrði með að haldinn yrði leiðtogafundur aðildarríkja Evrópuráðsins, og var samþykkt að mæla með að slíkur fundur yrði haldinn í Strassborg haustið 1997. Þá ávarpaði Guntis Ulmanis, forseti Lettlands, þingið og svaraði spurningum þingmanna. Siim Kallas, utanríkisráðherra Eistlands og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, ávarpaði þingið fyrir hönd ráðherranefndarinnar og svaraði spurningum þingmanna. Ræddar voru skýrslur og ályktanir samþykktar um framtíð félagsmálastefnu og um atvinnuleysi í Evrópu. Telgmaa frá Eistlandi lagði fram breytingartillögu við skýrslu um framtíð félagsmálastefnu þar sem lagt var til að þingið mælti með „sérstakri aðstoð“ og fjárhagslegum hvötum til sköpunar atvinnutækifæra á dreifbýlissvæðum, m.a. í sjávarútvegi. Tómas Ingi Olrich mælti gegn tillögunni og sagði hana hvetja til opinberra niðurgreiðslna í málaflokkum þar sem flest Evrópuríki væru að reyna að skera slíkar niðurgreiðslur niður. Hann minnti þingið á að sum Evrópuríki væru nær algerlega háð sjávarútvegi og að slíkar niðurgreiðslur skekktu samkeppnisstöðu þessarar ríkja. Niðurgreiðslur af þessu tagi mundu því ekki draga úr atvinnuleysi líkt og ætlunin væri, heldur yrðu þær einungis til að færa atvinnuleysi frá einu landi til annars. Tillagan var felld. Þá var rædd skýrsla um mannréttindamál flóttamanna í Georgíu og ályktað um þau og loks voru kosnir dómarar frá Rúmeníu og Úkraínu í mannréttindadómstól Evrópu.
    Miðvikudagurinn 25. september hófst á umræðunni um kynferðislega misnotkun barna. Þar flutti Lára Margrét Ragnarsdóttir ræðu þar sem hún sagðist óttast að þau mál sem fram hefðu komið nýlega væru einungis toppurinn á stórum ísjaka. Lára Margrét sagði tíma til kominn að ríkisstjórnir og fjölþjóðastofnanir tækju á þessum málaflokki af fullum krafti og sagði að allar þær stofnanir er fjölluðu um mannréttindi, lög og reglur ættu að gera þetta mál að algeru forgangsatriði. Þá hvatti hún jafnframt til samræmingar í löggjöf aðildarríkjanna til þess að auðvelda samstarf í þessum efnum og hvatti jafnframt til þess að einstök ríki áskyldu sér rétt til að sækja hvern þann til saka sem framið hefði slíka glæpi, án tillits til hvar í heiminum afbrotin hefðu verið framin. Þá fór fram umræða um skýrslu um starfsemi Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar og var ályktað um hana, en jafnframt flutti Donald Johnston, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, ávarp. Loks var rædd skýrsla og ályktun samþykkt um Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og framkvæmd niðurstaðna Úrúgvæ-lotunnar.
    Fimmtudaginn 26. september var fjallað um og samþykkt álit um tillögu þess efnis að samþykktur verði viðauki við mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fjallað er um verndun mannréttinda í tengslum við líflæknisfræði. Þar flutti Tómas Ingi Olrich ræðu þar sem hann sagði sífellt mikilvægara að slíkur viðauki væri samþykktur. Tómas fjallaði um þann vanda sem í því væri fólginn að skilgreina rétt jafnvægi sem hvorki hindraði framgang vísinda og tækni né gengi á rétt einstaklinganna. Hann lagði hins vegar áherslu á að okkur væri mest hætta búin af því ef enginn slíkur viðauki við sáttmálann yrði samþykktur og þessum málaflokki gert að lifa við skort á samræmdum reglum. Þá ávarpaði Marc Forné, forsætisráðherra Andorra, þingið og svaraði spurningum þingmanna. Loks var rætt um svonefnt friðarferli í Mið-Austurlöndum, en daginn áður brutust að nýju út hörð átök á svæðinu. Ákveðið var að fresta umræðu um skýrslu og ályktun á grundvelli hennar, en þess í stað var samþykkt yfirlýsing þar sem Evrópuráðsþingið lýsti áhyggjum af harðnandi átökum í Mið-Austurlöndum og hvatti Ísraela og Palestínumenn til að setjast aftur að samningaborðinu.
    Föstudaginn 27. september var rædd skýrsla og ályktað um fólksflutninga og málefni flóttamanna.

6. Nefndastörf.
a. Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
    Þátttaka Íslandsdeildarinnar í nefndum skiptist þannig:
    Sameiginleg nefnd með ráðherranefnd:     Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Fastanefnd:          Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Stjórnmálanefnd:          Lára Margrét Ragnarsdóttir
                  til vara:          Margrét Frímannsdóttir
    Laganefnd:          Margrét Frímannsdóttir
                  til vara:          Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Efnahagsnefnd:          Margrét Frímannsdóttir
                  til vara:          Hjálmar Jónsson
    Umhverfis-, skipulags- og
        sveitarstjórnarmálanefnd:          Ólafur Örn Haraldsson
                  til vara:          Hjálmar Árnason
    Þingskapanefnd:          Lára Margrét Ragnarsdóttir
    Fjárlaganefnd:          Hjálmar Jónsson
    Landbúnaðarnefnd:          Ólafur Örn Haraldsson
                  til vara:          Hjálmar Jónsson
    Vísinda- og tækninefnd:          Tómas Ingi Olrich
                  til vara:          Hjálmar Árnason
    Mennta- og menningarmálanefnd:          Hjálmar Árnason
                  til vara:          Tómas Ingi Olrich
    Heilbrigðis- og félagsmálanefnd:          Hjálmar Jónsson
    Nefnd um samskipti við lönd utan
         Evrópuráðsins:          Tómas Ingi Olrich
    Flóttamannanefnd:          Hjálmar Árnason
    Nefnd um almannatengsl þingsins:          Lára Margrét Ragnarsdóttir

b. Þátttaka í nefndafundum utan þinga.
    
Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg, París eða í einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls tók Íslandsdeildin þátt í nítján slíkum fundum á árinu 1996, sem er einungis lítið brot þeirra funda sem Íslandsdeildin þyrfti að sækja til að gott væri. Með stækkun Evrópuráðsins hefur það hlotið aukið vægi í samskiptum ríkja álfunnar og skortur á fjármagni til að sækja nefndafundi gerir þingmönnum erfitt um vik að fylgja einstökum málum eftir og hafa þau áhrif sem æskilegt væri. Rík ástæða er því til að taka alþjóðastarf Alþingis til gagngerrar endurskoðunar.
    Á fundi vísinda- og tækninefndar þann 19. nóvember í París var Tómas Ingi Olrich tilnefndur til að vinna skýrslu fyrir hönd nefndarinnar um orkusáttmála Evrópu og verður hann framsögumaður þeirrar skýrslu á árinu 1997.

Alþingi, 30. jan. 1997.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,

Margrét Frímannsdóttir,

Hjálmar Árnason.


form.

varaform.



Tómas Ingi Olrich.

Ólafur Örn Haraldsson.

Hjálmar Jónsson.