Ferill 470. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 470 . mál.


796. Skýrsla



um starfsleyfistillögur fyrir álver á Grundartanga.

Frá umhverfisnefnd.



I. INNGANGUR


    Á fundi umhverfisnefndar, 3. febrúar 1997, var samþykkt, með vísan til 26. gr. þingskapalaga, að taka til umfjöllunar í nefndinni drög að starfsleyfistillögum fyrir álver á Grundartanga. Aðdragandinn var að 6. desember 1995 sótti markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar fyrir hönd Columbia Aluminium Corporation um starfsleyfi fyrir 180.000 tonn/ár álver á Grundartanga. Voru tillögur að starfsleyfi lagðar fram til kynningar og umsagnar þann 11. nóvember 1996. Tillögurnar gera ráð fyrir að starfsleyfið gildi fyrir framleiðslu allt að 180.000 tonnum af fljótandi áli á ári í kerskálum álvers á Grundartanga og fyrir vinnslu í steypuskála álvers sem reist verður í þremur áföngum, 60.000, 30.000 og 90.000 tonn/ár.
    Hefur málið verið rætt á tíu fundum auk þess sem farin var vettvangsferð á Grundartanga þar sem aðstæður voru skoðaðar og fundað með hagsmunaaðilum. Nefndin hefur fengið fjölda gesta á sinn fund og ítarlegra gagna hefur verið aflað, eins og nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir.


II. YFIRLIT YFIR GESTI SEM KOMIÐ HAFA Á FUND NEFNDARINNAR

    Nefndin hefur fengið á sinn fund um málið Hermann Sveinbjörnsson, Ingunni S. Svavarsdóttur og Ólaf Pétursson frá Hollustuvernd ríkisins, Eyjólf Árna Rafnsson og Tómas Má Sigurðsson frá verkfræðistofunni Hönnun, Snorra Pál Kjaran frá verkfræðistofunni Vatnaskilum, Guðbrand Hannesson, oddvita Kjósarhrepps, Jónas Vigfússon, sveitarstjóra Kjalarneshrepps, Gísla Gíslason bæjarstjóra á Akranesi, Val Þorvaldsson og Kristján Oddsson frá Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, Guðmund Sigurðsson og Guðbrand Brynjólfsson frá Búnaðarsambandi Borgarfjarðar, Ólaf Magnússon, Halldór Jónsson, Arnór Hannibalsson og Ólaf Oddsson frá Samtökum um óspillt land í Hvalfirði, Stefán Thors og Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur frá Skipulagi ríkisins, Ingimar Sigurðsson, Magnús Jóhannesson og Tryggva Felixson frá umhverfisráðuneyti, Kristján Geirsson og Trausta Baldursson frá Náttúruvernd ríkisins, Garðar Ingvarsson og Andrés Svanbjörnsson frá markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, Jón Ingimarsson og Halldór Kristjánsson frá iðnaðarráðuneyti, Magnús Oddsson ferðamálastjóra, Dagmar Völu Hjörleifsdóttur, Georg Janusson og Sigurjón Þórðarson frá heilbrigðiseftirliti Akranesbæjar, Halldór Runólfsson og Þorstein Narfason frá heilbrigðiseftirliti Kjósarhrepps, Magnús Jónsson og Flosa Hrafn Sigurðsson frá Veðurstofu Íslands, Sigurð Má Einarsson frá Veiðimálastofnun, Jón Gunnar Ottósson forstöðumann Náttúrufræðistofnunar Íslands, Gísla Má Gíslason, forstöðumann Líffræðistofnunar Háskóla Íslands og Agnar Olsen og Helga Bjarnason frá Landsvirkjun. Þá fór nefndin í vettvangsferð ásamt Stefáni Thors frá Skipulagi ríkisins, Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneytinu, Jóni Sigurðssyni, forstjóra Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, Guðbrandi Hannessyni, oddvita Kjósarhrepps og Jónasi Vigfússyni, sveitarstjóra Kjalarneshrepps. Ekið var um Hvalfjörð, aðstæður og lóð undir fyrirhugað álver kannaðar, járnblendiverksmiðjan heimsótt og fundað með sérfræðingum hennar. Loks var haldið til fundar á Akranesi þar sem saman voru komnir, auk nefndarinnar og fylgdarliðs hennar, fulltrúar Akranesbæjar, Hvalfjarðarstrandarhrepps, Skilmannahrepps og Innri-Akraneshrepps, fulltrúi Samtaka um óspillt land í Hvalfirði og fulltrúar íbúa á Akranesi og í nágrenni sem berjast fyrir því að álver verði reist á Grundartanga.

III. GÖGN SEM NEFNDIN HEFUR HAFT TIL HLIÐSJÓNAR
VIÐ MEÐFERÐ MÁLSINS

    Nefndin hefur kallað eftir ýmsum upplýsingum frá fjölmörgum aðilum varðandi starfsleyfistillögur fyrir álver á Grundartanga. Fer hér á eftir listi yfir helstu gögn sem nefndin hafði til hliðsjónar við meðferð málsins.
    Starfsleyfistillögur fyrir álver Columbia Ventures Company á Grundartanga, dags. 11. nóvember 1996, Hollustuvernd ríkisins.
    Frumathugun. Álver á Grundartanga. Mat á umhverfisáhrifum vegna byggingar álvers, lagningar háspennulína og stækkunar Grundartangahafnar. Unnið af Hönnun hf. fyrir markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar og Columbia Aluminium Corporation.
    Mat á umhverfisáhrifum vegna álvers á Grundartanga; bygging álvers, lagning háspennulína og stækkun Grundartangahafnar. Niðurstöður frumathugunar og úrskurður skipulagsstjóra ríkisins.
    Úrskurður umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum fyrir álver á Grundartanga.
    Greinargerð Högna Hanssonar líffræðings um fyrirhugað álver á Grundartanga.
    Athugasemdir umhverfisráðuneytisins við greinargerð Högna Hanssonar um umhverfismat fyrir álver á Grundartanga, dags. 27. janúar 1997.
    Starfsleyfi til handa Íslenska járnblendifélaginu hf. til reksturs járnblendiverksmiðju á Grundartanga í Skilmannahreppi, Borgarfjarðarsýslu, dags. 4. maí 1977. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
    Skýrsla umhverfisnefndar Alþingis um starfsleyfistillögur fyrir álver á Keilisnesi, 493. mál, þskj. 774 á 115. löggjafarþingi.
    Álit umhverfisnefndar Alþingis um stækkun álbræðslu í Straumsvík, fylgiskjal nefndarálits iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse-Lonza Holding Ltd. um álbræðslu við Straumsvík, 171. mál, þskj. 369 á 120. löggjafarþingi.
    Gróðurbreytingar við álverið í Straumsvík. Hörður Kristinsson.
    Umsögn um möguleg umhverfisáhrif stóriðju á Grundartanga á veiðivötn í næsta nágrenni, nóvember 1996. Sigurður Már Einarsson.
    PARCOM Recommendation 94/1 on Best Available Techniques for New Aluminium Electrolysis Plants.
    Minnispunktar, unnir af Hönnun hf. að beiðni umhverfisnefndar Alþingis, um kröfur sem gerðar eru til álvera.
    Grasafræðirannsóknir við Hvalfjörð, 1983. Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Hörður Kristinsson, Bergþór Jóhannesson og Eyþór Einarsson.
    Upplýsingar um mengun frá járnblendiverksmiðju á Grundartanga. Íslenska járnblendifélagið hf.
    Minnisblað frá umhverfisráðuneyti um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
    Greinargerð markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, svör við spurningum er fram komu á fundi með umhverfisnefnd vegna fyrirhugaðs álvers á Grundartanga, dags. 28. febrúar 1997.
    Greinargerð Landsvirkjunar, svör við spurningum er fram komu á fundi með umhverfisnefnd vegna fyrirhugaðs álvers á Grundartanga, dags. 10. mars 1997.
    Greinargerð um stöðu vatnsmála á svæðinu sunnan Skarðsheiðar vegna fyrirhugaðrar byggingar álvers á Grundartanga, dags. 14. febrúar 1997. Bæjarstjórn Akraness.
    Lögfræðiálit unnið fyrir Kjósarhrepp um stöðu markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, dags. 10. febrúar 1997.
    Upplýsingar um vindhraða á Grundartanga. Jón Hálfdánarson.
     Vindmælingar að Klafastöðum. Veðurstofa Íslands.
    Þá bárust nefndinni erindi frá bæjarstjóranum á Akranesi, Arnóri Hannibalssyni, ábúendum og eigendum lögbýlisins Svarfhóls í Hvalfjarðarstrandarhreppi, Árna Finnssyni, Brandi Jónssyni, bónda í Katanesi, Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, Kristjáni Oddssyni, Ferðamálaráði Íslands, Heilbrigðiseftirliti Akranessvæðis, Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, hreppsnefnd Kjósarhrepps, Kjalarneshreppi, Líffræðifélagi Íslands, Oddi Benediktssyni og Sól, samtökum um óspillt land í Hvalfirði.

IV. NIÐURSTÖÐUR


a. Álit Ólafs Arnar Haraldssonar, Árna M. Mathiesen, Gísla S. Einarssonar,


Tómasar Inga Olrich, Ísólfs Gylfa Pálmasonar og Kristjáns Pálssonar.


Almennt.

    Gert er ráð fyrir að bygging og rekstur álversins verði í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og reglugerða settum samkvæmt þeim. Miðað er við að bygging og rekstur álvers sé í samræmi við bestu fáanlegu tækni sem völ er á í kerskálum og þurrhreinsivirkjum, sbr. PARCOM Recommendation 94/1, auk sérstakra skilyrða sem sett eru í starfsleyfinu.
    Í starfsleyfistillögunum er einnig að finna endurskoðunarákvæði þar sem kveðið er á um að komi fram skaðleg áhrif á umhverfi verksmiðjunnar eða hætta sem ekki var áður ljós skuli Hollustuvernd ríkisins í samráði við Heilbrigðiseftirlit Akranessvæðis halda fund með Columbia Ventures Company og leita sameiginlega mögulegra lausna.
    Einnig kemur fram í starfsleyfistillögum að þynningarsvæði álvers vegna loftmengunar skal vera hið sama og þynningarsvæði iðnaðarsvæðisins á Grundartanga.
    Nokkur reynsla er komin á undirbúning og aðdraganda að gerð starfsleyfa hér á landi. Liggur reynsla þessi hjá ráðuneytum, viðkomandi stofnunum ríkisins, vísindamönnum og sérfræðifyrirtækjum. Þá hefur umhverfisnefnd Alþingis komið að vinnslu starfsleyfa fyrir álver og fjallað um starfsleyfistillögur fyrir álver á Keilisnesi og stækkun álversins í Straumsvík. Hefur þekking og reynsla allra þessara aðila komið að miklum notum við umfjöllun umhverfisnefndar um drög að starfsleyfi álvers á Grundartanga.
    Áhugi og vitund almennings um sambúð stórframkvæmda og umhverfisverndar er stöðugt meiri. Fagnar meiri hlutinn auknum áhuga landsmanna á umhverfismálum og telur að sú mikla umræða sem orðið hefur vegna fyrirhugaðs álvers á Grundartanga reynist til mikils gagns bæði fyrir almenning, fyrirtæki og stjórnvöld.
    Um leið og þekking og reynsla á þessu sviði hefur vaxið, hafa viðhorf og kröfur í umhverfismálum breyst ört. Ekki hefur oft reynt á undirbúningsferil að starfsleyfi fyrir stóriðju sem þessa. Meiri hluti umhverfisnefndar telur að ferli það sem felur í sér mat á umhverfisáhrifum og gerð starfsleyfistillagna svo og kynning á matinu og tillögunum sé mikilvægt tækifæri sem löggjafanum gefst til þess að meta virkni núverandi löggjafar og hvað má betur fara, og nýta niðurstöðuna við lagasetningu í framtíðinni. Má í því sambandi nefna að frumvarp til skipulags- og byggingarlaga er nú til umfjöllunar í nefndinni. Þá er hafin endurskoðun á náttúruverndarlögum á vegum umhverfisráðuneytisins og í undirbúningi er endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Virkjun orku og staðsetning stóriðju.

    Hrein og endurnýjanleg orka Íslands er ein af tiltölulega fáum auðlindum landsins og nýting hennar er ein af undirstöðum þjóðarbúsins. Jafnframt geta Íslendingar boðið orku sem veldur minni mengun en sú sem fengin er með brennslu jarðefnaeldsneytis. Um leið og þetta er ljóst, blasir sú staðreynd við að staðbundin og hnattræn mengun stafar einnig frá rekstri stóriðjuvera ekki síður en ýmissi annarri atvinnustarfsemi. Virkjun orkunnar og nýting hennar til stóriðju hefur óhjákvæmileg áhrif á náttúru og ásýnd landsins og starfsskilyrði annarra atvinnugreina svo sem ferðaþjónustu og landbúnaðar auk áhrifa á sumarhúsabyggð og skilyrði til útivistar. Í ljósi þessa og athugunar sem umhverfisnefnd gerði á skipulagi og virkjunarmöguleikum á miðhálendinu síðastliðið haust telur meiri hluti nefndarinnar ljóst að marka þarf heildarstefnu í virkjunar-, stóriðju- og umhverfismálum bæði til lengri og skemmri tíma litið og hafa þá m.a. í huga þá ímynd sem hvert svæði eða sveitarfélag vill skapa sér. Þarf í því sambandi bæði að hafa hliðsjón af virkjunarmöguleikum og staðsetningu stóriðju sem velja þarf stað með tilliti til þess að almennt er betra að stóriðja sé staðsett við sjávarsíðuna þar sem ríkjandi vindar standa af landi á haf út. Enn fremur þarf að taka tillit til atvinnuhátta í nágrenni stóriðju svo sem landbúnaðar og ferðaþjónustu. Einnig er æskilegt í þessu sambandi að leggja áherslu á umhverfisstefnu, markmið um sjálfbæra þróun, auk þess sem huga þarf að sambúð atvinnugreina með andstæða hagsmuni svo og ímynd og ásýnd landsins. Mikilvægt er að stefnumótunin byggist á áreiðanlegum rannsóknum á náttúrufari þannig að mat á umhverfisáhrifum ráðist ekki einvörðungu af alþjóðlegum stöðlum heldur ekki síður af sérstæðu náttúrufari Íslands. Hvetur meiri hluti nefndarinnar til að slík heildarstefnumótun fari fram og lýsir sig reiðubúna til þátttöku í þeirri stefnumótun og bendir jafnframt á nauðsyn þess að haft verði náið og víðtækt samráð við almenning, sveitarstjórnir og atvinnulíf. Í þessu sambandi minnir meiri hlutinn á tillögur umhverfisráðuneytis í framhaldi af umhverfisþingi sem haldið var í nóvember 1996.

Mengunarmörk starfsleyfistillögu.
    Við yfirferð yfir málið kynnti nefndin sér þær mengunarviðmiðanir og skuldbindingar sem Íslendingar hafa gengist undir í alþjóðlegu samstarfi hvað stóriðju varðar og þær viðmiðanir sem gilda í nágrannalöndunum, má þar nefna PARCOM o.fl. Þau viðmiðunarmörk sem gert er ráð fyrir í starfsleyfistillögum fyrir álver á Grundartanga eru strangari en miðað var við fyrir álver á Keilisnesi og starfsleyfi álversins í Straumsvík. Raunar eru kröfur sem settar eru fram í starfsleyfistillögunum strangari en þær kröfur sem gerðar eru til sambærilegrar starfsemi nýja hlutans í álverinu í Straumsvík. Álver á Grundartanga verður í hópi þeirra álvera á Norðurlöndum sem strangastar kröfur eru gerðar til. Þannig telur meiri hlutinn að viðmiðanir Íslands séu fullnægjandi og er þá einnig tekið tillit til sérstakra aðstæðna hér á landi svo sem veðurfars og þeirrar reynslu sem draga má af rekstri tveggja stóriðjuvera hérlendis bæði í Straumsvík og á Grundartanga. Reynslan af rekstri álvera erlendis og í Straumsvík sýnir að álver geta náð betri árangri í mengunarvörnum en mörk starfsleyfis þeirra segja til um, enda setja þau sér þess háttar markmið. Meiri hlutinn hvetur til þess að slík markmið verði sett við rekstur fyrirhugaðs álvers á Grundartanga.
    Umhverfisnefnd fjallaði sérstaklega um það hvort gera ætti kröfur um uppsetningu vothreinsibúnaðar við fyrirhugað álver á Grundartanga. Mat Hollustuverndar er að ekki þurfi vothreinsibúnað. Miðað við fyrirliggjandi áætlanir um loftmengun getur meiri hluti nefndarinnar fallist á þá niðurstöðu en telur að endurskoða þurfi starfsleyfið hvað mengunarvarnarkröfur og hreinsibúnað varðar ef í ljós kemur að áætlanir um loftmengun standast ekki.

Rannsóknir á lífríki í tengslum við stóriðju.
    Á undanförnum árum hefur verið gert mikið átak í mengunarvörnum í álverinu í Straumsvík og er mengun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga innan leyfilegra marka. Því miður hafa ekki verið gerðar nægilega ítarlegar rannsóknir á lífríki í nágrenni stóriðju hér á landi, ef undan eru skildar reglubundnar rannsóknir á flúormagni í gróðri, í beinum sauðfjár og í vatni í nágrenni við álverið í Straumsvík, en þær hófust árið 1968. Í þeim athugunum sem gerðar hafa verið hafa ekki komið fram vísbendingar um að verksmiðjurnar valdi skaða á lífríki eftir að mengunarvarnabúnaður komst í gott lag eftir 1992 en flúoríð er nú um það bil 1,2 kg á hvert tonn af áli, en fer niður fyrir 1 kg með tilkomu nýs hluta álvers. Flúoríðmagn var hins vegar um 17–25 kg á hvert framleitt tonn af áli við upphaf reksturs verksmiðjunnar, enda var hún þá án flúorhreinsibúnaðar. Óbirt rannsókn, sem gerð var um miðjan níunda áratuginn áður en fullkominn hreinsibúnaður var settur upp, bendir til þess að mengun frá álverinu hafi þá haft greinileg áhrif á tiltekinn gróður. Þannig hafi mosi, fléttur og lynggróður, annar en krækilyng, látið nokkuð á sjá næst álverinu og í allt að þriggja kílómetra fjarlægð. Í þessu sambandi ber einnig að líta á það að verulegar breytingar hafa orðið á hreinsibúnaði álversins í Straumsvík á þeim tólf árum síðan rannsóknin var gerð. Þannig er nú t.d. um að ræða um 80% minni losun á flúor og 90% minni ryklosun. Eins og áður er getið hafa árlega frá árinu 1968 verið gerðar mælingar á flúoríði í grasi og trjágróðri í nágrenni verksmiðjunnar á vegum flúornefndar. Niðurstöður þessara mælinga sýna að frá og með árinu 1992 er styrkur flúoríða í þessum gróðri í svipuðu magni og hann var áður en verksmiðjan tók til starfa. Einnig hafa rannsóknir á þungmálmum í lífríki sjávar sýnt það að ekki er hærra gildi í þungmálmum í kræklingum í Straumsvík en á almennt umhverfis landið. Loks má geta þess að súrnun grunnvatns af völdum brennisteins hefur ekki mælst í grunnvatni í Straumsvík og ekki hafa komið fram neinar upplýsingar sem benda til að kerbrotin frá álverinu í Straumsvík hafi mengað.

Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga.

    Í umfjöllun sinni um forsendur og umsókn um starfsleyfi fyrir álver á Grundartanga hefur meiri hlutinn nokkuð staldrað við mengunarvarnir og eftirlit með mengun í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, en nauðsynlegt er að líta á mengun frá stóriðju á svæðinu í samhengi. Járnblendiverksmiðjan starfar nú eftir tuttugu ára gömlu starfsleyfi og er mengun frá verksmiðjunni innan þeirra marka sem koma fram í því. Þó hafa nokkrar kvartanir borist vegna sleppinga á reyk frá járnblendiverksmiðjunni. Bárust umhverfisnefnd upplýsingar um að óvenjutíðar sleppingar stöfuðu af bilunum og endurnýjun á mengunarvarnabúnaði í verksmiðjunni og að rekstrartími reykhreinsivirkja hefði á árinu 1996 verið 99,28% á reykhreinsivirki 1 og 98,97% á reykhreinsivirki 2. Samkvæmt upplýsingum frá járnblendiverksmiðju og Hollustuvernd ríkisins er sá reykur sem sést frá verksmiðjunni ryk sem ekki veldur meiri mengun en ryk almennt. Hinar mengandi lofttegundir eru hins vegar ekki sjáanlegar. Eftir athuganir á málinu telur meiri hlutinn ljóst að eftirlit Hollustuverndar með mengun frá járnblendiverksmiðjunni hafi ekki verið nægilegt og hefur það komið fram á fundum nefndarinnar með fyrirsvarsmönnum Hollustuverndar ríkisins að stofnunin hafi ekki burði til að sinna því eftirliti sem henni er ætlað. Meiri hluti nefndarinnar telur eftirlit með mengunarvörnum og umhverfisvöktun í Hvalfirði og nágrenni mjög mikilvæga og nauðsynlega til að unnt sé að fylgjast með því hvort áætlanir um loftmengun vegna álversins reynist réttar og hver áhrif mengunar frá því eru á umhverfið. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn mikla áherslu á að búið verði betur að Hollustuvernd ríkisins og að stofnunin sinni sínu hlutverki m.a. með því að innheimta þau gjöld af atvinnustarfsemi sem hún á rétt á til eftirlits.

Vatnsöflun.

    Í umræðunni um álver hefur nokkuð verið rætt um vatnstökumál á svæðinu sunnan Skarðsheiðar. Akraneskaupstaður tekur allt vatn til vatnsveitu Akraness úr Akrafjalli, en járnblendifélagið hefur fengið vatn til sinnar starfsemi frá Tungu í Svínadal. Ekki er um að ræða annars konar skipulega vatnstöku á svæðinu. Meiri hlutinn telur ljóst að rannsaka þurfi betur þau svæði sem í svæðisskipulagi eru merkt sem vatnsverndarsvæði í því skyni að tryggja íbúum sunnan Skarðsheiðar og á Akranesi neysluvatn. Í því sambandi er vísað til viljayfirlýsingar sveitarfélagana á svæðinu þar sem fram kemur að stefnt sé að samvinnu við iðnaðarráðuneytið um öflun vatnsréttinda sem gætu nýst við framtíðaruppbyggingu á Grundartangasvæðinu og fyrir vatnsveitu hreppanna sunnan Skarðsheiðar og Akraneskaupstað. Leggur meiri hlutinn áherslu á að gengið verði tryggilega frá þessum málum. Samkvæmt upplýsingum umhverfisnefndar er enn ekki afráðið hvernig kælikerfi verksmiðjunnar verður og kemur m.a. til greina að nota lokað kælikerfi, en við notkun þess þarf mjög takmarkað magn af vatni.

Skipulag og mat á umhverfisáhrifum.

    Nefndin fjallaði nokkuð um skipulag svæðisins og mat á umhverfisáhrifum og telur meiri hlutinn að lærdóm megi draga af því ferli sem nú hefur farið fram við undirbúning álvers á Grundartanga. Þannig beri að stefna að því að auka þátttöku og ábyrgð almennings í skipulagsvinnunni sem og þátttöku annarra sveitarfélaga en þeirra sem aðild eiga að skipulaginu. Mun meiri hlutinn hafa þessar upplýsingar til hliðsjónar við vinnu sína að frumvarpi til skipulags- og byggingarlaga á yfirstandandi þingi svo og þegar lögin um mat á umhverfisáhrifum koma til nefndarinnar en endurskoðun þeirra er í undirbúningi eins og áður kom hér fram.

Lokaorð.

    Niðurstaða meiri hluta umhverfisnefndar er sú að þær kröfur sem gerðar eru í starfsleyfistillögum fyrir álver á Grundartanga séu nægilegar. Meiri hlutinn bendir þó jafnframt á að orðalag starfsleyfistillögu mætti í mörgum tilfellum vera afdráttarlausara þannig að eftirlit og aðhald stjórnvalda yrði auðveldara. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að eftirlit með stóriðju og rannsóknir á áhrifum stóriðju á lífríki landsins verði efld til muna. Skiptar skoðanir komu fram í nefndinni hversu ákjósanleg staðsetning álversins á Grundartanga væri en enginn taldi hana beinlínis hættulega. Loks bendir meiri hlutinn á slæma þróun koldíoxíðsmengunar í heiminum, en gróðurhúsaáhrif vegna slíkrar mengunar eru sívaxandi vandamál. Þó að rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar feli ekki í sér lagalega skuldbindingu fyrir einstök ríki hvetur meiri hluti nefndarinnar ríkisstjórnina til að taka koldíoxíðslosun á Íslandi föstum tökum. Í því sambandi minnir meiri hlutinn á framkvæmdaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og á ráðstefnu ríkjanna sem eru aðilar að samningnum í Kyoto í desember 1997.

b. Álit Hjörleifs Guttormssonar og Kristínar Halldórsdóttur.


1. Útdráttur.
    Það er skoðun minni hluta umhverfisnefndar að afar illa hafi verið staðið að undirbúningi vegna álbræðslu sem ráðgert er að reisa á Grundartanga. Grunnrannsóknir vantar á lífríki og fleiri umhverfisþáttum í Hvalfirði. Málsmeðferð hefur verið slæm á flestum stigum undirbúnings af hálfu stjórnvalda, m.a. við mat á umhverfisáhrifum og við undirbúning að starfsleyfi. Sérstaklega virðist hlutur markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar tortryggilegur og óvíst að farið hafi verið að lögum þegar um er að ræða hlut MIL í mati á umhverfisáhrifum. Þá er þáttur umhverfisráðuneytis í málsmeðferð vegna tillagna að starfsleyfi afleitur og birtist m.a. ítrekað í lögleysu við breytingar á mengunarvarnareglugerð.
    Tillögur að starfsleyfi ganga í mörgum atriðum gegn því sem réttmætt getur talist og taka ekki mið af eðlilegum kröfum um umhverfisvernd. Starfsleyfi er fyrirhugað að veita fyrir þrjá ráðgerða byggingaráfanga verksmiðjunnar og gildistími þess er mun lengri en vera ætti. Mörk fyrir losun flúoríðs eru óhæfilega rúm og engin hreinsun er ráðgerð á brennisteinstvíoxíði. Með verksmiðjunni í fullri stærð eykst losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 373 þúsund tonn á ári sem svarar til 13% aukningar miðað við losun á árinu 1990. Aðstaða Hollustuverndar ríkisins til eftirlits með stóriðjurekstri er allsendis ófullnægjandi. Aukin stóriðja á Grundartanga stefnir hag annarra atvinnugreina á svæðinu og útivistarhagsmunum í mikla tvísýnu. Með tilkomu álbræðslu á Grundartanga vex mengunarálag á Faxaflóasvæðinu og loftgæðum mun hraka. Lokið er lofsorði á einarða og málefnalega framgöngu fjölda heimamanna í byggðarlögunum við Hvalfjörð. Fagnað er vakningu meðal almennings í þágu umhverfisverndar.

2. Fyrri atrennur umhverfisnefndar svipaðs eðlis.
    Það starf sem fram hefur farið í umhverfisnefnd frá því í janúar sl. við að afla vitneskju og ræða um umhverfisþætti fyrirhugaðrar álbræðslu á Grundartanga á sér nokkra hliðstæðu í fyrri störfum nefndarinnar. Ber þar sérstaklega að geta skýrslu um starfsleyfistillögur fyrir álver á Keilisnesi sem lögð var fram sem 493. mál á 115. löggjafarþingi 1992. Að henni stóð þáverandi umhverfisnefnd í heild, en skiptist um niðurstöður í meiri hluta og minni hluta. Að minnihlutaáliti stóðu þá Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Ólafur Ragnar Grímsson og Valgerður Sverrisdóttir. Í þeirri skýrslu er að finna margháttaðan fróðleik, sem enn er í góðu gildi. Síðar hefur umhverfisnefnd m.a. tekið til athugunar umdeildan iðnrekstur eins og kísilgúrverksmiðju við Mývatn með tilliti til starfsleyfis og efnisnáms úr Mývatni svo og stækkun álbræðslu Ísals í Straumsvík. Í vinnu nefndarinnar nú var um margt hægt að byggja á fyrri málstökum svipaðs eðlis. Þótt niðurstöður séu skiptar nú sem áður telur minni hlutinn þessa yfirferð hafa verið gagnlega og væntir að með henni fáist betri sýn til umhverfisþátta er snerta ráðgert álver á Grundartanga.

3. Forsaga CVC-álbræðslu. Fyrirspurnir á Alþingi.
    Sú álbræðsla sem nú er rætt um að koma upp á Grundartanga í Hvalfirði á rætur í notaðri þýskri álbræðslu sem upphaflega var reist um 1920. Fulltrúar markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL) fengu augastað á þessari verksmiðju í tengslum við hugmyndir Alusuisse-Lonsa um áramótin 1994–95 um að flytja hana til Straumsvíkur. Sumarið 1995 kynntu MIL og iðnaðarráðuneytið forstjóra bandaríska fyrirtækisins Columbia Aluminium Corporation (CAC) þá hugmynd að flytja þessa þýsku álbræðslu til Íslands og varð að ráði að CAC keypti hana. Spurst var fyrir um málið á Alþingi veturinn 1995–96 og liggja fyrir tvö skrifleg svör iðnaðarráðherra við fyrirspurnum Hjörleifs Guttormssonar sem 203. og 511. mál á 120. löggjafarþingi. Var af þeim og umræðum ljóst að mikil ferð var á verksmiðjumálinu og undirbúningi virkjana á vegum Landsvirkjunar.

4. Verksmiðja sem styrr stóð um í Þýskalandi.
    Verksmiðjan sem gert er ráð fyrir að reisa á Grundartanga er eins og áður segir að stofni til notuð verksmiðja frá Vereinigte Aluminiumwerke (VAW) og stóð í bænum Töging í Bayern í Þýskalandi, sem upphaflega var byggð um 1920 en endurbyggð um 1980. Hún keypti raforku frá vatnsorkuveri í ánni Inn, sem rennur í Dóná. Miklar deilur urðu ítrekað milli fyrirtækisins sem rak verksmiðjuna og bænda í nágrenni hennar vegna mengunar, einkum á tímabilinu 1950–80, m.a. vegna verulegra skemmda á skóglendi, rykmengunar og sýkingar búfjár af völdum flúormengunar. Stóðu málaferli út af þessu milli bænda og VAW allt til ársins 1995 að þeim lauk með dómsátt fyrir Landgericht í Bonn. Þá hafði verið ákveðið að loka verksmiðjunni og borið við háum orku- og flutningskostnaði.
    Ekki hefur fengist upplýst í einstökum atriðum hvað notað verði af búnaði Töging álbræðslunnar í verksmiðju CVC á Grundartanga. Í svari MIL við fyrirspurn umhverfisnefndar segir m.a. um þetta: „MIL er ekki kunnugt um smáatriði varðandi tæknilegan búnað verksmiðjunnar né heldur hvað kemur frá verksmiðjunni í Töging. Hér er um að ræða trúnaðarmál seljanda og kaupanda.“ Hið sama kemur fram í svari verkfræðistofunnar Hönnunar hf. til nefndarinnar, en vísað er til þess sem fram kom við mat á umhverfisáhrifum að einkum verði notaður búnaður frá Töging með langan afhendingartíma svo sem keryfirbyggingar, kranar, deiglur og ýmis rafbúnaður. Þetta er ekki sérlega traustvekjandi m.a. með tilliti til mengunarvarna. Ljóst er að hér er að stofni til verið að flytja til landsins notaða verksmiðju og hætt við að fleiri slíkar fylgi í kjölfarið.
    
5. Skipulagsmál iðnaðarsvæðis á Grundartanga.
     Nokkrar deilur hafa staðið um skipulagsvinnu og ákvarðanir um svæðisskipulag sunnan Skarðsheiðar og um aðal- og deiliskipulag iðnaðarsvæðis á Grundartanga. Óheppilegt verður að telja að svæðisskipulag skuli ekki hafa verið unnið samtímis fyrir Hvalfjarðarsvæðið í heild, þ.e. að Kjósarhreppur skuli ekki hafa átt hlutdeild í svæðisskipulaginu. Hvalfjörður er ein óskipt heild m.a. með tilliti til stórframkvæmda í formi orkufreks iðnaðar. Umhverfisnefnd kynnti sér stöðu skipulagsvinnu og helstu ágreiningsefni, en hér er ekki tekin afstaða til þeirra.

6. Mat á umhverfisáhrifum, þáttur MIL og úrskurður umhverfisráðherra.
    Gera verður alvarlegar athugasemdir við framkvæmd mats á umhverfisáhrifum vegna álbræðslu Columbia Venture Corporation (CVC) á Grundartanga. Á það sérstaklega við um þátt MIL og úrskurð umhverfisráðherra. Vafasamt verður að telja að aðild MIL að málinu standist lög. Verður það hér rökstutt nánar.
    Í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 segir: „Framkvæmdaraðili sér um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum þessum og ber kostnað af því.“ (9. gr.) Framkvæmdaraðili er skilgreindur svo: „Ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að nokkru eða hluta, lögaðili eða einstaklingur er hyggst hefja framkvæmdir sem lög þessi taka til.“ (2. gr.) Í 7. gr. segir m.a.: „Áður en hafist er handa um framkvæmdir sem lög þessi eða reglugerð samkvæmt þeim taka til skal framkvæmdaraðili senda skipulagsstjóra tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd . . .  “ „Þegar úrskurður skipulagsstjóra liggur fyrir skal hann kynntur framkvæmdaraðila . . .  “ (11. gr.) „Áður en umhverfisráðherra kveður upp úrskurð sinn skal hann leita umsagnar skipulagsstjóra, framkvæmdaraðila, leyfisveitenda og sveitarstjórna sem hlut eiga að máli.“ (14. gr.)
    Af framkomnum gögnum í umhverfisnefnd er ljóst að MIL hefur í þessu máli að öllu leyti komið í stað væntanlegs framkvæmdaraðila, þ.e. í fyrstu Columbia Aluminium Corporation, sem fól MIL umboð sitt með bréfi 22. nóvember 1995 til að leggja fram skýrslu um frumathugun vegna mats á umhverfisáhrifum (Mat á umhverfisáhrifum vegna byggingar álvers, lagningar háspennulína og stækkunar Grundartangahafnar. Frumathugun.) og sækja um starfsleyfi fyrir álbræðslu. Í framhaldi af þessu kom síðan MIL að öllu leyti í stað framkvæmdaraðila inn í ferli vegna mats á umhverfisáhrifum, veitti umsagnir, stóð að kærum og veitti umsagnir um kærur annarra. Fulltrúar Columbia Aluminium Corporation (CAC) „komu til Íslands fyrir atbeina MIL í september og október 1995“ (tilvitnanir í erindi MIL til umhverfisnefndar dags. 28. september 1997). „Allt starf að undirbúningi málsins hefur verið í höndum MIL . . .  Kostnaður MIL hefur verið greiddur af sérstöku framlagi eigenda sem skiptist jafnt milli Landsvirkjunar og Iðnaðarráðuneytisins.“ Um er að ræða kostnað að upphæð rúmlega 24 millj. kr., þar af tæpar 8 millj. kr. vegna mats á umhverfisáhrifum sem samið var um að MIL fengi endurgreiddar ef álverið yrði reist á Íslandi. Um 16 millj. kr. af útlögðum kostnaði MIL og aðstandenda voru hins vegar ekki endurkræfar frá CAC.
    Ætla mætti að sem ráðgjafi stjórnvalda „við samningagerð ríkisins og Landsvirkjunar um sölu á orku til stóriðjufyrirtækja“ bæri MIL að vera óháð væntanlegum kaupanda raforku af Landsvirkjun og halda sig í hæfilegri fjarlægð þegar hagsmunir hans eru annars vegar. Allt annað er hér uppi á teningnum. MIL gerist beinn erindreki orkukaupandans og tengist honum auk þess fjárhagslega með því að leggja út fyrir kostnaði sem því aðeins kemur til endurgreiðslu að framkvæmdin, þ.e. bygging álbræðslu, verði að veruleika. Ekki verður annað séð af gögnum en MIL sé jafnframt hinn raunverulegi gerandi í stað framkvæmdaraðilans við mat á umhverfisáhrifum og væntanlegur framkvæmdaraðili komi þar í reynd lítið sem ekkert við sögu. Slíkt fær tæpast staðist samkvæmt lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, sbr. m.a. 2. og 9. gr. Jafnframt verður allt matsferlið að skrípamynd þegar síðan MIL er komin allt í kringum borðið sem umsagnar- og kæruaðili til viðbótar við Landsvirkjun. Um þau atriði hljóta m.a. að koma til álita ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum, eins og bent er á í áliti Almennu málflutningsstofunnar til Kjósarhrepps, dags. 10. febrúar 1997.
    Ekkert var því til fyrirstöðu að hið erlenda fyrirtæki eða annar formlegur en óháður lögaðili í þess nafni kæmi fram sem framkvæmdaraðili við mat á umhverfisáhrifum. Sú var ekki reyndin og vegna annmarka á því að Markaðskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar tæki að sér hlutverk framkvæmdaraðila verður að vefengja að staðið hafi verið að matsferlinu í samræmi við eðlilega lagatúlkun.

7. Úrskurður umhverfisráðherra.
    Sjö aðilar kærðu úrskurð skipulagsstjóra um mat á umhverfisáhrifum álbræðslu á Grundartanga til umhverfisráðherra, þar á meðal markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar (MIL) og Landsvirkjun. Í aðalatriðum féllst umhverfisráðherra á kæruatriði þessara framkvæmdaraðila og ógilti meginatriðin í úrskurðarorðum skipulagsstjóra ríkisins. Sá síðarnefndi hafði í úrskurðarorðum m.a. kveðið á um að óheimilt væri að hefja framkvæmdir við hvorn áfanga álbræðslunnar fyrir sig fyrr en fyrir lægi niðurstaða úr mati á umhverfisáhrifum á „matsskyldum framkvæmdum þeim tengdum“, m.a. virkjunarframkvæmdum og háspennulínum. Þannig skyldi liggja fyrir mat á heildaráhrifum orkuöflunar og orkuiðnaðar, eins og eðlilegt verður að telja. Í umsögn skipulagsstjóra vegna framkominna kæruatriða sagði m.a.:
    „Það er mat embættis skipulagsstjóra ríkisins að ekkert nýtt hafi komið fram er breyti fyrri úrskurði embættisins. Mikilvægt er að litið sé á úrskurð skipulagsstjóra sem eina heild. Verði skilyrðum breytt og/eða þau alfarið felld úr gildi breytast forsendur úrskurðar sem kallað gæti á endurskoðun á málinu í heild . . . 
    Þessum aðvörunum embættis skipulagsstjóra var í engu sinnt og hafnaði ráðuneytið því sjónarmiði „að tengja allar framkvæmdir saman og takmarka eina framkvæmd við aðra . . .  “, eins og það er orðað í niðurstöðu ráðuneytisins. Þetta verður að telja ranga niðurstöðu, og með henni er skapað afar varhugavert fordæmi. Geta menn séð til hvers það leiðir, ef hafnar eru t.d. framkvæmdir við verksmiðju án þess að búið sé að fjalla um og tryggja orkuöflun til hennar. Þannig skapast óeðlilegur þrýstingur á málsmeðferð við mat á þeirri framkvæmd sem síðar kemur röðin að í mati.

8. Tillaga að starfsleyfi.
    Í nóvember 1995 sótti MIL fyrir hönd Columbia Aluminium Corporation um starfsleyfi fyrir allt að 180 þúsund tonna álbræðslu á Grundartanga „enda málið þá á frumstigi og enginn fulltrúi starfandi hér á landi fyrir þess hönd.“ Þann 11. nóvember 1996 auglýsti Hollustuvernd ríkisins tillögur að starfsleyfi fyrir 180.000 tonna verksmiðju CVC, „sem reist verður í þremur áföngum, 60.000, 30.000 og 90.000 tonn/ár . . .  “. Frestur til athugasemda var í fyrstu gefinn til 23. desember 1996 en síðan framlengdur til 13. janúar 1997. Athugasemdir bárust frá 54 aðilum sem er langtum meira en gerst hefur í hliðstæðum tilvikum. Endurspeglar fjöldi athugasemda eflaust víðtæka tortryggni og andstöðu við staðsetningu og rekstur álverksmiðjunnar á Grundartanga. Fyrirhugaður rekstraraðili álbræðslunnar heitir nú Norðurál hf. en eigandi er Columbia Venture Corporation (CVC).

9. Málsmeðferð í uppnámi.
    Margt er að athuga við embættisfærslu umhverfisráðuneytis í sambandi við undirbúning starfsleyfis fyrir álbræðslu á Grundartanga. Þann 3. júlí 1996 gaf Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra út reglugerð nr. 394/1996 sem breytti vissum atriðum mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, m.a. 65. gr. sem kveður á um málsmeðferð vegna athugasemda við starfsleyfistillögur Hollustuverndar ríkisins. Með breytingunni afnam ráðherra rétt almennings til að vísa athugasemdum vegna tillagna um starfsleyfi fyrirtækja, m.a. fyrirtækja í orkufrekum iðnaði, til sérstakrar úrskurðarnefndar. Einnig var í reglugerðinni ekki vísað til stjórnar Hollustuverndar ríkisins sem úrskurðaraðila. Þetta hvoru tveggja var gert þrátt fyrir skýlaus ákvæði 26. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Þann 1l. desember 1996 svaraði umhverfisráðherra á Alþingi fyrirspurn frá Hjörleifi Guttormssyni um umrædda reglugerð, þar sem m.a. var spurt með hvaða stoð í lögum reglugerðin væri sett. Fullyrti fyrirspyrjandi að við setningu reglugerðarinnar væri ekki farið að lögum. Þessu andmælti umhverfisráðherra mjög eindregið.
    Þann 12. desember 1996 skrifaði Hjörleifur bréf til stjórnar Hollustuverndar ríkisins og bað um álit hennar á því hvort nefnd reglugerðarbreyting „sé að mati stjórnar Hollustuverndar ríkisins í samræmi við ákvæði laga . . .  “ Svar barst frá stjórn Hollustuverndar, dagsett 24. janúar 1997, þar sem fram kom m.a. eftirfarandi:
    „Á fundi stjórnar Hollustuverndar ríkisins með umhverfisráðherra þann 20. janúar sl. var upplýst að ráðuneytið muni á næstu dögum gera viðhlítandi viðbótarbreytingar á mengunarvarnareglugerð. Það er álit stjórnar Hollustuverndar ríkisins að með þessu sé málið komið í eðlilegan farveg þannig að tryggt verði samræmi laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og mengunarvarnareglugerðar.“
    Umhverfisráðherra gaf út nýja reglugerð nr. 26/1997 þann 22. janúar 1997. Ekki tókst þar betur til en svo að enn verður að telja að óvíst sé að mengunarvarnareglugerð sé í samræmi við lög nr. 81/1988 með síðar breytingum. Af því tilefni sendi Hjörleifur Guttormsson bréf til stjórnar Hollustuverndar ríkisins, dags. 13. mars 1997 með athugasemdum í þremur liðum við málsmeðferð og óskaði úrskurðar stjórnarinnar þar að lútandi. Þegar þetta er ritað þann 20. mars 1997 hefur úrskurður ekki fallið, en á honum getur m.a. hvílt frekari málsmeðferð um starfsleyfistillögur fyrir álbræðslu á Grundartanga.

10. Ágreiningur í stjórn Hollustuverndar um starfsleyfistillögur.
    Stjórn Hollustuverndar ríkisins sendi 7. mars 1997 frá sér til umhverfisráðherra tillögur að starfsleyfi eftir að hafa farið yfir framkomnar athugasemdir. Stjórnin varð ekki sammála um afgreiðslu tillögunnar. Meiri hluti stjórnar stóð að tillögunni, en einn stjórnarmaður, Kristín Einarsdóttir, lagði til við ráðherra veigamiklar breytingar á starfsleyfistillögu meiri hlutans. Segir í rökstuðningi við breytingartillögur hennar til ráðherra m.a.:
    „Því miður eru í starfsleyfistillögu meiri hlutans ekki gerðar fullnægjandi kröfur um mengunarvarnir svo sem nauðsynlegt er að gera fyrir mengandi iðnað eins og þann sem hér um ræðir. Þar eð hér er um nýtt starfsleyfi að ræða ætti að vera sjálfsagt að krefjast þess að notuð sé fullkomnasta tækni til mengunarvarna sem völ er á eins og krafist er í nágranna- og samkeppnislöndum. Ég tel óforsvaranlegt að slaka á mengunarvörnum ef leyfa á byggingu stórs iðjuvers eins og umrædds álvers hér á landi.“
    Hér á eftir gerir minni hluti umhverfisnefndar athugasemdir við starfsleyfið, eins og tillagan hljóðar frá meiri hluta stjórnar Hollustuverndar. Einnig eru gerðar alvarlegar athugasemdir við málsmeðferð af hálfu umhverfisráðuneytis.
11. Starfsleyfi fyrir þrjá áfanga.
    Fráleitt og ástæðulaust verður að telja að ætla nú að veita starfsleyfi fyrir þrjá byggingaráfanga verksmiðjunnar, en enginn veit nú hvort eða hvenær tveir síðari áfangar verða reistir. Sérstaklega er það varhugavert að því er varðar viðmiðanir og mörk fyrir losun mengandi efna. Varnagli sem sleginn er í grein 1.4 í starfsleyfistillögu er óljós og ófullnægjandi. Engin rök eru til þess að gefa út starfsleyfi nema fyrir 1. áfanga verksmiðjunnar.

12. Gildistími starfsleyfis.
    Í tillögum meiri hluta stjórnar Hollustuverndar ríkisins að starfsleyfi er gert ráð fyrir að starfsleyfi verksmiðjunnar gildi í tíu ár frá því starfsemi hefst í kerskála eða taki gildi eigi síðar en 1. maí 1999. Þetta er allt of langur tími miðað við öra tækniþróun og þá óvissu sem einstök ákvæði starfsleyfisins geta verið háð. Minni hluti stjórnar Hollustuverndar gerir þá tillögu til ráðherra að starfsleyfið gildi aðeins í fjögur ár, eins og Hollustuvernd lagði til árið 1995 vegna starfsleyfis fyrir Ísal. Þetta hefur líka verið reglan um starfsleyfi sem Hollustuvernd sjálf gefur út. Minni hluti umhverfisnefndar tekur einnig undir sjónarmið minni hluta stjórnar Hollustuverndar og Náttúruverndar ríkisins þess efnis „að starfsleyfið skuli endurskoðað ef Íslendingar gerast aðilar að alþjóðasamþykktum um strangari mengunarvarnir og ef nýjar íslenskar reglur eru settar“.

13. Ekki fylgt bestu fáanlegri tækni.
    Andstætt því sem reynt er að halda fram er í starfsleyfi álbræðslu CVC ekki gert ráð fyrir bestu fáanlegri tækni, eins og hún gerist best í álverksmiðjum. Þetta verður ljóst þegar litið er til viðmiðana um losun mengunarefna skv. 2.1.6 í starfsleyfi sem sumpart eru langt frá því að endurspegla bestu tæknilegar mengunarvarnir.

14. Losun mengunarefna.
    Í grein 2.1.6. í starfsleyfi er kveðið á um að Norðurál skuli „á hverjum tíma gera ráðstafanir til að draga eftir mætti úr losun mengunarefna“ og sett mörk fyrir losun heildarflúoríðs, ryks og brennisteinstvíoxíðs. Verður hér á eftir fjallað um þessi mörk með hliðsjón af því sem eðlilegt hefði verið að setja í starfsleyfi miðað við bestu reynslu og fáanlega tækni í nágrannalöndum og víðar. Í því sambandi er ástæða til að andmæla harðlega þeirri endileysu sem haldið er fram af ýmsum um þessi efni, m.a. af verkfræðistofunni Hönnun hf. í svari við fyrirspurnum frá umhverfisnefnd.

15. Heildarflúoríð.
    Heildarflúoríðlosun samkvæmt heimiluðum mörkum svarar til þess að allt að 108 tonn af flúoríði berist árlega frá verksmiðjunni. Full rök eru hins vegar til að heimila ekki meiri losun heildarflúoríðs frá verksmiðjunni en 0,4 kg/tAl í stað 0,6 kg/tAl, þ.e. þrengja losunarmörkin um 50% frá því sem starfsleyfi gerir ráð fyrir. Raunar hefði mátt ganga lengra ef gengið væri út frá besta árangri sem vitað er um erlendis í þessu efni, þ.e. 0,3 kg/tAl. PARCOM-viðmiðunin frá 1994 sem fylgt er í starfsleyfi er málamiðlun aðila að samþykktinni og lágmarkskröfur, en Norðmenn lögðu til að miðað væri við 0,4 kg/tAl að hámarki þegar beitt er vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun.
    Í skýrslu umhverfisnefndar um starfsleyfistillögur fyrir álver á Keilisnesi (493. mál, þingskjal 774 á 115. löggjafarþingi) árið 1992 voru rakin mörg dæmi um losunarmörk í álbræðslum fyrir flúor og brennisteinstvíoxíð sem eru nálægt því sem hér er lagt til. Jafnframt voru þar hraktar margháttaðar rangar staðhæfingar sem haldið var fram um losunarmörk, m.a. af talsmönnum umhverfisráðuneytis. Um þetta vísast m.a. til álits minni hluta umhverfisnefndar í skýrslunni og fylgiskjala XII, XIII og XIV með nefndarálitum. Þessu til viðbótar má benda á greinargerð Högna Hanssonar forstöðumanns hollustu- og heilbrigðiseftirlits í Landskrona í Svíþjóð um losun frá álverinu í Sundsvall, en þar var flúoríðlosun árið 1995 0,3 kg/tAl árið 1995.

16. Rykmengun.
    Þótt í starfsleyfi sé miðað við að ryk sé ekki yfir 1,0 kg/tAl, eins og mörk eru sett sem hámark samkvæmt PARCOM 94/1, kemur fram í greinargerð með tillögunum frá Hollustuvernd að „framleiðendur þess búnaðar sem notaður verður á Grundartanga hafa ekki treyst sér til að ábyrgjast að rykmengun verði jafnlítil og náðst hefur í álverinu í Straumsvík.“ Munar þarna miklu og því óráðlegt að setja svo hátt gildi sem gert er. Af þessu má einnig sjá hversu óráðlegt það er að ætla nú að gefa út starfsleyfi fyrir meira en 1. áfanga verksmiðjunnar.

17. Brennisteinstvíoxíð – engin hreinsun!
    Tillaga meiri hluta stjórnar Hollustuverndar að starfsleyfi gerir ekki ráð fyrir neinni hreinsun á brennisteinstvíoxíði frá verksmiðjunni. Tilgreind mörk skv. 2.1.6, 21 kg/tAl, byggja á því að brennisteinsinnihald í forskautum fari ekki yfir 2%. Verði það hærra gildir ákvæði greinar 2.1.10 sem hljóðar svo: „Ef rafskaut með nægilega lágu innihaldi brennisteins til þess að standast útblástursmörk samkvæmt 2.1.6 eru ekki fáanleg á samkeppnishæfu verði á heimsmarkaði skal þetta starfsleyfi endurskoðað.“ Sú endurskoðun getur ekki verið nema í eina átt, þ.e. að heimila vaxandi mengun, nema menn hafi í huga að krefjast vothreinsunar!
    Minni hluti stjórnar Hollustuverndar ríkisins gerir hins vegar tillögu til umhverfisráðherra um vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun og bendir á að með því takist ekki aðeins að hreinsa brennisteinstvíoxíð heldur náist einnig betri hreinsun á flúoríði. Einnig bendir minni hluti stjórnar Hollustuverndar á hversu mikilvægt sé að hreinsa brennisteinssambönd, einnig í ljósi alþjóðasamþykkta. Óverjandi sé að líta aðeins á það hvort mengun hefur staðbundin áhrif. Minni hluti stjórnar Hollustuverndar tekur undir með meiri hluta stjórnarinnar að nauðsynlegt sé að afla gagna um mengun af völdum brennisteinstvíoxíðs hér á landi, en ekki þurfi að bíða eftir slíkri úttekt til að gera kröfu til vothreinsunar. Undir framangreind sjónarmið er hér tekið af minni hluta umhverfisnefndar.
    Tilgreind losunarmörk fyrir brennisteinstvíoxíð eru 10–20 falt hærri en tíðkast í starfsleyfum álbræðsla á Norðurlöndum þar sem hvarvetna utan Íslands er notuð vothreinsun auk þurrhreinsunar. Full rök eru fyrir því að beita sömu aðferð hérlendis, nema menn vilji kalla yfir sig vandamál vegna sýringar af völdum brennisteinssambanda. Með vothreinsun er jafnframt unnt að draga enn frekar úr flúoríðmengun. Röksemdir sem haldið er fram gegn vothreinsun eru að mati minni hluta umhverfisnefndar ekki haldbærar og unnt að koma í veg fyrir hugsanlega skaðlega mengun í sjó af hennar völdum.
    Einnig ber að hafa í huga að Hollustuvernd ríkisins hefur á fyrri stigum tekið undir að nauðsynlegt geti verið að hreinsa brennisteinstvíoxíð frá álbræðslum sem rætt hefur verið um hérlendis, sbr. álit umhverfisnefndar um starfsleyfistillögur fyrir álver á Keilisnesi þar sem vitnað er til Ólafs Péturssonar forstöðumanns mengunarvarnasviðs á fundi með nefndinni 11. september 1991 sem hér greinir: „Varðandi afstöðu til vothreinsi- eða þurrhreinsibúnaðar tók Ólafur fram að engar reglur væru gildandi um að ávallt þyrfti að setja upp vothreinsibúnað vegna álbræðslu þótt margt mælti með að sett væri afdráttarlaus regla um þetta atriði. Taldi Ólafur ekki þörf á vothreinsibúnaði miðað við aðstæður á Keilisnesi en ef reist væri álver í Eyjafirði eða Reyðarfirði yrði að gera kröfu um vothreinsibúnað. Fram kom þó hjá honum að með tilliti til brennisteinstvísýrings (SO 2) er sjóþvottur til viðbótar við þurrhreinsun til bóta út frá mengunarvarnasjónarmiði.“ Menn spyrja eðlilega hvers Hvalfjörður eigi að gjalda sem landbúnaðarhérað í þessu samhengi.
    Vakin er athygli á því sem stendur í greinargerð með starfsleyfi frá 11. nóvember 1996 (bls. 5/9): „Sólarhringsmeðaltal brennisteinstvíoxíðs er nú yfir íslenskum viðmiðunarmörkum á nokkuð stóru svæði samkvæmt mælingum sem gerðar hafa verið á Grundartanga og útreikningum verkfræðistofunnar Vatnaskila byggðum á þeim mælingum. Þessi mörk eru sett með tilliti til viðkvæms gróðurs. Áhrif álvers á Grundartanga á stærð þessa svæðis eru lítil sem engin. Hins vegar mun ársmeðalstyrkur brennisteinstvíoxíðs vestan og suðvestan iðnaðarsvæðisins aukast með tilkomu álversins.“
    Framangreind ummæli minna á það sambýli stóriðjuvera sem nú er stefnt að á Grundartanga. Í skýrslu Skipulags ríkisins vegna mats á umhverfisáhrifum, dags. 19. febrúar 1996 (bls. 25) segir m.a.: „Ef ná ætti einhverjum árangri með vothreinsun útblásturs á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga, væri nauðsynlegt að setja slíkan búnað einnig á útblástur frá verksmiðju Íslenska járnblendifélagsins hf.“. Í sömu umsögn kemur og fram að rannsóknir á hugsanlegum áhrifum brennisteinstvíoxíðmengunar frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga „eru mjög takmarkaðar“.
    Eðlileg viðbrögð við þessum aðstæðum eiga ekki aðeins að felast í að setja vothreinsun sem skilyrði í starfsleyfi álbræðslu CVC, heldur gera jafnframt kröfu til Íslenska járnblendifélagsins hf. um vothreinsun á útblæstri frá járnblendiverksmiðjunni í tengslum við endurskoðun á starfsleyfi hennar sem nú er hafin. Í því sambandi er rétt að benda á það sem stendur í skýrslu Skipulags ríkisins vegna mats á umhverfisáhrifum álbræðslu á Grundartanga (bls. 30) þar sem segir:
    „Ef framhald verður á hugmyndum um stækkun verksmiðjunnar (þ.e. járnblendiverksmiðjunnar) þá þarf að vinna nýtt starfsleyfi. Í ljósi þróunar sem hefur orðið á magni brennisteins í hráefni verksmiðjunnar er líklegt að Hollustuvernd ríkisins muni fara fram á að mörk brennisteins í hráefni verði endurskoðuð í samræmi við hana. Fyrir fram er ekkert hægt að segja um hver niðurstaðan gæti orðið úr slíkri endurskoðun.“
    Rétt er að minna á að Ísland gerðist í maí 1983 aðili að samningnum um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa, en umhverfisráðuneytið hefur hvorki skipað framkvæmdaraðila né staðfest einstakar bókanir við samninginn, þrátt fyrir að Hollustuvernd ríkisins hafi hvatt umhverfisráðuneytið til þess 14. febrúar 1994 að undirrita bókunina um takmörkun á losun brennisteinsdíoxíðs, sbr. svar umhverfiráðherra við fyrirspurn (þskj. 78, 120. löggjafarþing) á Alþingi 29. nóvember 1995.

18. Losun koltvíoxíðs og annarra gróðurhúsalofttegunda.
    Í skriflegu svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar á Alþingi 28. janúar 1997 um losun gróðurhúsalofttegunda kemur fram að frá 180 þúsund tonna álbræðslu á Grundartanga komi 373 þúsund tonn CO 2-ígilda árlega, en það þýðir um 13% viðbót við losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis miðað við losun á árinu 1990 sem grunnviðmiðun. Til samanburðar má geta þess að það átak sem kynnt hefur verið í landgræðslu og skógrækt í krafti viðbótarfjárveitingar að upphæð 450 millj. kr. er áætlað að muni árlega binda sem svarar 22 þúsund tonnum af gróðurhúsalofttegundum eða aðeins 1/17 hluta af því magni sem losnar frá ráðgerðri álbræðslu á Grundartanga. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða og ef til vill þá mengun sem erfiðast er að réttlæta í alþjóðlegu samhengi. Í þeim viðræðum sem nú standa yfir um frekari skuldbindingar aðila að alþjóðasamningum um loftslagsbreytingar er lagt til grundvallar álit sérfræðinga um að skera þurfi losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum niður um minnst 50% í áföngum fyrir árið 2030. Gert er ráð fyrir að ljúka gerð lagalega skuldbindandi ákvæða við samninginn í Kyoto í desember 1997 um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hefur Ísland tekið undir það markmið. Evrópusambandið hefur fyrir hönd aðildarríkja sinna þegar lagt fram tillögu um 15% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2010, og þau ríki sem mest eiga undir vegna hækkunar sjávarstöðu vilja ganga mun lengra í skuldbindandi niðurskurði. Þá kom fram hjá framkvæmdastjóra ESB á umhverfissviði, Ritt Bjerregaard, í heimsókn hennar hingað til lands 14.–16. mars 1997, að Evrópusambandið gæti ekki tekið undir þá stefnu að viðskipti með leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda (tradeable permits) yrðu stunduð landa á milli og viðurkennd sem aðferð í aðþjóðasamningnum. Halda mætti að íslenska ríkisstjórnin hafi í framkvæmdaáætlun sinni frá í nóvember 1995 viljað treysta á slíkar „lausnir“ að því er varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá orkufrekum iðnaði eða þá vísa til þess að Íslendingar hefðu fram að færa „vistvæna orku“ til slíks iðnaðar. Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar segir orðrétt um þetta:
    „Helstu markmið ríkisstjórnarinnar eru að efla orkusparnað og auka notkun hreinna orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis, og að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði svo það verði ekki meira árið 2000 en það var árið 1990. Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að þess skuli gætt að þetta markmið komi ekki í veg fyrir að hinar hreinu orkulindir landsins verði nýttar t.d. í nýjum stóriðjufyrirtækjum, jafnvel þótt fyrirtækin stundi starfsemi sem óhjákvæmilega felur í sér aukið útstreymi koltvíoxíðs eða annarra gróðurhúsalofttegunda vegna iðnaðarferla.“
    Það verður að teljast afar ábyrgðarlaust framferði að ætla nú að veita starfsleyfi til stóriðjufyrirtækja eins og stækkunar járnblendiverksmiðju og álbræðslu, sem til samans munu auka losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis um nær 19% litlu áður en samningum á að ljúka um skuldbindingar þjóðríka í þessu efni. Eftir sem áður verður árið 1990 viðmiðun sem ekki verður undan vikist og getur það því lent á annarri starfsemi hérlendis að axla þann samdrátt í losun sem orðið getur samningsniðurstaða í Kyoto.

19. Hávaði.
    Nauðsyn ber til að endurskoða reglugerðarákvæði að því er varðar hávaða frá stóriðju, m.a. að því er varðar löndun hráefna. Hafa ber hliðsjón af reynslu frá Straumsvík um það efni. Ástæða er til að ætla að hávaði frá starfsemi á Grundartanga geti valdið truflun ekki aðeins í næsta nágrenni verksmiðjunnar heldur einnig á suðurströnd Hvalfjarðar.
    Ekki verður séð að ákvæði starfsleyfistillagna samkvæmt grein 3.1, síðustu efnisgrein, séu í fullu samræmi við úrskurðarorð skipulagsstjóra ríkisins, lið 3.8, vegna mats á umhverfisáhrifum frá 19. febrúar 1996 að því er varðar eftirlit með hávaða og kortlagningu og endurskoðun hámarkshljóðstigs, þar sem segir:
    „Í starfsleyfi verði . . . 
    3.8 Kveðið á um hvernig standa skuli að eftirliti með hávaða frá iðnaðarsvæðinu á Grundartanga. Í framhaldi af fyrstu mælingum verði kortlögð mörk leyfilegs hámarkshljóðstigs frá fyrirtækjum á iðnaðarsvæðinu, samkvæmt mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum. Þessi mörk verði síðan endurskoðuð ef þörf krefur.“
    
Enn fremur segir í skýrslu Skipulags ríkisins um hávaða:
    „Í kyrru veðri og undan vindi getur hávaði borist víða , einkum ef hann berst yfir hart yfirborð eða vatnsflöt. Hávaði mun óhjákvæmilega fylgja framkvæmdum á byggingartíma álvers og starfsemi þess eftir að rekstur hefst, hreinsibúnaði og uppskipun . . .  Svæði sem skilgreina þarf sem áhrifasvæði vegna hávaða frá iðnaðarsvæðum er oft stærra en þynningarsvæði vegna loftmengunar.“

20. Föst úrgangsefni.
    
Í grein 2.3.2 í starfsleyfi er að finna heimild til „að koma sérstökum föstum úrgangi, sem ekki verður nýttur, fyrir í fyllingum (flæðigryfjum) við ströndina í nágrenni verksmiðjunnar. Slíkur fastur úrgangur er m.a. kerbrot, óendurnýjanlegur málmsori, kola- og súrálsryk og byggingarefni.“
    Í skýringum með starfsleyfistillögum kemur fram að eftir nokkur ár „má áætla að nokkur þúsund tonn á ári falli til sem fari í kerbrotagryfjur.“ — Aðeins er gert ráð fyrir að meta hugsanleg áhrif kerbrotagryfja á lífríki „a.m.k. tvisvar á áætluðum notkunartíma hverrar gryfju og a.m.k einu sinni eftir að notkun lýkur.“ Minni hluti stjórnar Hollustuverndar telur kerbrotaförgun sem þessa neyðarlausn og telur nauðsynlegt að setja sérstaklega inn endurskoðunarákvæði varðandi þetta atriði, nema fallist verði á að starfsleyfið gildi aðeins í fjögur ár.

21. Sjónmengun.
    Ljóst er að verksmiðjan ef byggð verður mun rista sjónrænt afar tilfinnanlega inn í það umhverfi sem fyrir er við norðanverðan Hvalfjörð. Þegar fram fór mat á umhverfisáhrifum álbræðslu á Grundartanga á grundvelli skýrslu framkvæmdaraðila vakti Hollustuvernd ríkisins sérstaka athygli á að í skýrslunni var ekkert fjallað um sjónræna þáttinn. Í úrskurðarorðum sínum vegna mats á umhverfisáhrifum 19. febrúar 1996 setti skipulagsstjóri m.a. sem skilyrði að „á skipulagsuppdrætti verði kveðið á um litaval bygginga álversins.“

22. Vatnsöflun.
    Í niðurstöðum sínum í skýrslu vegna frumathugunar um mat á umhverfisáhrifum 19. febrúar 1996 fjallar skipulagsstjóri allítarlega um vatnsöflun fyrir álbræðsluna og byggir m.a. á aðvörunarorðum Hollustuverndar ríkisins um það efni. Á bls. 37 í nefndri skýrslu segir m.a. um vatnsöflun fyrir álbræðslu á Grundartanga:
    „Ljóst er að vatnsöflunarmál fyrir álverið hafa enn ekki verið leyst þegar til langs tíma er litið, hvorki fyrir 60.000 né 180 þúsund tonna ársframleiðslu, hvort sem um opið eða lokað kælikerfi er að ræða. Bent er á hugsanleg vatnsöflunarsvæði án þess ljóst sé hvort þau eru nýtanleg og standi til boða.“
    Í úrskurðarorðum skipulagsstjóra segir m.a. í tölulið 2: „Ekki verður fallist á að notað sé opið kælikerfi fyrir álverksmiðjuna fyrr en ljóst er hvort til er nægjanlegt vatn, sem nýta má til þessarar starfsemi.“ — Starfsleyfið gerir ráð fyrir opnu kælikerfi, sbr. grein 2.2.1–2.2.3.
    Í erindi til umhverfisnefndar frá Verkfræðistofunni Hönnun hf. í mars 1997 kemur m.a. fram um vatnsþörf álbræðslunnar: „Í þessum málum er verið að vinna núna og því erfitt að gefa endanlegar upplýsingar, eins og t.d. um nákvæmt vatnsmagn, þar sem þær liggja einfaldlega ekki fyrir og einnig að ýmsir tæknilegir kostir eru í stöðunni sem verið er að athuga.“

23. Ófullnægjandi aðbúnaður Hollustuverndar til eftirlits.
    Það hefur komið berlega í ljós að undanförnu að þannig er búið að Hollustuvernd ríkisins að þessi aðaleftirlitsstofnun með mengunarvörnum í landinu er engan veginn í stakk búin að rækja hlutverk sitt. Á þessu hafa forsvarsmenn stofnunarinnar ítrekað vakið athygli, þetta er niðurstaðan úr úttektum stjórnskipaðra aðila og þessi alvarlega staða hefur nú í orði verið viðurkennd af umhverfisráðherra, sbr. skriflegt svar hans 28. febrúar 1997 við fyrirspurn um umhverfismál járnblendiverksmiðju í Hvalfirði (328. mál). Þar segir ráðherra m.a.: „Stofnunin hefur hins vegar vegna mannfæðar ekki getað sinnt eftirlitinu sem skyldi. Ástæðan er sú að verkefni á stofnuninni hafa aukist verulega á undanförnum árum, ekki síst með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu . . .  Ástæðan fyrir því að starfsleyfi verksmiðjunnar hefur ekki enn verið endurskoðað er sú að Hollustuvernd ríkisins hefur ekki komist yfir að sinna öllum nauðsynlegum verkefnum á undanförnum árum.“
    Rétt er að vekja athygli á að það eitt nægir ekki að stofnunin hafi heimild til að innheimta gjöld af atvinnurekstri, þar á meðal stóriðjufyrirtækjum, fyrir skoðun og mælingar. Ákveðin grunnaðstaða, þekking og þjálfað starfslið verður að vera til staðar hjá Hollustuvernd til að unnt sé að rækja slíkt. Í því sambandi má minna á nýlegt álit, sem ekki hefur verið vefengt, að algjört lágmark sé að stofnunin fái hið fyrsta heimild til 21 nýs stöðugildis.
    Öllum ætti að vera ljóst hversu ábyrgðarlaust og hættulegt það er að tryggja ekki fullnægjandi aðstæður til eftirlits með settum reglum, ekki síst með mengandi fyrirtækjum eins og hér um ræðir.

24. Grunnúttekt og rannsóknir vantar á lífríki Hvalfjarðar.
    Ein af þeim grunnforsendum sem vantar til að hægt sé að meta staðsetningu og áhrif af rekstri orkufreks iðnaðar í Hvalfirði er viðhlítandi úttekt, kortlagning og rannsóknir á lífríki Hvalfjarðar, bæði á landi og í sjó, ekki síst við strönd fjarðarins. Vitneskja um lífríkið áður en mengandi atvinnustarfsemi hefst er forsenda þess að hægt sé með óyggjandi hætti að meta breytingar vegna slíks atvinnurekstrar.
    Í lögum nr. 18/1977 um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, segir m.a. í 11. gr.: „Áður en framleiðsla hefst skal gerð líffræðileg athugun á umhverfi verksmiðjunnar, þannig að fylgjast megi með áhrifum hennar á lífríkið. Ríkisstjórnin ákveður tilhögun athugunarinnar að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs, og skal hlutafélagið greiða allan kostnað við framkvæmd hennar.“ — Lítils háttar viðleitni var til að sinna þessum fyrirmælum um það leyti sem verksmiðjan var að hefja rekstur, en tillögum að víðtækri rannsóknaráætlun og eftirliti var síðan ekki fylgt eftir. Staðan er því afleit þar eð vísindalegan grunn vantar og verður það enn tilfinnanlegra eftir því sem iðnaðarumsvif aukast á svæðinu. Þó er full ástæða til að kortleggja núverandi stöðu til að skapa samanburðargrunn í framtíðinni. Þurfa rannsóknir að þessu leyti að taka yfir stórt svæði og lúta að könnun ekki einungis á lífríki heldur einnig m.a. efnaeiginleikum ferskvatns og jarðvegs.

25. Umdeilt og óæskilegt staðarval.
    Það er skoðun minni hluta umhverfisnefndar að mjög hafi verið hrapað að staðarvali fyrir álbræðslu á Grundartanga. Í því efni bera stjórnvöld mikla ábyrgð, bæði iðanaðar- og umhverfisráðuneyti og sá furðulegi bastarður MIL sem miklu virðist hafa ráðið um það hvernig til tókst.
    Svæðið á Grundartanga og Hvalfjörður sem heild var illa undir það búið að taka við frekari stóriðju. Á það bæði við um almennar rannsóknir sem forsendu ákvarðana um staðarval sem og sambýli orkufreks iðnaðar við það atvinnulíf sem fyrir er beggja megin Hvalfjarðar. Þar er m.a. um að ræða viðkvæma þætti fyrir hvers konar mengun svo sem landbúnað, alveg sérstaklega lífrænan landbúnað, sem og útivistarhagsmuni hvers konar og ferðaþjónustu, en allt þetta hefur verið í vexti undanfarin ár.

26. Öflugt viðnám heimafólks.
    Mikla athygli hefur vakið einörð og öflug framganga fjölda heimamanna í byggðarlögunum við Hvalfjörð til varnar hagsmunum sínum vegna fyrirhugaðrar álbræðslu á Grundartanga. Andstaðan hefur í senn verið málefnaleg og gagnrýni vel og skipulega sett fram á vegum áhugasamtakanna Samtakanna óspillt land (SÓL) í Hvalfirði. Fulltrúar þessara samtaka og hagsmunasamtaka bænda komu á fund umhverfisnefndar og kynntu henni sjónarmið sín. Það gerðu einnig fulltrúar heilbrigðiseftirlits Akraness og Kjósarsvæðis. Að mati minni hluta umhverfisnefndar er afar óskynsamlegt og ósiðlegt að ætla að hundsa viðhorf fjölda fólks sem á heima nálægt vettvangi fyrirhugaðrar stóriðju, eins og virðist vera ásetningur ríkisstjórnarinnar.
    Andstaðan sem aðallega er í dreifbýlinu við Hvalfjörð hefur að hinu leytinu kallað fram viðbrögð af hálfu ýmissa sveitarstjórnarmanna og almennings, aðallega á Akranesi, sem hafa önnur viðhorf til uppbyggingar á Grundartanga. Þar ræður hagnaðarvon og sókn eftir atvinnu mestu og er hvoru tveggja á sinn hátt skiljanlegt. Má finna hliðstæðu slíkra átaka víða af svipuðu tilefni. Hlutverk stjórnvalda ætti hins vegar að vera að lægja slíkar öldur fremur en magna þær, eins og hér hefur gert.

27. Átök um atvinnustefnu, umhverfisgæði og ímynd Íslands.
    Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar leiðir óhjákvæmilega til átaka. Margir spyrja hvort skynsamlegt sé að veðja á hraða uppbyggingu orkufreks iðnaðar með tilheyrandi virkjunum og staðsetja fjölda slíkra fyrirtækja á einu landshorni, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu og í grennd þess. Með því er verið að breyta ímynd landsins og tefla í mikla tvísýnu þeim gæðum sem felast í lítt menguðu umhverfi. Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu eru þegar farin að láta á sjá, ekki síst vegna mengunar frá mikilli bílaumferð, en iðnaður leggur þar einnig sitt af mörkum. Með stóriðju á þessu svæði er teflt enn frekar í tvísýnu, að ekki sé talað um þegar slakað er á eðlilegum kröfum um mengunarvarnir. Minni hluti umhverfisnefndar varar eindregið við þessari öfugþróun og telur afar brýnt að snúið verði af þeirri braut sem vörðuð er með vanhugsuðum skyndiframkvæmdum á borð við álbræðslu á Grundartanga. Áhrifa þeirra gætir víða, m.a. í virkjunarframkvæmdum eins og Hágöngumiðlun, sem telja verður til stórslyss. Með henni er gripið inn í áður ósnortna heild á öræfasvæði við vestanverðan Vatnajökul sem tvímælalaust átti að friðlýsa og halda utan við mannvirkjagerð.
    Allt er þetta í hróplegu ósamræmi við hástemmdar yfirlýsingar ráðamanna í ræðu og riti um það hvert stefna beri í umhverfismálum. Í skýrslu umhverfisráðuneytisins „Ástand og þróun umhverfismála“ sem gefin var út á árinu 1995 stendur m.a. í kafla um viðfangsefni og framtíðaráherslur:
    „Lögð er áhersla á að Ísland verði um næstu aldamót fyrirmynd annarra vestrænna ríkja í umhverfismálum eða með öðrum orðum að Ísland verði þá án nokkurs vafa hreinasta land hins vestræna heims og ímynd hreinleika og sjálfbærrar þróunar tengist allri atvinnustarfsemi í landinu.“
    Gott væri að geta tekið undir slík orð, en við núverandi aðstæður hljóma þau sem háð. Sú vakning og umræða sem orðið hefur að undanförnu um umhverfismál og önnur gildi en nú ráða mestu í landstjórninni vekur þó vonir um betri tíð.

V. LOKAORÐ


    Skýrsla þessi er samin með heimild í 26. gr., sbr. 31. gr., þingskapa og hefur nefndin kosið að skila henni til þingsins áður en umræða hefst um 445. mál á þskj. 757 (Álbræðsla á Grundartanga).
    Katrín Fjeldsted, varamaður Láru Margrétar Ragnarsdóttur sem sæti á í nefndinni, tók ekki þátt í umfjöllun og afgreiðslu málsins.

Alþingi, 20. mars 1997.



Ólafur Örn Haraldsson,

Árni M. Mathiesen.

Gísli S. Einarsson,


form.

varaform.



Tómas Ingi Olrich.

Ísólfur Gylfi Pálmason.

Kristján Pálsson.



Hjörleifur Guttormsson.

Kristín Halldórsdóttir.





Fylgiskjal I.


Hollustuvernd ríkisins:



(9 síður myndaðar)






Greinargerð með tillögu að starfsleyfi samkvæmt


mengunarvarnareglugerð fyrir 180.000 tonn/ár


álveri á Grundartanga.


(11. nóvember 1996.)







(10 síður myndaðar.)




Fylgiskjal II.


Hönnun hf.
verkfræðistofa:



Nokkrir minnispunktar um kröfur sem gerðar eru til álvera.






(4 síður myndaðar.)





Fylgiskjal III.


Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytis
og Landsvirkjunar:


Spurningar til markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar


lagðar fram á fundi umhverfisnefndar 13. febrúar 1997.


(28. febrúar 1997.)





(7 síður myndaðar.)





Fylgiskjal IV.


Landsvirkjun:

Svör við spurningum er fram komu á fundi með umhverfisnefnd.




(4 síður myndaðar.)






Fylgiskjal V.


Bréf frá umhverfisráðuneyti til umhverfisnefndar.


(25. febrúar 1997.)




(2 síður myndaðar.)






F.h.r.



Magnús Jóhannesson.




Fylgiskjal VI.


Bréf bæjarstjórans á Akranesi til umhverfisnefndar.


(14. febrúar 1997.)




(1 síða mynduð)





Virðingarfyllst,



Gísli Gíslason bæjarstjóri.