Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 521 . mál.


872. Tillaga til þingsályktunar



um bætta réttarstöðu barna samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir,


Jón Baldvin Hannibalsson, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að gera úttekt á lögum sem varða réttarstöðu barna með það að markmiði að uppfylla skilyrði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem staðfestur hefur verið af hálfu Íslands. Þá skuli nefndin gera úttekt á framkvæmd laga sem snúa að börnum í sama tilgangi. Einnig skal meta hvort rétt væri að lögleiða sáttmálann í heild sinni eins og gert var með mannréttindasáttmála Evrópu. Nefndin skal m.a. skipuð fulltrúa Barnaverndarstofu, umboðsmanni barna, fulltrúa frá Barnaheillum og fulltrúa frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Nefndin skal skila tillögum um úrbætur fyrir 1. desember 1997.

Greinargerð.


    Tímabært er að fjalla um barnasáttmálann í heild sinni, um forsendur hans, áhrif hans á íslenska löggjöf frá gildistöku hans, meta hvort setja þurfi lög, breyta lögum eða bæta réttarframkvæmd svo að réttindi barna sem viðurkennd eru í sáttmálanum verði tryggð í íslenskum rétti. Samningurinn sem tók gildi 20. nóvember 1989 öðlaðist gildi er Ísland varðar 27. nóvember 1992.
    Stuðningur við barnafjölskyldur á Íslandi er minni en almennt gerist í nálægum löndum sem við miðum okkur oft við og ekki hefur verið mörkuð nein opinber stefna í fjölskyldumálum. Margir telja að fjölskyldan hafi setið á hakanum í íslensku samfélagi. Laun hér á landi eru lág og kostnaður við húsnæðisöflun er mikill. Fyrstu búskaparárin fara oft í öflun húsnæðis og krefst það langs vinnutíma beggja foreldra. Foreldrar eru því oft langdvölum frá heimilinu meðan börnin eru enn ung. Gæsluúrræði skólabarna eru ekki viðunandi svo að hópur barna á aldrinum 6–16 ára býr við skert öryggi þar sem mörg þeirra sjá um sig sjálf meðan foreldrar vinna langan vinnudag. Það hefur komið fram í umfjöllun sálfræðinga og uppeldisfræðinga að íslensk börn njóti almennt minni verndar og handleiðslu fullorðinna en tíðkast á Norðurlöndunum.
    Fljótlega eftir undirritun samningsins af hálfu Íslands var hafist handa við að laga íslenskan rétt að ákvæðum barnasáttmálans og voru gerðar ýmsar réttarbætur í því sambandi. Í VI. kafla stjórnarskrárinnar var lögfest ákvæði þar sem segir að börnum skuli í lögum tryggð vernd og umönnun. Með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, fluttist yfirstjórn barnaverndarmála úr höndum menntamálaráðuneytis til félagsmálaráðuneytis, starfsháttum barnaverndarráðs var breytt og lögfestar voru reglur um starfshætti og málsmeðferð barnaverndarnefnda. Við úrlausn barnaverndarmála var lögfestur réttur barna til að tjá sig um málið, skylt er að veita barni þessa heimild og þegar sérstaklega stendur á er heimilt að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann. Árið 1995 var lögunum breytt og sett á laggirnar Barnaverndarstofa, sem annast daglega stjórn barnaverndarmála. Hlutverk hennar er að veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf, hafa eftirlit með störfum þeirra, hafa eftirlit með öðrum stofnunum fyrir börn, hafa umsjón með vistun barna o.fl. Barnalög, nr. 20/1992, voru endurbætt þar sem afnumin voru hugtökin skilgetið barn og óskilgetið, kveðið var á um sameiginlega forsjá og lögfest heimild til að skipa barni talsmann við úrlausn forsjármáls á kostnað hins opinbera. Ný grunnskólalög voru sett árið 1991 og með breytingu á þeim lögum, með lögum nr. 66/1995, hefur rekstur grunnskóla verið færður yfir til sveitarfélaganna. Árið 1994 var stofnað embætti umboðsmanns barna.
    Í byrjun árs 1996 bárust athugasemdir barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem lýst var yfir ánægju með ýmsa þætti en gerðar alvarlegar athugasemdir við aðra þætti framkvæmda.
    Flutningsmenn telja að enn þá skorti á að íslenskur réttur uppfylli ákvæði barnasáttmálans og að langt sé í land með að lagaframkvæmd sé í samræmi við anda sáttmálans, þ.e. að barn og ungmenni innan 18 ára aldurs njóti þeirrar verndar sem sáttmálanum er ætlað að veita en öðlist smám saman stöðu fullorðinna með tilheyrandi ábyrgð og skyldum. Því telja flutningsmenn að sú vinna sem mælt er fyrir um í þingsályktunartillögu þessari sé nauðsynleg. Þessi greinargerð er m.a. byggð á athugasemdum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og samtakanna Barnaheilla.
    Nefndin sem lagt er til að verði skipuð skal m.a. skoða eftirtalin lög og framkvæmd þeirra þar sem vafi leikur á að réttindi barns séu tryggð í samræmi við ákvæði barnasáttmálans:
    Í 5. mgr. 34. gr. barnalaga, nr. 20/1992, er kveðið á um heimild til að skipa barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls ef sérstök þörf er á því. Heimildinni hefur sjaldan verið beitt þrátt fyrir mörg erfið mál af þessu tagi. Flutningsmenn telja að hér eigi að vera skylda að skipa talsmann en ekki heimild. Í sömu lögum er barni tryggður réttur til umgengni við foreldri sem fer ekki með forsjá þess. Þrátt fyrir ákvæði í lögunum sem mælir fyrir um heimild til að beita sektum þegar forsjárforeldri tálmar hinu foreldrinu umgengni við barnið eru tilvikin allt of mörg sem barni er meinuð umgengni við báða foreldra sína. Þessi mál eru oft mjög erfið barninu því í mörgum tilvikum leiða reiði og óuppgerðar tilfinningar milli foreldra til þess að hagsmunir þess eru fyrir borð bornir. Flutningsmaður telur að talsmaður sem barninu er skipaður geti sem milligöngumaður gætt hagsmuna þess mun betur en sektarákvæði 38. gr. sem hefur í reynd reynst máttlaust. Þegar staðan er sú að forsjárlaust foreldri sinnir ekki umgengnisskyldu sinni er ekkert úrræði fyrir hendi sem tryggir rétt barnsins til umgengni við það. Vel mætti hugsa sér að talsmaður sem hefur aðeins það hlutverk að gæta hagsmuna barnsins tækist að koma á sambandi milli foreldris og barns þegar foreldrar eru ófærir um að standa vörð um hagsmuni þess sjálfir.
    Heimilt er að skilja barn frá foreldrum sínum þegar velferð þess verður ekki tryggð með öðru móti. Í 8. kafla laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, er mælt fyrir um málsmeðferð við forsjársviptingu og gert ráð fyrir að barnaverndarnefndir fari með slíkt vald. Samkvæmt lögunum er hlutverk barnaverndarnefnda í málum þessum margþætt. Þær eiga að hafa eftirlit með aðbúnaði barna, taka á móti ábendingum um slæman aðbúnað barna, sjá um skráningu barna í áhættuhópa, kanna mál þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um vanrækslu eða vanhæfni foreldra, gera áætlanir um meðferð mála og úrskurða um forræðissviptingu foreldra þegar það á við. Úrskurðum barnaverndarnefndar er síðan hægt að skjóta til barnaverndarráðs til fullnaðarúrskurðar. Fullnaðarákvörðun er tekin á stjórnsýslustigi og barnaverndarnefnd fer bæði með rannsóknarvald og úrskurðarvald. Hér er um alvarleg inngrip í einkahagi manna að ræða og hagsmunirnir eru mjög ríkir því þarf að vanda vel til málsmeðferðar, tímabært er orðið að málsmeðferðin verði endurskoðuð og færð í betra horf, sérstaklega hvað varðar frumúrskurðarvald í barnaverndarmálum.
     Í lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 frá 1952, sbr. lög nr. 49/1982, er börnum mismunað eftir því hort þau eru fædd í hjónabandi eða utan, en í 2. gr. sáttmálans er lagt bann við allri mismunun og ítrekað að öll börn eigi sama rétt. Í lögunum öðlast barn sem fæðist utan hjónabands á Íslandi og á móður sem er erlendur þegn en íslenskan föður ekki íslenskt ríkisfang, en barn sem eins er ástatt með fær íslenskt ríkisfang ef móðirin er íslenskur ríkisborgari og faðirinn erlendur þegn. Staðan gæti hæglega orðið sú að barn sem fæðist á Íslandi, á íslenskan föður og móður sem er erlendur þegn yrði ríkisfangslaust ef móðirin er þegn ríkis sem byggir ríkisfangsrétt á staðarreglunni. Í 7. gr. barnasáttmálans er ákvæði um að barn eigi rétt til að öðlast ríkisfang frá fæðingu.
    Samkvæmt almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, er heimilt að svipta 15 ára ungmenni frelsi með fangelsun eða varðhaldi. Í 37. gr. barnasáttmálans er fjallað um réttindi frelsissviptra barna og ungmenna. Þar er mælt fyrir um mannúðlega meðferð og að tekið skuli tillit til þarfa einstaklinga á þeim aldri sem um ræðir. Einkum er lögð áhersla á að barni sem svipt er frelsi sínu skuli haldið aðskildu frá fullorðnum, nema ef það er talið því fyrir bestu að gera það ekki. Í íslenskum lögum er hins vegar ekkert ákvæði sem verndar börn gegn því að verða vistuð með síbrotamönnum sem gætu haft afar óheppileg áhrif á þroska svo ungra fanga. Því ætti að tryggja með lögum að ungum föngum skuli haldið aðskildum frá eldri föngum. Íslendingar lögðu fram sérstaka yfirlýsingu varðandi þennan þátt, en telja má að óbreytt fyrirkomulag sé slíkt brot á mannréttindum barna að ekki verði við unað.
    Í 39. gr. sáttmálans er mælt fyrir um að börn sem hafa orðið fórnarlömb ofbeldis og misnotkunar skuli eiga rétt á líkamlegri og andlegri umönnun og félagslegri endurhæfingu. Í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn um stuðning ríkis og sveitarfélaga við börn sem misnotuð hafa verið kynferðislega kom fram að börnum sem orðið hafa fyrir kynferðislegu ofbeldi er ekki tryggður stuðningur og meðferð af hálfu opinberra aðila. Engin hópmeðferð stendur þessum börnum til boða en áfallameðferð og langtímameðferð eru sjaldan skipulagðar af barnaverndarnefndum, enda eru lagaskyldur á því sviði óljósar.
     Á Íslandi verða börn sjálfráða við 16 ára aldur. Það er mat flutningsmanna að með því að miða sjálfræði við þau aldursmörk sé verið að brjóta gegn 1. gr. sáttmálans þar sem fram kemur að börn eru allt fólk í heiminum yngra en 18 ára. Markmið greinarinnar er að tryggja að börn og ungmenni njóti verndar jafnt foreldra sem samfélagsins alls til 18 ára aldurs og þeim verði tryggður sá réttur sem sáttmálinn mælir fyrir um. Við 18 ára aldurinn öðlist börnin réttinn til að ráða sér alfarið sjálf og séu þá jafnframt tilbúin til að axla þá ábyrgð sem frelsinu fylgir. Hér á landi búa um 80–90% ungmenna á aldrinum 16-18 ára í foreldrahúsum. Stór hluti þeirra er í námi og því háður foreldrum sínum um framfærslu auk þess sem atvinnuleysi meðal ungmenna hefur rýrt möguleika þeirra til að standa á eigin fótum og hugsanlega ýtt undir frekari námskröfur. Hækkun á sjálfræðisaldri felur í sér framlengingu á forsjárskyldu foreldra, tryggir þannig réttarstöðu barna á aldrinum 16–18 ára og gerir foreldrum auk þess kleift að beita agavaldi þegar það er barni fyrir bestu
    Með barnasáttmálanum er börnum veittur réttur til að láta í ljós skoðun sína um öll mál sem snerta þá sjálfa. Tryggja þarf betur en nú er formlegan vettvang fyrir nemendur grunnskólanna til að láta í ljós skoðun sína á málefnum innan skólans, málefnum sem snerta þau sjálf. Það hlýtur að samræmast hlutverki skólans að veita nemendum málfrelsi og tillögurétt þegar málefni sem varða nemendur almennt eru tekin til meðferðar. Með því er breytt í anda ákvæða 12., 13. og 14. gr. barnasáttmálans og börnin þjálfast í því að taka afstöðu til mála sem snúa að þeim sjálfum.
    Þrátt fyrir bann við allri mismunun barna er börnum af erlendum uppruna ekki tryggð sömu réttindi og íslenskum börnum. Innflytjendabörn eiga hvorki tungumál né menningararf sameiginlegt með innfæddum börnum, þó er ekki til lögbundin heimild til að njóta eigin menningar eða tungumáls. Það er eðlilegt og rétt að tryggja börnum flóttamanna, sem óska eftir pólitísku hæli, vernd og mannúðlega aðstoð. Reyndar er það svo að löggjöf sem snýr að útlendingum á Íslandi er í molum.
    Þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru aðeins dæmi. Hlutverk nefndarinnar verður að gera úttekt á réttarstöðu barna á Íslandi almennt og væri m.a. vert að skoða hvort ákvæði sáttmálans um trúfrelsi barna sé haldið, hvort brottrekstur barna úr grunnskólum og vinnufyrirkomulag barna og ungmenna á Íslandi sé í samræmi við anda sáttmálans.
    Spyrja mætti hvort sú kynning sem barnasáttmálinn hefur fengið sé fullnægjandi, hvort ekki væri rétt að barnasáttmálinn væri kennsluefni í grunnskólum og framhaldsskólum sem liður í námskeiði um mannréttindi, hvort ekki væri rétt að þýða sáttmálann á tungumál sem innflytjendabörn skilja og dreifa til þeirra o.s.frv. Hefur verið leitað til frjálsra félagasamtaka eins og Barnaheilla með samvinnu við kynningu á barnasáttmálanum? Samtökin Barnaheill hafa lýst yfir vilja til samvinnu við stjórnvöld og innan samtakanna hefur safnast fyrir sérþekking á málefninu sem vert væri að nýta. Þá þyrfti að skoða mismunandi stöðu barna sem eiga undir högg að sækja, börn einstæðra foreldra, börn tekjulítilla foreldra, fötluð börn o.s.frv. Ljóst er að tekjulítið fólk hefur ekki ráð á að veita börnum sínum þá menntun sem í boði er utan skóla, svo sem tónlist, dans o.fl. Tekjulítið fólk hefur ekki efni á að greiða fyrir gæslu sem skólarnir bjóða nú fyrir börn utan skólatíma og því gengur stór hópur barna sjálfala hluta úr degi meðan foreldrar eru í vinnu. Við flutning málefna fatlaðra til sveitarfélagana er æskilegt að komið verði á stofnun jafnréttismála fatlaðra til að koma í veg fyrir að fötluðum börnum verði mismunað eftir búsetu. Yfirvöld hér veita miklu minna fjármagn til barnaverndarmála en annars staðar á Norðurlöndum þrátt fyrir að Íslendingar eigi hlutfallslega fleiri börn ef miðað er við sömu lönd.
    Með fullgildingu barnasáttmálans skuldbinda íslensk yfirvöld sig til að tryggja íslenskum börnum öll þau réttindi sem þeim eru tryggð í sáttmálanum. Eins og fram hefur komið hafa verið stigin ákveðin skref í átt til réttarbótar. Það skal þó tekið fram að samkvæmt íslenskum rétti fá alþjóðlegir samningar ekki sjálfkrafa lagagildi að landsrétti þótt þeir hafi verið fullgiltir, heldur eru þeir skuldbindandi að þjóðarrétti. Sáttmálinn hefur ekki verið lögfestur á Íslandi og því er ekki hægt að beita honum beint fyrir íslenskum dómstólum. Samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum verða íslensk lög skýrð með hliðsjón af alþjóðalögum en íslensk lög ganga ávallt fyrir alþjóðalögum séu þau ósamrýmanleg. Það er því mikilvægt að lögleiða sáttmálann í heild sinni og gera með því réttindum barna hér á landi hærra undir höfði en nú.

Fylgiskjal I.

Upplýsingar úr bæklingnum Social tryghed i de nordiske lande. Omfang, udgifter og finansiering 1994. NOSOSKO, Nordisk Social-Statistisk Komité, 3:1996.

Samanburður milli Norðurlandanna á útgjöldum til félags- og heilbrigðismála sem renna til fjölskyldna og barna árin 1993 og 1994.

(Prósenta 0–14 ára af heildaríbúafjölda.)



Land

1993

1994



Danmörk      17
,1
17 ,5
Finnland      19
,1
19 ,1
Ísland           24
,8
24 ,6
Noregur      19
,3
19 ,5
Svíþjóð      18
,7
18 ,9


Útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum árin 1993 og 1994
(hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu).


Land

1993

1994



Danmörk      32
,9
33 ,6
Finnland      36
,4
35 ,8
Ísland           18
,9
18 ,7
Noregur      29
,1
28 ,2
Svíþjóð      40
,4
40 ,4 *

*
Tala frá árinu 1993 .

Útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum sem renna til fjölskyldna og barna í jafnvirðisgildum á íbúa árin 1993 og 1994.


Land (upphæðir í norskum krónum)

1993

1994



Danmörk     
7.298
7.388
Finnland     
6.366
7.450
Ísland          
3.965
4.321
Noregur     
7.198
7.795
Svíþjóð     
8.906
8.906 *


*
Tala frá árinu 1993 .



Útgjöld til dagvistarmála (leikskólar, skóladagheimili og dagmæðragæsla)

í jafnvirðisgildum á íbúa árin 1993 og 1994.



Land (upphæðir í norskum krónum)

1993

1994



Danmörk     
2.758
2.858
Finnland     
1.580
1.569
Ísland          
1.008
1.127
Noregur     
1.250
1.956
Svíþjóð     
3.142
3.142 *

*
Tala frá árinu 1993 .

Útgjöld til barnaverndarmála (hluti af útgjöldum til félags- og heilbrigðismála)


í jafnvirðisgildum á íbúa árin 1993 og 1994.



Land (upphæðir í norskum krónum)

1993

1994



Danmörk     
1.079
1.112
Finnland     
171
168
Ísland          
142
193
Noregur     
647
823
Svíþjóð     
550
550 *

*
Tala frá árinu 1993.


Fylgiskjal II.

Barnaheill.






(5 súlurit mynduð 2½ síða.)



Fylgiskjal III.


Börn – stjórnvöld – barnafjölskyldur.


(Úr tímariti Barnaheilla, 1990, 1. tbl. 1. árg.)



Um aðbúnað barna og ungs barnafólks á Íslandi.


Valdar rannsóknaniðurstöður.


    Baldur Kristjánsson er barnasálfræðingur að mennt. Hann útskrifaðist frá Gautaborgarháskóla árið 1982. Á árunum 1983–1986 vann hann sem skólasálfræðingur á Suðurnesjum. Frá því um miðbik árs 1985 og fram á þennan dag hefur Baldur starfað sem fulltrúi Íslands í samnorrænni rannsókn, sem nefnist BASUN-rannsóknin, en hún er nú á lokastigi. „BASUN“ er skammstöfun á „Barnæska og samfélagsumbreytingar á Norðurlöndum“. Í þessari rannsókn var nokkrum tugum fimm ára barna í hverju Norðurlandanna um sig fylgt í gegnum einn virkan dag, auk þess sem ítarleg viðtöl voru höfð við foreldra og fóstrur á dagvistarstofnunum barnanna. Rannsóknarniðurstöður munu liggja fyrir innan árs og verða gefnar út á sænsku fyrir Norðurlönd og á ensku fyrir alþjóðamarkað. Fyrir réttu ári síðan réðst Baldur í sína eigin könnun, sem er nokkurs konar framhald af BASUN-rannsókninni, og fékk hann styrk til þess frá Vísindaráði Íslands. Könnunina nefnir Baldur „Börn í borg og bæ – Könnun á daglegum högum 4 og 5 ára barna á Íslandi“. Könnunin byggir á svörum 430 foreldra barna sem fædd eru árið 1984 og sem búa á höfuðborgarsvæðinu og í kaupstöðum víða um land. Markmið könnunarinnar er að gefa þverskurðarmynd af daglegum högum og aðbúnaði barna á þessum aldri og viðhorfum foreldra sem snerta uppeldi og aðbúnað. Samhliða því sem Baldur hefur unnið að rannsókn sinni hefur hann verið í hálfu starfi sem sálfræðingur við Barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Á síðasta hausti tók Baldur saman skýrslu fyrir menntamálaráðuneytið sem nefnist „Dagvistun barna á forskólaaldri og lífskjör foreldra“. Skýrslan er unnin upp úr svonefndri „Lífskjarakönnun“ sem Félagsvísindastofnun gekkst fyrir árið 1988. Í skýrslunni er gæslutilhögun barna fram að skólaaldri gerð ítarleg skil, auk þess sem lífskjör ungra barnafjölskyldna eru borin saman við aðrar fjölskyldur og fólk sem að öllu jöfnu er búið að koma sér vel fyrir í húsnæði og í þjóðfélaginu almennt. Í erindi sínu mun Baldur styðjast við ýmsar niðurstöður úr fyrrnefndum gögnum, og þá einkum úr sinni eigin rannsókn. Er það í fyrsta skipti sem hún er kynnt að einhverju marki.

    Sennilega hafa aldrei jafnmörg börn á Íslandi haft það jafngott og nú — í efnislegu tilliti. Aldrei áður hafa börn búið við jafnrúman kost. Aldrei áður hafa börn haft jafnmörg tækifæri til hvers kyns afþreyingar og lífsþæginda. Þrátt fyrir alla þessa ytri velferð gerast þær raddir æ háværari að verulega skorti á aðbúnað barna í öðru tilliti, nefnilega andlegu eða uppeldislegu tilliti. Sagt er að íslensk börn séu afskipt; að þau gangi sjálfala, og þeir sem lengst ganga fullyrða að íslenskt þjóðfélag sé fjandsamlegt börnum. Tökum þrjár vísbendingar sem allar benda til þess að ekki sé allt með felldu í uppeldisskilyrðum barna:
    Skólafólk talar um vaxandi óróleika barna, sem færist neðar og neðar í bekkjardeildirnar.
    Meðal skólasálfræðinga og félagsráðgjafa er rætt um vaxandi álag og erfiðari mál en áður; að þeim málum fjölgi stöðugt þar sem of seint sé að grípa inn í.
    Ofbeldi meðal unglinga hefur stórlega aukist.

I. Börn í sjálfsbjargarþjóðfélagi.


    Ef marka má BASUN-rannsóknina er ljóst að íslensk börn njóta almennt minni leiðsagnar og verndar fullorðinna en tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Hér virðast við lýði óvenjusterkar væntingar til barna, strax frá unga aldri, um að standa á eigin fótum og bjarga sér sjálf. Af þessum ástæðum eru íslensk börn áberandi oft á ferli ein og óvarin í daglegu umhverfi sínu. Þannig eru slys á börnum óvíða ef nokkurs staðar algengari en hér á landi. Á þetta sérstaklega við um slys sem hafa í för með sér meiri háttar áverka. Það er einkennileg þversögn að á sama tíma og svo mikil hætta virðist steðja að íslenskum börnum hreykjum við okkur af því að langlífi sé næstum hvergi eins mikið og hér á landi. Það segir mikið um hve djúpstæðar væntingar til barna um sjálfsbjörg eru í íslenskri þjóðmenningu að í stað þess að bregðast við tíðum slysum með bættri vernd og handleiðslu fullorðinna er gengist fyrir námskeiðum fyrir börn í sjálfshjálp og í að gæta annarra barna. Ekki alls fyrir löngu var t.d. haldið sjónvarpsnámskeið fyrir börn sem eru ein heima á meðan foreldrarnir eru útivinnandi. Farið var í einfalda matargerð og ýmislegt annað hagnýtt. Í einum þættinum var fjallað um hvað börn gætu gert til að losna við ókunnuga menn sem kynnu að leita inngöngu.
    Þó að vitaskuld hafi þessi viðleitni verið vel meint endurspeglar hún ótrúlegan skilningsskort á tilfinningum barna og þörfum þeirra fyrir öryggi og nálægð fullorðinna. Til marks um það má nefna að mörg börn sem fram að þessu höfðu unað sér fremur áhyggjulaus heima, óvitandi um þær hættur sem kynnu að steðja að, urðu nú hrædd fyrir alvöru.
    Mér er til efs að foreldrar geri sér almennt nógu vel grein fyrir hvernig börnum þeirra líður við það að vera skilin eftir ein heima. Þannig heyrði ég nýlega um dreng sem við getum kallað Svein.
    Sveinn kvaddi foreldra sína á hverjum morgni, að því er virtist glaður í bragði, en um leið og þeir voru farnir hljóp hann skelfdur beint undir rúmið sitt. Þar lá hann þar til hann átti að fara í skólann um hádegisbilið. Foreldrarnir vissu ekkert, en svo fór að halla undan fæti í skólanum. Sveinn var sendur til skólasálfræðingsins og smám saman kom hið sanna í ljós.
    Sem betur fer átti Sveinn þrátt fyrir allt skilningsríka foreldra sem voru reiðubúnir að breyta högum sínum svo hann þurfti ekki að vera einn heima lengur.
    Hverjum manni ætti að vera ljóst að ekki þýðir að innræta börnum að vera sterk og standa á eigin fótum. Eina raunhæfa leiðin er að skapa börnum þannig skilyrði að þau þurfi ekki, nauðug viljug, að vera ein og óvarin.
    Kröfur um sjálfsbjörg eru oft gerðar mjög snemma á ævi íslenskra barna. Eftirfarandi dæmi eru fengin að láni úr BASUN-rannsókninni og sýna kröfur sem gerðar eru til fimm ára barna á höfuðborgarsvæðinu. Nöfnum barnanna hefur verið breytt.
    Ari, fimm ára, er með reglulegu millibili skilinn eftir einn heima milli klukkan 5 og 7 á kvöldin meðan pabbi er að vinna og mamma í skóla. Aðspurður hvað Ari geri á meðan hann er einn heima segja foreldrarnir að Ari sé vanur að horfa á sjónvarpið annaðhvort einn eða með vinkonu sinni. Ef Ara leiðist eða ef hann verður hræddur má hann banka upp á hjá nágrönnunum.
    Á leikskóla Önnu er nokkuð um að elstu börnin fari ein síns liðs úr og í leikskólann, þó alls ekki sé það vel séð af starfsstúlkunum. Þær segjast hafa orðið að láta undan þrýstingi foreldra, en að sögn einnar fóstrunnar gætir almennt vaxandi þrýstings frá foreldrum um að börnin fái að fara og koma ein.
    Eitt sinn þegar pabbi Önnu kemur að ná í hana á leikskólann tekur hún á rás. Hún hleypur út á fáfarna götu sem er rétt við leikskólann. Í sömu andrá kemur stór bíll á nokkurri ferð. Anna lendir undir bílnum og dregst með honum nokkurn spöl. Það gekk kraftaverki næst að Anna komst ómeidd frá þessu ævintýri.
    Stuttu síðar var haldinn foreldrafundur á leikskólanum þar sem framangreint atvik bar á góma. Þeir sem fyrst tóku til máls töldu ekki rétt að láta börnin fara ein á milli þegar sýnt var hvað gæti gerst. Brátt varð þó ljóst að þeir foreldrar sem voru þessarar skoðunar voru í minni hluta.
    Niðurstaðan varð því sú að börnin skyldu áfram fá að fara ein síns liðs á milli, og var það rökstutt með því að þau þyrftu að læra á hætturnar í umhverfinu áður en þau byrjuðu í sex ára deild.
    Foreldrar Magnúsar, sem einnig er fimm ára, segja mér að hann sæki fast á að fara einn ásamt litlu systur til og frá dagheimilinu, sem þau eru bæði á. Foreldrarnir eru greinilega stoltir af dugnaði sonarins, en þeir geta þess jafnframt að erfitt sé að hafa hemil á þessari sjálfsbjargarviðleitni, þótt þau vildu, því að á dagheimili Magnúsar metist jafnaldrar hans um það hver fái að fara oftast einn heim.
    Ég átti síðan samtal við Magnús sjálfan, þar sem ég bað hann m.a. um að segja mér frá ferðum sínum heim frá dagheimilinu. Fyrst var hann stoltur á svip, en smám saman færðist harka yfir andlitið. Hann fór að lýsa af ákafa þeim stöðum á leiðinni heim, þar sem alls kyns óvinir gætu setið fyrir honum og ráðist á hann og litlu systur. Og þar sem við vorum inni í herberginu gerðist hann nú illur ásýndum og tók nokkur vel útfærð karatespörk svona rétt til að undirstrika að þau systkinin væru sýnd veiði en ekki gefin.
    Þar sem Magnús réði augljóslega ekki við að greina á milli vina og óvina kaus hann að hafa vaðið fyrir neðan sig og líta á alla í kringum sig sem mögulega óvini.
    Þessi sýnishorn úr daglegu lífi gefa nokkra innsýn í félagsmótun margra íslenskra barna; þær kröfur sem gerðar eru til þeirra og með hvaða hætti þau samsama sig að kröfum hinna fullorðnu, jafnvel þó að í raun og veru sé þeim um megn að standa undir þeim.
    Væntingar eins og hér hafa verið nefndar marka vitaskuld djúp spor í persónuleika barna, en spurningin er hvort þeir eiginleikar sem með þessum hætti eru laðaðir fram séu ekki of dýru verði keyptir og hvort eitthvað annað í persónuleika þeirra láti ekki undan í staðinn? Hvað skyldi t.d. verða um Magnús? Skyldu ofbeldishneigðir unglingar nútímans hafa að geyma djúpt inni í sálarfylgsnum sínum lítinn, hræddan Magnús sem vill verða fyrri til atlögu? Hvernig ætli þessi ótryggu börn muni þegar fram líða stundir sjálf geta alið upp trygg börn? Í þessum miklu kröfum til barna um að geta bjargað sér sjálf líkt og um fullorðna væri að ræða felst máttugur boðskapur til þeirra um harða lífsbaráttu. M.a. með þessum hætti er við haldið þeim viðhorfum í þjóðfélaginu að vinnuþrælkun sé dyggð og langur vinnutími eftirsóknarverður. Að þessi boðskapur berst skilvíslega til barna sést m.a. af því að vinna barna og unglinga virðist almennt færast í vöxt hér á landi.

II. Breytt samfélag en óbreyttar kröfur til barna.


    Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum að í hörðu borgarsamfélagi eins og er á suðvesturhorni landsins eru kröfur til barna af framangreindu tagi furðuleg tímaskekkja og á skjön við þjóðfélagsaðstæður að öðru leyti. Hvernig má það vera að slík tímaskekkja skuli haldast við lýði og magnast ef eitthvað er?
    Ég ætla að reyna að svara þessari spurningu því að mínu mati er ógerningur að vinda ofan af þessari þróun öðruvísi en að ástæðurnar séu vandlega greindar. En eins og fram mun koma eru ástæðurnar margslungnar og samverkandi: Fyrst er að telja að á stuttum tíma hafa gífurlegar breytingar orðið á nánast allri samfélagsgerðinni, og því fer fjarri að enn sjái fyrir endann á þeim. Viðhorf almennings til barna hafa ekki náð að fylgja þessum hröðu breytingum eftir. Breytingarnar snerta ekki síður fjölskylduna og uppvaxtarskilyrði barna en önnur svið þjóðlífsins. Til marks um hve hraðar og gagngerar þessar breytingar hafa verið nefni ég hér tvö dæmi:
    Á aðeins 25 árum hefur atvinnuþátttaka mæðra 5–15 ára barna aukist úr 12,8% í 81% en það samsvarar rúmlega 600% aukningu.
    Fyrir 30 árum þegar mörg okkar sem hér erum vorum sjálf börn áttum við að meðaltali þrjú systkini en í dag eiga börn að jafnaði aðeins eitt systkini.
    Það er umhugsunarefni að á sama tíma og atvinnuþátttaka mæðra hefur sexfaldast hefur dregið úr kennslu barna á grunnskólastigi. E.t.v. er þetta skýrari vísbending en nokkur önnur um að aðhlynningu barna hafi hrakað á undanförnum áratugum.
    Í öðru lagi hafa þær samfélagshræringar sem hér hafa gengið yfir skapað nýjar og skarpar andstæður í íslenskri menningu milli dreifbýlis og þéttbýlis, sem gera m.a. það að verkum að tala má um tvenns konar barnæsku í íslensku þjóðfélagi. Þeirri skoðun til stuðnings fylgja hér tvær lýsingar foreldra úr könnuninni „Börn í borg og bæ“ sem sýna í meginatriðum hvað við er átt. Fjölskylda í Reykjavík skrifar:
    „Borgarsamfélag eins og Reykjavík er afskaplega fjölskyldufjandsamlegt. Hin mikla umferð sem er í Reykjavík skapast að hluta vegna lélegs skipulags í dagvistar- og skólamálum og hvað varðar aðra þjónustu við börn. Mæður og foreldrar eru á þönum með börnin sín úr og í pössun, og úr og í skóla, og tómstundarúnturinn er nú kapítuli út af fyrir sig.“
    Einstæð móðir úti á landi skrifar:
    „Barnið býr í útjaðri sjávarþorps. Fimm mínútna gangur er bæði niður í fjöru og jafnlangt til næsta sveitabæjar. Langamma og langafi búa í næsta húsi. Barnið hefur stundað hestamennsku frá því hann gat setið uppréttur í hnakknum. Allt þetta tel ég hafa góð áhrif á barnið mitt, bæði líkamlega og andlega.“
    Þar sem uppeldisskilyrði barna og viðmiðanir foreldra eru svo ólíkar hlýtur það að skapa misklíð í þjóðfélaginu um í hverju eða hvort yfirleitt einhverju sé ábótavant í aðbúnaði barna. Það sem þyrfti að laga í aðbúnaði barna á höfuðborgarsvæðinu eða í þéttbýli þarf því alls ekki að vera það sama og í minni bæjum eða dreifbýli.
    Þriðja ástæðan er þessi: Vegna fámennis landsmanna og vegna þess hve stutt er síðan þéttbýlismyndun hófst hér á landi eiga „dreifbýlisviðhorf“, ef svo má að orði komast, jafnt til barna og lífsins almennt enn sterk ítök með þjóðinni. Það fólk sem flutt hefur úr sjávarþorpum eða sveitum og sest að á mölinni hefur tekið með sér viðhorf til barna um að þau skuli vera matvinnungar eða a.m.k. fær um að bjarga sér sjálf í daglegu umhverfi sínu. Til sveita og bæja eru þær aðstæður sem skópu þessi viðhorf að einhverju leyti enn við lýði, og því ekki allsendis útiloka að þau börn sem þar alast upp stælist af slíkum væntingum. Öðru máli gegnir hins vegar í ópersónulegu borgarsamfélagi. Þar eru slíkar kröfur ekki líklegar til að skapa heilsteypta einstaklinga sem eru sjálfum sér og öðrum til ánægju.
    Í fjórða lagi er að nefna að vegna mikillar frjósemi framan af öldinni er mjög hátt hlutfall landsmanna á lífi sem ólst upp við allt önnur skilyrði en ungt barnafólk býr við í dag. Þessi eldri kynslóð, sem jafnframt á marga fulltrúa meðal ráðamanna, sækir sín viðmið um fjölskyldulíf og uppeldisskilyrði barna til eigin uppvaxtar- eða foreldraára og á því erfitt með að lifa sig inn í þær aðstæður sem nútíminn býr barnafólki. Þannig hefur skapast allbreitt bil á milli foreldrakynslóða, og yngri kynslóðin á erfitt með að fá áheyrn ráðamanna um hvernig hún kysi að haga aðbúnaði barna sinna.
    Í fimmta lagi skal nefna að það ríkir djúpstæður pólitískur ágreiningur um málefni barna og fjölskyldna. Menn sjá almennt fyrir sér að bætt aðhlynning barna muni kosta peninga, hverjar svo sem umbæturnar yrðu. Á tímum niðurskurðar í ríkisútgjöldum þykir mögum sem það sé pólitískt ábyrgðarleysi og jafnvel óþjóðhollusta að færa eitthvað slíkt í tal sem þýddi aukna skattheimtu. Áður en slík rök eru tekin mjög alvarlega er rétt að fram komi að hið opinbera kostar hvergi á Norðurlöndum jafnlitlu til dagvistunar og hér á landi, og er þá tillit tekið til höfðatölu. Árið 1987 greiddu íslenskir foreldrar 32% af rekstrarkostnaði dagvistarheimila, danskir og norskir um 22%, finnskir 16% en sænskir 10%. Auk þess er hið íslenska dagvistarform — leikskólarnir — að jafnaði miklu ódýrara í rekstri en ríkjandi form á Norðurlöndum — dagheimilin.
    Allar framangreindar aðstæður og reyndar ýmsar aðrar sem með einum eða öðrum hætti má rekja til snöggra samfélagsbreytinga leggjast á eitt um að skapa víðtækan og því miður allt of oft hatramman skoðanaágreining um hvernig haga skuli aðbúnaði barna, og hvað leggja skuli áherslu á í uppbyggingu samfélagsins. Svo virðist sem aðbúnaður barna og lífshættir barnafjölskyldna komi svo við kviku margra landsmanna að eðlileg skoðanaskipti virðast ekki geta farið fram. Þess eru jafnvel dæmi að þeim sem vilja tjá sig um dagvistarmál sé meinaður aðgangur að fjölmiðli. Þeir sem á annað borð komast í gegn eiga svo á hættu að verða fyrir persónulegu skítkasti. Konur eru konum verstar í þessu sambandi.
    Það er reyndar einkennilegt hve karlmenn láta þessi mál lítið til sín taka. Svo virðist sem þeir líti á aðbúnað barna sem alfarið mál kvenna. Kannski er þar einmitt komin meginskýringin á því hve seint gengur í aðbúnaðarmálum barna?

III. Atvinnuþátttaka mæðra í nútíð og framtíð.


    Sá ágreiningur sem hér hefur verið tíundaður snýst að verulegu leyti um dagvistarmál og útivinnu mæðra, sem hvort tveggja hangir á sömu spýtunni. Margir, og þá sérstaklega af eldri kynslóðinni, sjá þann möguleika helstan að mæður snúi aftur inn á heimilin líkt og var á þeirra æskuárum og þegar þeir voru sjálfir að ala upp sín börn. Tónninn í þessari umræðu er oft þannig að markvisst virðist alið á sektarkennd útivinnandi mæðra. Lítt virðist stoða að benda á að nútímaheimilishald þarfnast tveggja fyrirvinna og næstum aldrei heyrist minnst á þá sjálfsögðu staðreynd að þjóðfélagið og vinnumarkaðurinn þarfnast vinnuframlags kvenna. Það nægir að skoða atvinnuauglýsingar dagblaðanna til að sannfærast um það. Hvað yrði t.d. um sjúkraþjónustu ef konur ættu bara að hugsa um börn og bú, hvað yrði um menntakerfið, fiskvinnsluna, bankastofnanir? Og svo mætti lengi telja.
    Ef marka má svör foreldra í könnuninni „Börn í borg og bæ“ nýtur sú hugmynd að mæður forskólabarna hverfi aftur inn á heimilin lítillar hylli meðal þeirra sjálfra. Þannig vilja ungu foreldrarnir í rúmum 80% tilvika að mæðurnar stundi fasta vinnu utan heimilis, og ef bara eru taldar með fjölskyldur þar sem mæðurnar hafa lokið námi umfram stúdentspróf þá hækkar talan í 96%. Óskir foreldra um atvinnuþátttöku mæðra má svo bera saman við raunverulega atvinnuþátttöku þeirra, en hún er um 70%. Það er því alveg ljóst að eftirspurn mæðra eftir atvinnu mun magnast á næstu árum, sem aftur mun hafa í för með sér að í framtíðinni verður sífellt brýnna að tryggja börnum góða aðhlynningu í skólum og á dagvistarheimilum.
    Atvinnuþátttaka mæðra mun vaxa af þeirri ástæðu einnig að sífellt fleiri konur leggja út í nám í þeim tilgangi að tryggja sér aðgang að störfum á vinnumarkaðinum. Er svo komið að þrefalt fleiri ungar mæður en feður hafa lokið stúdentsprófi. Auk þess hafa mæðurnar vinninginn hvað varðar hvers kyns framhaldsnám. Ef marka má reynslu nágrannaþjóðanna og þá staðreynd að enn hefur um þriðjungur mæðra enga menntun umfram skyldunám, er öruggt að þessi þróun er rétt að byrja hér á landi.
    Samkvæmt könnuninni „Börn í borg og bæ“ hafa ungar mæður á höfuðborgarsvæðinu almennt lokið mun lengra námi en mæður úti á landi. Til marks um það er að á höfuðborgarsvæðinu hafa rúm 30% lokið stúdentsprófi eða lengra námi, en í bæjum úti á landi er hlutfallið aðeins 10%. Einnig kemur einkar skýrt fram að menntun mæðra og atvinnuþátttaka fer að mjög miklu leyti saman. Því lengri sem menntun þeirra er þeim mun líklegri eru þær til að vinna úti og að sama skapi vex starfshlutfall þeirra. Þannig eru næstum 90% mæðra með sérfræðings- eða háskólamenntun útivinnandi og þær vinna að jafnaði 36 klukkustundir á viku. En af mæðrum sem lokið hafa skyldunámi eingöngu vinna aðeins tæp 60% utan heimilis og vinnuvika þeirra er 27 klukkustundir að jafnaði. Þar sem þeim mæðrum fjölgar sífellt sem afla sér starfs- eða sérfræðingsmenntunar sem sýnt er að muni leiða til almennari atvinnuþátttöku og lengri vinnutíma þeirra, er ljóst að í náinni framtíð þarf að auka framboð á heilsdags dagvistarrými og opna það öðrum en einstæðum foreldrum og forgangshópum, þ.e. ef það er á annað borð vilji stjórnvalda að koma til móts við foreldra og samfélagsþróunina.

IV. Vinnutími feðra og fjarvistir frá heimilinu.


    Óvíða, ef nokkurs staðar á byggðu bóli, er vinnudagur karlmanna jafnlangur og hér á landi. Mest allra vinna þó feður forskólabarna eða um 60 klukkustundir á viku að jafnaði. Vinnutími skiptist þó mjög misjafnt innan þess hóps. Langlengstan vinnutíma hafa ungir feður í sjávarþorpum, enda er mjög hátt hlutfall þeirra sjómenn. Oft eru þeir fjarverandi frá heimilum sínum svo dögum og jafnvel vikum skiptir, en taka sér svo nokkurra daga frí á milli túra. Á hinn bóginn er vinnuvika ungra feðra á höfuðborgarsvæðinu talsvert styttri og þá sérstaklega hjá langskólagengnum sérfræðingum, en þeir vinna að jafnaði 50 klukkustundir á viku.
    Þegar á heildina er litið eru því fjarvistir ungra feðra frá börnum sínum mjög langar og langt umfram það sem þeir telja sjálfir æskilegt. Það er undarlegt að í allri umræðunni um útivinnu mæðra skuli aldrei minnst á óhóflega vinnu feðranna, sem hvorki getur verið þroskandi fyrir þá sjálfa, samlíf fjölskyldunnar eða börnin. Það ætti að teljast sjálfsagður réttur barna að fá að eiga samvistir við feður sínum eins og mæður. Föðurfyrirmynd auðveldar börnum leitina að eigin sjálfsmynd, og á það jafnt við um stúlkur sem drengi.
    Á síðustu árum hefur þróunin verið í þá átt að bægja feðrum frá fjölskyldum sínum og börnum. Því veldur m.a. vaxandi launamunur kynjanna, reglur um samnýtingu persónuafsláttar og síðast en ekki síst einstrengingsleg og háskaleg umræða um sifjaspell, þar sem feður eru almennt gerðir tortryggilegir sem uppalendur.

V. Óskir foreldra um vinnutíma.


    Í framangreindri könnun voru foreldrar spurðir hve mikla launavinnu þeir teldu æskilega með tilliti til þarfa barna sinna. Eins og áður réðust svörin mjög af menntun foreldra, en það athyglisverða var að munstrið var öfugt milli kynjanna: Því lengri menntun sem mæðurnar höfðu þeim mun meira vildu þær vinna, á meðan hið gagnstæða átti við um feðurna. Almennt gildir að foreldrar vilja vinna minna en þeir gera. Einu gildir hvar menn búa, hver menntunin er eða hvert kynið er. Mæður með grunnskólapróf eða minna kjósa að jafnaði að vinna um 16 klukkustundir á viku en langskólagengnar mæður 25 klukkustundir. Hvað feðurna áhrærir, vilja ófaglærðir vinna að jafnaði 41 klukkustund á viku en langskólagengnir 35 klukkustundir.
    Úr svörum foreldra má lesa þrenns konar óskir um samspil vinnutíma hjóna:
    Í fyrsta lagi óskir um að móðir stundi hálfa launavinnu en faðir fulla vinnu eða 40 klukkustundir á viku. Þegar á heildina er litið á þetta munstur mestu fylgi að fagna meðal foreldra.
    Í öðru lagi óskir um að móðir sé alfarið heimavinnandi en faðir vinni 40 klukkustundir á viku. Óskir af þessu tagi eru mest áberandi þar sem móðir eða báðir foreldrar hafa litla eða enga skólagöngu umfram grunnskóla.
    Í þriðja lagi óskir um tiltölulega jafnan vinnutíma hjóna eða á bilinu 25–35 klukkustundir á viku. Óskir af þessu tagi eru allalgengar hjá langskólagengnum foreldrum.
    Dagvistun barna og atvinnuþátttaka foreldra, beggja eða hvors um sig, eru málaflokkar sem vart verða aðskildir. Eftirfarandi athugasemd einna foreldra úr framangreindri könnun segir allt sem segja þarf um þessi tengsl og þá valkosti sem margir foreldrar standa frammi fyrir:
    „Hefðum við gott dagvistartilboð fyrir bæði börnin fyndist okkur eðlilegur vinnudagur vera sex tímar fyrir okkur bæði. Höfum við aftur á móti ekkert eða lélegt dagvistartilboð vildum við geta unnið hálfan daginn hvort, fjóra tíma á dag, og skiptast á að vera með börnum okkar. Þetta þýðir að launamismunur verður að minnka.“

VI. 1. Dagvistun barna í nútíð og framtíð.


    Víkjum nú að dagvistun og gæslutilhögun barna. Ef marka má fjöldamargar athugasemdir úr könnuninni „Börn í borg og bæ“ hvíla dagvistarmálin þyngra á forerldrum forskólabarna en flestir aðrir málaflokkar að svo miklu leyti sem hægt er að aðskilja einstaka þætti í aðstæðum fólks. Margir foreldrar láta þung orð falla um þessi mál.
    Reyndar virðast foreldrar forskólabarna ekki vera einir á báti í því sambandi því samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar telja 60% landsmanna að úrbóta sé þörf í dagvistarmálum (Stefán Ólafsson, 1989). Af svörum foreldra að dæma beinist óánægja þeirra fyrst og fremst að ófullnægjandi og einhæfu framboði dagvistunar. Foreldrum í sambúð svíður að fá enga fyrirgreiðslu frá hinu opinbera fyrr en í allra fyrsta lagi þegar börnin eru orðin tveggja ára. Þarfnist þeir dagvistunar fyrir þann tíma verða þeir að greiða fyrir hana óheyrilegar upphæðir, eða allt að 40.000 kr. á mánuði hjá dagmóður ef þeir þurfa á fullri gæslu að halda. Því er gjarnan haldið á lofti af ráðamönnum að svo og svo margar dagvistarstofnanir hafi verið teknar í notkun þetta eða hitt kjörtímabilið, en minna er talað um þá staðreynd að biðlistar halda engu að síður áfram að lengjast. Sérstaklega alvarlegt virðist ástandið vera í uppbyggingu heilsdags vistana og í Reykjavík a.m.k. virðist sem menn hyggist alfarið láta dagmæður taka kúfinn af þeirri miklu eftirspurnaraukningu, sem orðið hefur eftir dagheimilisvistun á síðustu árum. Því fer fjarri að þessi þróun sé foreldrum að skapi því samkvæmt könnuninni „Börn í borg og bæ“ telur aðeins 1% foreldra 4–5 ára barna dagmæður æskilegasta dagvistarkostinn.

VI. 2 Dagvistun á Íslandi og á Norðurlöndunum.


    Hvergi annars staðar á Norðurlöndum er uppbygging dagvistarkerfisins jafneinhæf og hér á landi og val þorra foreldra jafneinskorðað við hálfa dagvistun. Þó að menn tali digurbarkalega um afrek sín á sviði dagvistarmála þá sýna tölur að stjórnvöld hér á landi láta mun minna fé renna til þessa málaflokks en annars staðar á Norðurlöndum og þegar litið er yfir 9. áratuginn hefur framboð dagvistunar alls staðar aukist meira en hér á landi.
    Það er því ekki að ófyrirsynju að foreldrar forskólabarna ætlist til stærri afreka af stjórnvöldum í dagvistarmálum.

VI. 3 Viðhorf foreldra til dagvistunar.


    Í könnuninni „Börn í borg og bæ“ kemur skýrt fram að foreldrar eru almennt mjög jákvæðir til dagvistunar og yfir 90% æskja hennar í einhverri mynd. Eins og að líkum lætur þá falla óskir foreldra um tegund og lengd dagvistunar mjög vel saman við óskir þeirra um vinnutíma. Foreldrar voru enn fremur spurðir hvers konar gæslutilhögun þeir teldu að hentaði þörfum barnsins best. Flestir nefndu leikskólana, þótt nokkuð færi það eftir menntun foreldra, og þá sérstaklega mæðranna. Næstflestir nefndu dagheimili en færri að barnið væri alfarið heima, eða einhverja aðra gæslutilhögun. Eftir því sem menntun foreldra eykst fjölgar þeim jafnt og þétt sem telja dagheimili æskilegasta kostinn fyrir barnið. Þannig telja rúm 30% mæðra með sérfræðingsmenntun að dagheimili henti þörfum barns best. Þegar svör foreldra við framangreindri spurningu eru túlkuð er nauðsynlegt að hafa hugfast að foreldrar miða svörin við þarfir barnsins. Svörin segja því ekkert um raunverulegar þarfir fjölskyldunnar eða aðstæður hennar og þar af leiðandi eru svörin ekki mælikvarði á raunverulega eftirspurn foreldra eftir dagvistun. Hins vegar gefa svörin skýrt til kynna að ef foreldrar gætu alfarið hagað gæslunni í samræmi við meintar þarfir barna sinna þá kysu flestir þeirra dagvistun hluta úr degi. En hugsjónir og raunveruleiki fara því miður sjaldnast saman.
    Algengasta ástæðan sem foreldrar tilgreina fyrir dagvistun er að báðir foreldrar þurfa eða vilja vinna úti. Önnur mjög algeng ástæða sem er tilnefnd er að barnið þarfnist örvandi umhverfis og félagsskapar annarra barna.
    Mikill meiri hluti foreldra eru ánægðir með gæslutilhögun barna sinna. Síst ánægðir eru þó þeir foreldrar sem enga dagvistun hafa.
    Þegar foreldrar eru beðnir um að tilgreina ástæður þess að þeir eru ánægðir, þá nefna þeir oftast góðan aðbúnað á dagvistarheimilum, gott starfsfólk og skipulag. Einnig nefna mjög margir að börnin séu ánægð og því séu þeir sjálfir ánægðir.
    Það sem foreldrar setja helst út á er að þjónusta leikskólanna sé skorin við nögl hvað varðar opnunartíma, heitar máltíðir, fjölda barna á stöðugildi svo að eitthvað sé nefnt. Enn fremur er nokkuð um að foreldrum finnist dagvistun of dýr, of lítið um menntað starfsfólk og óstöðugleika starfsfólks. En það sem foreldrar finna dagvistun helst til foráttu er að hún skerðir tengsl barnsins við fjölskyldu sína.

VI. 4 Börn í tvívistun.


    Einn mælikvarði á hve fullnægjandi dagvistarframboðið er, er hve mikið er um að börn séu í tveimur eða fleiri tegundum dagvista einn og sama daginn. Samkvæmt fyrrgreindri könnun var þannig ástatt fyrir 15% barna. Hlutfallið hækkaði í 17% ef aðeins voru talin með þau börn sem voru í dagvistun. Talsvert er meira um tvívistun barna í bæjum úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Þannig lætur nærri að fjórðungur barna úti á landi séu reglulega á fleiri en einum stað í dagvistun.
    Það sem einkennir fjölskylduaðstæður þeirra barna sem eru í tvenns konar dagvistun er að yfirleitt vinna mæður þeirra mjög mikið eða að jafnaði 35 klukkustundir á viku.
    Hins vegar virðist atvinnuþátttaka feðra þessara barna í engu frábrugðin því sem almennt gerist meðal feðra.

VII. 1 Stjórnvöld og aðbúnaður barna.


    Þar sem svo miklar væntingar virðast gerðar til stjórnvalda um úrbætur í aðbúnaði barna hlýtur að vera brýnt fyrir stjórnmálamenn og almenning að leita svara við eftirfarandi spurningum: Hvert á hlutverk stjórnvalda að vera gagnvart börnum og barnafjölskyldum? Eða kannski öllu heldur, hversu mikil ef nokkur eiga afskipti stjórnvalda að vera af málefnum barna? Svo virðist sem djúpstæður og lamandi ágreiningur ríki um grundvallarsjónarmið í þessum efnum, og á það jafnt við innan sem utan stjórnkerfisins. Enn virðist langt í land að við getum rætt þessar spurningar af fullri einlægni og víðsýni. Á meðan ekki er komið að kjarna málsins er heldur ekki von á úrbótum í málefnum barna og barnafjölskyldna, sem njóta hylli allra foreldra.
    Mín persónulega skoðun er sú að stjórnvöldum beri að láta málefni barna og barnafjölskyldna til sín taka á mun fleiri sviðum en nú er raunin. Vafalaust er rétt að gefa markaðsöflunum frjálsan tauminn á mörgum sviðum þjóðlífsins en ég tel stórvarasamt að láta aðbúnað barna og ungs barnafólks ráðast um of af þeim. Slagorð eins og „miðstýring“, „forsjárhyggja“ og „stórabróðursamfélag“ slá aðeins ryki í augun á fólki þegar verið er að ræða um aðbúnað barna, þótt þau kunni að eiga við þegar rætt er um atvinnu- og efnahagsmál.

VII. 2 Eftirlit stjórnvalda með lífskjörum barnafólks.


    Annað atriði sem knýr á um að stjórnvöld hugi sérstaklega að börnum og ungu barnafólki eru þær miklu og hröðu samfélagsbreytingar sem hér hafa orðið. Við slíkt þjóðfélagsumrót hlýtur alltaf að vera hætta á að sumir þjóðfélagshópar skari ótæpilega eld að sinni köku á kostnað annarra, sem þá verða undir í lífskjörum. Aðstaða barna og ungs barnafólks er sérstaklega viðkvæm í þessu sambandi. Þau eru augljós áhættuhópur þar sem þau eiga sér í samfélaginu fáa raddsterka málsvara sem vaka yfir hagsmunum þeirra. Af þessari ástæðu ber nauðsyn til að stjórnvöld hafi haldgóða þekkingu á lífsskilyrðum fjölskyldna og barna. Aðeins með þeim hætti er hægt að tryggja að aðbúnaður barna sé í jafnvægi við þær samfélagsaðstæður sem eru ríkjandi hverju sinni.
    Því fer fjarri að stjórnvöld hafi skilgreint hlutverk sitt gagnvart börnum á þann hátt sem hér er mælst til. Til skamms tíma hefur ekki verið einn staf að finna í opinberum gögnum eða skýrslum um lífskjör barnafólks miðað við aðra þjóðfélagshópa, ekkert um húsnæðismál þeirra, efnahag, vinnutíma eða annað sem skiptir máli um lífskjör fólks. Opinberir aðilar hafa vart nokkuð frumkvæði haft um kannanir af þessu tagi. Meira að segja hefur komið fyrir að stjórnvöld hafi beinlínis lagst gegn áformum um kannanir á aðbúnaði barna á þeirri forsendu að slíkrar vitneskju væri ekki þörf. Með tilkomu lífskjara- og þjóðmálakannana Félagsvísindastofnunar virðast upplýsingamálin þó vera að færast í betra horf, en þá kemur í ljós annar annmarki: Stjórnvöld virðast ekki kunna að færa sér í nyt þau gögn sem þau fá í hendur, jafnvel þó svo að þau biðji um þau. Öðruvísi er t.d. ekki hægt að túlka þann seinagang sem verið hefur í kringum skýrsluna um dagvistun forskólabarna og lífskjör foreldra né heldur þá djúpu þögn sem hefur umlukið hana. Það er mikið umhugsunarefni því hvarvetna annars staðar á Norðurlöndum þar sem skýrslur svipaðs efnis hafa komið út hafa þær hrundið af stað líflegum umræðum um stöðu barna og ungs barnafólks jafnt innan sem utan þingsala.

VII. 3 Lífskjör barnafólks og stjórnvöld.


    Undanfarinn áratug hefur verið rekin stefna í vaxtamálum hér á landi sem hefur komið mjög illa við fjölda ungra barnafjölskyldna vegna þeirra miklu skuldbindinga sem þær hafa orðið að leggja út í við stofnun fjölskyldu. Fyrir um 5–6 árum nam greiðslubyrði þeirra sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð á bilinu 60–75% af samanlögðum tekjum heimilisins. Stjórnvöld hafa brugðist bæði seint og illa við þessum mikla vanda og ekki verður séð að þær úrbætur sem gerðar hafa verið hafi beinst að því að rétta hlut ungs barnafólks sérstaklega. Reyndar man ég ekki eftir að það hafi nokkurn tíma borið á góma í umræðunni að það fólk sem helst ætti um sárt að binda væri ungt fólk með lítil börn og þaðan af síður hefur verið rætt um afleiðingarnar af miklum kostnaði við stofnun fjölskyldu fyrir aðbúnað barna.
    Svo virðist sem efnahagur ungs barnafólks sé feimnismál í þjóðfélaginu sem mörgum sé beinlínis illa við að ræða. Margt bendir til að kjör ungs fólks eða fólks sem nýlega hefur stofnað til fjölskyldu og barneigna séu áberandi miklu verri en annarra í þjóðfélaginu. Þar koma fyrst og fremst til mikil útgjöld samfara húsnæðisöflun, en einnig vegna dagvistunar. Í sjálfu sér er kjaramunur milli kynslóða í einhverjum mæli eðlilegur, þótt það hljóti ætíð að vera álitamál hve mikill munur sé réttlætanlegur. Flestir ættu að geta tekið undir það sjónarmið að tryggja þurfi ungu barnafólki viss lágmarkslífskjör svo börn þurfi ekki að líða neyð vegna vanefna. Því miður tel ég að það gerist í allt of mörgum tilvikum, og að margir foreldrar hafi einfaldlega ekki bolmagn til að sjá börnum sínum fyrir þeim aðbúnaði sem þeir helst kysu og telja börnum sínum sæmandi.
    Lítum á nokkrar staðreyndir um efnahag foreldra forskólabarna:
    Samkvæmt lífskjarakönnun Félagsvísindastofnunar frá 1988 lenti þriðja hver fjölskylda forskólabarna í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna húsnæðisöflunar á því ári sem könnunin fór fram. Hlutfallið var næstum tvöfalt lægra hjá öðrum fjölskyldum.
    Samkvæmt sömu könnun voru fjölskyldutekjur foreldra forskólabarna um það bil 15% lægri en annarra fjölskyldna.
    Samkvæmt könnuninni „Börn í borg og bæ“ renna 33% fjölskyldutekna ungs barnafólks fyrir skatt til húsnæðiskaupa og dagvistunar.
    Lök kjör foreldra forskólabarna koma vitaskuld á ýmsan hátt fram í fjölskyldulífi þessa unga fólks og samskiptum þess við börnin. Áður hefur verið minnst á óhóflega langan vinnutíma feðranna. Við það má bæta að samkvæmt Lífskjarakönnun tóku liðlega fimm af hverjum tíu feðrum forskólabarna sér annaðhvort ekkert sumarfrí eða stunduðu aðra launavinnu í fríi sínu. Meðal feðra eldri barna gerðist slíkt í þremur tilvikum af tíu.
    Ef að líkum lætur kemur aðgerðaleysi stjórnvalda og þekkingarskortur á málefnum barna harðast niður á ynsta barnafólkinu; þ.e. þeim sem tiltölulega nýlega hafa stofnað til fjölskyldu og barneigna. Ef frá er skilið barnafólk í framhaldsnámi þá hefur þetta unga fólk síður aðgang að niðurgreiddri dagvistun en aðrir foreldrar, á sama tíma og húsnæðiskostnaður þeirra er miklu meiri en þekkist hjá öðrum. Það þarf því engan að undra að það er einmitt þetta unga fólk sem nú stendur í stórfelldum búferlaflutningum ýmist frá landsbyggðinni á mölina eða úr landi í leit að vinsamlegra umhverfi fyrir fjölskyldur og börn. Og enginn segir neitt!

VII. 4 Eru launþegasamtökin í feluleik?


    Það er hreint með ólíkindum hvað launþegasamtök á borð við ASÍ, BSRB og BHMR beita sér lítið í þágu barna og ungs barnafólks, þar sem þetta fólk er einmitt mjög fjölmennt í öllum þessum samtökum. Annars staðar á Norðurlöndum hafa hliðstæð samtök um langt skeið tekið virkan þátt í baráttunni fyrir bættum lífskjörum barna og barnafólks. Sá árangur sem þar hefur náðst í dagvistarmálum er mikið launþegasamtökunum að þakka og í Svíþjóð hafa þau fengið því áorkað að smábarnaforeldrar hafa sveigjanlegri vinnutíma en aðrir á vinnumarkaðinum. Svipuð löggjöf er í undirbúningi í Danmörku.
    Og af hverju þrýsta kennarasamtökin ekki á stjórnvöld um úrbætur í aðbúnaði barna? Á árum áður létu þau þessi mál kröftuglega til sín taka.

VIII. Foreldrum gefið orðið.


    Hér að framan hefur verið farið hörðum orðum um afskiptaleysi stjórnvalda og málsmetandi aðila af málefnum barna. En hvað segja foreldrar forskólabarna sjálfir? Foreldrar sem þátt tóku í könnuninni „Börn í borg og bæ“ voru spurðir eftirfarandi spurningar: „Teljið þið, þegar á heildina er litið, að stjórnvöld styðji vel eða illa við bakið á foreldrum með forskólabörn?“
    Skilaboð foreldra til stjórnvalda voru afdráttarlaus: þrír af hverjum tíu foreldrum svöruðu spurningunni á þá leið að stjórnvöld styddu mjög illa við bakið á foreldrum forskólabarna, en fjórir af hverjum tíu frekar illa. Samtals eru því fjórir af hverjum tíu foreldrum 4–5 ára barna á þeim svæðum sem könnunin náði til óánægðir með stuðning stjórnvalda. Hlutlaus eru 23% foreldra, en aðeins 7% kváðust ánægð með stuðning stjórnvalda. Það gefur vísbendingar um í hverju óánægja foreldra felst að mikill, marktækur munur er á afstöðu foreldra eftir búsetu, menntun og efnahag. Foreldrar á höfuðborgarsvæðinu eru að jafnaði óánægðari en þeir sem búa utan þess; langskólagengnir óánægðari en þeir sem litla skólagöngu hafa; og þeir efnaminni óánægðari en þeir sem tiltölulega góðan efnahag hafa.
    Í fjöldamörgum athugasemdum foreldra með listanum kemur einnig fram að óánægja margra beinist að dagvistarmálunum sérstaklega.
    Það er við hæfi að ljúka þessu erindi með því að leyfa nokkrum foreldrum 4–5 ára barna að tjá sig um það sem þeim liggur þyngst á hjarta í sambandi við fjölskyldulífið og aðbúnað barna:
    „Sífellt er klifað á því að fjölskyldan sé „hornsteinn“ þjóðfélagsins, alla vega þegar stjórnmálamenn tala, en í raun er það ekki beint fýsilegt að ala upp börnin sín í barnfjandsamlegu þjóðfélagi. Það er eitthvað að þegar fólk dregur að eignast barn nr. 2. Einnig er það óæskilegt að eyða bestu árum ævinnar í streð vegna húsnæðiskaupa. Það ætti að vera auðveldara að geta séð fyrir fjölskyldu án þess að vinna allan sólarhringinn.“
    „Helst vildum við að barnið gæti verið á einum stað, að leikskólarnir byðu t.d. upp á 6–7 tíma vistun eða að gift fólk hefði einnig aðgang að dagheimilum.“
    „Foreldrar ættu að hafa meira val. Ef þeir kjósa að vera heima ættu þeir að fá laun fyrir það. Þeir ættu að geta valið um þá dagvistun sem þeim hentar á hverjum tíma og geta treyst því að hún sé góð!“
    „Í sumar missir barnið dagheimilisplássið (búið að vera í þrjú ár). Þá mun hagur fjölskyldunnar versna. Óvíst er hvað barninu stendur þá til boða. Barnið á enga félaga utan dagheimilis og engir jafnaldrar búa í hverfinu. Enginn barnaskóli er í hverfinu heldur.“
    „Fyrst ekki er unnt að verja meiri tíma með börnum sínum þyrfti fjárhagur að vera léttari, þó ekki væri nema til að létta áhyggjum og gefa meiri kraft til að sinna þessum dýrmæta farmi. Geta t.d. leyft sér að borða sunnudagssteikina saman.“
    „Þjóðfélagið ætti að vera þannig að bara annað foreldrið þyrfti að vinna úti og ætti samt fyrir þörfum heimilis (þ.e. borga betri laun fyrir dagvinnu).“
    „Mér finnst 4–5 ára aldurinn ekki erfiður með tilliti til þess að vera útivinnandi. Ég hef reyndar góðar aðstæður þar sem barnaheimili er í boði á vinnustaðnum. En þegar barnið er 6 ára og fer í skóla, — hvað gerum við þá? Skólakerfið er í molum með tilliti til útivinnandi foreldra. Lykill um hálsinn er ekki spennandi hlutskipti.“
    Að lokum vil ég færa Barnaheill mínar árnaðaróskir. Ég er sannfærður um að ef það er staðfastur ásetningur samtakanna að fylgjast með lífskjörum barna og barnafólks í víðum skilningi þess orðs og að tryggja að hagsmunir þeirra verði ekki fyrir borð bornir við ákvarðanatökur í stjórnkerfinu eða í kjarasamningum, hafa íslensk börn loksins öðlast þann sterka bakhjarl sem þau hefur sárlega vantað svo lengi.