Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 584 . mál.


994. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Margrét Frímannsdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir, Össur Skarphéðinsson.



1. gr.


    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Tekjur maka hafi ekki áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Það er réttlætismál að sá sem ekki getur séð sér farborða með því að vinna fyrir sér fái lágmarksframfærslu úr sameiginlegum sjóðum velferðarkerfisins. Þeir sem missa atvinnuna fá greiddar atvinnuleysisbætur óháð tekjum maka. Þær nema sem svarar lágmarkslaunum og ættu því að vera lágmarksframfærslueyrir. Eins og málum er nú háttað skerða tekjur maka lífeyrisgreiðslur og hefst skerðingin er tekjur maka fara yfir u.þ.b. 36.800 kr., en örorkubótagreiðslur skerðast af tekjum maka við 37.000 kr. Ungt fjölskyldufólk sem missir heilsuna fær því oft aðeins grunnlífeyri, 13.000 kr., úr tryggingakerfinu. Heimild fyrir þessari skerðingu er byggð á reglugerð nr. 485/1995, um tekjutryggingu, samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993. Ákvæði hennar hafa það í för með sér að fjölskyldur lífeyrisþega lenda í fátæktargildru jaðarskattanna. Áðurnefnd reglugerð virðist ekki eiga sér stoð í lögum og virðist auk þess andstæð lagaákvæðinu sem hún byggist á, en í 17. gr. almannatryggingalaganna segir að tekjur bótaþega umfram ákveðið mark skuli skerða tekjutryggingu. Ekkert er minnst á maka í greininni. Í 11. gr., þar sem fjallað er um skerðingu tekjutryggingar vegna atvinnutekna, er talað um tekjur einstaklinga og hjóna hvors um sig.
    Ekki nóg með að reglugerðin sé andstæð almannatryggingalögum heldur gæti einnig verið um að ræða brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir í 1. mgr.: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“ Öryrkum er þarna mismunað vegna hjúskaparstöðu og einnig eftir því hvort þeir eiga við atvinnuleysi eða heilsubrest að stríða. Slík mismunun hlýtur að teljast andstæð anda stjórnarskrárinnar.
    Reglugerðin virðst einnig brjóta gegn 11. gr. stjórnsýslulaganna, nr. 37/1993, þar sem segir að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti og að þeim sé beinlínis óheimilt að mismuna aðilum á grundvelli þjóðfélagsstöðu eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Hér virðast lög vera brotin, ekki ein heldur fleiri, á þeim sem síst skyldi og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þessi reglugerð grefur undan hjónabandinu og möguleikum öryrkja til sambúðar. Unnt að leiðrétta þetta með samþykkt þessa frumvarps.
    Greiðslur til öryrkja skulu vera óháðar tekjum maka. Þannig styðjum við best við bakið á því fólki sem verst er statt í velferðarkerfinu. Hér er því lagt til að bætt verði í almannatryggingalög ákvæði sem felur það í sér að tekjur maka hafi ekki áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega.