Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 611 . mál.


1176. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    Við C-lið 7. gr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Hagnaður af sölu aflahlutdeildar samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Hagnaðurinn er mismunur söluverðs og þess hluta kaupverðs sem ekki hefur verið færður til gjalda.

2. gr.

    Við 52. gr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Aflahlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða en hún telst vera réttindi tengd ófyrnanlegum náttúruauðæfum og verða þau réttindi eigi fyrnd. Kaupverð aflahlutdeildar telst ekki til rekstrarkostnaðar.

3. gr.

    Við 75. gr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Aflahlutdeild samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er mörkuð skýr stefna um skattalega meðferð viðskipta með aflahlutdeild sem úthlutað er með lögum um stjórn fiskveiða. Nauðsynlegt er af hálfu Alþingis að taka af skarið um hvernig með skuli fara í þessum efnum, enda margt álitaefnið. Lagt er til í frumvarpinu að aflahlutdeild verði skilgreind sem ófyrnanleg réttindi til þess að nýta náttúruauðæfi og því verði kostnaður vegna kaupa á slíkum réttindum ekki færður til gjalda í rekstrarreikningi. Á hinn bóginn verði hagnaður af sölu aflahlutdeildar færður til skattskyldra tekna samkvæmt frumvarpinu. Með þessari skattalegu meðferð stendur einungis hagnaður af rekstri eftir skatta undir kaupum á aflahlutdeild nema til komi framlög frá eigendum eða önnur eiginfjáraukning. Þar með er loku skotið fyrir það fyrirkomulag sem nú er að útgerðarmaður geti komist hjá því að nokkru leyti að greiða tekjuskatt af hagnaði útgerðar með því að festa kaup á aflahlutdeild. Sú takmörkun leiðir til þess að verð á aflaheimildum mun óhjákvæmilega lækka í verði sem hlýtur að teljast æskilegt markmið. Þá er gert ráð fyrir að verðmæti aflahlutdeildar verði ekki fært til eignar í skilningi skattalaganna, þ.e. það verðmæti myndi ekki stofn til eignarskatts.
    Í fylgiskjali er sá hluti skýrslu nefndar um mótun sjávarútvegsstefnu sem fjallar um skattalega meðferð aflaheimilda, en nefndin skilaði af sér ítarlegri greinargerð í aprílmánuði 1993.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lagt til að hagnaður af sölu aflaheimilda færist sem skattskyldar tekjur. Hagnaður er mismunur á söluverði og kaupverði, ef það er til staðar, annars er söluverðið allt skattskylt. Þar sem til þessa hefur verið heimilt að afskrifa kaupverð hefur það verið fært til gjalda í rekstrarreikningi og þar sem svo háttar til færist sem skattskyldar tekjur mismunur á söluverði og eftirstöðvum kaupverðs, þ.e. því sem ekki hefur verið fært til gjalda.

Um 2. gr.

    Bætt er við í upptalningu 52. gr. sem fjallar um hvað telst ekki til rekstrarkostnaðar ákvæði um aflahlutdeild og kveðið á um að hún teljist vera réttindi tengd ófyrnanlegum náttúruauðæfum og að þau réttindi verði eigi fyrnd. Loks er tekið fram að kaup á slíkum réttindum teljist ekki til rekstrarkostnaðar.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að bætt verði við 75. gr. að aflahlutdeild teljist ekki til eignar og leiðir af breytingartillögunni að verðmæti aflahlutdeildarinnar telst ekki með við ákvörðun á eignarskattsstofni. Er það til áréttingar því sjónarmiði að réttindin til að nýta fiskimiðin verði ekki varanleg og því ekki eðlilegt að líta ekki á þau sem eign.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Úr skýrslu nefndar um mótun sjávarútvegsstefnu.
(Á þskj. 360 á 117. löggjafarþingi.)

2.9. Skattaleg meðferð aflaheimilda.
    Alþingi hefur ekki markað skýra stefnu um skattalega meðferð viðskipta með aflahlutdeildir. Ágreiningur hefur verið milli skattyfirvalda um eðli þessara viðskipta og hvernig túlka beri skattalög viðvíkjandi þeim. Ekki er deilt um viðskipti með aflamark innan eins árs, heldur eingöngu um hvernig líta skuli á viðskipti með varanlega aflahlutdeild. Viðskipti með aflamark innan árs koma fram sem tekjur hjá seljanda og kostnaður færist hjá kaupanda eins og hver önnur rekstrargjöld.
    Ríkisskattstjóri hefur litið á viðskipti með varanlegar aflahlutdeildir með sömu augum og viðskipti með skip. Venjulegast er að varanlegar aflahlutdeildir fylgi með skipum í viðskiptum með þau þótt oftsinnis sé hluti aflahlutdeilda undanskilinn þegar skip eru seld eða að varanlegar aflahlutdeildir ganga sjálfstætt kaupum og sölum. Samkvæmt sjónarmiðum ríkisskattstjóra má afskrifa þann kostnað sem lagt er í vegna keyptra varanlegra aflahlutdeilda um 6%–8% á ári. Með söluhagnað vegna aflahlutdeilda er farið með sama hætti og þegar skip eiga í hlut. Um það gilda ákvæði laga um tekju- og eignarskatt sem taka til söluhagnaðar af eignum sem heimilt er að fyrna.
    Ríkisskattanefnd (sem nú er yfirskattanefnd) hefur litið á viðskipti með varanlegar aflahlutdeildir þannig að þau ætti að gera alfarið upp innan ársins. Það sem seljandi fær í sinn hlut skal þá tekjufært á söluári og það sem kaupandi greiðir skal gjaldfært á kaupári. Rökstuðningur ríkisskattanefndar í úrskurði hennar frá 20. maí 1992 byggðist „ . . .  m.a. á eðli (veiðiheimildanna), að engum sérstökum ákvæðum er til að dreifa um meðferð veiðiheimildanna í skattskilum svo og að ekki er hægt að henda reiður á neinu afmörkuðu tímabili til gjaldfærslu eins og fyrirkomulagi er nú háttað á þessu sviði  . . .
    Rétt er að geta álits reikningsskilanefndar Félags löggiltra endurskoðenda frá 26. ágúst 1991 þar sem það ráð er gefið að kostnað vegna sjálfstæðra kaupa á varanlegum aflahlutdeildum skuli gjaldfæra á fimm árum. Hefur sú aðferð verið mest notuð af fyrirtækjum vegna eigin uppgjörs.
    Nefndin hefur fjallað um málið og hafa einkum komið fram tvö sjónarmið um hvernig skattaleg meðferð viðskipta með varanlegar aflaheimildir skuli vera. Nefndin er þeirrar skoðunar að tekjur og gjöld vegna viðskipta með aflamark innan árs færist alfarið til tekna og gjalda á viðkomandi ári.
    Nefndin getur ekki fallist á að úrskurður ríkisskattanefndar frá 20. maí 1992 sé eðlilegt fyrirkomulag. Nefndin telur að eðli viðskipta með aflamark innan árs sé gjörólíkt viðskiptum með varanlegar aflahlutdeildir og því hljóti skattaleg meðferð þessara viðskipta að endurspegla þennan mismun.
    Annars vegar hefur komið fram það sjónarmið í nefndinni að líta eigi á viðskipti með varanlegar aflahlutdeildir svipað og viðskipti með eignir sem eigi er heimilt að fyrna. Þannig eigi ekki að vera mögulegt að afskrifa kostnað vegna kaupa á varanlegum aflahlutdeildum nema sú staða komi upp að aflamarkskerfinu verði breytt og að verðmæti varanlegra aflahlutdeilda í viðskiptum falli mjög verulega eða verði að engu. Eðli varanlegra aflahlutdeilda sé þannig að verðmæti þeirra rýrnar ekki við notkun en slíkt er grundvallaratriði þegar fyrnanlegar eignir eiga í hlut. Því ætti í sjálfstæðum viðskiptum með varanlegar aflahlutdeildir og eins þegar skip eiga jafnframt í hlut að færa viðskiptin með varanlegu aflahlutdeildirnar sér. Slíkt fyrirkomulag hlýtur að endurspegla vilja til þess að aflamarkskerfið verði varanlegt.
    Hins vegar hefur komið fram það sjónarmið að vegna sögulegra ástæðna sé vart annað fært en að fara með sölu á varanlegum aflahlutdeildum með sama hætti og viðskipti með skip. Þegar takmarkanir voru settar á innflutning skipa og viðbætur við fiskiskipaflotann takmarkaðar seint á áttunda áratugnum hækkaði verð fiskiskipa í viðskiptum innan lands. Sú verðhækkun stafaði af því að sjálfur aðgangurinn að veiðunum varð að verðmæti í viðskiptum. Þetta verðmæti endurspeglaðist líka í verði skipa á tímum sóknarmarksins. Síðan þegar aflamarkskerfi er tekið upp alfarið má segja að verð skipa í viðskiptum taki mið af ástandi skipsins sjálfs svo og þeim aflahlutdeildum sem því fylgja. Þannig hafa öll viðskipti um meira en 10 ára skeið með skip með aðgangsrétt að miðunum og síðar með skip með aflahlutdeildir byggst á því að viðskiptalegt verðmæti eða kostnaður vegna keypts aðgangsréttar eða aflahlutdeilda væri afskrifanlegur með sama hætti og skip. Á þessu hafa fjárhagslegar skuldbindingar fjölmargra fyrirtækja byggt. Með því að gera kostnað vegna keyptra varanlegra aflahlutdeilda óafskrifanlegan væri verið að lækka verð þeirra verulega í viðskiptum og þar með rýra eignir, verðmætamat og veðhæfni allra sjávarútvegsfyrirtækja með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Slíkt kalli á svo mikla röskun á stöðu sjávarútvegsins gagnvart lánardrottnum sínum og hlutabréfamarkaði að það sé ekki fært að líta á kostnað vegna keyptra aflahlutdeilda sem óafskrifanlegan. Því verði að meðhöndla viðskipti með varanlegar aflahlutdeildir skattalega með sama hætti og viðskipti með skip. Enn fremur eru þau rök færð fyrir því að kostnaður vegna varanlegra aflahlutdeilda eigi að vera afskrifanlegur að rétturinn til nýtingar fiskstofnanna sé háður ákvörðun Alþingis og því óviss þrátt fyrir að líta megi á náttúruauðlindina sem varanlega. Því sé það eðlileg varfærni í rekstri að afskrifa kostnaðinn við öflun varanlegra aflaheimilda.
    Niðurstaða nefndarinnar er sú í ljósi ofansagðs að leggja til að óheimilt verði að fyrna (afskrifa) kaupverð varanlegra aflahlutdeilda sem eigendaskipti verða að frá og með upphafi fiskveiðiársins sem hefst 1. september 1996. Fram til þess tíma verði farið með þessi viðskipti í samræmi við fyrrgreind sjónarmið ríkisskattstjóra og lögum breytt til að taka af tvímæli um þessi atriði.