Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 160 . mál.


1244. Skýrsla



menntamálaráðherra um kennslu, nám og rannsóknir á háskólastigi, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



Inngangur.


    Skýrsla þessi um háskólastigið er unnin í menntamálaráðuneytinu samkvæmt beiðni þingflokks jafnaðarmanna, sbr. þingskjal 177.
    Eins og fram kom í bréfi menntamálaráðherra til forseta Alþingis, dags. 3. janúar sl., eru spurningar í beiðni um skýrsluna mjög umfangsmiklar. Hluti spurninganna fjallar um upplýsingar sem ekki eru fyrirliggjandi í aðgengilegu formi og sem ráðuneytið hefur þurft að leita eftir til ýmissa stofnana. Sumum hlutum spurninganna er ekki hægt að svara m.a. vegna þess að upplýsingar hafa ekki verið teknar saman, hvorki hjá OECD né annars staðar. Á þetta t.d. við um ýmsar upplýsingar 20 ár aftur í tímann.
    Að mati ráðuneytisins er ekki unnt frá aðferðafræðilegu sjónarmiði og miðað við eðlilegar kröfur um áreiðanleika, að svara á ábyrgan hátt þeim spurningum sem krefjast tölulegs samanburðar á ýmsum þáttum í starfsemi íslenskra háskóla og sambærilegra óskilgreindra háskóla erlendis (sbr. 5, 10, 11, 15, 16 og 19). Mismunandi sögulegar, efnahagslegar og félagslegar forsendur flækja slíka samanburðarvinnu mjög og verður hún vart unnin af öðrum en vísindamönnum við hlutlausa rannsóknastofnun á sviði félags- og menntamála. Telji Alþingi þennan þátt upplýsinga nauðsynlegan kemur að mati ráðuneytisins til álita að fela slíkri stofnun að vinna þennan samanburð þótt kostnaður af slíku verði nokkur.
    Í viðauka er birt skýrslan Upplýsingar um námsaðstoð í ýmsum Evrópulöndum sem unnin var af LÍN árið 1994. Fyrirkomulag námsaðstoðar í viðkomandi löndum hefur í meginatriðum haldist óbreytt síðustu árin og upplýsingarnar því í fullu gildi, sbr. 20. spurningu.
    Tölur í millifyrirsögnum vísa til spurninga í þingskjali 177.
    
1.    Fjöldi nemenda, kennara og annarra starfsmanna í skólum á háskólastigi 1980–96.
    Tafla 1 og mynd 1 sýna fjölda nemenda eftir kyni og skólum 1980–96 samkvæmt upplýsingum frá nemendaskrá Hagstofu Íslands. Á þessum árum hefur fjöldi nemenda á háskólastigi meira en tvöfaldast og hefur konum fjölgað mun meira en körlum. Hluta þessarar fjölgunar má skýra með stærri árgöngum og einnig hefur þeim skólum sem skilgreindir eru á háskólastigi fjölgað. Samkvæmt alþjóðlegri flokkun menntunar, ISCED, telst nám vera á háskólastigi þegar til undirbúnings er krafist æðstu menntunar á næsta stigi fyrir neðan, þ.e. framhaldsskólastigi. Í samræmi við þessa flokkun eru skólar sem krefjast stúdentsprófs til inngöngu, en bjóða ekki háskólagráðu, flokkaðir á háskólastigi frá og með árinu 1990.
    Tafla 1b sýnir fjölda kennara í skólum á háskólastigi. Ekki liggja fyrir upplýsingar um heildarfjölda starfsliðs.

Tafla 1. Fjöldi nemenda í skólum á háskólastigi 1980–96.




(Tafla 1, mynduð.)




Mynd 1. Fjöldi nemenda á háskólastigi.


    

(Línurit, myndað.)

    


    

Tafla 1b. Fjöldi kennara í skólum á háskólastigi. 1)


Fjöldi kennara í skólum sem bjóða háskólagráðu. 2)




(Tafla, mynduð.)




    1. Stundakennarar eru ekki taldir með.
    2. Tölur eru frá HÍ, HA, KHÍ, búvísindadeild BH og námi á háskólastigi í TÍ og SB.
    3. Fastráðnir kennarar við Tækniskóla Íslands og Samvinnuháskólann á Bifröst aðrir en lektorar.

Fjöldi fastráðinna kennara í skólum sem bjóða einungis nám


til lægri prófgráðu.




(Tafla, mynduð.)





    * Upplýsingar um kennara á háskólastigi til lægri prófgráðu á árinu 1980–81 liggja ekki fyrir.
    Upplýsingar vantar um fjölda kennara við Tónlistarskólann í Reykjavík og Þroskaþjálfaskóla Íslands fyrir bæði skólaárin.
              
    Heimild: Starfsmannasvið menntamálaráðuneytis.
2.    Kostnaður við kennslu og rannsóknir á háskólastigi sl. 13 ár.

Tafla 2.




(Tafla 2, mynduð.)




    Hér er farið eftir flokkun í ríkisreikningi (þ.e. skólar sem bjóða upp á nám til lægri prófgráðu á háskólastigi eru ekki taldir með hér).
    Eingöngu eru bornar saman tölur aftur til ársins 1985. Skýringin er sú að frá og með árinu 1985 var ríkisreikningur birtur samkvæmt nýjum tegundalykli sem tekinn var í notkun fyrir bókhald ríkisins frá og með ársbyrjun 1985. Samanburður við fyrri ár getur því gefið villandi mynd, sbr. skýringar í ríkisreikningi 1985.

    Heimild:     Ríkisreikningur 1985–95. Fjárlög. Framreiknað miðað við neysluverðsvísitölu.

Mynd 2. Háskólar og rannsóknir. Verðlag 1997.




(Súlurit, myndað.)

3.    Kostnaður á hvern nemanda í skólum á háskólastigi sl. 20 ár.




(Tafla, mynduð.)




Skýringar:
    Hér er farið eftir flokkun á háskólastig smakvæmt ríkisreikningi. Ekki er gerð tilraun til þess að sundurliða kostnað eftir námssviðum. Mjög misjafnt er hversu langt er síðan skólarnir byrjuðu að skipta kostnaði á deildir í bókhaldi og ekki er fært verkefnabókhald. Skólarnir skipta kostnaði niður á ýmis viðfangsefni þar á meðal deildir. Í flestum tilfellum stendur bókfærður rekstrarkostnaður einstakra deilda fyrir kostnað af þeim námskeiðum sem viðkomandi deild stendur fyrir, án tillits til þess hvort nemendur annarra deilda sækja þessi námskeið. Verulegur hluti af kennslukostnaði einstakra námssviða getur með þessu móti verið færður í bókhald annarra deilda.
    Misbrestur er einnig á að gerð sé grein fyrir sameiginlegum kostnaði deilda með sambærilegum hætti milli skóla. Auk þess er það viðtekin venja að hlutdeild einstakra deilda í sameiginlegum kostnaði tekur mið af nemendafjölda deilda. Slík skilgreining á skiptingu sameiginlegs kostnaðar á sér litla stoð í raunveruleikanum. Þetta getur leitt til þess að hlutdeild sambærilegra deilda í tveimur skólum í sameiginlegum kostnaði getur verið misíþyngjandi, háð því hvaða öðrum deildum skólarnir hafa á að skipa.
    Rannsóknir innan ofantalinna skóla eru meðtaldar en tölur eru án rannsóknastofnana sem hafa sérgreind fjárlaganúmer.
    
    Heimild: Ríkisreikningur 1985–95. Fjárlög 1996. Framreiknað miðað við neysluverðsvísitölu.

Rekstrarkostnaður á háskólanema í HÍ, KHÍ, HA og TÍ.


Verðlag 1997.




(Línurit, myndað.)




4.    Dreifing nemenda á háskólastigi hérlendis (háskólagráða) á námssvið sl. 15 ár, borið saman við önnur ríki OECD.

Tafla 4. Fjöldi nema á háskólastigi eftir kyni, námssviði og tímabili.




(Tafla 4, mynduð.)




    Ath.: Tölur fyrir tímabilið 1994–95 ná yfir allt háskólanám en eldri tölur ná aðeins til náms til háskólagráðu.
    * Listnám fyrst flokkað sem háskólanám 1994–95.
    Heimild: Landshagir 1992 og 1995.

    Tafla 4 og myndir 4a og 4b sýna hlutfallslega dreifingu nemenda á háskólastigi á námssvið hér á landi á 15 ára tímabili og í samanburði við önnur lönd skólaárið 1992–93. Allar tölur í töflu 4b og tölur fyrir tímabilið 1994/1995 í töflu 4a ná yfir allt háskólanám, þar með talið nám til lægri prófgráðu á háskólastigi. Eldri tölur í töflu 4a ná aðeins til náms til háskólagráðu.

Mynd 4a. Hlutfallsleg dreifing nemenda á háskólastigi á námssvið 1980–95.




(Súlurit, myndað.)



Mynd 4b. Hlutfallsleg dreifing nemenda á háskólastigi á námssvið 1992–93.


(Samanburður við önnur lönd.)




(Stöplarit, myndað.)

6. Menntun fastráðinna kennara við skóla á háskólastigi hérlendis.




(Súlurit, myndað.)



    Myndin sýnir menntun fastráðinna kennara við sex háskóla og skóla á háskólastigi kennsluárið 1996/97 samkvæmt upplýsingum frá skólunum sjálfum. Skólarnir eru: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Tækniskóli Íslands, Samvinnuháskólinn að Bifröst og búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri.
    Sýndur er fjöldi fastráðinna kennara en kennsluhlutfall er breytilegt og skiptist milli kennslu, rannsókna og stjórnunar. Kennsla við suma skóla (TÍ og búvísindadeild) skiptist milli kennslu í greinum sem leiða til háskólagráðu og til lægri námsgráðu. Meinatæknar og röntgentæknar við Tækniskóla Íslands eru reiknaðir í hópi þeirra sem lokið hafa BS-prófi.

Menntun fastráðinna kennara 1996–97, samkvæmt upplýsingum skóla.




(Súlurit, myndað.)



    Myndin sýnir hlutfall menntagráða meðal fastráðinna kennara veturinn 1996-97 samkvæmt upplýsingum skóla. 7.    Hlutfall Íslendinga sem lokið hafa háskólaprófi sl. 40 ár, borið saman við önnur ríki OECD.


Tafla 7. Hlutfall aldurshópa 25–64 ára í OECD-ríkjum


sem lokið hafa háskólamenntun, 1994.




(Tafla 7, mynduð.)




    Heimildir: OECD: Education at a Glance, 1996.
    Hagstofa Íslands: Vinnumarkaðskannanir.

    Hér á landi og í flestum öðrum ríkjum OECD er fremur nýlega farið að halda nákvæma skráningu yfir fjölda þeirra sem ljúka háskólanámi. Því er sú leið farin þegar kanna á breytingar á hlutfalli þeirra sem lokið hafa háskólagráðu undanfarin ár að afla upplýsinga um þetta atriði með könnunum og niðurstöður flokkaðar eftir aldri svarenda. Þannig er miðað við að þeir sem eru á aldrinum 25–34 ára 1994 hafi lokið prófi frá því um miðjan síðasta áratug til miðs þessa áratugar og 45–54 ára frá miðjum sjöunda til miðs áttunda áratugarins o.s.frv. Slíkar upplýsingar lágu fyrir um flest OECD-lönd og vann Hagstofa Íslands sérstaklega sams konar upplýsingar fyrir Ísland úr vinnumarkaðskönnun sinni. Ísland hefur sérstöðu miðað við önnur OECD-lönd að því leyti að hér ljúka nemendur háskólanámi eldri en í öðrum löndum og kemur það fram í samanburðinum í töflu 7.
8.    Hlutfall Íslendinga sem stunduðu nám á háskólastigi sl. 20 ár hérlendis og erlendis, borið saman við önnur ríki OECD.
    

Tafla 8. Hlutfallsleg skólasókn á háskólastigi í OECD-löndum 1994


eftir aldursflokkum og kyni.




(Tafla 8, mynduð.)




         Heimild: OECD: Education at a Glance, 1996.

    Samanburður á skólasókn á Íslandi og í öðrum OECD-ríkjum er erfiður þar sem skipulag háskólastigs er ólíkt milli landa og nemendur hefja háskólanám eldri hér en í öðrum löndum. Í töflu 8 má sjá samanburð á hlutfallslegri skólasókn á háskólastigi í OECD-löndum eftir aldursflokkum og kyni.

9. og 14. Löggjöf í nágrannalöndum um kennslu, nám og rannsóknir á háskólastigi.     Fyrirkomulag stjórnsýslu við skóla á háskólastigi hérlendis í samanburði við háskóla erlendis.
    Hér á landi hafa til þessa gilt sérlög um hverja háskólastofnun án þess að sett hafi verið heildarlög um háskólastigið en frumvarp til slíkra laga er nú til umfjöllunar á Alþingi. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafa um nokkurra ára skeið verið í gildi lög fyrir háskólastigið og í Finnlandi var frumvarp til slíkra laga lagt fyrir þingið í febrúar sl. Samkvæmt lögunum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og frumvarpinu í Finnlandi koma háskólalögin í stað laga um einstakar stofnanir. Hér á landi er gert ráð fyrir að nánari reglur um háskóla verði að finna í sérlögum, reglugerðum, starfsreglum, samþykktum eða skipulagsskrám háskóla.
    Samkvæmt gildandi lögum hér á landi eru rektorar HÍ og KHÍ kjörnir úr hópi prófessora til þriggja ára í senn af starfsmönnum og stúdentum. Rektor HA er skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára að fenginni bindandi tillögu háskólanefndar. Í Noregi og Danmörku eru rektorar háskóla kjörnir úr hópi prófessora (og lektora) af starfsmönnum og stúdentum samkvæmt nánari reglum. Í Svíþjóð eru rektorar skipaðir af ríkisstjórninni til sex ára hið lengsta eftir tillögum háskólastjórna. Áður en stjórn háskóla gerir tillögu til ríkisstjórnarinnar skal leitað álits kjörfundar. Samkvæmt frumvarpi til háskólalaga í Finnlandi skulu rektorar kjörnir af kjörnefnd til fimm ára í senn.
    Hér á landi og á hinum Norðurlöndunum eru háskólaráð/stjórnir æðstu valdastofnanir háskóla. Hér á landi eru þessi ráð og þessar nefndir skipuð starfsmönnum og nemendum viðkomandi háskóla eftir kosningu samkvæmt nánari ákvæðum í lögum og reglugerðum. Samkvæmt frumvarpi til laga um háskóla skulu í háskólaráði eiga sæti allt að tíu fulltrúar þar af tveir skipaðir af menntamálaráðherra. Í Noregi er við hvern háskóla háskólastjórn skipuð níu til þrettán aðilum, þar af eru tveir utan skólans. Í Svíþjóð er meirihluti háskólastjórnar skipaður aðilum utan skólans og velur ríkisstjórnin hluta þeirra sem sitja í stjórn háskóla. Í Danmörku og samkvæmt frumvarpi til nýrra háskólalaga í Finnlandi sitja í háskólaráðum þessara landa fulltrúar valdir innan skólanna samkvæmt sérstökum reglum.
    Þar sem nokkuð ítarleg grein er gerð fyrir fyrirhuguðum breytingum á stjórnsýslu háskóla hér á landi í frumvarpi til laga um háskóla verður hér ekki farið nánar út í samanburð á lögum og stjórnsýslu háskóla hér og í nágrannalöndunum, heldur gerð stuttlega grein fyrir þessum atriðum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Danmörk.


    Háskólalögin (lög um háskóla o.fl. 23.12.1992/1089) sem tóku gildi í ársbyrjun 1993 eru rammalög sem heimila margbreytni í innra skipulagi skólans. Lögin fela í sér mikla sjálfstjórn einstakra skóla, þar með taldar samþykktir á reglum um starfsemi hvers skóla. Lögin ná til 12 háskóla (universiteter og højskoler).
    Samkvæmt lögum er háskólaráð (konsistorium) æðsta stofnun hvers skóla í faglegum málefnum. Ráðið fylgist með því að hlutverk háskólans sé rækt hvað varðar menntun og rannsóknir, og mótar almenna stefnu um starfsemina og þróun skólans til lengri tíma litið. Háskólaráð samþykkir skipurit skólans, þar með talið skipan deilda og stofnana, fjárlagatillögur (budget) og reglur um skipan og starfshætti þar sem m.a. er fjallað um innri skipan í starfsemi hvers skóla. Háskólaráði er heimilt að láta í ljósi álit sitt á hverju því sem hefur afgerandi áhrif á skipulag verkefna og starfsemi skólans.
    Í háskólaráði sitja: rektor, sem jafnframt er formaður, tveir fulltrúar utan skólans, fimm fulltrúar stjórnar háskólans, tveir fulltrúar kennara og vísindamanna, tveir fulltrúar tæknilegs aðstoðarfólks og skrifstofumanna og þrír fulltrúar nemenda (15 alls).
    Hverjum skóla er stjórnað af rektor sem kjörinn er úr hópi prófessora og lektora til fjögurra ára í senn. Reglur um rektorskjör eru settar af háskólaráði. Rektor tekur ákvarðanir í öllum málum sem ekki er fjallað um af öðrum stofnunum skólans. Í sérstökum tilvikum fer rektor einnig með málefni einstakra stjórnsýslueininga skólans.
    Rektorsskipti geta orðið á miðju kjörtímabili rektors að því tilskildu að fyrir því sé meirihluti í háskólaráði eða ef ráðherra ákveður rektorsskipti með vísun til sérstakra aðstæðna.
    Í háskólum þar sem áhersla er lögð á fleiri svið skal kjósa rannsóknarháskóladeildarráð (fakultetsråd) á hverju áherslusviði. Fyrir hvert slíkt svið skal kjósa deildarforseta til fjögurra ára í senn. Kjör deildarforseta er háð samþykki rektors.

Finnland.


    Í ársbyrjun 1997 var lagt fram í þinginu frumvarp um ein lög fyrir alla (20) háskóla landsins sem heyra undir menntamálaráðuneytið. Samkvæmt frumvarpinu ná lögin ekki til starfsgreinaháskóla og háskóla hersins, né til einkaháskóla ef slíkir skólar yrðu stofnaðir. Háskólunum ber, samkvæmt lögum, að koma á verkaskiptingu sín á milli. Tryggt er frelsi til kennslu og rannsókna og virða ber vísindasiðfræðileg vinnubrögð og heiðarleika í vísindastarfinu. Mat á frammistöðu skal vera reglubundinn þáttur í starfseminni til þess að tryggja gæði starfsins.
    Í slíku mati skal tillit tekið til áhrifa skólans á þá sem ljúka námi og þjóðfélagsleg áhrif m.a. hagræn áhrif, félagsleg áhrif, m.a. áhrif á vinnumarkaðinn, menntun og menningarleg áhrif. Háskólarnir njóta umtalsverðs frelsis í eigin málum. Við hvern skóla er háskólastjórn (konsistorium við háskólana í Åbo og Helsinki) sem fer með æðsta vald í málefnum skólans. Stjórn samþykkir m.a. fjárhags- og starfsáætlanir, veitir umsagnir í málefnum sem varða skólann og ákveður starfsreglur fyrir ýmsa þætti í starfseminni og fyrir undirstofnanir. Í stjórn eiga sæti, auk rektors sem er formaður, fulltrúar úr hópi prófessora og aðstoðarprófessora, annarra kennara, fræðimanna, starfsmanna og nemenda. Fjöldi stjórnarmanna úr hverjum þessara hópa skal vera minni en helmingur þeirra sem sitja í stjórn hverju sinni og heimilt er að allt að þriðjungur þeirra sem eiga sæti í stjórn háskóla sé sóttur út fyrir raðir starfsmanna og nemenda. Háskólastjórn ákveður innra skipulag starfseminnar, m.a. um deildir og starfseiningar.
    Rektor og vararektor (prorektor) eru kjörnir af kjörnefnd til fimm ára í senn. Rektor stjórnar starfsemi skólans. Deildarforseti, sem kjörinn er úr hópi prófessora og aðstoðarprófessora, stjórnar deild og forstöðumaður stjórnar öðrum starfseiningum. Verkefni rektors háskólanna í Helsingi og Åbo eru í höndum háskólakanslara sem er skipaður til fimm ára í senn af forseta lýðveldisins að tillögu ráðherra sem velur úr hópi þriggja einstaklinga sem kjörnefnd tilnefnir. Í kjörnefnd eiga sæti fulltrúar prófessora og aðstoðarprófessora, fulltrúar kennara, fræðimanna og annarra starfsmanna.
    Nokkur sérákvæði gilda um kjör og verkefni kanslara við Háskólann í Åbo og Helsinkiháskóla.
    Háskólastjórn ákveður skipulag kennslu og rannsókna og skipan í rannsóknaháskóladeildir eða aðrar einingar og einnig stofnanir sem heyra undir þær. Heimilt er að við háskóla starfi ein eða fleiri faglegar stjórnir (kollegium) sem fjalla um öll kennslu- og rannsóknamálefni. Við háskóla má einnig starfrækja stofnanir sem ekki heyra undir rannsóknaháskóladeildir eða aðrar starfseiningar (sbr. að framan). Í stjórn slíkra stofnana er heimilt að velja aðila utan skólans eða úr hópi nemenda.
    

Noregur.


    Ný lög um háskóla tóku gildi 1. janúar 1996. Lögin ná til fjögurra hefðbundinna háskóla (universitet), tíu rannsóknaháskóla (vitenskaplige høgskoler) og 26 ríkisháskóla (statlige høgskoler). Með þessum lögum féllu úr gildi háskólalögin frá 1989 sem voru fyrstu samræmdu háskólalögin í Noregi en giltu aðeins um tvær fyrstnefndu tegundir háskólanna þar í landi.
    Háskólar lúta háskólastjórn og háskólaráði. Stjórnin er æðsta stig stjórnsýslunnar innan skólans og ber ábyrgð á starfsemi hans. Stjórn háskóla hefur almennar heimildir samkvæmt lögunum. Háskólastjórn getur þó framselt rektorsembætti eða öðrum rekstraraðilum (forvaltningsorgan) ábyrgð í einstökum málum. Háskólastjórn skipa níu, ellefu eða þrettán aðilar: Rektor og staðgengill hans, tveir til fjórir fulltrúar kennara og vísindamanna, einn til þrír fulltrúar starfsmanna deilda og yfirstjórnar, tveir til fjórir fulltrúar nemenda og tveir til fjórir fulltrúar aðila utan skólanna. Meirihluti stjórnar skal vera skipaður fulltrúum kennara og vísindamanna, eða þessum fulltrúum, auk fulltrúa nemenda. Ráðuneytið skipar fulltrúa aðila utan skólans úr hópi sem tilnefndur er af háskólaráði og fylkisþingi. Háskólaráð er stjórn háskólans til ráðgjafar í almennum og stefnumarkandi málum. Í háskólaráði eiga sæti fulltrúar kennara og vísindamanna, starfsmanna deilda og yfirstjórnar og fulltrúar námsmanna. Engir utanaðkomandi fulltrúar eiga sæti í háskólaráði. Ráðið skipa fæst 15 fulltrúar og í lögunum er kveðið á um hlutföll í samsetningu ráðsins. Stjórn háskóla ákveður hve margir sitja í háskólaráði.
    Rektor og staðgengill hans eru kjörnir til þriggja ára í senn úr hópi þeirra starfsmanna sem gegna kennslu- eða rannsóknaskyldu. Ráðuneytið ákveður nánari reglur um kjör rektora og staðgengils. Rektor er formaður háskólastjórnar og ber almenna ábyrgð á starfseminni.
    Gert er ráð fyrir deildum fyrir kennslu og rannsóknastarfsemi. Ráðuneytið staðfestir deildaskiptingu að tillögu háskólastjórnar. Deild má kalla háskóladeild (fakultet) samkvæmt lögum. Háskóladeild hefur eigin stjórn sem skipuð er fulltrúum kennara, vísindamanna, starfsmanna og nemenda. Fulltrúi aðila utan skólans getur átt aðild að stjórn deildar. Stjórn háskóla ákveður fjölda fulltrúa og samsetningu deildarstjórna. Forstöðumaður deildar er valinn af þeim sem gegna kennslu- eða rannsóknarskyldum. Hann skal vera úr þeim hópi. Háskólastjórn setur nánari reglur um kosningu forstöðumanns deildar. Stjórnin ákveður hvort forstöðumaður beri titilinn deildarforseti (dekanus).
    

Svíþjóð.


    Um alla háskóla (universitet og högskolor) í Svíþjóð gilda háskólalögin (1992:1434) sem tóku gildi 1. júlí 1993. Í lögunum er kveðið á um hvort hlutaðeigandi háskóli sé undir stjórn hins opinbera eða sveitarfélaga. Frekari ákvæði er að finna í reglugerð um háskóla nr. 1993:100.
    Að lögum hefur stjórn háskóla umsjón með öllum málefnum hans og ber ábyrgð á að skólinn ræki hlutverk sitt. Stjórn háskóla tekur meiriháttar ákvarðanir sem varða m.a. innra skipulag, fjárlagabeiðnir og ársreikninga (og ársskýrslur). Stjórnin setur almennar reglur og fylgir eftir óskum sem beint er til stjórnvalda og ákveður stofnun prófessorsembætta.
    Ríkisstjórnin velur hluta þeirra sem sitja í stjórn háskóla. Meiri hluti háskólastjórnar er skipaður aðilum utan skólans. Ætlast er til að fulltrúar ríkisstjórnar í háskólastjórn búi yfir reynslu af því tagi sem kemur að notum í kennslu eða rannsóknum við háskólann. Ríkisstjórnin ákveður fyrir hvern skóla hve margir fulltrúar kennara og nemenda eiga sæti í stjórn skólans. Fulltrúar kennara eru kosnir innan skólans. Fulltrúar annarra starfsmanna eiga aðild að stjórn skólans með rétti til þátttöku og málfrelsi á fundum stjórnar. Fulltrúar þeirra eru skipaðir í samræmi við ákvæði reglugerðar um skipan fulltrúa starfsmanna. Í stjórn háskóla eiga í hæsta lagi 12 fulltrúar sæti, auk rektors. Stjórnarmenn, að rektor frátöldum, eru skipaðir til þriggja ára í senn.
    Við hvern háskóla skal starfa rektor sem stjórnar starfsemi skólans. Hann er skipaður af ríkisstjórninni til sex ára hið lengsta eftir tillögu háskólastjórnar. Áður en stjórn háskóla gerir tillögu til ríkisstjórnar skal leitað álits kjörfundar. Sá sem gerð er tillaga um að gegni embætti rektors skal hafa verið metinn hæfur til að gegna lektors- eða prófessorsembætti. Í verkahring rektors er að vera formaður háskólastjórnar, skipa í stöður prófessora og aðrar kennslustöður og útnefna deildarforseta (decanus). Við háskóla þar sem rannsóknir eru stundaðar og boðið er upp á rannsóknarnám skal samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar starfa rannsóknarháskóladeild (fakultet) á viðkomandi fræðasviði. Rannsóknarháskóladeildir og háskólar eru tilgreindir í reglugerð um háskóla. Málefni rannsóknarháskóladeilda annast þeir aðilar sem stjórn háskólans felur það verkefni. Við rannsóknarháskóladeild starfa ein eða fleiri stjórnarnefndir (fakultetsnämnd) sem skipta með sér verkum. Sameiginleg stjórnarnefnd fleiri rannsóknarháskóladeilda verður aðeins komið á fót með samþykki ríkisstjórnar. Í þeim háskólum þar sem rannsóknarháskóladeildir starfa ber stjórnarnefndin einnig ábyrgð á grunnnámi í hlutaðeigandi fræðigreinum.
    Meirihluti þeirra sem sitja í stjórnarnefnd skal valinn úr hópi vísindalegra gjaldgengra kennara. Nemendur eiga rétt á að hafa fulltrúa í stjórnarnefnd. Fulltrúar eru útnefndir með kosningum innan deildar, að frátöldum nemendafulltrúum. Heimilt er kjörgengum að velja til setu í stjórnarnefnd einstaklinga innan deildar eða utan sem taldir eru hæfir að sinna því verkefni að sitja í stjórnarnefnd.
    Við hvern háskóla skal starfa „stöðuveitinganefnd“ (tjänsteförslagsnämnd) sem gerir tillögur um veitingu lektors- og prófessorsembætta. Háskólinn sem í hlut á ákveður hve margar stöðuveitinganefndir starfa innan vébanda hans. Í þeim háskólum þar sem starfræktar eru rannsóknarháskóladeildir skulu jafnmargar stöðuveitinganefndir starfa.

12.    Framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi sl. 20 ár og samanburður við önnur OECD-ríki.

Mynd 12.1. Heildarframlög og ársverk í rannsókna-


og þróunarstarfsemi 1975–95. Verðlag 1995.




(Línurit, myndað.)




    Mynd 12.1 sýnir heildarframlög á verðlagi ársins 1995 og ársverk í rannsókna- og þróunarstarfsemi á Íslandi 1975–95. Upplýsingarnar byggja á gögnum frá Rannsóknarráði Íslands. Á tíu ára tímabili 1985–95 hækka framlögin úr rúmum 2,7 milljörðum kr. í tæpa sjö og fjöldi ársverka eykst úr 834 í 1673. Árið 1985 kostaði hvert ársverk í rannsókna- og þróunarstarfsemi 3,3 millj. kr., en 4,16 millj. kr. árið 1995 miðað við sama verðlag.

Mynd 12.2. Heildarframlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi 1975–95.


Verðlag 1995.




(Súlurit, myndað.)



    Myndin sýnir þróun heildarframlaga Íslendinga til rannsókna og þróunarstarfsemi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Árviss aukning hefur orðið allt frá árinu 1981, en nokkuð há tala fyrir árið 1975 skýrist af fjárfestingu (rannsóknarskip). Myndin byggir á upplýsingum frá Rannís.

Mynd 12.3. Framlög til rannsókna- og þróunarstarfsemi 1975–95


í nokkrum OECD-ríkjum. Verðlag 1995.




(Súlurit, myndað.)



    Myndin sýnir samanburð á heildarframlögum nokkurra OECD-landa til rannsókna og þróunarstarfsemi á tímabilinu 1987/8 til 1994/5. Myndin er byggð á upplýsingum frá OECD. Nokkur breytileiki er í því hve miklar upplýsingar liggja fyrir og vantar upplýsingar fyrir nokkur lönd og ár. Valdar voru upplýsingar um lönd þar sem samfelldastar upplýsingar var að finna í gögnum OECD og einatt hafa verið notuð í samanburði á framlögum til þessara verkefna. Það vekur athygli að í engu landi hefur verið jafn skýr stígandi í aukningu heildarframlaga til þessara mála og á Íslandi. Enn er Ísland þó ekki að finna í flokki þeirra landa sem mestu verja til rannsókna og þróunarstafsemi og verður það fyrst og fremst skýrt með því að hlutur atvinnulífsins er lægri hér á landi en í grannlöndunum.
13.    Opinber framlög til háskólastigsins sl. 20 ár í samanburði við opinber framlög í öðrum ríkjum OECD.
    

Tafla 13. Bein opinber framlög OECD-ríkja til skóla á háskólastigi 1993


sem hundraðshlutfall af vergri landsframleiðslu.




(Tafla 13, mynduð.)





    Heimild: OECD: Education at a Glance, 1996.

    Tafla 13 sýnir framlög til skóla á háskólastigi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í samanburði við önnur lönd. Framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru ekki talin með í þessari skilgreiningu OECD. Þau námu árið 1993 0,41% af VLF og að þeim meðtöldum er framlag til háskólastigsins hér á landi 1,1% af VLF.

17.    Samvinna skóla á háskólastigi hérlendis miðað við önnur lönd.
         Við samanburð á samstarfi háskóla hér á landi og erlendis þarf að taka mið af sérstöðu Íslands hvað varðar fæð stofnana og námssviða. Í flestum tilvikum er námsframboð í tiltekinni grein einskorðað við eina stofnun hér á landi. Háskólar hér hafa gert með sér allmarga tvíhliða samstarfssamninga um afmörkuð málefni svo sem fjarkennslu, kennaramenntun, upplýsingatækni o.fl. Hliðstæðir samningar eru algengir í nágrannalöndunum bæði milli skóla innan hvers lands og milli landa. Stór alþjóðleg samstarfsverkefni eins og ERASMUS og NORDPLUS hafa enn frekar stuðlað að samningum tveggja eða fleiri háskóla í Evrópu um afmörkuð verk. Jafnframt þessu hefur alþjóðlegt samstarf eins og t.d. norrænt verkefni um mat á námi milli háskóla þar sem gefin hefur verið út handbók til einföldunar á mati (nordisk antagningsmanual) skilað beinum árangri í samstarfi milli háskóla innan hvers lands fyrir sig.
    Samstarfsnefnd háskólastigins hefur starfað hér á landi samkvæmt skipunarbréfi ráðuneytisins fjögur ár í senn frá árinu 1987. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar 13 skóla. Hlutverk nefndarinnar er m.a.:
    Að vera vettvangur fyrir umræður um málefni sem varða háskólastigið.
    Að beita sér fyrir samvinnu um úrlausnir sameiginlegra viðfangsefna.
    Að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um mál á verksviði nefndarinnar.
    Meðal viðfangsefna sem nefndinni ber að fjalla um eru:
    Verkaskipting milli skóla um nám á háskólastigi.
    Gagnkvæm viðurkenning námsþátta.
    Skilgreining krafna fyrir hliðstætt nám og prófgráður.
    Möguleikar á samvinnu um kennslu á einstöku námskeiðum.
    Aðrir hagnýtir samstarfsmöguleikar, m.a. á sviði rannsókna, bókasafna, upplýsingastarfsemi og skráningarkerfis.
    Á vegum samstarfsnefndarinnar hafa starfað vinnuhópar sem fjallað hafa um og gert tillögur til úrbóta á framangreindum sviðum.
    Samkvæmt ákvæðum 24. gr. frumvarps til laga um háskóla sem nú er til umfjöllunar á Alþingi skulu íslenskir háskólar hafa með sér samráð og samstarf og þar er gert ráð fyrir að samstarfsnefnd háskólastigsins verði lögbundin og að hún fái þar með formlegra vægi en verið hefur til þessa.
    Til samanburðar við samstarf íslenskra háskóla skal hér stuttlega gerð grein fyrir formlegu samstarfi háskóla í Danmörku og Noregi.

Danmörk.


    Í dönsku háskólalögunum eru ekki ákvæði um samstarf háskóla en í gildi er umburðarbréf danska menntamálaráðuneytisins frá 5. september 1978 um samráðshóp háskólarektora (Rektorkollegiet for de højere uddannelsesinstitutioner).
    Markmið með starfi samráðshóps háskólarektora er að stuðla að samstarfi milli háskólanna innbyrðis annars vegar og milli háskóla og stjórnvalda hins vegar. Stjórnvöld sjá samráðshópnum fyrir starfsliði og aðstöðu. Samráðshópurinn fjallar um sameiginleg málefni háskólastigsins og mál einstöku stofnana eftir atvikum ásamt þeim málefnum er stjórnvöld óska umfjöllunar um hverju sinni. Alls eiga 17 háskólar aðild að samráðshópnum.
    Skrifstofa samráðshópsins í Kaupmannahöfn annast þjónustu við ýmsar fastanefndir og ráð sem starfa á vegum hópsins. Jafnframt skal skrifstofan veita háskólunum þjónustu vegna alþjóðlegra tengsla og fyrir hönd menntamálráðuneytisins ber hún m.a. ábyrgð á tengslum Dana við menntamálaverkefni ESB og fleiri alþjóðleg verkefni.

Noregur.


    Samkvæmt 2. gr. norsku háskólalaganna nr. 22/1995 skulu háskólar starfa saman og reyna að bæta faglega upp námsframboð hver annars.
    Hugtakið Noregsnet í lögunum vísar til þess markmiðs að safna öllum háskólastofnunum innan æðri menntunar í Noregi í eitt kerfi þar sem markmiðið er að auka gæðin og ná fram bættri nýtingu fjármagns, búnaðar og mannafla, með samhæfingu og verkaskiptingu kennslu- og rannsóknastofnana í sérhæfða heild. Netið á einnig að gefa stúdentum aukna möguleika á að flytjast á milli háskóla og tengja saman menntun frá fleiri en einni stofnun. Skilyrði fyrir þessu er að próf, námsgreinar og námsgráður sé auðvelt að fella að og meta frá einni stofnun til annarrrar.
    Norska háskólaráðið (Det norske universitetsråd) er samstarfsvettvangur norskra háskóla (universiteter og vitenskaplige høgskoler). Tíu háskólar eiga aðild að ráðinu.
    Ráðið fær fjárhagslegan stuðning frá stjórnvöldum og rekur sína eigin skrifstofu í Bergen. Háskólaráðið skal stuðla að þróun sameiginlegra markmiða fyrir rannsóknir og æðri menntun í Noregi og fyrir rannsókna- og menntastefnu þjóðarinnar. Háskólaráðið skal stuðla að samhæfingu og verkaskiptingu innan háskólastigsins og við aðra aðila innan lands. Jafnframt skal ráðið vera tengiliður milli háskólastigsins í Noregi og hins aljóðlega rannsókna- og menntasamfélags.
    Á vegum háskólaráðsins starfa ýmsar nefndir og hópar og má nefna t.d. að á vegum þess eru starfandi alls 37 fagráð sem eru samstarfsvettvangur háskólanna um afmörkuð fagleg málefni. Fjalla fagráðin m.a. um samhæfingu kennslu og rannsókna hvert á sínu sviði og veita umsagnir og upplýsingar um fagleg málefni.

18.    Hlutfall nemenda af landsbyggðinni við nám á háskólastigi sl. 20 ár borið saman við mannfjölda eftir kjördæmum.
         Erfitt er að áætla fjölda þeirra nemenda sem koma af landsbyggðinni þar sem margir er leggja stund á háskólanám flytja lögheimili sitt til þess staðar þar sem þeir stunda námið, sem oftast er höfuðborgarsvæðið. Tafla 18 hér á eftir gefur þó vísbendingu um hversu hátt hlutfall íbúa í hverjum landshluta leggur stund á háskólanám.

Tafla 18. Skólasókn á háskólastigi skipt á landsvæði lögheimilis, að hausti 1980


og 1991–95.



(Tafla 18, mynduð.)



    Heimild: Landshagir 1996.

21.    Áætluð þróun háskólastigsins hérlendis næstu 20 árin miðað við önnur ríki OECD.
         Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um háskóla. Helsta markmið þess er að festa í sessi skipan þess skólastigs sem tekur við af framhaldsskólastigi og kallað hefur verið háskólastig. Í frumvarpinu eru dregin saman þau meginskilyrði sem skólastofnun þarf að uppfylla til að geta talist háskóli og veitt háskólagráðu við námslok. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nánar sé kveðið á um starfsemi hvers háskóla í sérlögum, reglugerð, starfsreglum, samþykktum eða skipulagsskrá hvers skóla. Verði frumvarp þetta að lögum mun það móta umhverfi háskólastofnana á Íslandi næstu árin og jafnvel áratugina.
    Í athugasemdum með frumvarpinu eru dregnir fram nokkrir þættir sem þegar eru farnir að móta háskólastigið og sem ætla má að muni einkenna þróun þess næstu árin. Hliðstæð þróun hefur þegar átt sér stað í nágrannaríkjunum og bendir ekkert til að breyting verði þar á næstu árin. Sjálfstæði háskóla hefur aukist og mun væntalega halda áfram að aukast á komandi árum. Stjórnsýsla verður aðlöguð að þeim auknu völdum og þeirri ábyrgð sem fylgir í kjölfar sjálfstæðis þeirra. Aukin samkeppni stofnana um opinbert fjármagn kallar á auknar kröfur um skilvirkni og skýrari mælikvarða um árangur. Stóraukin erlend samskipti hafa leitt til meiri samkeppni íslenskra háskóla við erlendar menntastofnanir og einkaaðilar hér á landi hafa í auknum mæli sýnt áhuga á því að reka háskóla í samkeppni við ríkisvaldið. Full ástæða er til að ætla að þessi þróun muni halda áfram næstu árin hér á landi sem erlendis.
    Ekki er ólíklegt að þær breytingar á ytri skilyrðum sem nefndar hafa verið, breytt rekstrarform, auknar kröfur um gæði og alþjóðleg samkeppni, muni leiða til hliðstæðra breytinga hjá háskólum eins og átt hafa sér stað hjá fyrirtækjum í almennum rekstri. Hagræðing og aukinn faglegur styrkur sem felst í stærri rekstrareiningum mun væntanlega leiða til frekari sameiningar stofnana og aukinnar samvinnu í framtíðinni. T.d. hefur Alþingi nú til umfjöllunar frumvarp til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands þar sem gert er ráð fyrir sameiningu fjögurra skólastofnana í eina og á grundvelli laga nr. 43/1995 um listmenntun á háskólastigi er gert ráð fyrir sameiningu Leiklistarskólans, Tónlistarskólans í Reykjavík og hluta Myndlista- og handíðaskóla Íslands í eina stofnun. Ætla má að þegar fram í sækir verði starfandi hér á landi 5–6 háskólar er keppi um nemendur og fjármagn á vissum sviðum en hafi með sér nána samvinnu á öðrum sviðum
    Hlutfall háskólanema af árgöngunum 20–24 ára hefur hækkað úr 24% í 36% síðustu tíu ár og nemendafjöldi aukist úr 5000 í 7000. Hliðstæð þróun hefur átt sér stað í flestum vestrænum ríkjum. Á næstu fjórum til fimm árum mun ásókn í æðri menntun aukast m.a. vegna þess að starfsnám mun væntanlega færast í auknum mæli yfir á háskólastig. Stúdentum mun fjölga árin 1998–2002 og fjölbreytni í framboði á háskólamenntun mun aukast. Virðist ekki ólíklegt að fjöldi íslenskra háskólanema verði kominn í um 9000 árið 2000.
     Viðauki.

Upplýsingar um námsaðstoð í ýmsum Evrópulöndum.


(Unnið af LÍN 1994.)


    

Formáli.


    Menntamálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, skipaði 17. september 1993 starfshóp til þess að „afla upplýsinga um hvernig aðstoð við námsmenn er háttað, þ.e. styrkja og lánafyrirkomulagi í nokkrum OECD löndum“. Í starfshópinn voru skipaðir Lárus Jónsson, framkvæmdastjóri LÍN, Gísli Fannberg, deildarstjóri og Per Landrö, ráðgjafi. Í skipunarbréfi er gert ráð fyrir að álit hópsins liggi fyrir hinn 1. nóvember 1994.
    Fyrir liggja nú upplýsingagögn um námsaðstoð á Norðurlöndum og í þeim Evrópulöndum sem eiga aðild að ESB. Fyrst og fremst er um að ræða samantekt um „helstu tegundir fjárstuðnings til háskólanáms í löndum innan Evrópusambandsins“ Sú samantekt hefur verið lögð fram á norrænum þingum fulltrúa lánasjóða, m.a. að ósk íslensku fulltrúanna. Þá liggur einnig fyrir bók sem er gefin út af Dr. Josef Raabe og Deutsches Studentenwerk árið 1993 og ber heitið „Economic and Social Support for Students in the Countries of the European Community.“ Hópurinn hefur kynnt sér bókina og stuðst við hana einkum að því er varðar fjárhæðir námsaðstoðar í löndum ESB. Þá hefur þess verið farið bréflega á leit við menntamálaráðuneyti ýmissa landa að þau láti í té upplýsingar og rætt við forráðamenn menntamálayfirvalda um framangreint efni. Lögð hafa verið drög að upplýsingaöflun um námsaðstoð utan Evrópu, t.d. í Bandaríkjunum en þessi gögn eru ekki enn til staðar.
    Starfshópurinn ákvað að láta frá sér fara áfangaskýrslu um viðfangsefni sitt þar sem fram eru settar þær upplýsingar sem þegar liggja fyrir.
    Í skýrslunni er fyrst og fremst stuðst við ofangreindar heimildir en í þeim eru upphæðir í ECU eða myntum einstakra landa. Þar sem íslenskra fjárhæða er getið er miðað við gengi 23. sept. 1994.
    Þess skal að lokum getið að upplýsingar um námsaðstoð eru væntanlegar síðar, t.d. um opinbera námsaðstoð í Bandaríkjunum og verður þá ákvörðunaratriði hvort verkinu verður haldið áfram, upplýsinga leitað um námsaðstoð fleiri landa og ítarlegri upplýsinga um aðstoð í þeim löndum, sem hér er að finna í skýrslunni en að því búnu gefin út lokaskýrsla um viðfangsefnið.

Reykjavík í október 1994.




Samantekt og meginniðurstöður.


    Námsaðstoð er mjög misjöfn í þeim Evrópulöndunum, sem upplýsingar ná til. Stuðningsupphæðir eru afar misháar og form aðstoðar og skilyrði fyrir aðstoð einnig mismunandi. Skýr vísbending um þessar breytilegu aðstæður er að hlutfall þeirra námsmanna á háskólastigi sem njóta námsaðstoðar í hinum ýmsu löndum er frá því að vera 2,5% á Ítalíu og upp í 100%, t.d á sumum Norðurlandanna.
    Veruleg vandkvæði eru á að bera saman hversu mikils virði í raun opinber námsaðstoð er fyrir námsmennina sjálfa. Víðast er um sambland af opinberum styrkjum og lánum að ræða, sem oft bera háa vexti. Greiðsluskilmálar námslána eru einnig miserfiðir. Augljóst er að hátt styrkhlutfall aðstoðar eins og t.d. í Danmörku (69%) er námsmönnum hagstætt, ef meta á virði aðstoðarinnar fyrir þá sem einstaklinga. Hér á landi felst bein námsaðstoð nánast eingöngu í lánum með niðurgreiddum vöxtum. Erfitt er að bera saman þá aðstoð við hvern og einn sem nýtur beinna styrkja og tekur tiltölulega dýr lán. Slíkur samanburður er því ekki gerður í þessari skýrslu. Sú samantekt sem hér er gerð felst fyrst og fremst í því að upplýsa hvaða aðstoð námsmönnum er tryggð í einstökum Evrópulöndum til framfærslu og til þess að standa straum af námskostnaði meðan á námi stendur án tillits til þess hvort aðstoð er veitt í formi styrks eða láns.
    Þau aðalatriði sem hafa ber í huga ef bera á saman þá kosti sem námsmönnum stendur til boða til aðstoðar í löndum sem skýrslan nær til eru eftirfarandi:
    *     Stendur námsaðstoðin öllum námsmönnum í framhaldsnámi til boða?
    *     Hvað er námsmönnum tryggð há fjárhæð vegna framfærslu og kostnaðar?
    *     Hversu lengi getur námsmaður fengið aðstoð?
    *     Getur námsmaður nýtt sér aðstoðina til náms utan heimalands?
    *     Er um styrk eða lán að ræða og hver eru vaxta- og endurgreiðslukjör lána?
    *     Hvenær fá menn aðstoðina greidda út, fyrir fram eða eftir á?
    Leitast er við að taka saman svör við þessum spurningum hér á eftir. Það skal á hinn bóginn tekið fram að ofangreindum spurningum er ekki raðað eftir röð sem svarar til mikilvægis þeirra.
    

Upphæð námsaðstoðar.


    Munur á námsaðstoð í Evrópulöndum kemur m.a. fram í því að aðstoð til einstaklinga sem búa í leiguhúsnæði getur numið í Danmörku, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Lúxemburg fjárhæð sem jafngildir um það bil 52.000 til 62.000 ísl. kr. á mánuði en í Grikklandi og Ítalíu er hliðstæð aðstoð um 46–47.000 kr. á ári. Norðar í Evrópu er stuðningurinn meiri eða um 234.000 ísl. kr. á skólaári í Frakklandi og 370.000 í Þýskalandi svo dæmi séu tekin.
    Afar misjafnar reglur gilda um hversu mikið mið er tekið af framfærslubyrði námsmanns vegna barna og maka bæði á Norðurlöndum og ríkjum ESB þegar réttur til námsaðstoðar er metinn. Verulegt tillit er tekið til framfærslubyrði vegna barna og maka námsmanns hér á Íslandi þegar námsaðstoð viðkomandi er ákveðin svo telja má að um einsdæmi sé að ræða, t.d. er ekkert tillit tekið til slíkrar framfærslubyrði í námsaðstoðarkerfi Dana, Svía og Finna. Í Noregi og sums staðar í Evrópu er tekið tillit til barna á framfæri námsmanns, þegar námsaðstoð er ákveðin, en það er gert í mun minna mæli en á Íslandi. Í því sambandi er þó rétt að geta þess að verulegt tillit er tekið til tekna námsmanna og maka samkvæmt íslenskum reglum, en það breytir því ekki að tekjulitlum íslenskum námsmanni með fjölskyldu á framfæri eru tryggðar hærri upphæðir til framfærslu en annars staðar í þeim löndum sem upplýsingar liggja fyrir um í þessari skýrslu. Athyglisvert er að samanburður á annarri félagslegri aðstoð leiðir í ljós að tekjulitlum íslenskum námsmönnum með börn á framfæri er tryggður hærri lágmarks framfærslueyrir í heild á mánuði, þ.e. bæði námsaðstoð, barnabætur og annar stuðningur en gerist annars staðar á Norðurlöndum. (Sjá sérstaka yfirlitstöflu um heildaraðstoð til námsmanna á Norðurlöndum og forsendur hennar.)
    

Önnur aðstoð.


    Námsmenn eiga víða í Evrópulöndum rétt á margvíslegum öðrum stuðningi fram yfir beina námsaðstoð. Þar er t.d. um að ræða greiðslur frá almennum opinberum tryggingum og sveitarfélögum. Þessi aðstoð er veruleg, einkum á Norðurlöndum, en þar liggja haldbestar upplýsingar fyrir um þennan stuðning. Það skal tekið fram að hér er ekki um eiginlega námsaðstoð að ræða þar sem þessar bætur standa öðrum en námsmönnum einnig til boða. Námsmenn á Norðurlöndum fá víðast barnabætur (allt að 23.500 kr. á mánuði fyrir tvö börn á framfæri á Íslandi), húsaleigubætur og staðaruppbót (í Finnlandi) auk beinnar námsaðstoðar. (Sjá meðfylgjandi yfirlitstöflu um heildaraðstoð til námsmanna á Norðurlöndum og forsendur hennar.) Flóknar reglur gilda víða í Evrópulöndum um viðbótaraðstoð, afslátt á húsaleigu, skólagjöldum o.s.frv. Því er óhægt um vik að gera nákvæman samanburð á þeirri heildaraðstoð sem námsmenn eiga kost á milli einstakra landa. Í stórum dráttum er sérstaða Norðurlandabúa þó að því er varðar náms- og félagslega aðstoð mjög skýr. Þar er um að ræða mun meiri stuðning en tíðkast annars staðar í Evrópu. Í sumum Evrópulöndum er þó um að ræða verulega aðstoð í formi barnabóta og skattafsláttar til foreldra sem eiga börn á framfæri sem eru í námi.
    

Tillit til tekna og efnahags.


    Við ákvörðun á upphæð námsaðstoðar er yfirleitt tekið tillit til tekna námsmanna í Evrópulöndum (og sums staðar maka þeirra, t.d. hér á landi). Tekjutillitið er þó lítið í Danmörku og Hollandi. Í öðrum Evrópulöndum utan Norðurlandanna er yfirleitt tekið mið af tekjum námsmanna og einnig ekki síður af efnahag og tekjum foreldra við ákvörðun námsaðstoðar, en það er ekki gert á Norðurlöndum nema í því tilviki að börn fái stuðning sem eru undir 18 ára aldri. Að auki er oftast tekið tillit til dvalarstaðar námsmanns, t.d. hvort hann býr í foreldrahúsum eða leiguhúsnæði. Í sumum löndum er gerður greinarmunur á stuðningi með hliðsjón af vegalengd milli skóla og dvalarstaðar.
    

Lengd stuðningstíma og tillit til námsframvindu.


    Reglur eru mjög mismunandi um hversu lengi og á hvaða námsstigi menn geta notið námsaðstoðar í hinum ýmsu löndum. Víðast á Norðurlöndum er um að ræða stuðning við námsfólk í undirbúningsnámi (hliðstæðu menntaskóla- eða fjölbrautanámi hér á landi) og getur sá stuðningur átt sér stað í tvö til þrjú ár. Íslensk námsaðstoð hefur ekki náð til þessa námsstigs nema að því leyti að fólk í iðnnámi hefur verið lánshæft. Þá hafa menn í undirbúningsnámi hér á landi sem hafa þurft að sækja nám utan svæða sem þeir áttu lögheimili getað fengið styrk, (svonefnda „dreifbýlisstyrki“).
    Þegar litið er einvörðungu á framhaldsnáms, þ.e. sérnám og háskólanám geta íslenskir námsmenn notið stuðnings í lengri tíma á því námsstigi en annars staðar á Norðurlöndum og í þeim löndum sem þessi skýrsla fjallar um. Á framhaldsskólastigi geta íslenskir námsmenn fengið aðstoð í 10 ár í heild en víðast er réttur til aðstoðar á því stigi takmarkaður við mun styttri tíma. Á Norðurlöndum svo dæmi sé tekið er grundvallarreglan sú að menn geta fengið aðstoð í framhaldsnámi (sérnámi og háskólanámi) í þann árafjölda sem hægt er að ljúka einni námsbraut samkvæmt skipulagi skóla að viðbættu einu ári. Ef menn skipta um námsbraut dregst sá réttur sem menn höfðu nýtt sér á fyrri braut yfirleitt frá þegar menn hefja nám á annarri námsbraut.
    Víðast er tekið mið af námsframvindu við mat á rétti til námsaðstoðar og sums staðar eru mjög ströng skilyrði sett á þessu sviði, t.d. er styrkur tekinn af námsmönnum sem þurfa að endurtaka námsár í Belgíu og Frakklandi. Á Norðurlöndum fylgjast lánasjóðir með námsframvindu og víðast verða menn að sýna fram á að þeir stundi nám með eðlilegum hætti til þess að hljóta viðvarandi námsaðstoð. Hér á landi gilda þær reglur að menn þurfa yfirleitt nú samkvæmt lögum nr. 21/1992 að sýna fram á námsárangur áður en þeir eru aðstoðarhæfir og fá lán afgreitt í hlutfalli við árangur.
    

Reglur um námsaðstoð utan viðkomandi ríkis.


    Athyglisvert er að mjög er takmarkað að námsmenn geti nýtt sér stuðning samkvæmt reglum síns ríkis til náms utan þess. Sem dæmi má nefna að fremur þröngar skorður eru á stuðningi við norska, danska og finnska námsmenn, sem vilja leggja stund á nám utan Norðurlandanna. Íslenskir og sænskir námsmenn njóta mun frjálslegri stuðnings til náms erlendis. Á ESB svæðinu eru reglur frjálsastar í þessu efni í Lúxemburg og Frakklandi. Þar er tryggt að nota megi styrki hvar sem er innan Evrópusambandsins án skilyrða. Sex ríki ESB (Spánn, Grikkland, Írland, Ítalía, Portúgal og Bretland) leyfa hins vegar ekki að styrkir séu færðir milli landa svo menn geti stundað fullt nám erlendis. Í hinum ESB löndunum fjórum (Þýskalandi, Belgíu, Danmörku og Hollandi) er með þröngum skilyrðum hægt að nýta styrki til náms utan þeirra landa. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að hér á Íslandi og í Luxemburg er fábreyttara framboð á námsbrautum en í öðrum löndum sem fjallað er um í þessari skýrslu.
    Eins og fram kemur í umfjöllun um einstök Evrópulönd eru skólagjöld víða innheimt í löndum ESB, þ.e. í átta löndum sambandsins en ekki í Danmörku, Grikklandi, Lúxemburg og Þýskalandi. Skólagjöldin íþyngja því námsfólki sem hyggur á nám í þeim löndum sem þeirra krefjast, nema námsmenn séu aðstoðaðir til að mæta þeim kostnaði. Afar mismunandi reglur gilda í hinum ýmsu Evrópulöndum um stuðning til að mæta þessum námskostnaði bæði í Evrópu og annars staðar t.d. í bandarískum háskólum. Víða er það svo að námsmenn í viðkomandi ríki fá styrk til að mæta þessum kostnaði ef nám er stundað í heimalandi. Á hinn bóginn er stuðningur til að mæta þessum kostnaði vegna náms í öðru landi mjög takmarkaður í flestum Evrópulöndum, þar á meðal á Norðurlöndum. Íslenskir námsmenn geta átt rétt á allt að rúmlega tveggja millj. kr. láni til þess að standa straum af námskostnaði sem hlýst af skólagjöldum í framhaldsháskólanámi erlendis og rúmlega einni millj. kr. láni til tíu ára vegna skólagjalda í grunnháskóla eða sérnámi erlendis með markaðsvöxtum banka.
    

Form námsaðstoðar.


    Námsaðstoð á Íslandi er sérstæð að því leyti að hún er nánast öll í formi lána með niðurgreiddum vöxtum. Víðast eru veittir beinir styrkir sem grunnaðstoð og þá einnig lán sem bera oft venjulega markaðsvexti, þ.e. allt frá rúmlega 5% í Danmörku til 8–9% í Finnlandi. Í mörgum ESB löndum er í æ ríkara mæli verið að fara út í lánakerfi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Vextir leggjast einnig oftast á lánin á námstíma nema í Noregi og á Íslandi, t.d. 7,4% í Svíþjóð og 8–9% í Finnlandi. (Sjá sérstakt yfirlitsblað um vexti af námslánum á Norðurlöndum og endurgreiðslureglur) Styrkur er hæstur á Norðurlöndum í Danmörku eða um 69% af heildarnámsaðstoð til einstaklinga eða um 36.600 ísl. kr. á mánuði en lægri í öðrum löndum, t.d. er styrkur í Noregi 18% til einstaklinga á skólaárinu 1994–95.
    

Hlutfall námsmanna sem njóta opinberrar aðstoðar.


    Hlutfall þeirra námsmanna á háskólastigi sem njóta námsaðstoðar í ESB löndum er mjög mismunandi eða frá því að vera að líkindum nálægt 100% í Danmörku og niður í að vera 2,5% á Ítalíu og 10–15% í Portúgal og Grikklandi, en hlutfallið er 18–34% í Belgíu, fyrrum Vestur Þýskalandi og Írlandi en hærra, þ.e. 75–90% í Bretlandi og áður Austur Þýskalandi. Á Íslandi tóku 63% af þeim lán sem áttu rétt á því vegna náms hér á landi skólaárið 1990–91 en á síðasta skólaári hafði þetta hlutfall lækkað í rúm 44%.
    

Hæfi ríkisborgara annarra landa til námsaðstoðar.


    Miklar umræður hafa átt sér stað undanfarið, m.a. milli forráðamanna norrænna lánasjóða, um áhrif EES-samnings á námsaðstoð í Evrópu. Í því sambandi er athyglisvert að samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslunni er í engu landi ESB litið svo á að námsmenn annarra bandalagsríkja séu skilyrðislaust hæfir til að þiggja stuðning úr aðalnámsaðstoðarkerfi þess. Skilyrðin eru undantekningarlaust fremur þröng. Sum ríki (Spánn og Portúgal) veita einungis námsaðstoð til ríkisborgara annarra landa gegn gagnkvæmum rétti spænskra og portúgalskra námsmanna í viðkomandi löndum. Önnur ríki takmarka þær tegundir fjárstuðnings sem ríkisborgarar annarra ríkja geta sótt um. Þau ríki sem frjálslyndust eru í þessum efnum setja samt þau skilyrði að annað foreldri námsmanns starfi eða hafi starfað í viðkomandi ríki. (Belgía, Danmörk, Þýskaland og Holland.) Námsmenn frá öðrum ríkjum bandalagsins hafa alls engan aðgang að lánakerfi námsmanna á Írlandi.

Ísland.


    Námsaðstoð á Íslandi er veitt samkvæmt lögum nr. 21/1994, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, reglugerð samkvæmt þeim lögum og úthlutunarreglum sem samþykktar eru af stjórn LÍN og staðfestar af ráðherra.
    

Skólagjöld.


    Innritunargjald er greitt til Háskóla Íslands. (Gjaldið er nú 19.500 kr. fyrir skólaárið 1994–95, auk þess sem greitt er til stúdentaráðs.) Skólagjöld eru greidd í nokkra sérskóla en yfirleitt eru skólagjöld ekki greidd á framhaldsskólastigi.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Námsaðstoð er eingöngu veitt í formi verðtryggðra lána til langs tíma með allt að 3% vöxtum (nú 1% vöxtum samkvæmt reglugerð). Stuðningstími er að hámarki 10 ár í heild. Tekið er tillit til framfærslu barna og maka námsmanns í aðstoðinni. Þá getur tekjulítill námsmaður með börn á framfæri fengið barnabætur og barnabótaauka. Hámarksbarnabætur og barnabótaauki fyrir fjölskyldu með tvö börn er um 23.500 kr. á mánuði. Þær bætur teljast ekki til tekna þegar lán er reiknað. Lög hafa verið sett um húsaleigubætur, sem ganga í gildi 1. janúar 1995 og munu námsmenn eiga rétt á húsaleigubótum samkvæmt þeim lögum. Reykjavíkurborg greiðir styrk til heimavinnandi maka manna, sem eru með börn á framfæri. (Sjá yfirlitstöflu um stuðning við námsmenn á Norðurlöndum og forsendur hennar.) Þá geta íslenskir námsmenn fengið styrk úr nýstofnuðum Rannsóknarnámssjóði Íslands og fleiri sjóðum.
    

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð?


    Nám á Íslandi: Námsmenn sem þess óska og stunda sérnám, iðnnám, framhaldsnám, grunn- eða framhaldsháskólanám geta átt rétt á námsaðstoð í samræmi við ákveðnar reglur. Stuðningur er ekki veittur nemendum í almennu undirbúningsnámi (t.d. menntaskóla- og fjölbrautaskólanámi). Hlutanám (undir 75% af fullu námi) er ekki lánshæft.
    Nám erlendis: Veitt eru lán vegna náms erlendis með afar litlum takmörkunum í megindráttum eftir sömu reglum og gilda um lánshæft nám á Íslandi, þ.e. að teknu tilliti til grunnframfærslu í hverju landi og borg, enda fullnægi þeir skólar, sem námsmenn hyggjast sækja, ákveðnum skilyrðum. Framboð á námi hér á landi hindrar yfirleitt ekki rétt manna til námsaðstoðar erlendis. Lánað er til einkanáms í tónlist í allt að þrjú ár og lánað er eftir vissum reglum til undirbúningsnáms erlendis í tungumálum. Þá eru veitt ferðalán til námsmanna sem stunda nám erlendis. Þau nema skólaárið 1994–95 29.000 kr. vegna ferðakostnaðar til og frá námsstað í Evrópu en 45.000 kr. til og frá námsstað annars staðar í heiminum.
    

Lán vegna skólagjalda erlendis.


    Lánað er vegna skólagjalda erlendis. Veitt eru sérstök lán vegna skólagjalda til 10 ára með markaðsvöxtum banka vegna sérnáms og grunnháskólanáms erlendis í þrjú ár samtals að hámarki 17.000 bandaríkjadollarar, eða 1.150.000 ísl. kr. Lán með venjulegum kjörum námslána eru veitt vegna skólagjalda í framhaldsháskólanámi. Þau lán geta numið að allt að 31.000 bandaríkjadollurum samtals eða um 2,1 millj. ísl. kr.
    

Lánshæfi erlendra ríkisborgara.


    Erlendir ríkisborgarar geta fengið aðstoð til lánshæfs náms á Íslandi enda njóti Íslendingar hliðstæðs réttar í heimalöndum þeirra. Námsmenn frá Norðurlöndum geta fengið námsaðstoð frá LÍN til að stunda nám hér á landi að uppfylltum skilyrðum um að þeir hafi stundað vinnu og búið hér á landi í tvö ár.
    

Hversu lengi er aðstoðin veitt?


    Árlegur stuðningstími. Að jafnaði er ekki veitt aðstoð nema í níu og hálfan mánuð en getur þó náð frá upphafi námsárs til síðasta prófdags samkvæmt upplýsingum skóla.
    Hámarkstími: Veitt er aðstoð að hámarki 10 ár ef námsmaður leggur stund á framhaldsháskólanám.
    

Upphæð námsaðstoðar. Er hún breytileg?


    Upphæð námsaðstoðar er breytileg. Hún fer eftir tekjum námsmanns og maka, fjölskylduaðstæðum, dvalarstað námsmanns og námsárangri. Framfærslulán til einstaklings sem stundar nám á Íslandi og býr í leiguhúsnæði er nú (september 1994) 52.384 kr. en einstaklings í foreldrahúsum 70% af þeirri upphæð eða 36.669. Framfærslulán hjá hjónum eða sambýlisfólki með börn á framfæri hækkar um 25% fyrir hvert barn á framfæri þeirra. Lán til einstæðra foreldra hækka um 45% fyrir hvert barn. Lán eru einnig með ákveðnum skilmálum veitt vegna framfærslu maka, ef hjón eða sambýlisfólk eiga tvö börn, maki er atvinnulaus eða hefur ekki atvinnuleyfi. Makalán nemur þá 50% af láni vegna námsmanns og barna. Þá eru veitt lán vegna ferðakostnaðar eftir ákveðnum reglum og bóka-, efnis- og tækjakostnaðar og veitt er lán vegna helmings af venjulegu meðlagi til greiðanda þess.
    

Hámarkslán sem menn geta fengið á mánuði eru sem hér segir í ísl. kr:


    (Miðað er við vísitölu í september.)
    Einstaklingur í leiguhúsnæði     
52.384

    Einstaklingur í foreldrahúsum     
36.669

    Námsm. með tvö börn og á maka á framfæri     
117.684

    Lán vegna bóka- og efniskaupa     
20.954
á skólaári

Tekjutillit og frítekjumark.


    Tekjur koma yfirleitt til frádráttar lánsrétti. Þær eru samkvæmt reglum 1994–95 skilgreindar sem tekjur sem mynda skattstofn viðkomandi. Í því felst að barnabætur, barnabótaauki, o.fl. teljast ekki til tekna. Tekið er tillit til tekna námsmanna og maka þeirra þegar réttur manna til námslána er reiknaður. Aftur á móti er ekki tekið tillit til eigna námsmanna né tekna eða fjárhags foreldra.
    Námsmönnum sem búa í leiguhúsnæði er heimilt að afla 180.000 kr. og námsmönnum sem dvelja í foreldrahúsnæði er heimilt að afla 140.000 kr. án þess að þær tekjur hafi áhrif á rétt þeirra til námslána. Tekjur umfram framangreindar fjárhæðir hafa þau áhrif að 50% þeirra dragast frá rétti til námsaðstoðar. Tillit er tekið til tekna maka á þann veg að til frádráttar frá láni námsmanns koma 50% af tekjum maka umfram framfærslu.
    

Námsframvinda.


    Forsenda fyrir námsaðstoð samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er að menn skili námsárangri áður en lán eru afgreidd. Námsmenn fá einungis fullt lán fyrir 100% námsframvindu, þ.e. ef menn geta lokið námi eftir þrjú ár samkvæmt skipulagi skóla, fá menn að hámarki 100% lán í þrjú skólaár. Lágmarksárangur sem námsmenn þurfa að skila á önn er 75% og fá menn þá lán á þeirri önn í samræmi við árangursskil, þ.e. menn geta fengið 75% lán í fjögur ár til þess að ljúka þriggja ára námi með því að skila alltaf lágmarksárangri.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    Veruleg breyting varð á umsóknum manna um námsaðstoð eftir breytingu laga- og reglna um LÍN á árunum 1991 og 1992. Af heildartölu þeirra námsmanna sem stunda lánshæft framhaldsnám á Íslandi tóku 63,3% lán skólaárið 1990–91, en um 43% skólaárið 1993–94.
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Í lögum um LÍN er sett fram sú viðmiðun að námslán nægi til að standa straum af framfærslu og námskostnaði.
    

Koma námsmenn frá aðildarlöndum að EES-samningi til greina sem stuðningsþegar?


    Námsmenn frá þeim ríkjum sem eru aðilar að EES-samningi geta notið íslenskrar námsaðstoðar en að takmörkuðu leyti. Þeir geta fengið aðstoð til að stunda nám á Íslandi ef íslenskir námsmenn geta fengið stuðning samkvæmt reglum heimalands viðkomandi námsmanns. Heimildir eru ekki í lögum til þess að veita erlendum ríkisborgara íslenska námsaðstoð til þess að stunda nám í öðrum löndum.
    

Láns- og endurgreiðslukjör.


    Lánin eru verðtryggð og bera allt að 3% ársvexti frá námslokum en engir vextir reiknast á námstíma. Samkvæmt núgildandi reglugerð eru vextir 1% af veittum lánum. Lánin eru afborgunarlaus í tvö ár eftir námslok. Endurgreiðslutími er ekki ákveðinn. Gjalddagar eru tveir á ári. Gert er ráð fyrir að menn greiði að lágmarki 50.700 ísl. kr. (vísitala í október 1994) án tillits til tekna á ári upp í afborganir og vexti á fyrri gjaldaganum, þ.e. í mars. Tekjutengd afborgun greiðist síðar á árinu, þ.e. í september. Ef lánþegar hafa brúttóárstekjur umfram 1.014.000 (miðað við vísitölu í október 1994), ber þeim að greiða á septembergjalddaga 5% af þeim umframtekjum sínum til LÍN vegna lána sem veitt eru samkvæmt lögum nr. 21/1994. Aðrar reglur gilda um fyrri lán, þ.e. aðalreglan í því tilviki er sú að menn greiða ekki meira en 3,75% af brúttótekjum sínum af þeim lánum.

Framfærslutafla 1994–95.


    Taflan sýnir mánaðarlega framfærslu í mynt viðkomandi lands miðað við fjölskylduaðstæður (september 1994). Viðbótarlán vegna maka er ekki inni í þessum tölum.


(Tafla, mynduð.)


    
    

Noregur.


    Statens lånekasse for utdanning, eða norski lánasjóðurinn, veitir námsaðstoð í Noregi og fer hún eftir lögum, reglum og reglugerðum sem um hann gilda.
    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru ekki greidd í Noregi nema í einkaskólum og sérskólum. Sjóðurinn veitir að hámarki lán sem nemur um 170.000 ísl. kr. á ári vegna skólagjalda innan lands eða á hinum Norðurlöndunum.
    

Helstu tegundir aðstoðar.


    Norski lánasjóðurinn veitir bæði styrki og lán. Styrkurinn nemur skólaárið 1994–95 um 18% af heildaraðstoð þeirra sem eru eldri en 19 ára og búa í leiguhúsnæði, en er hærra hlutfall af aðstoðinni við yngri námsmenn. Aðstoð er veitt vegna framfærslu barna og maka eftir sérstökum reglum.
    

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð?


    Vegna náms í Noregi. Námsaðstoð er veitt öllum námsmönnum á aldrinum 16– 65ára er stunda nám í framhaldsskólum (þ.e. nám á mennta- og fjölbrautaskólastigi), lýðháskólum, iðnskólum og háskólum. Erlendir ríkisborgarar geta undir vissum kringumstæðum fengið aðstoð vegna náms í Noregi. Ef um fullt nám er að ræða er ekki veitt aðstoð nema námstíminn sé a.m.k. þrír mánuðir (innan lands) og hálft námsár (erlendis). Það má veita aðstoð í hlutanám (50% nám) innan lands ef námstíminn er a.m.k. fimm mánuðir.
    Vegna náms erlendis. Ef stundað er nám annars staðar á Norðurlöndunum er veitt aðstoð eftir sömu reglum og gilda fyrir nám í Noregi. Einnig er veitt aðstoð vegna háskólanáms utan Norðurlanda ef námið er viðurkennt í Noregi og vegna sérnáms ef sambærilegt nám verði ekki stundað í Noregi. Aðstoð er ekki veitt til tveggja ára „Associate degree“ eða vegna náms á fyrsta ári í venjulegu BA-/BS-námi í Bandaríkjunum.
    Aðstoð vegna greiðslu skólagjalda: Vegna náms í ákveðnum greinum erlendis utan Norðurlanda er veittur styrkur vegna skólagjalda, t.d. lyfjafræði og læknisfræði að hámarki nálægt 370.000 ísl. kr. á ári. (Í nokkrum greinum, t.d. verkfræði, tölvufærði og mastersnámi í viðskiptafræði er veittur styrkur allt að 90.000 norskar kr. eða um 900.000 ísl. kr. á ári.) Ekki er veittur skólagjaldastyrkur vegna doktorsnáms.
    

Lánshæfi erlendra ríkisborgara.


    Borgarar aðildarríkja að EES-samningi geta fengið norska námsaðstoð, t.d. ef foreldrar námsmanns starfa eða hafa starfað í Noregi samkvæmt reglum EES-samnings um óheftan flutning fólks í atvinnuleit milli samningslandanna eða námið sé tengt því starfi sem erlendur ríkisborgari frá EES-landi hefur stundað í Noregi. Skilyrði fyrir því að þessi réttur nái til aðstoðar vegna náms utan Noregs er að viðkomandi hafi búið í landinu í a.m.k. tvö ár.
    

Hversu lengi er aðstoðin veitt?


    Að jafnaði er veitt aðstoð í 10 mánuði á almanaksári. Veitt er aðstoð í hámark fimm ár til náms á mennta- og fjölbrautaskólastigi og hámark sex ár vegna náms á háskólastigi. Veitt er aðstoð í sem samsvarar venjulegri („norm“) lengd námstíma og í eitt ár að auki. Undir vissum kringumstæðum er hægt að fá undanþágu frá þessum reglum.
    

Hámarksupphæð lána og styrkja.


    Upphæð námsaðstoðar fer eftir námi, aldri (mismunandi reglur fyrir námsmenn eldri og yngri en 19 ára) og félagslegum aðstæðum.

    Grunntölur 1994–95, ísl. kr.
Styrkur
Lán Samtals
    Nemendur eldri en 19 ára *
    — sem búa í foreldrahúsum     
35.992 35.992
    — sem búa ekki í foreldrahúsum     9.588
45.101
54.689
    Nemendur yngri en 19 ára *
    — sem búa í foreldrahúsum     7.738
21.956
29.694
    — sem búa ekki í foreldrahúsum     24.195
24.195
48.390

    * Námsmenn sem eru yngri en 19 ára með barn eða börn á framfæri, giftir eða eru í háskólanámi fá einnig mánaðarlegan styrk og lán eins og 19 ára og eldri.

    Veita má aðstoð vegna framfærslu maka og barna samkvæmt ákveðnum reglum og einnig aðstoð vegna bóka- og efniskostnaðar. Vegna veikinda og barnsburðar á námstíma má breyta veittu láni í styrk (hámark þrír mánuðir á námsári vegna veikinda, 42 vikur vegna barnseignar).
    Ferðastyrkur er veittur vegna náms innan lands og á Norðurlöndum fyrir þrjár ferðir á námsári samkvæmt taxta sjóðsins að frádregnum 800 norskra kr.
    Vegna náms erlendis utan Norðurlanda er veitt aðstoð vegna einnar ferðar á ári; 50% styrkur, 50% lán samkvæmt taxta sjóðsins.
    

Aðrir styrkir.


    Í listaháskólum ýmiss konar er veittur 100% styrkur af reiknaðri námsaðstoð á bilinu 1.980–7.070 norskar kr. á mánuði. Listamaður í framhaldsnámi getur fengið allt að 450.000 ísl. kr. á ári í styrk. Flóttamenn í framhaldsskólanámi geta fengið styrki samkvæmt ákveðnum reglum. Veittar eru um 60.000 ísl. kr. í styrk vegna tveggja mánaða sumarnáms við nokkra háskóla í Noregi. Styrkur þessi er óháður tekjum námsmanns. Nemar frá Nord–Troms og Finnmark sem búa í leiguhúsnæði og stunda nám í framhaldsskóla fá 560 norskar kr. á mánuði eða um 5.600 ísl. kr. í viðbótarstyrk.

Aðrar bætur.


    Námsmenn njóta einnig bóta úr almannatryggingakerfi, t.d. barnabóta. Námsmaður með tvö börn á framfæri getur þannig fengið 17.776 ísl. kr., samkvæmt upplýsingum norska lánasjóðsins (sjá yfirlitstöflu um heildaraðstoð til námsmanna á Norðurlöndum). Þá veita einnig ýmsir aðrir aðilar styrki svo sem fram kemur síðar.
    

Tekjutillit og frítekjumark.


    Námsmenn mega hafa 3.000 norskar kr., eða um 30.000 ísl. kr., í vinnutekjur á mán. á námstíma án þess að lán skerðist, en 60% af vinnutekjum umfram þessa upphæð og 60% af öðrum tekjum á námstíma dregst frá reiknaðri námsaðstoð. Séu eignir námsmanns meiri en 146.000 norskar kr. minnkar námsaðstoðin. Tekjur og eignir foreldra námsmanna yngri en 19 ára og tekjur og eignir maka námsmanna geta skert námsaðstoð. Barnabætur og húsaleigustyrkir frá hinu opinbera teljast ekki til tekna.

Lánskjör og endurgreiðslur.


    Lánin bera nú 7,5% vexti frá námslokum. Vextir eru frádráttarbærir til skatts. Endurgreiðslur hefjast einu til einu og hálfu ári eftir námslok og er endurgreiðslutími allt að 20 ár. Veittar eru undanþágur frá þessari reglu. Greiðslu skal vera lokið fyrir 65 ára aldur. Fyrstu þrjú árin eftir að námi lýkur eru endurgreiðslur lágar, eða sem nemur 4% af heildarskuld, lágmark 2.810 norskar kr. eða um 28.000 ísl. kr. tvisvar á ári, en eftir það lágmark 4.000 norskar kr., eða um 40.000 íslenskar tvisvar á ári. Lánþegi borgar ákveðið gjald fyrir hverja tilkynningu/rukkun. Ríkisstjórninni er heimilt að breyta afborgunartíma og vöxtum.
    Lánþegi getur sótt um niðurfellingu á vaxtagreiðslum og frestun eða niðurfellingu á afborgunum vegna lágra tekna, veikinda o.fl.
    Lánþegi búsettur í Noregi getur sótt um að ársgreiðsla verði lækkuð í 6% (lágmark 7.000 norskar kr. 1994) af brúttóárstekjum (hámark sjö ár).
    Þeir sem lokið hafa mjög löngu námi (tíu missera eða lengra) eiga rétt á að fá felld niður lán að einhverju leyti (19.900 til 46.900 norskar kr.). Þá eiga þeir sem lokið hafa löngu námi á eðlilegum („normeruðum“) eða styttri tíma rétt á ákveðinni niðurfellingu (hámark 19.500 norskar kr.).
    Lánþegar sem setjast að í Norður–Noregi (Finnmark og Nord–Troms) og læknar sem starfa í sínu fagi á nokkrum öðrum stöðum í Noregi eiga rétt á niðurfellingu lána upp að vissu marki (10% af höfuðstólnum á ári; lágmark 1.100 og hámark 16.500 norskar kr.).
     * Miðað er við sölugengi norskrar krónu í sept. 1994, þ.e. 9,998 ísl. kr.

Danmörk.


    Styrelsen for Statens Uddannelsesstøtte, eða danski lánasjóðurinnn, veitir námsaðstoð í Danmörku og fer aðstoðin eftir lögum, reglum og reglugerðum sem um sjóðinn gilda.
    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru ekki greidd í Danmörku nema í einkaskólum og sérskólum.
    

Helstu tegundir aðstoðar.


    Danski lánasjóðurinn veitir bæði styrki og lán. Styrkur er um 69% af hámarksheildaraðstoð þeirra sem eru eldri en 19 ára og búa í leiguhúsnæði. Þetta er hæsta styrkhlutfall sem um getur á Norðurlöndum. Aðstoð er ekki veitt frá sjóðnum vegna barna (barnafjöldi hefur þó áhrif á frítekjumark) og maka námsmanns.
    

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð?


    Vegna náms í Danmörku: Allir danskir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri eiga rétt á námsaðstoð. Námið þarf að njóta viðurkenningar hins opinbera og vera að lágmarki þriggja mánaða nám. Námsmenn verða að sækja tíma og taka próf.
    Vegna náms erlendis: Námsmaður sem hyggst stunda nám á Norðurlöndum getur fengið aðstoð til þess samkvæmt dönskum reglum en námið þarf að vera viðurkennt af dönskum menntamálayfirvöldum og menntunin að vera nothæf í Danmörku. Hámarkstími aðstoðar til náms utan Norðurlanda er þrjú ár. Ef námsbrautin er lengri en þrjú ár er veitt aðstoð síðustu þrjú árin. Áhersla er lögð á að menntunin komi að gagni og styrki samkeppnisstöðu Dana. Veita má stuðning til lengri tíma ef námið, sem valið er, býðst ekki í Danmörku og menntunin uppfyllir þörf á danska vinnumarkaðnum.
    Aðstoð vegna skólagjalda erlendis: Styrkur er veittur allt að 85% til greiðslu skólagjalda í námi erlendis en þó ekki hærri en um það bil 180.000 ísl. kr. á ári. Ströng skilyrði eru að sérstök þörf sé fyrir fólk með slíka menntun og hún sé ekki í boði í Danmörku.
    Lánshæfi erlendra ríkisborgara: Borgarar ESB geta fengið danska námsaðstoð, t.d. ef foreldrar námsmanns starfa eða hafa starfað í Danmörku samkvæmt reglum ESB um óheftan flutning fólks milli sambandslandanna eða námið sé tengt því starfi sem erlendur ríkisborgari frá ESB hefur stundað í Danmörku.
    

Námsframvindukröfur.


    Aðstoð „án klippikorts“:
    Gerð er krafa um að nemendur séu í fullu námi, taki tilskilin próf og ljúki verkefnum. Þeir námsmenn, sem ekki uppfylla þessi skilyrði að fullu, en geta að áliti skólans lokið á tilskyldum tíma, fá undanþágu.
    Námsmaður sem þarf að taka upp námsár eða hluta úr námsári getur einnig fengið aðstoð til þess.
    Aðstoð „með klippikorti“:
    Námsmaður verður að vera í fullu námi, taka próf og verkefni í „normal takt“. Skólinn metur hvort námsárangur nemenda er fullnægjandi eða ekki. Ef námsmaður uppfyllir ekki kröfur skólans um námsframvindu ber skólanum að sjá til þess að aðstoð stöðvist með því að tilkynna Lánasjóðnum um ófullnægjandi námsárangur viðkomandi námsmanns.
    Skólinn skal gera athugun á námsframvindu nýrra nemenda innan sex mánaða eftir að þeir hefja nám. Ef þeir eru þá ekki í fullu námi stöðvast námsaðstoð. Eftir það skal skólinn athuga námsframvindu nemenda a.m.k. einu sinni á ári. Lítilsháttar seinkun í námi kemur venjulega ekki að sök ef námsmaður getur að mati skólans haldið eðlilega áfram námi. Í þeim tilfellum er námsaðstoð ekki stöðvuð.
    Námsmenn geta þó að uppfylltum vissum skilyrðum fengið viðbótaraðstoð „forsinkelsesklip“ ef þeir geta ekki lokið námi á réttum tíma. Hámark þessarar viðbótaraðstoðar er 12 mánuðir.
    Námsmenn erlendis eiga að senda upplýsingar um námsárangur tvisvar á ári til Lánasjóðsins.
    

Fjöldi námsmanna sem hljóta stuðning.


    Að líkindum er hlutfall þeirra sem njóta námsaaðstoðar um 100% af fjölda námsmanna í stuðningshæfu námi. Árið 1992 hlutu 210.000 námsmenn styrki frá danska lánasjóðnum og 78.000 þeirra tóku einnig lán.
    

Hversu lengi er aðstoðin veitt?


    Að jafnaði er veitt aðstoð 12 mánuði á ári nema námsmaður óski annars.
    Hjá danska lánasjóðnum er veitt tvenns konar aðstoð, „án klippikorts“ og „með klippikorti“ (uden for klippekortet og i klippekortet). Námsaðstoð „án klippikorts“ er veitt vegna náms á menntaskólastigi (første ungdomsuddannelse).
    Á menntaskólastigi: Veitt er aðstoð að hámarki í 23 mánuði á þessu námsstigi enda verður námsmaður að hafa náð 18 ára aldri og vera í fullu námi. Námsmenn þurfa ekki klippikort til þess að fá aðstoð á þessu stigi og þessi stuðningstími dregst ekki frá þegar þeir síðan fá klippikort.
    Annað lánshæft nám: Þegar námsmenn hefja nám á háskólastigi, iðnnám eða annað nám sem háð er klippikortinu fá þeir úthlutað þessu korti sem tiltekur hversu marga mánuði þeir geta fengið námsaðstoð í fyrirhugað nám. Þetta fyrirbrigði er þó ekki kort sem klippt er af, heldur nokkurs konar mælistika á fjölda aðstoðarmánaða.
    Tekið er mið af eðlilegum námstíma („normerad studietid“), þ.e. veitt eru lán/styrkir í fimm ár til fimm ára náms o.s.frv. Þar sem námsbraut er skipt upp í lægri og hærri gráðu, t.d. ef námsmaður stefnir að mastersgráðu en þarf fyrst að taka BA-próf, er fyrst gefið út klippikort fyrir BA-námi 36 „klipp“. Þegar viðkomandi hefur lokið BA-gráðunni fær hann síðan annað klippikort fyrir mastersferilinn 24 „klipp“. Ef námsmenn skipta um nám fá þeir nýtt klippikort og er þá dregin frá sú aðstoð sem þeir hafa þegar fengið. Námsaðstoð sem þeir hafa mögulega fengið „án klippikorts“ dregst þó ekki frá. Námsmenn sem skipta um nám eða hafa fallið á prófum geta þó sótt um 12 mánaða viðbót við klippikortið. Þá var sú nýbreytni tekin upp skólaárið 1994–95 að veita sérstakt námslokalán (ekki styrk) í eitt ár. Námsmenn sem eignast börn á námstíma eða verða veikir eða hafa aðra gilda ástæðu geta sótt um 12 mánaða hámarksviðbót við klippikortið.
    Ef námsmenn hafa valið að taka ekki lán/styrki alla mánuði ársins einhvern tíma á námstímanum geta þeir fengið tvöfalda námsaðstoð á síðasta námsári sínu í jafnmarga mánuði og þeir hafa sparað.
    Námsmenn í doktorsnámi fá yfirleitt styrk frá viðkomandi skóla. Þessi styrkur er að hámarki 149 „klipp“ en hvert slíkt samsvarar 3.493 d. kr. eða 38.912 ísl. kr. en geta þó yfirleitt einnig sótt um aðstoð frá danska lánasjóðnum. Miðað er við að doktorsnám taki þrjú ár eftir meistaragráðu og geta námsmenn fengið lán og styrki þann tíma til viðbótar klippikortinu.
    

Upphæð lána og styrkja.


    Upphæð lána og styrkja fer eftir því hvort námsmaðurinn býr í foreldrahúsum eða leiguhúsnæði. Námslán og styrkir hjá danska lánasjóðnum eru sem hér segir:

Hámarksstyrkir og lán á mánuði í ísl. kr.


Styrkir

Lán

Samtals
    

    Í foreldrahúsum     
22.246
17.211 39.457
    Í leiguhúsnæði     
38.912
17.211 56.123
    
    Styrkurinn er skattskyldur ef laun og styrkir fara yfir ákveðið mark.
    Námsmenn undir 20 ára aldri í menntaskólanámi fá yfirleitt námsaðstoð eins og þeir væru í foreldrahúsum, þó er hægt að sækja um undanþágu ef tilefni er til.
    Danski lánasjóðurinn miðar sína útreikninga við almanaksárið, ekki skólaárið, þannig að 1. jan. ár hvert hefst nýtt aðstoðarár.
    

Frítekjumark.


    Upp að 19 ára aldri eru lán og styrkir háðir tekjum foreldra. Námsmenn, sem fá aðstoð, mega hafa 3.493 danskar kr. á mánuði jafnframt án þess að lánið/styrkurinn skerðist, þ.e. 41.916 danskar kr. (eða 466.944 ísl. kr.) í tekjur á ári án þess að lán/styrkir skerðist þó þeir fái námslán eða styrki allt árið. Ef námsmaður fær ekki aðstoð allt árið, má hann hafa 11.158 danskar kr. í tekjur þá mánuði sem hann fær ekki aðstoð án þess að lánið/styrkurinn skerðist. Ef námsmaður hefur barn/börn undir 18 ára aldri á framfæri sínu hækkar frítekjumarkið um 16.135 danskar kr. á ári fyrir hvert barn.
    

Aðrar bætur.


    Námsmenn geta fengið barnabætur og húsaleigubætur frá almannatryggingum og sveitarfélögum. Sem dæmi má nefna að námsmaður með tvö börn á framfæri getur fengið barnabætur sem nema um 15.300 ísl. kr. og húsaleigubætur um það bil 5.500 ísl. kr. á mánuði. (Heimild: Danski lánasjóðurinn) (Sjá yfirlitstöflu um heildaraðstoð við námsmenn á Norðurlöndum og forsendur hennar.)
    

Lánskjör og endurgreiðslur.


    Á námstíma leggjast 4% vextir á námslán en eftir að námi lýkur bera þau vexti sem svara til forvaxta banka eins og þeir eru á hverjum tíma. Stjórnvöld ákveða þó árlega hvort vextir eru greiddir niður eða ekki.
    Endurgreiðslur hefjast einu ári eftir lok þess skólaárs sem námsmaðurinn lauk námi. Sem dæmi má nefna að hafi maður lokið námi í júní 1994 hefjast endurgreiðslur árið 1996. Lánin endurgreiðast á 7–15 árum. Það fer eftir eftir upphæð skuldarinnar hversu langur endurgreiðslutíminn er.
     * Miðað er við sölugengi danskrar krónu í 23. september 1994, þ.e. 11,14 ísl. kr.

Færeyjar.


    Studulsstovnurin, eða færeyski lánasjóðurinn, veitir námsaðstoð samkvæmt reglugerð og lögum um menntastyrki frá 1988 sem sniðin voru eftir dönsku lögunum, en eru nokkuð einfaldari útgáfa.
    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru ekki greidd í Færeyjum.

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Færeyski lánasjóðurinn veitir bæði styrki og lán. Árið 1994 nemur styrkurinn um 66% af heildaraðstoð þeirra sem eru eldri en 18 ára og búa í leiguhúshæði, um 56% af heildaraðstoð þeirra sem eru eldri en 18 ára og búa í foreldrahúsum, en 100% hjá þeim sem eru yngri en 18 ára. Vegna náms erlendis er í sumum tilfellum veitt viðbótaraðstoð
vegna framfærslu barna.

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð vegna náms í Færeyjum?


    Námsaðstoð er veitt þeim er stunda nám á framhaldsskólastigi, þ.e. nám í menntaskólum, verslunarskólum og tækniskólum, og þeim er stunda nám á æðra stigi, þ.e. nám í sjómannaskóla, vélskóla, kennaraskóla, hjúkrunarskóla og háskóla.
    

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð vegna náms erlendis.


    Veitt er svokölluð ferðaaðstoð vegna náms erlendis samkvæmt ákveðnum reglum. Til dæmis er allt lánshæft nám hjá danska lánasjóðnum (SU) líka lánshæft hjá Stuðulsstovnurin. Umsækjandi þarf að hafa verið búsettur í Færeyjum síðustu tvö ár áður en nám hefst eða búið þar a.m.k. fimm ár samhangandi áður en hann varð tvítugur.
    Færeyingar við nám í Danmörku hafa sömu réttindi til námsaðstoðar þar og Danir.
    

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð vegna náms utan Norðurlandanna?


    Helstu skilyrðin til þess að fá aðstoð vegna náms utan Norðurlandanna er að menntunin sé mikilvæg, helst á háskólastigi og að hún nýtist í Færeyjum. Einnig er tekið tillit til fyrri námsárangurs og tungumálakunnáttu. Aðstoð er veitt með því skilyrði að náminu ljúki með lokaprófi. Aðstoð vegna svokallaðs Post Graduate náms er veitt að hámarki í eitt ár. Í viðbót við framfærsluaðstoð er veitt aðstoð vegna skólagjalda samkvæmt ákveðnum reglum. Námsaðstoð vegna náms utan Norðurlanda skiptist að jöfnu í lán og styrk.
    

Aðstoð vegna skólagjalda erlendis.


    Veitt er hámark DKK 22.500 í styrk og sama upphæð í lán, samtals DKK 55.000 (um 613.000 ísl. kr.) á ári ef um nám utan Norðurlanda er að ræða.
    

Lánshæfi erlendra ríkisborgara.


    Erlendur ríkisborgari getur að uppfylltum sérstökum skilyrðum átt rétt á aðstoð vegna náms í Færeyjum.
    Hann hefur flust til Færeyja með foreldrum sínum og sest að þar áður en hann var tvítugur.
    Hann er Norðurlandabúi sem hefur verið búsettur í tvö ár eða lengur í Færeyjum rétt áður en nám hefst, og fær ekki aðstoð frá sínu heimalandi.
    Hann er ekki Norðurlandabúi en hefur verið búsettur í tvö ár eða lengur í Færeyjum rétt áður en nám hefst og fær ekki aðstoð í sínu heimalandi. Það nám sem hann ætlar að stunda í Færeyjum er þar að auki ekki lánshæft í hans heimalandi.
    Ath. að danskir ríkisborgarar eiga sama rétt og Færeyingar til námsaðstoðar í Færeyjum.

Hversu lengi er aðstoðin veitt?


    Veitt er aðstoð í þann tíma sem skólahald stendur yfir. Veitt er aðstoð í sem samsvarar venjulengri lengd námstíma og í eitt ár að auki vegna náms innan lands og í tvö ár að auki vegna náms erlendis. Undir vissum kringumstæðum (vegna veikinda, barnseignar o.s.frv.) er hægt að fá undanþágu frá þessum reglum. Veitt er aðstoð í hámark eitt ár til Post Graduate náms erlendis.

Hámarksupphæð lána og styrkja.


     Grunntölur 1994, ísl. kr.

Styrkir

Lán

Samtals

    

    Námsmaður eldri en 18 ára í leiguhúsnæði     
24.574
12.710 37.284
    Námsmaður eldri en 18 ára í foreldrahúsnæði     
16.100
12.710 28.810
    Námsmaður undir 18 ára aldri í leiguhúsnæði     
15.252
0 15.252
    Námsmaður undir 18 ára aldri í foreldrahúsnæði     
6.780
0 6.780

Tekjutillit og frítekjumark.


    Námsaðstoðin er óháð eigin tekjum og tekjum foreldra og er skattfrjáls.

Lánskjör og endurgreiðslur.


    Á námstíma leggjast 4% vextir á námslán en eftir að námi lýkur bera þau vexti sem eru 1% yfir forvexti danska seðlabankans eins og þeir eru á hverjum tíma.
    Endurgreiðslur hefjast einu eftir námslok og er endurgreiðslutími 8–15 ár. Fer það eftir upphæð skuldarinnar hversu langur endurgreiðslutíminn er. Lágmarksendurgreiðsla er nú 2.228 ísl. kr. á mánuði.

Svíþjóð.


    Centrala studiestödsnämnden, sænski lánasjóðurinn, veitir námsaðstoð í Svíþjóð og fer aðstoðin eftir lögum, reglum og reglugerðum sem um þá stofnun gilda.
    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru ekki greidd í Svíþjóð nema í einkaskólum og sérskólum.

Helstu tegundir aðstoðar.


    Sænskri námsaðstoð má skipta í fjóra flokka: Í fyrsta lagi er um að ræða aðstoð sem nefnd er á sænsku „Studiemedel“ og sem er sambærilegust því sem gerist hér á landi og verður fyrst og fremst fjallað um hér. Í öðru lagi er um að ræða „Studiehjälp“ fyrir nemendur milli 16–20 ára í framhaldsskóla og í þriðja lagi „Vuxenstudiestöd“ þ.e. fullorðinsaðstoð fyrir lítt menntað fólk í atvinnuleit. Þá nær í fjórða lagi sænsk námsaðstoð til fólks sem stundar nám með vinnu. Námsaðstoð sú sem nefnist á sænsku „Studiemedel“ felst bæði í lánum og styrkjum.
    

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð?


    Vegna náms í Svíþjóð. Sænski lánasjóðurinn veitir lán til háskólanáms og annars náms eftir stúdentspróf, (eftergymnasial utbildning). Einnig er veitt aðstoð til menntaskólanáms, lýðháskólanáms og ýmiss konar fullorðinsfræðslu frá og með haustönn þess árs sem nemendur verða 20 ára. Námsmenn eldri en 45 ára eiga yfirleitt ekki rétt á námsaðstoð, þó eru veittar undanþágur frá þeirri reglu. Þeir sem eru byrjaðir í námi þegar þeir ná 45 ára aldri fá leyfi til að ljúka því námi. Veitt er hlutalán/styrkir (hálft lán/styrkur) til hlutanáms.
    Nám erlendis. Veitt er aðstoð til náms á Norðurlöndum ef námsmaðurinn er sænskur ríkisborgari, námið er viðurkennt af menntamálayfirvöldum viðkomandi lands og námið telst minnst þriggja mánaða fullt nám. Veitt er aðstoð vegna náms utan Norðurlandanna. Í því tilviki þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    Að vera sænskur ríkisborgari, hafa verið búsettur í Svíþjóð síðustu tvö ár áður en nám hefst.
    Hægt er að sækja um undanþágu ef viðkomandi hefur átt lögheimili á einhverju hinna Norðurlandanna, eða ef viðkomandi ætlar að ljúka námi sem þegar er hafið og hann gerir ekki hlé á námi sínu, eða ef viðkomandi hefur fengið aðstoð til náms á menntaskólastigi og heldur óslitið áfram námi á háskólastigi.
    Námið þarf að vera minnst 13 vikna fullt nám. Aðrar kröfur eru að námið sé: 1) skipulagt af menntamálayfirvöldum viðkomandi lands, eða 2) að námið sé viðurkennt af menntamálayfirvöldum viðkomandi lands, eða 3) viðurkennt af annarri viðurkenndri stofnun, eða 4) námið geti verið hluti af háskólanámi sem í boði er í Svíþjóð.
    Ef um nám á menntaskólastigi er að ræða, er skilyrði að sambærilegt nám sé ekki í boði í Svíþjóð.
    Veitt er aðstoð við undirbúningsnám í tungumálum með eftirfarandi skilyrðum: Að viðkomandi hafi lokið námi í sænsku og ensku sem svarar til tveggja ára náms í menntaskóla, að námið sé tekið við háskóla eða í tengslum við háskóla, að námið sé minnst 15 vikna fullt nám, að náminu ljúki með prófi eða viðurkenningu.
    Aðstoð til að læra evrópsk tungumál er aðeins veitt við skóla í Evrópu. Aðstoð vegna náms í ensku er veitt í 20 vikur, önnur tungumál 40 vikur.
    Námsmenn erlendis geta sótt um aðstoð vegna ferðakostnaðar. CSN ákveður á hverju ári upphæð ferðakostnaðar.
    

Aðstoð vegna greiðslu skólagjalda í námi erlendis.


    Veitt eru lán vegna skólagjalda í námi erlendis en hámarkið er sem svarar 55.000 ísl. kr. á mánuði eða 6.000 sænskum kr. samkvæmt reglum 1994–95.
    

Lánshæfi erlendra ríkisborgara.


    Borgarar EES-landa geta fengið sænska námsaðstoð, t.d. ef foreldrar námsmanns starfa eða hafa starfað í Svíþjóð samkvæmt reglum EES um óheftan flutning fólks í atvinnuleit milli samningslandanna eða námið sé tengt því starfi sem erlendur ríkisborgari frá EES landi hefur stundað í Svíþjóð. Skilyrði fyrir því að þessi réttur nái til aðstoðar vegna náms utan Svíþjóðar er að viðkomandi hafi búið í landinu í a.m.k. tvö ár.
    

Hversu lengi er aðstoðin veitt?


    Árlega er veitt aðstoð í eðlilegan tíma („normalt“ skólaár), þ.e. 40 vikur eða um níu mánuði, sem skóli starfar.
    Veitt er aðstoð í allt að þrjú ár vegna náms á menntaskólastigi og allt að sex ár vegna náms á háskólastigi eða sambærilegu stigi. Undir vissum kringumstæðum er unnt að fá undanþágu frá þessum reglum.
    

Hámarksupphæð lána og styrkja í ísl. kr. á mánuði.


    

Styrkir

Lán

Samtals

    

    Í fullu námi     
17.336
45.030 62.366
    Í hlutanámi          
8.668
22.515 31.183
    Í námsaðstoðinni er ekki tekið tillit til barna eða maka á framfæri námsmanns.
    

Frítekjumark.


    Ef tekjur námsmanns fara yfir ákveðið mark minnkar námsaðstoð sem nemur helmingi af þeirri upphæð sem fer framyfir. Frítekjumark ákvarðast þannig (miðað er við hálft ár, „kalenderhalvår“) í sænskum kr.:
    
    Námstími:

1. júlí til 31. des.

1. jan. til 30. júní.


         4 mán.

29.920

26.400


         4 1 / 2 mán.

29.920

22.880


         5 mán.

24.640

19.360



    Ef veitt er aðstoð vegna hlutanáms er frítekjumarkið hærra, t.d. er frítekjumark vegna hlutanáms í fjóra mánuði; 52.800 og vegna hlutanáms í fimm mánuði er frítekjumark 49.280.
    

Námsframvindukröfur.


    Þegar veitt er námsaðstoð til náms í menntaskóla er ekki fylgst með námsárangri nemenda. Þegar hins vegar er veitt aðstoð til náms í lýðháskóla, fullorðinsfræðslu o.s.frv. verða námsmenn að stunda fullt nám og ljúka námi á eðlilegum tíma. Að öðrum kosti er námsaðstoð stöðvuð. Þegar veitt er aðstoð til náms á háskólastigi er oftast gerð sú krafa að námsmenn skili eðlilegum námsárangri, (i normal takt). Það er þó misjafnt eftir námsgreinum hvað telst eðlilegur námsárangur. Í sumum námsgreinum er gerð krafa um 100% námsárangur, í öðrum, svo sem hagfræði, lögfræði, félagsfræði og ýmsum fleiri greinum er gerð krafa um að námsmenn ljúki a.m.k. 30 punktum á ári, sem er 75% námsárangur, til að geta fengið fulla námsaðstoð.
    

Aðrar bætur.


    Námsmenn geta einnig átt rétt á stuðningi úr almannatryggingum og frá sveitarfélögum t.d. barnabótum og húsaleigubótum. Sem dæmi um þennan stuðning má nefna að námsmaður með tvö börn á framfæri getur fengið um það bil 13.800 ísl. kr. í barnabætur á mánuði og 17.900 ísl. kr. í húsaleigustyrk miðað við að hann greiði 3.200 sænskar kr. í húsaleigu. (Heimild: Sænski lánasjóðurinn.) (Sjá yfirlitstöflu um heildaraðstoð við námsmenn á Norðurlöndum.)
    

Lánskjör og endurgreiðslur námslána.


    Sænsk námslán bera vexti frá útborgunardegi. Vaxtaprósentan er ákveðin árlega af stjórnvöldum. Á árinu 1994 eru vextir af námslánum 7,4% í Svíþjóð. Vextir eru ekki frádráttarbærir til skatts. Endurgreiðslur geta hafist hálfu áru eftir að námi lýkur. Ef síðasta lán er veitt vegna haustannar líður eitt ár áður en endurgreiðslur hefjast. Endurgreiðslur miðast við 4% af tekjum samkvæmt síðustu álagningu skatts. Þá er gert ráð fyrir að ýmsir liðir dragist frá brúttótekjum, t.d útgjöld vegna ferðalaga í starfi, kaupa á fagbókum eða tvöfalds heimilishalds. Sérstakar reglur gilda um endurgreiðslu lánþega sem búsettir eru erlendis. Þeim er gert að greiða 20% af heildarskuld við áramót, eða lágmark 5.280 sænskar kr. árið 1994 (47.974 ísl. kr.) Skuld lánþega námsláns er afskrifuð við 65 ára aldur.
    * Miðað er við sölugengi sænskrar krónu í september 1994, þ.e. 9,086 ísl. kr.

Finnland.


    Folkpensionsanstaltens studiestödscentral eða finnski lánasjóðurinn, sem er orðinn deild í stofnun, sem hefur umsjón með eftirlaunum, veitir námsaðstoð í Finnlandi og fer aðstoðin eftir lögum, reglum og reglugerðum sem um sjóðinn gilda.
    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru ekki greidd í Finnlandi nema í einkaskólum og sérskólum.
    

Helstu tegundir aðstoðar.


    Finnski lánasjóðurinn veitir bæði styrki og lán. Styrkur nemur frá 21% af hámarksaðstoð fyrir námsmenn sem búa í leiguhúsnæði og eru í framhaldsskólanámi en 57% fyrir námsmenn í háskólanámi.
    

Hverjir eiga rétt á námsaðstoð?


    Vegna náms í Finnlandi. Námsaðstoð er veitt öllum þeim er stunda nám í menntaskólum, lýðháskólum, íþróttaskólum, iðnskólum („mellanstadiet“) og háskólum („universitet och högskolor“). Erlendir ríkisborgarar geta undir vissum kringumstæðum fengið námsaðstoð í Finnlandi, t.d. gilda sérreglur fyrir Norðurlandabúa, borgara frá ríkjum sem eru aðilar að EES samningnum og flóttamenn. Aðstoð er ekki veitt nema námstíminn sé a.m.k. tveir mánuðir. Aðstoð er veitt til hlutanáms.
    Vegna náms erlendis. Veitt er aðstoð til grunn- og framhaldsháskólanáms og viðbótarsérnáms erlendis, en stuðningurinn er mjög takmarkaður Undirbúningsnám í tungumálum er ekki lánshæft. Lán er ekki veitt vegna aukins ferðakostnaðar.
    Aðstoð vegna greiðslu skólagjalda erlendis: Slík aðstoð er ekki veitt.
    

Lánshæfi erlendra ríkisborgara.


    Borgarar ríkja sem standa að EES samningnum geta fengið finnska námsaðstoð, t.d. ef foreldrar námsmanns starfa eða hafa starfað í Finnlandi samkvæmt reglum EES samningsins um óheftan flutning fólks í atvinnuleit milli samningslandanna eða námið sé tengt því starfi sem erlendur ríkisborgari frá EES landi hefur stundað í Finnlandi. Skilyrði fyrir því að þessi réttur nái til aðstoðar vegna náms utan Finnlands er að viðkomandi hafi búið í landinu í a.m.k. tvö ár.
    

Hversu lengi er aðstoðin veitt?


    Árlegur lánstími. Vegna náms í framhaldsskóla er að jafnaði veitt aðstoð í níu mánuði á skólaári. Námsmaður í háskólanámi getur fengið aðstoð í 12 mánuði ef hann stundar fullt nám allan tímann.
    Vegna náms í framhaldsskóla er veitt aðstoð sem samsvarar eðlilegum („normeruðum“) árafjölda, þ.e. þrjú ár til að ljúka námi. Ef námsmenn verða veikir geta þeir fengið aðstoð í eitt ár til viðbótar. Vegna háskólanáms er veitt aðstoð sem samsvarar eðlilegum („normeruðum“) árafjölda eða að hámarki 55 mánuði til að stunda grunnháskólanám. Leggi námsmaður stund á framhaldsnám að loknu háskólaprófi er veitt aðstoð í allt að 70 mánuði.
    

Upphæð lána og styrkja.


    Námsaðstoð felst í lánum og styrkjum. Upphæð námsaðstoðar fer eftir námi, aldri og félagslegum aðstæðum. Greiða verður skatt af styrknum ef heildartekjur fara yfir ákveðið mark. Hámarkslán með ríkisábyrgð er að jafnaði 1.200 finnsk mörk eða um 16.500 ísl. kr.

Hámarksstyrkir og lán 1994–95.


    

Styrkur

Lán

Samtals


    Námsmaður í háskólanámi, 20 ára og eldri:
     — sem búa hjá foreldrum     
10.332
16.532 26.865
     — sem búa í leiguhúsnæði     
21.630
16.532 38.162
    Námsmaður, 17 ára, í leigu     
10.332
11.021 21.353
    Ath. Hér er „staðaruppbót“ ekki meðtalin, sem er áætluð í öðrum töflum.

    Margir námsmenn eiga einnig kost á aukastyrk vegna búsetu (staðaruppbót) sem nemur 75% af húsaleigukostnaði (lágmark finnskra marka að upphæð 150, hámark 950 mörk á mánuði, þ.e. ísl. kr. 13.100). Vegna náms erlendis getur staðaruppbótin orðið hæst 950 finnsk mörk á mánuði. Þeir sem falla ekki undir reglurnar um staðaruppbót geta sótt um húsaleigubætur hjá sveitarfélaginu þar sem þeir búa.
    

Tekjutillit og frítekjumark.


    Námsstyrkur skerðist um 10% fyrir hver 200 finnsk mörk (2.700 ísl. kr.) sem tekjur eru umfram 1.700 mörk (23.400 ísl. kr.) á mánuði á námstímanum. Ríkisábyrgð fellur niður ef mánaðartekjur á námstíma eru 4.000 finnsk mörk eða hærri (55.108 ísl. kr.). Staðaruppbót skerðist einnig um 10% fyrir hver 300 mörk sem tekjur eru umfram 2.400 finnsk mörk á mánuði á námstímanum. Í leyfi er ekki tekið tillit til tekna. Námsaðstoð skerðist ekki vegna eigna námsmanns eða vegna tekna og eigna maka eða foreldra. Þó geta tekjur foreldra námsmanna sem eru yngri en 20 ára og í framhaldsskólanámi haft áhrif á námsaðstoð.
    

Aðrar bætur.


    Námsmenn njóta einnig bóta úr almannatryggingakerfi og styrkja frá sveitarfélögum, t.d. barnabóta, húsaleigubóta og sérstaks styrks til heimavinnandi maka sem gætir barna. Sem dæmi um námsmann með tvö börn á framfæri fær hann 17.056 ísl. kr. í barnabætur, 24.325 ísl. kr. í húsaleigustyrk og sérstakan styrk ef maki er heimavinnandi og gætir barna að upphæð 51.769 ísl. kr. á mánuði. (Heimild: Finnski lánasjóðurinn.) (Sjá yfirlitstöflu um heildaraðstoð við námsmenn á Norðurlöndum og forsendur hennar.)
    

Kjör á finnskum námslánum.


    Lánin eru fengin í almennum bönkum með ríkisábyrgð. Hámarksábyrgð er að jafnaði 1.200 finnsk mörk (um ísl. kr. 16.500) á mánuði og gildir ábyrgðin í 30 ár. Lánþegi semur sjálfur við bankann um vexti og endurgreiðslu. Lánin bera vexti á meðan á námi stendur en bankinn veitir sjálfkrafa aukalán vegna vaxtakostnaðar á námstíma. Vextirnir eru frádráttarbærir til skatts.
    

Námsaðstoð vegna fullorðinna.


    Fullorðinsstyrkur. Námsmenn á aldrinum 30–54 ára sem ekki hafa verið í fullu námi lengur en fjóra mánuði síðastliðin fimm ár og nemendur á aldrinum 25–29 ára sem ekki hafa verið í fullu námi lengur en fjóra mánuði síðastliðin átta ár, eiga rétt á styrk sem nemur 25% af föstum brúttómánaðarlaunum áður en nám hófst þó ekki minna en 1.570 finnsk mörk (21.600 ísl. kr.) né meira en 2.800 mörk (38.600 ísl. kr.) á mán. ef þeir stunda fullt nám í a.m.k. átta vikur. Tekjur allt að 2.000 mörk á mánuði (27.500 ísl. kr.) á námstíma hafa ekki áhrif á styrkinn. Ekki er heldur tekið tillit til eigna námsmanns eða tekna og eigna maka. Greiða skal skatt af styrknum.
    Styrkurinn er veittur að hámarki í tvö ár (hámark 12 mánuði vegna licenciat- og doktorsnáms).
    Námslán. Hámarkslán til fyrrnefndra námsmanna með ríkisábyrgð er 1.700 finnsk mörk á mánuði (23.400 ísl. kr.).
    Orlof. Ríkisstarfsmenn, sem eru á aldrinum 30–60 ára og kennarar í grunn- og menntaskóla geta fengið styrk að upphæð 1.300 mörk á mánuði (17.900 ísl. kr.).
    Staðaruppbót. Fyrrnefndir námsmenn geta fengið staðaruppbót eftir sömu reglum og gilda fyrir „venjulega“ námsmenn.
     * Sölugengi á finnsku marki í september 13,777 ísl. kr.

Mánaðarleg námsaðstoð á Norðurlöndum.


A.     Einstaklingur í leiguhúsnæði.

         (Námsmenn 20 ára og eldri í háskóla.)
    
    

Lán

Styrkur

Samtals


    Ísland     
52.384
1) 52.384
    Danmörk     
17.211
38.912 (69%) 56.123
    Finnland     
16.532
2) 24.385
(60%) 40.917
    Noregur     
45.101
9.588 (18%) 54.689
    Svíþjóð     
45.030
17.336 (28%) 62.366
    Færeyjar     
12.709
24.574 (66%) 3) 37.283


1)    Sérstök lán vegna bóka-, efnis- og tækjakaupa eru veitt á Íslandi og í Noregi. Þau eru ekki innifalin í þessum tölum.
2)    Finnsku styrktölurnar eru miðaðar við 200 finnsk mörk meðal staðaruppbót. Uppbótin er sem svarar 75% af húsaleigu og getur orðið 956 mörk á mánuði. Hún er t.d. 950 FIM (13.088 ísl. kr.) ef stundað er nám erlendis.
3)    Færeysku tölurnar eru byggðar á upplýsingum um styrki og lán á heilu ári, en miðað er við að veittur sé stuðningur í 12 mánuði, eins og í Danmörku.

B.     Námsmaður með maka og tvö börn á framfæri.

    

Lán

Styrkur

Samtals


    Ísland     
117.864
117.864
    Danmörk     
17.211
38.912 (69%) 56.123
    Finnland     
16.532
24.385 (60%) 40.917
    Noregur     
53.159
33.623 (39%) 86.782
    Svíþjóð     
45.030
17.366 (28%) 62.366
    Færeyjar     
12.709
24.574 (66%) 37.283

    Upplýsingar eru miðaðar við eftirfarandi gildistíma reglna: Finnland, Noregur og Svíþjóð, skólaárið 1994–95, Danmörk almanaksárið 1995, Ísland í september 1994, Færeyjar 1993–94.

    Gengi 23. september 1994.
    Dönsk króna:
11.140

    Finnskt mark:
13.777

    Norsk króna:
9.998

    Sænsk króna:
9.086


Námsaðstoð á Norðurlöndum.


A.     Vextir af námslánum og verðbólga.
              

Vextir


              

Verðbólga

Á námstíma

Frá námslokum


    Ísland     
1,6%
Verðtr. Verðtr.+1%
    Danmörk     
2,0%
4% 5,25%
    Finnland     
1,6%
8–9% 8–9%
    Noregur     
1,4%
0 7,5%
    Svíþjóð     
2,7%
7,4% 7,4%

    * Verðbólga miðað við 12 mánuði, júlí 1993 til júlí 1994, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.
    Vextir eru frádráttarbærir til skatts í Danmörku, Noregi og Finnlandi en ekki í Svíþjóð og verðtrygging ekki á Íslandi.
    Í lögum um LÍN er heimilt að leggja allt að 3% vexti á námslán, en samkvæmt reglugerð bera þau nú 1% vexti.

B.     Endurgreiðslureglur námslána.
    
              

Danmörk

Finnland

Ísland

Noregur

Svíþjóð


    Endurgr. hefst eftir

1 ár

1) Skv. samn.

2 ár

12–18 mán.

6–12 mán.


    Hámarksendgr. tími

7–15 ár

30 ár

Óákv.

20 ár

Að 65 ára aldri

    Lágmarks árl. endgr.

13.368 ísl.kr.

Skv. samn.

50.700

2) 56.189 *


              

2) 79.984 *


    Tekjutenging

Nei

Nei

3)

Nei *

4)



    1)    Í Finnlandi lána bankar námslán, sem ríkið gengur í ábyrgð fyrir og endurgreiðslur geta því farið eftir samkomulagi milli lánþega og banka þeirra.
    2)    Lágmarks árleg greiðsla fyrstu þrjú árin í Noregi eru 56.189 ísl. kr. eða 4% af heildarláni ef sú tala er hærri og þar á eftir er lágmarks árleg greiðsla 79.984 ísl. kr. Lánþegi getur sótt um lækkun í sem svarar 6% af brúttotekjum (lágmark 59.988 ísl. kr.) að hámarki í sjö ár.
    3)    Á Íslandi endurgreiðast 5% af brúttótekjum, ef sú tala er hærri en 50.700 (október 1994) fyrstu fimm árin en 7% eftir það.
    4)    Í Svíþjóð endurgreiðast 4% af brúttótekjum.
    
    Gengi 23.9.94: Dönsk kr. 11,140; finnskt mark 13,777; norsk kr. 9,998; sænsk kr. 9,086 ísl. kr.

Heildaraðstoð við námsmenn á Norðurlöndum.


    Dæmi um mánaðarlega opinbera aðstoð við námsmenn með fjölskyldu á framfæri.
    (Hámarksupphæð á mánuði í ísl. kr. Sjá skýringar.) Sama gengisviðmiðun og í fyrri töflum.

              

Ísland

1) Danmörk

Finnland

Noregur

Svíþjóð


    Námsaðstoð 2)
    
54.712
56.123 40.917 59.288 62.366
    Viðbót, maki og tvö börn     
65.480
32.093
    Barnabætur o.þ.h.     
23.475
15.286 17.056 17.776 13.807
    Húsaleigubætur     
3) 16.000
5.458 24.325 4) 17.956

    Önnur aðstoð     
5) 51.769

    Samtals á námstíma     
159.667
76.867 134.067 109.157 94.129

    Framangreint dæmi er byggt á upplýsingum forráðamanna norrænna lánasjóða í júní og október 1994 um heildarstuðning við tekjulítinn námsmann í háskólanámi með tekjulausan heimavinnandi maka á framfæri og tvö börn (þriggja og tveggja ára).
1)    Danir telja dæmið lítt raunsætt miðað við danskar aðstæður. Talið er að óhjákvæmilega hlyti fjölskyldan að hafa einhverjar tekjur, vinnutekjur, atvinnuleysisbætur eða aðra félagslega aðstoð vegna makans, ef námsmaður er í námi heimafyrir í Danmörku.
2)    Námsaðstoð: Innifalinn er stuðningur vegna framfærslu, staðaruppbót (í Finnlandi) og lán vegna bókakaupa.
3)    Ísland: Húsaleigubætur samkvæmt nýjum lögum og reglum um húsaleigubætur, sem taka gildi 1. janúar 1995 miðað við 32.000 ísl. kr. sem greiddar eru í húsaleigubætur. Ath. lán vegna bóka- tækja og efniskostnaðar með í námsaðstoðartölu.
4)    Svíþjóð: Húsnæðisstyrkur miðað við 3.200 sænskar kr. í húsaleigu á mánuði.
5)    Finnland. „Önnur aðstoð“ er heimilisaðstoð til maka vegna gæslu barna og má í raun líta á sem lið í atvinnuleysisbótum.

Belgía (frönskumælandi svæði).


Skólagjöld.


    Skólagjöld eru hin sömu fyrir Belga og aðra námsmenn frá ESB-löndum. Aðrir erlendir námsmenn greiða mjög há skólagjöld. Styrkþegar greiða lægri skólagjöld.

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Styrkir.
    Takmörkuð lán með lágum vöxtum fyrir fjölskyldur með þrjú eða fleiri börn á framfæri. Lánsfjárhæðin er ekki há.

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Tvennt er forsenda námsaðstoðar í Belgíu, þ.e. eðlileg námsframvinda og fjárhagsleg þörf.
    Styrkir.
    Fjölskyldutekjur (bágstaddar fjölskyldur).
    Framvinda náms. Þess er krafist að námsmenn nái prófum; ef námsár er endurtekið fellur styrkurinn niður vegna endurtekins árs.
    Aldur. Styrkþegi verður að vera yngri en 35 ára.
    Fullt nám.
    Umsóknir frá þeim sem þegar hafa tekið háskólapróf (gráðu eða diplóm) eru ekki teknar til greina.
    Lán.
    Fjöldi barna á framfæri að lágmarki þrjú.
    Fjölskyldutekjur.
    Engar kröfur í sambandi við námsárangur.
    Umsóknir frá þeim sem þegar hafa tekið háskólapróf (gráðu eða diplóm) eru ekki teknar til greina.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    20%.
    

Stuðningsfjárhæðin er breytileg. Eftir hverju fer hún?


    Tekjum foreldra.
    Fjölda barna á framfæri foreldra.
    Vegalengd milli heimilis og skóla.
    Námsári.
    Hvort taka þarf húsnæði á leigu.

Upphæð aðstoðar.


    Framfærslukostnaður er metinn 182.000 belgískir frankar í frönskumælandi hluta Belgíu eða um 386.000 kr. á skólaári. Meðalstyrkur, 863 ECU á ári eða um 72.000 ísl. kr., nægir alls ekki fyrir framfærslu, sem áætlað er að kosti um 4.550 ECU á ári, eða 379.000 ísl. kr. Meðalaðstoð (support) hefur verið 34.500 belgískir frankar eða 73.100 ísl. kr. á ári. Hámarksaðstoð getur numið 112.000 belgískum frönkum sem jafngilda um 237.000 ísl. kr., eða um 25.000 ísl. kr. á mánuði miðað við 9.5 mánaða skólaár. Þá er tekið tillit til barna á framfæri námsmanns og getur stuðningur numið tæplega 10.000 kr. á mánuði fyrir fyrstu tvö börnin.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Stuðningur til fulls náms erlendis er aðeins veittur á frönskumælandi svæðinu ef sambærilegt nám stendur ekki til boða í Belgíu (á frönskumælandi svæðinu). Á þýskumælandi svæðinu (þar sem er enginn háskóli) er meiri sveigjanleiki í kerfinu og meira um það að nota megi styrki til náms í Þýskalandi og Hollandi.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Fjölskyldubætur eru greiddar þar til námsmaðurinn er orðinn 25 ára. Fjölskyldubætur nema 9.250 belgískum frönkum á mánuði með tveimur börnum, eða 19.670 ísl. kr.
    Skattafsláttur ef tekjur námsmannsins eru innan vissra marka, sem nemur 8.750 belgískum frönkum eða 18.607 ísl. kr.
    Lægri skólagjöld fyrir styrkþega.
    Lægri fargjöld í almenningsfarartækjum (námsmannafarmiðar).
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Þeir koma til greina en með takmörkunum. Námsmenn frá öðrum ESB-löndum mega sækja um styrk ef annað foreldrið starfar í Belgíu, eða um lán ef fjölskyldur þeirra (með minnst þrjú börn) eru búsettar í Belgíu.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Sjóðir, einkastofnanir og háskólar veita ýmsa aðra styrki.
     * Miðað er við gengi á belgískum franka 2,1266 ísl. kr. og á ECU 83,59 ísl. kr.
         

Belgía (flæmskumælandi svæði).


    

Skólagjöld.


    Skólar krefjast skólagjalda. Á skólaárinu 1992/93 innheimtu háskólar að hámarki 450 ECU í skólagjöld, þ.e. 37.500 ísl. kr.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Styrkir.
    Lög um fjárstuðning gera ráð fyrir lánum, en hingað til hefur ekki verið gefin út tilskipun um að hrinda því í framkvæmd.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega


    Skattskyldar atvinnutekjur og aðrar tekjur námsmanns og þeirra sem bera ábyrgð á framfæri hans.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    20,17% þeirra sem eru í námi í fullri lengd á háskólastigi og utan háskóla.
    27,19% þeirra sem eru í styttra námi utan háskóla. Meðaltalið er um 23%.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Stuðningfjárhæðin fer eftir:
    Tekjum námsmanns og foreldra.
    Hvort námsmaðurinn býr í foreldrahúsum.
    Vegalengd milli heimilis og skóla.
    

Upphæð fjárstuðnings.


    Stuðningurinn á að nægja fyrir uppihaldi og námskostnaði. Í reynd eru styrkir fremur lágir — mest 2.275 ECU á ári, þ.e. um 189.000 ísl. kr. á ári. Námsmenn í leiguhúsnæði fá 50-90.000 belgíska franka eða 105.000 til 189.000 kr. á ári og námsmenn sem búa í foreldrahúsum um 55.000 belgíska franka eða 116.000 ísl. kr. á ári í heildarstuðning.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Stuðningur til fulls náms erlendis er aðeins veittur á flæmskumælandi svæðinu ef sambærilegt nám stendur ekki til boða í Belgíu eða, undir ákveðnum kringumstæðum, ef fjölskylda námsmannsins býr erlendis. Námsmenn, sem sækja menntun til Hollands, mega nota styrkinn þar (GENT-áætlunin).
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Fjölskyldubætur eru greiddar þar til námsmaðurinn er orðinn 25 ára.
    Skattafsláttur ef börn eru við nám.
    Lægri skólagjöld fyrir styrkþega.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Námsmenn frá öðrum ESB-löndum mega sækja um styrk ef annað foreldrið starfar, eða hefur starfað, í Belgíu, eða ef þeir hafa búið með fjölskyldum sínum í Belgíu í minnst tvö ár.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Einkasjóðir og stofnanir veita styrki og lán. Háskólar veita sérstaka styrki til námsmanna sem taldir eru hafa afar bágar aðstæður.
     * Miðað er við gengi á belgískum franka 2,1266 og ECU 83,59 ísl. kr.
    
    

Þýskaland.


    

Skólagjöld.


    Engin skólagjöld eru greidd. Námsmenn greiða lítið framlag á hverju misseri í tryggingu. (Sozialgebühren).

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Samkvæmt Bundesausbildungsförderungsgesetz (BAföG) er blandað stuðningskerfi, með 50% styrk og 50% vaxtalausu láni. Lánið er að hámarki til 20 ára. Lágmarksársgreiðsla er 2.400 þýsk mörk eða um það bil 105.000 ísl. kr. Einungis er veitt aðstoð til að ljúka einni námsbraut (námsgráðu).
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Aldur: undir 30 ára við upphaf náms.
    Kröfur eru gerðar um námsárangur. BAföG-stuðningur er aðeins veittur í takmarkaðan tíma, og námsmenn verða að sýna fram á námsárangur. (Frá og með 5. misseri er styrkur því aðeins veittur að námsmaður sýni fram á að hann stundi námið á virkan hátt, sbr. BAföG, 48. gr.).
    Fjölskyldutekjur. Samkvæmt lögum er stuðningur tryggður ef námsmaðurinn hefur ekki efni á (tekjur til) að mæta framfærslukostnaði og námsgjöldum (aðallega í formi stuðnings frá foreldrunum).
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning samkvæmt BAföG.


    Árið 1992 hlutu 32% námsmanna í fyrrverandi Vestur-Þýskalandi og 90% námsmanna í fyrrverandi Austur-Þýskalandi stuðning. Foreldrar styðja 68% námsmanna í fyrrum Vestur-Þýskalandi.
    

Stuðningsfjárhæð er breytileg. Hún fer eftir:


    Tekjum námsmanns, maka hans og foreldra.
    Dvalarstað (hvort námsmaðurinn býr í foreldrahúsum eða ekki).
    Staðsetning skólans ( breytilegt eftir því hvort nám er stundað í Vestur- eða Austur- Þýskalandi eða erlendis).
    

Upphæð námsaðstoðar.


    Veita má stuðning sem nægir fyrir uppihaldi og námskostnaði. Mánaðarfamfærsla einstaklings í námi er áætluð 1.086 þýsk mörk eða um 47.500 ísl. kr. Hámarksstyrkur að viðbættu láni eru DM 870 á mánuði fyrir námsmenn í leiguhúsnæði eða um 38.053 ísl. kr. (sbr. sérstakan bækling um BAföG) og 640 DM eða sem svarar 27.993 ísl. kr. fyrir námsmenn í foreldrahúsnæði. Ekki er tekið tillit til barna á framfæri námsmanns í upphæð námsaðstoðar. Hins vegar geta námsmenn með börn á framfæri og fatlaðir námsmenn fengið lán í lengri tíma.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningurinn veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám


erlendis?


    Það er gert innan ákveðinna marka.
    BAföG-kerfið, sem er helsta stuðningskerfið, veitir fjárstuðning til náms erlendis ef námið telst gagnlegt. Stuðningur er yfirleitt veittur til eins árs. Styrkurinn er aukinn mismikið eftir því í hvaða landi námið fer fram.
    Aðrir styrkir standa námsmönnum til boða vegna náms erlendis. Slíka styrki veita Deutscher Akademischer Austauschdienst (DAAD), sjóðir sem styrkja sérstaklega efnilega námsmenn, og aðrar einkastofnanir. Slíkir styrkir eru veittir eingöngu á grundvelli námsárangurs. Þeir koma að hluta til í staðinn fyrir BAföG-stuðninginn, og eru veittir aðeins til eins árs.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Bætur eru greiddar til fjölskyldu námsmanns þar til námsmaðurinn er orðinn 27 ára.
    Skattafsláttur er veittur ef börn eru við nám.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Það er gert að takmörkuðu leyti.
    Námsmenn frá öðrum ESB-löndum mega hljóta stuðning samkvæmt BAföG, eða annan stuðning, ef þeir hafa starfað í Þýskalandi áður en þeir sækja um stuðning og bein tengsl eru milli starfsins og námsins sem þeir hyggjast sækja, eða foreldrar þeirra hafa nýtt sér rétt sinn um óheftan flutning fólks milli ESB-landa og börn þeirra eiga rétt á að dveljast áfram í Þýskalandi. Árið 1989 voru 13.000 erlendis námsmenn á styrkjum í Þýskalandi þar af 2.700 frá ESB löndum.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Opinberir sjóðir, einkasjóðir, stéttarfélög, stjórnmálaflokkar og kirkjur veita styrki, aðallega af almannafé, hæfustu námsmönnum.
    Styrkir eru veittir efnilegum námsmönnum, einkum til doktorsnáms.
    Styrkir eru veittir erlendum námsmönnum (DAAD-styrkir fyrir námsmönnum frá þróunarlöndum, og löndum Mið- og Austur-Evrópu. Í sumum tilvikum veita einnig stjórnmálahreyfingar styrki.)
    * Miðað er við gengi á þýsku marki 43,74 ísl. kr.
    

Grikkland.


    

Skólagjöld.


    Grískir námsmenn, og námsmenn frá löndum þar sem Grikkir eru undanþegnir námsgjöldum, greiða engin skólagjöld.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Fyrir 1992/93 voru veittir styrkir fyrir framhaldsnám (háð námsárangri), og vaxtalaus lán frá öðru námsári; þess var krafist að námsmenn stæðust 80% af prófum fyrra árs.
    Frá 1992/93 gildir blandað kerfi með styrkjum og lánum (50% styrkur, 50% vaxtalaus lán). Námsstyrkir eru veittir mjög hæfum nemendum miðað við námsárangur. Þeir námsmenn sem ná besta árangri hljóta námsstyrki, en fjöldi styrkþega á hverju sviði er takmarkaður.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Styrkir og lán.
    Fjöldi námsmanna á hverju sviði er takmarkaður.
    Fjölskyldutekjur.
    Kröfur eru gerðar varðandi námsárangur.
    Vegalengd milli heimilis og skóla.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    7%.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Breytileg (einkum eftir námsárangri).
    

Upphæð námsaðstoðar.


    Styrkir og lán: 563 ECU á námsmann á ári, eða 46.900 ísl. kr. Námsstyrkir eru breytilegir eftir afköstum. Bestu námsmenn hljóta 750 ECU (62.500 ísl. kr.) á ári í námsstyrk. Námsmenn í næstbesta flokki fá 563 ECU styrk og námsmenn í þriðja flokki hljóta breytilegar fjárhæðir eftir fjölda námsmanna í deildinni.
    Framhaldsnám: Frá og með 1993 verður stuðningurinn föst fjárhæð, 263 ECU á mánuði eða um 22.000 ísl. kr. Ekki er tekið tillit til barna á framfæri námsmanns.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningurinn veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám


erlendis?


    Stuðningur er ekki veittur til þess.
    Engin opinber stuðningur er veittur til náms erlendis til fyrstu háskólagráðu.
    Styrkir til framhaldsnáms; styrkurinn nægir fyrir öllum kostnaði námsmanns.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Ókeypis læknisþjónusta.
    Ókeypis námsgögn og prófgögn.
    25%–50% afsláttur af fargjöldum almenningsfarartækja.
    Fjölskyldubætur greiddar áfram vegna barna sem stunda nám.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Það er gert en aðeins að takmörkuðu leyti.
    Ekki virðist sem þeir eigi aðgang að hinu opinbera stuðningskerfi (fjöldi styrkja fyrir Grikki er þegar mjög takmarkaður).
    Hins vegar veitir Grikkland styrki til 10–20 mánaða fyrir námsmenn frá 35 löndum víða um heim, þar á meðal ESB-löndum, að Lúxemborg og Hollandi undanskildum. Þeir sem hafa háskólagráðu frá löndum sem eiga aðild að Evrópuráðinu mega einnig sækja um styrk til að semja doktorsritgerð í Grikklandi.
    Háskólinn í Aþenu rekur eigið stuðningskerfi; erlendir námsmenn mega sækja þangað um stuðning.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Háskólinn í Aþenu hefur eigin sjóð sem nota má til að veita grískum og erlendum námsmönnum stuðning.
     * Miðað er við gengi á grískri drökmu 0,2878 og ECU 83,59 ísl. kr.
    

Spánn.


    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru greidd. Undanþágu má veita námsmönnum sem þiggja styrki, námsmönnum með stórar fjölskyldur og einnig sérstaklega efnilegum námsmönnum.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    „Almennir“ styrkir fyrir alla námsmenn á háskólastigi.
    Styrkir fyrir nám jafnhliða starfi, og styrkir fyrir þá sem vinna sem aðstoðarkennarar á síðustu tveimur árum náms sem stendur í fimm eða sex ár, eða á þriðja ári þriggja ára náms.

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Hvort styrkur er veittur fer eftir:
    Fjölskyldutekjum.
    Námsárangri námsmanns (kröfur eru breytilegar eftir námssviði, háskóla o.s.frv.).
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    Um 20% allra námsmanna hljóta opinberan stuðning.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Stuðningsfjárhæðin fer eftir:
    Fjölskyldutekjum.
    Dvalarstað (vegalengd milli heimilis og skóla).
    Auk þess gilda strangar reglur um námsframvindu.
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Á skólaárinu 1991/92 var hámarksstyrkur 476.000 pesetar eða 247.000 ísl. kr. yfir árið. Framfærsla hefur verið áætluð frá 40–50.000 pesetar á mánuði. Sérstakt tillit er ekki tekið til framfærslu barna.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Það er ekki gert nema vegna framhaldsnáms.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Styrkþegar greiða ekki skólagjöld.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Styrkir eru ekki veittir til þeirra nema gagnkvæm réttindi séu veitt.
    Strangt tekið eiga námsmenn frá öðrum ESB-löndum ekki rétt á fjárstuðningi frá spænska ríkinu. Hins vegar eru í gildi tvíhliðasamningar, en samkvæmt þeim koma nokkrir námsmenn til greina sem styrkþegar, einkum á framhaldsstigi.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Héruðin og háskólarnir sjálfir veita margs konar styrki. Þess er þó gætt að námsmenn njóti ekki aðstoðar nema frá einum aðila.
     * Miðað er við gengi peseta 0.5283 ísl. kr.
    

Frakkland.


    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru greidd en þau eru lág í háskólum. Hærri gjöld eru innheimt í „grandes écoles“ og mjög há gjöld í einkareknum „grandes écoles“. Námsmenn sem hljóta styrki eru undanþegnir gjöldum í hinu ríkisrekna menntakerfi.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Styrkir, háð fjárhag námsmanns.
    Margs konar aðrir styrkir og lán, háð fjárhag námsmanns eða tegund náms, einkum:
    Sérstakir styrkir til einstaklinga“ (aides individuelles exceptionnelles — AIE) sem fræðslustjóri umdæmisins (Recteur d'Academie) getur veitt námsmönnum ef tekjur foreldranna eru aðeins lítið yfir mörkum sem gilda fyrir styrkveitingu, eða námsmönnum sem er gert að endurtaka námsár en þykja eiga stuðning sérstaklega skilið.
    Lán (prêts d'honneur): vaxtalaus lán sem veitast miðað tekjur og ætluð eru námsmönnum sem ekki koma til greina sem styrkþegar (1.240 ECU að meðaltali, eða 103.652 ísl. kr.). Lánin eru veitt til 10 ára.
    Styrkir tengdir opinberri vinnuskyldu: námsmennirnir skuldbinda sig til að vinna hjá hinu opinbera í fimm ár ef þeir reynast hæfir í opnum prófum til að gegna opinberum embættum.
    Frá og með árinu 1992–93 eru í boði bankalán með 50% ríkisábyrgð. Lánin eru veitt í þrjú ár og geta numið 13.000 frönskum frönkum eða 166.413 ísl. kr.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Hvort styrkur er veittur fer eftir:
    Aldri: námsmaðurinn verður að vera yngri en 26 ára við upphaf náms.
    Fjölskyldutekjum og fjölda manna á framfæri námsmanns (viðmiðunin er fremur lág).
    Námsárangri námsmanns; sé námsmanni gert að endurtaka námsár fellur styrkveitingin niður.
    Vaxtalaus lán:
    Námsmenn, sem eiga ekki aðgang að öðrum fjárstuðningi, geta tekið vaxtalaus lán sem nefnd á vegum viðkomandi Académie veitir; nefndirnar setja sér reglur um úthlutun.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    Árið 1992–93 hlutu 18% námsmanna, sem voru skráðir í menntastofnunum undir umsjá Menntamálaráðuneytis (háskólastig), styrk frá því ráðuneyti.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Hún er breytileg og fer eftir tekjum og skuldbindingum námsmanns eða fjölskyldu hans (fjölda barna á framfæri, vegalengd milli heimilis og skóla, fötlun, o.s.frv.).
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Upphæðirnar eru fremur lágar (hæst 2.807 ECU (233.000 ísl. kr.) á ári 1993–94) þegar styrkir eru veittir með tilliti til fjárhags námsmanns. Styrkir, sem veittir eru miðað við námsárangur, eru hærri (3.070 og 3.320 ECU). Stuðningurinn á að nægja fyrir öllum nauðsynlegum útgjöldum þegar námsmaður stundar nám á háskólastigi í eitt skólaár (9 mánuði).
    Framfærsla er áætluð 4.200 franskir frankar í París, þ.e. 54.200 ísl. kr. en 3.880 franskir frankar annars staðar í landinu (49.000 ísl. kr.).
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Stuðningur er veittur vegna náms í öðru ESB-ríki. Sömu styrkir eru veittir, og háð sömu skilyrðum, og veittir eru vegna náms í Frakklandi.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Skattafsláttur til 25 ára aldurs ef barn stundar nám.
    Styrkir sem Recteur d'Academie veitir til að mæta kostnaði vegna starfs sem er hluti af háskólanámi, þ.m.t. ferðakostnaði.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Þeir koma til greina en að takmörkuðu leyti.
    Einhleypir námsmenn frá öðrum ESB-löndum mega sækja um styrki ef:
    Þeir hafa starfað fastráðnir í fullu eða hálfu starfi í Frakklandi í tvö ár, eða annað foreldrið starfar, eða hefur starfað, í Frakklandi, eða var búsett í Frakklandi 1. október á næstliðnu ári.
    Giftur námsmaður (ríkisborgari í einhverju ESB-landi, eða ríkisborgari í þriðja landi, en annað foreldri hans er ríkisborgari í ESB-landi) má sækja um styrk ef: Maki hans, sem er franskur ríkisborgari, þénar mánaðarlaun sem eru minnst jöfn ríkistryggðum lágmarkslaunum (salaire minimum interprofessionnel de croissance, SMIC).
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Óreglubundnar bætur sem sveitarstjórnir (héruð, départements og bæjarfélög greiða).
    Styrkir sem fyrirtæki og sjóðir veita.
     * Miðað er við gengi á frönskum franka 12,801 ísl. kr. og ECU 83,59 ísl. kr.
    

Írland.


    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru innheimt. Námsmenn geta látið meta skólagjöld sem þeir greiða (í heild eða að hluta) með tilliti til fjölskyldutekna eða (frá og með skólaárinu 1993/1994) til eigin tekna, sé um eldri námsmenn að ræða. Menntamálaráðuneytið endurgreiðir slík gjöld til sveitarstjórna (sýslustjórna og bæjarstjórna), sem greiða þau beint til menntastofnana.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    a) Styrkir samkvæmt styrkveitingakerfi til háskólanáms.
    b) Lán með vöxtum, sem helstu bankar veita á seinni stigum náms.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Aldur námsmanns: lágmarksaldur er 17 ára.
    Námsmaðurinn verður að hafa náð Higher Leaving Certificate–prófi (lokaprófi úr framhaldsskóla).
    Styrkir eru veittir vegna fulls náms.
    Námsárangri námsmanns í menntaskóla (árangri í lokaprófi úr framhaldsskóla). Engar frekari kröfur eru gerðar hvað varðar námsárangur.
    Fjölskyldutekjur.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    Um 34%.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Stuðningsfjárhæðin fer eftir:
    Dvalarstað námsmanns,
    Tekjum námsmanns, foreldra hans og maka,
    Fölskyldustærð.
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Framfærslu- og ferðakostnaði. Hámarksstyrkur er nú 1.811 ECU (150.000 ísl. kr.) til „fjarstaddra“ námsmanna sem búa meira en 24 km frá skóla og 722 ECU (60.000 ísl. kr.) til „nærstaddra“, sem búa innan 24 km frá skóla. Hámarksstyrkur vegna námsgjalda er yfirleitt 2.480 ECU (206.500 ísl. kr.) en fjárhæðin tekur allmiklum breytingum eftir því um hvað nám er að ræða.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Tilfærsla er ekki fyrir hendi nema e.t.v. fyrir stutta námsdvöl erlendis.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Skólagjöld eru lækkuð eða felld niður.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Svo er ekki.
    Yfirleitt eiga námsmenn frá öðrum ESB-löndum ekki rétt á fjárstuðningi frá hinu írska lánskerfi fyrir háskólamenntun.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Hver háskóli veitir eigin styrki.
     * Miðað er við gengi á írsku pundi 105,54 ísl. kr. og ECU 83,59 ísl. kr.

Ítalía.


Skólagjöld.


    Skólagjöld eru greidd og skattar til sveitarstjórna. Styrkþegar eru undanþegnir skólagjöldum.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    a) Styrkir sem fara eftir fjárhag námsmanns.
    b) Námsstyrkir sem veittir eru samkvæmt námsárangri eða fjárhag námsmanns.
    c) Aðrir styrkir sem eru ætlaðir til að laða námsmenn að minni háskólum.
    d) „Prestito d'onore“: lán með lágum vöxtum sem veitt eru á vissum svæðum fyrir             sérhæft nám og til undirbúnings ritgerðar. Endurgreiðslu þessara lána geta numið allt að 20% af tekjum.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Styrkir.
    Fjölskyldutekjur.
    Námsmenn verða að ná prófi í árslok.
    Námsstyrkir (á grundvelli námsárangurs).
    Veittir eftir opna samkeppni efnialitlum námsmönnum sem ekki koma til greina við aðra fjárhagsaðstoð.
    Aðstoð er veitt í hámark fjögur til sex ár.

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    2,5%. Námsmenn, sem eiga aðgang að [öðrum] stuðningi, koma ekki til greina, þar sem fjöldi styrkja er mjög takmarkaður.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Stuðningsfjárhæðin fer eftir:
    Héraði (héraðsstjórnir sjá um að veita styrkina).
    Dvalarstað námsmanns.
    Tekjum foreldranna.
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Meðalstyrkur er 551 ECU á ári (46.058 ísl. kr.).
    Framfærslukostnaður er áætlaður 441 ECU á mánuði (36.863 ísl. kr).
    Styrkurinn nægir því alls ekki fyrir kostnaði.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningurinn veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám


erlendis?


    Svo er ekki.
    Enginn stuðningur er veittur til fulls náms erlendis. Einkasjóðir og stofnanir bjóða styrki til þess. Einnig eru til námsstyrkir sem háskólarnir veita til framhaldsnáms erlendis.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Í sumum héruðum eru veitt afsláttargjöld í almenningsfarartæki.
    Fjölskyldubætur greiddar til 26 ára aldurs ef börn eru enn við nám.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Að takmörkuðu leyti.
    Skilyrði: að foreldrar starfi, eða hafa starfað, á Ítalíu.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Styrkir úr einkasjóðum og stofnunum til náms erlendis.
    Aðrir svæðisbundnir styrkir.
    Styrkir til erlendra námsmanna, sem utanríkisráðuneytið veitir.
    * Miðað er við gengi á ítalskri líru 0,04334 ísl. kr. og ECU 83,59 ísl. kr.
    
    

Lúxemborg.


    

Skólagjöld.


    Engin skólagjöld eru greidd.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Blandað kerfi. Stuðningurinn er í tvennu lagi: styrkur og lán með vöxtum.
    Styrkurinn er breytilegur en getur numið allt að 50% ef um stórar og tekjulitlar fjölskyldur er að ræða. Hámarksstuðningstími er fimm til sjö ár.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Tekjur foreldranna og námsmanns (til ákvörðunar um fjárhæð styrksins).
    Engar kröfur eru gerðar um námsárangur.
    Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.
    80%.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Hún fer eftir:
    Fjárhag námsmanns eða foreldra hans.
    Upphæð skólagjalda sem greidd eru erlendis (uppbót), vegna skólagjalda umfram 5.000 LFR. eða 10.633 ísl. kr.
    Hvort námsmaðurinn er við nám í Lúxemborg (á fyrsta ári) eða erlendis.
    Hvort námsmaðurinn hefur börn á framfæri.
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Skólagjöldum erlendis, húsnæði, fæði og öðrum kostnaði.
    Hámarksaðstoð í heild fyrir öðru en skólagjöldum er 13.000 þýsk mörk á ári eða 568.620 ísl. kr.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Stuðningur er veittur til náms erlendis.
    Þar sem heilt nám á háskólastigi býðst ekki í Lúxemborg verða námsmenn að ljúka háskólamenntun sinni erlendis og full tilfærsla gildir um styrkina. Fari skólagjöld í erlendum háskóla upp fyrir ákveðin mörk greiðir Lúxemborgarríkið mismuninn.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Fjölskyldubætur greiddar þar til barn er orðið 25 ára, en til 27 ára aldurs ef það er við nám. Bæturnar nema 1400 þýskum mörkum á ári fyrir eitt barn eða 61.236 ísl. kr.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Að takmörkuðu leyti.
    Námsmenn frá öðrum ESB-ríkjum koma til greina til þess að þiggja beinan stuðning ef þeir eru búsettir í Lúxemborg.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Styrkir til framhaldsnáms, styrkir úr einkasjóðum og stofnunum, styrkir frá sveitarstjórnum eða erlendum ríkjum samkvæmt tvíhliðasamningum.
     * Miðað er við gengi LBF 2,1266 ísl. kr. og ECU 58,58 kr.
    
    

Holland.


    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru innheimt.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    Grunnstyrkir til allra námsmanna.
    Auk þess eru veitt lán sem bera vexti sem eru um það bil hálfu prósenti yfir markaðsvöxtum.
    Viðbótarstyrkir ef sýnt þykir að foreldrar geta ekkert aðstoðað námsmann.
    Hámarksstuðningstími er fimm ár. Eftir þann tíma er möguleiki á viðbótarstuðningi í formi láns í tvö ár.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Námsmaður verður að vera orðinn 18 ára og má ekki vera eldri en 26 ára.
    Fullt nám.
    Engar kröfur eru gerðar um námsárangur.
    Grunnstyrkurinn er veittur án tillits til tekna foreldranna.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    Engar tölfræðilegar upplýsingar liggja fyrir, en hlutfallið er talið nálægt 100% vegna grunnstyrksins.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Hún fer eftir:
    Dvalarstað (hvort námsmaðurinn býr í föðurhúsum eða ekki).
    Fjárhag foreldra og tekjum námsmanns (styrkurinn er lækkaður ef tekjur fara upp fyrir ákveðin mörk).
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Framfærslu, námsgögnum og skólagjöldum.
    Í Hollandi er miðað við að grunnstyrkurinn nægi fyrir um helmingi fjárþarfa námsmanns; af þessum sökum stendur námsmönnum viðbótarstuðningur til boða.
    Til námsmanns í leiguhúsnæði er grunnstyrkur 570 hollensk gyllini eða 22.200 ísl. kr. á mánuði. Við það bætist hámarkslán 310 hollensk gyllini fyrir háskólastúdenta eða 12.000 á mánuði og í ákveðnum tilfellum viðbótarstyrkur sem nemur um 254 gyllinum eða 9.900 ísl. kr. á mánuði, þ.e. ef foreldrar geta ekki stutt námsmann.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    a) Samningar eru í gildi við flæmsk stjórnvöld í Belgíu og stjórnvöld í Norður-Rín-Westphalen í Þýskalandi. Frá og með árinu 1993/94 eiga námsmenn rétt á styrkjum til náms á þessum svæðum. Samningar þessir eru til reynslu og hyggjast stjórnvöld færa út svipaðar heimildir til annarra svæða.
    b) Aðrir styrkir fást fyrir námsdvöl erlendis, einkum samkvæmt STIR (Stimuleringsprogramma voor internationalisering van het hoger onderwijs), sem er áætlun sem hleypt var af stokkunum árið 1988–89 til að stuðla að því að fólk færi til náms erlendis.
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Kort sem gildir fyrir ókeypis ferðir í öllum almenningsfarartækjum.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Að takmörkuðu leyti.
    Ríkisborgarar annarra landa koma til greina fyrir grunnstyrkinn ef þeir eru yngri en 23 ára og:
    Hafa ótakmarkað landvistarleyfi, eða
    foreldrar þeirra hafa búið í Hollandi í þrjú ár samfleytt, eða
    annað foreldrið hefur/hafði hollenskt ríkisfang, er fætt í Hollandi og hefur búið þar í samtals 15 ár, eða
    annað foreldrið býr og starfar eða hefur starfað í Hollandi og er ríkisborgari annars ESB-ríkis eða fyrrverandi Júgóslavíu, Marokkó, Túnis, Svíþjóðar eða Noregs, eða
    þeir eru munaðarlausir, giftir eða eldri en 21 árs og hafa búið í Hollandi í minnst þrjú ár með landvistarleyfi.
    Frá og með árinu 1992/93 verða skólagjöld námsmanna frá öðrum ESB-ríkjum, sem koma til Hollands til að stunda fullt nám, endurgreitt á sama grundvelli og skólagjöld heimamanna samkvæmt ESB-reglugerð nr. 1612/68 um frjálsan flutning launamanna innan ESB, sem kveður á um jafna stöðu ríkisborgara ESB-landa hvað varðar aðgang að menntun.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Takmarkaður fjöldi styrkja fyrir erlenda námsmenn (samkvæmt tvíhliðasamningum).
     * Miðað er við gengi á hollensku gyllini, HFL, 39,020 ísl. kr. og ECU 83,59 kr.
    
    

Bretland.


         Helstu fjárstuðningskerfi fyrir námsmenn eru á vegum stjórnvalda í hinum ýmsu fræðsluumdæmum (fræðsluskrifstofa í Englandi og Wales, menntamáladeild (Education Department) innan Scottish Office og menntamáladeild Norður Írlands), en viðmiðanir eru yfirleitt þær sömu hvarvetna í Bretlandi.
    

Skólagjöld.


    Skólagjöld eru innheimt fyrir allt nám á háskólastigi; hver menntastofnun ákveður sín gjöld.
    Viðkomandi sveitarstjórn greiðir gjöld beint til viðkomandi stofnunar vegna námsmanna sem hljóta styrk, án tillits til tekna foreldranna. Gjöldin eru greidd að fullu samkvæmt ákvörðun um hámark sem innanríkisráðherra (Secretary of State) tekur.
    

Helstu tegundir fjárstuðnings.


    a) Grunnstyrkir sem viðkomandi fræðsluskrifstofa veitir. Grunnstyrkir eru einungis veittir til einnar námsbrautar (námsgráðu).
    b) Lán (síðan 1990/91). Lánin eru aðeins veitt til námsmanna í grunnháskólanámi („undergraduate“ námi). Þau eru verðtryggð en vaxtalaus og greiðast upp á 5–7 árum. Stefnt er að því að hlutfall milli lána og styrkja verði 50%.
    c) Sjóðir sem veita stuðning efnalitlum námsmönnum.
    

Viðmiðanir við mat á hæfi manna sem stuðningsþega.


    Allir námsmenn eiga rétt á styrk og láni hafi þeir verið búsettir í Bretlandi í öðrum tilgangi en vegna náms, í þrjú ár áður en námið hefst. Þess er krafist að þeir stundi viðurkennt, fullt nám á háskólastigi (ekki framhaldsnám) eða grunnnám til kennararéttinda.
    Viðbótarskilyrði fyrir stuðningsveitingu (sem metin eru á hverju ári):
    a) Vegna grunnstyrks:
    Fjölskyldutekjur. Þær mega ekki fara yfir sem svarar 1,3 millj. ísl. kr. þá hafa þær áhrif á námsaðstoð.
    Námsárangur.
    b) Lán eru óháð tekjum námsmanns en veitast aðeins námsmönnum yngri en 50 ára.
    

Hlutfall nemenda sem hljóta stuðning.


    Í Englandi og Wales:
    Árið 1989–90 hlutu 76% námsmanna styrk.
    Árið 1990–91 hlutu 76% námsmanna styrk, og 28% þeirra sem rétt áttu tóku lán.
    Árið 1991–92 tóku 36% þeirra sem rétt áttu lán.
    Í Skotlandi
    Árið 1991–92 hlutu 73,6% námsmanna styrk, og 37% þeirra sem hæfir töldust tóku lán.
    

Er stuðningsfjárhæðin breytileg? Eftir hverju fer hún?


    Hámarksstyrkur er hinn sami fyrir allar menntastofnanir í Bretlandi, en fjárhæðin sem greidd er út til námsmanns er breytileg og fer eftir:
    Tekjum foreldranna og/eða námsmanns, og
    Dvalarstað námsmanns (í London eða annars staðar; í foreldrahúsum eða annars staðar).
    Lánsfjárhæð fer eftir námsári (hún er lægri á síðasta ári náms) og dvalarstað námsmanns, en er óháð fjölskyldutekjum.
    

Fyrir hvaða kostnaðarliðum á stuðningurinn að nægja?


    Framfærslu (húsnæði og fæði), ferðakostnaði, einhverjum bókum og námsgögnum.
    Hámarksstyrkur á hverju ári 1992/1993 var um 3.356 ECU (280.000 ísl. kr.) (miðað við að námsmaðurinn byggi í London og ekki í foreldrahúsum). Annars staðar hámark 240.00 ísl. kr. Framfærsla í London er talin 475 bresk pund eða um 50.000 ísl. kr. og 375 annars staðar í Bretlandi eða um 40.000 ísl. kr. Hámarkslán á námsárinu 1991–92 var 660 bresk pund eða 70.613 ísl. kr. miðað við að námsmaður búi í London en ekki í leiguhúsnæði. Annars staðar er hámarkið 580 pund eða 62.054 ísl. kr. á ári. Fyrir námsmenn í foreldrahúsum er hámarkið 460 pund eða 49.215 ísl. kr. á ári.
    

Tilfærsla: Er fjárstuðningur veittur svo að námsmenn geti stundað fullt nám erlendis?


    Svo er ekki.
    Hvorki styrkir né lán eru veitt vegna fulls náms erlendis.
    Hins vegar má veita námsmönnum, sem samkvæmt námsskrá sinni er gert að dveljast minnst eina önn í öðru landi, styrk fyrir þetta tímabil, en fjárhæðin fer eftir viðkomandi landi.
    Utanríkisráðuneytið (Foreign and Commonwealth Office) og British Council veita einnig styrki til náms erlendis.
    Námsmenn, sem stunda nám eða starfa utan Bretlands í eitt skólaár sem hluta af háskólanámi sínu, geta átt rétt á láni.
    Námsmönnum, sem sækja um að stunda nám við menntastofnun á háskólastigi á Írlandi, má veita fjárstuðning, en ákvörðunin er komin undir viðkomandi fræðsluskrifstofu, og veitingin er ekki sjálfsögð. (Námsmenn eiga ekki rétt á fjárstuðningi til náms á Írlandi og því telst slíkt ekki til „tilfærslu“ innan ESB.)
    

Aðrar félagslegar bætur.


    Viðkomandi sveitarstjórn greiðir skólagjöld vegna námsmanna, sem hljóta styrk, beint til viðkomandi stofnunar.
    Í sumum tilvikum má veita viðbótarstyrk vegna ferðakostnaðar.
    Foreldrum eru aðeins greiddar fjölskyldubætur vegna barna innan 18 ára.
    

Koma námsmenn frá öðrum ESB-löndum til greina sem stuðningsþegar?


    Að takmörkuðu leyti.
    Endurgreiðsla til námsmanna sem uppfylla eftirfarandi skilyrði nær aðeins til skólagjalda.
    Þeir verða að hafa verið búsettir í Bretlandi í öðrum tilgangi en aðallega vegna náms, í þrjú ár áður en námið hefst,
    Þeir verða að stunda viðurkennt, fullt nám á háskólastigi, og
    Þeir mega ekki hafa hlotið styrk frá fræðsluskrifstofu umdæmis (í Englandi, Wales eða Skotlandi), frá menntamála- og bókasafnsráði (Education and Library Board) (á Norður-Írlandi) eða frá menntamáladeild (Education Department) innan Scottish Office, menntamáladeild Norður Írlands eða heilbrigðisráðuneytinu.
    Farandverkamenn frá öðru ESB-ríki og börn þeirra geta einnig átt rétt á styrk eða láni ef þeir stunda stuðningshæft nám og uppfylla skilyrðin sem stuðningsþegar að öðru leyti.
    Námsmenn frá öðrum ESB-ríkjum sem fá skólagjöld endurgreidd koma þó ekki til greina sem lánþegar.
    

Aðrir styrkir, lán og niðurgreiðslur.


    Einkasjóðir, iðnfyrirtæki, herinn, menntasjóðir og styrktarsjóðir veita aðra styrki fyrir einstaklinga, og bankastofnanir veita lán til náms.
     * Miðað er við gengi á bresku pundi, GBP, 106,99 og ECU 83,59 ísl. kr.