Ferill 589. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 589 . mál.


1332. Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um Jarðasjóð ríkisins.

    Hversu margar jarðir hefur Jarðasjóður ríkisins keypt á síðustu þremur árum? Hvaða jarðir eru það, sundurliðað eftir árum?
    Árin 1994,1995 og 1996 keypti Jarðasjóður átta jarðir. Tekið skal fram að árið 1994 var engin jörð keypt en einu sveitarfélagi var lánað úr sjóðnum vegna jarðakaupa, sbr. heimild í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 34/1992. Keyptar jarðir eru eftirfarandi og er kaupárs getið í sviga:
         
    
    Eyjar, Breiðdalshreppi, Suður-Múlasýslu (1995).
         
    
    Heiði, Skútustaðahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu (1995).
         
    
    Hæringsstaðir, Svarfaðardalshreppi, Eyjafjarðarsýslu (1995).
         
    
    Hjarðarhvoll, Hjaltastaðahreppi, Norður-Múlasýslu (1995).
         
    
    Hamrar, Reykdælahreppi, Suður-Þingeyjarsýslu (1996).
         
    
    Svínhóll, Dalabyggð, Dalasýslu (1996).
         
    
    Hreiðarsstaðir, Svarfaðardalshreppi, Eyjafjarðarsýslu (1996).
         
    
    Ytri-Lyngar II, Skaftárhreppi, Vestur-Skaftafellssýslu (1996).

    Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til jarðakaupa á síðustu þremur árum, sundurliðað eftir árum?

Ár

Millj. kr.



1994          
0
,0
1995          
32
,9
1996          
41
,7


    Hversu margar jarðir hefur sjóðurinn keypt á árinu 1997, hvaða jarðir er um að ræða og hvað var greitt fyrir hverja þeirra? Hve margar jarðir hefur sjóðurinn selt og á hvaða verði?
    Á þessu ári hefur Jarðasjóður ekki keypt neina jörð en í undirbúningi eru kaup á fimm jörðum og verða samningar vegna tveggja undirritaðir á næstu dögum. Ekki þykir rétt að nafngreina þær jarðir sem hér um ræðir, af tillitssemi við þá aðila sem eiga hlut að máli, fyrr en samningar hafa verið undirritaðir. Jarðasjóður hefur ekki selt jörð það sem af er þessu ári.

    Hversu margar beiðnir um jarðakaup eru nú hjá sjóðnum? Hvaða jarðir er um að ræða?
    Auk þeirra fimm jarða sem þegar hefur verið ákveðið að kaupa á þessu ári, náist samkomulag um verð og greiðslukjör, bíða afgreiðslu erindi tveggja jarðeigenda um að sjóðurinn kaupi jarðir þeirra. Ekki þykir rétt að nafngreina þær jarðir sem um er að ræða af sömu ástæðu og greinir í svari við 3. spurningu. Dreifing jarða milli sveitarfélaga er eftirfarandi:

Sveitarfélag

Fjöldi jarða

    

Reykhólahreppur     
1

Mýrahreppur     
1

Þverárhreppur     
1

Skriðuhreppur     
1

Fljótahreppur     
1

Skeggjastaðahreppur     
2


    Rétt er að fram komi að 18. apríl 1997 synjaði ráðuneytið sex aðilum um jarðakaup vegna skorts á fjármagni á þessu ári. Þeim aðilum var bent á að endurnýja beiðni sína á næsta ári.

    Eru jarðir í eigu sjóðsins í útleigu með eða án kvóta? Er mjólkur- eða sauðfjárkvóti í eigu sjóðsins?
    Framleiðsluréttur í mjólk og sauðfé er bundinn jörðum. Sé framleiðsluréttur til staðar á jarðeignum sjóðsins fylgir hann jörðinni.

    Eftir hvaða reglum er farið þegar ákvarðað er um jarðakaup af hálfu sjóðsins?
    Jarðasjóður ríkisins er starfræktur samkvæmt lögum nr. 34/1992. Ekki er við aðrar skráðar reglur að styðjast. Fram til þessa hefur sjóðurinn getað keypt þær jarðir sem óskað hefur verið eftir að sjóðurinn kaupi. Á því hefur nú orðið breyting vegna mjög aukinnar eftirspurnar. Tekið skal fram að erindi vegna þeirra jarða sem áformað er að kaupa á þessu ári bárust á árunum 1995 og 1996 þannig að þau hafa verið afgreidd í tímaröð.

    Hvaða áætlanir eru um framhald jarðakaupa af hálfu sjóðsins?
    Fjármagn, sem sjóðurinn hefur til að kaupa jarðir, er mjög takmarkað. Á árinu 1995 jókst mjög eftirspurn eftir aðstoð sjóðsins. Það má m.a. rekja til ákvæða í búvörusamningi ríkisins og Bændasamtakanna sem gerir ráð fyrir að framleiðendur, sem hætta sauðfjárbúskap og geta ekki selt jarðir sínar á frjálsum markaði, eigi þess kost að Jarðasjóður ríkisins kaupi jarðirnar. Eins og áður er fram komið hefur erindum til sjóðsins fjölgað mjög á síðustu tveimur árum. Óvíst er hvort framhald verður á því. Sjóðurinn getur þannig ekki fyrir fram gert áætlun um jarðakaup, en reynt er að verða við þeim erindum sem berast sjóðnum og hefur það gengið eftir að yfirstandandi ári undanskildu.