Aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna

Miðvikudaginn 11. febrúar 1998, kl. 15:00:08 (3674)

1998-02-11 15:00:08# 122. lþ. 64.4 fundur 412. mál: #A aðgerðir vegna atvinnuleysis kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 64. fundur

[15:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Borgar sig að vinna? Það er spurningin. Ég kannaði hvað borgað væri í eldhúsinu á Landspítalanum. Þar standa þessum konum til boða 80--90 þús. kr. Atvinnuleysisbæturnar eru rétt um 60 þús. Kannski eru þær orðnar rúm 60 þús. núna. Ferðakostnaður fyrir þessar konur er ekki mikill afráði þær að hefja störf á Landspítalanum en hugmyndin er sú að reyna að fá hóp, borga fleirum en ráðnar eru, leyfa þeim að reyna við þetta og vita hvort þær kunna ekki við starfið.

Einn þátturinn í þessu er sá að ásókn er mikil í skrifstofustörf. Konur biðja um skrifstofustörf og vilja síður taka umönnunarstörf, matreiðslu, ræstingar og þess háttar. Þær sækja fyrst og fremst í þetta og að tala um að þær fari í fisk, þýðir ekkert við töluverðan hóp af þeim. Fjórðungur þeirra útlendinga sem við veitum atvinnuleyfi er hér í Reykjavík. Þeir eru ekki allir í fiski vestur á fjörðum þó þar sé töluverður hópur og útlendingar orðinn mikill þáttur í atvinnulífinu á Vestfjörðum.

Það er alveg rétt að eldra fólki er mismunað á vinnumarkaði og það er mjög ósanngjarnt. Við höfum gripið til sérstakra ráðstafana. Hv. þm. spurði hvort ég hefði gert tilraun í ríkisstjórninni til að fá viðbótarframlag til atvinnumála. Ég hef rekið þá pólitík, og geri það með góðri samvisku, að þeir peningar sem ég get herjað út skuli ganga til fatlaða geirans fremur en til annars. Við reynum að bjarga hinu með öðrum hætti. Ef ég hefði meiri fjárráð mundi ég fyrst og fremst verja þeim til málefna fatlaðra. (JóhS: Það er sem sagt engin tilraun hjá ríkisstjórninni til að bæta stöðu kvenna.) Endalausar tilraunir og bera væntanlega árangur.