Kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 14:21:59 (4845)

1998-03-18 14:21:59# 122. lþ. 90.6 fundur 516. mál: #A kjör og staða fólks er stundar nám fjarri heimabyggð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JónK
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[14:21]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þörfu máli. Aðstaða til náms skiptir sköpum í byggðaþróun. Á undanförnum árum hefur skilningurinn vaxið á því að jafna þurfi þessa aðstöðu. M.a. voru styrkir á fjárlögum hækkaðir í því skyni um 40% á yfirstandandi ári. Þeir voru hækkaðir lítillega á árinu þar á undan en það verður að halda áfram á sömu braut til frekari jöfnunar.

Ég vil undirstrika að nauðsynlegt er að hlutlæg úttekt fari fram á þessum málum. Ef Hagfræðistofnun háskólans á að gera þetta hef ég út af fyrir sig ekki athugasemdir við það. Þó er nauðsynlegt að hún leiti fanga sem víðast og geri vandaða úttekt á réttindum nemenda sem stunda nám fjarri heimabyggð. Réttindakaflinn í þessu skiptir miklu máli.