Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 12:11:58 (6571)

1998-05-13 12:11:58# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[12:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með þessari grein er því slegið föstu að eignarlandi skuli fylgja eignarréttur á auðlindum í jörðu. Þegar svo litið er til skilgreiningar á hugtakinu ,,auðlind`` í 1. gr. frv. þá er þar talið upp að með ,,auðlind`` í lögum þessum sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna megi úr jörðu í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við.

Hér sömuleiðis, herra forseti, hafa höfundar frv. af ótrúlegri hugkvæmni geirneglt það svo rækilega sem nokkur kostur er, að séð verður, að eignarlandinu skuli fylgja eignarréttur að öllum sköpuðum hlutum. Hér er sem sagt slegið fram fortakslausum og ótakmörkuðum einkaeignarrétti landeigandans á öllu sem á og í og undir landinu geti orðið. Ég tel að þessi lagasetning, herra forseti, sé hneyksli, hún sé stórfellt afsal á rétti þjóðarinnar og almennings í landinu til þess að fá a.m.k. að njóta vafans og sé stórkostleg röskun á þeirri réttarstöðu sem ríkt hefur hingað til. Ég mótmæli mjög harðlega lagasetningunni, herra forseti, og segi nei.