Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 03. júní 1998, kl. 11:24:49 (7361)

1998-06-03 11:24:49# 122. lþ. 142.5 fundur 553. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall fyrirtækja, arðgreiðslur o.fl.) frv. 95/1998, SighB
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur, 122. lþ.

[11:24]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili voru gerðar ýmsar breytingar á skattamálum fyrirtækja. Þegar maður hlustar á þá tvo hv. þm. sem hér hafa talað, hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson, mætti ætla að þær breytingar hafi verið að þeirra mati gerðar til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Svo var ekki. Ég átti nefnilega þátt í þeim breytingum sitjandi í ríkisstjórn þá og það var ekki tilgangurinn með þeim skattalagabreytingum að auka skatttekjur ríkissjóðs. (PHB: Gerði það samt.) Tilgangurinn var tvíþættur og, herra forseti, þarna veit ég meira um hlutina en báðir þeir þingmenn sem ég hef nefnt vegna þess að þeir voru ekki á Alþingi þá.

Tilgangurinn var tvíþættur: Annars vegar sá að einfalda skattumhverfi fyrirtækja og gera það líkara því sem er í Evrópu og öðrum löndum í kringum okkur en það hafði verið. Það var t.d. gert með afnámi aðstöðugjaldsins sem átti engan sinn líka í nálægum löndum, skattur sem lagður var á veltu en ekki hagnað.

Hinn megintilgangurinn var sá að í því erfiða árferði, sem menn horfðust þar í augu við, töldu menn rétt að lækka skatta á fyrirtækjum til að hvetja þau til athafna og til atvinnusköpunar þannig að menn voru meðvitað að lækka skatta á fyrirtækjum og flytja skattbyrðina yfir á fólkið í landinu með hækkun á tekjusköttum og útsvörum einstaklinga til þess að hjálpa fyrirtækjunum. Tilgangurinn var ekki sá að auka tekjur ríkissjóðs með þessu. (PHB: En það gerðist.) Tilgangurinn var sá að hjálpa atvinnufyrirtækjum, að létta af þeim sköttum og flytja skattana af fyrirtækjunum yfir á fólkið. Þessu mega menn ekki gleyma. Menn mega ekki snúa út úr þessu og leggja einhvern allt annan skilning eða tilgang í þessa athöfn en þá var. Það sem gerðist hins vegar blessunarlega var að þessi aðgerð tókst, þ.e. það að lækka skatta á fyrirtækjum gerði það að verkum að þau framkvæmdu meira en þau ella hefðu gert, þau fjárfestu meira en þau ella hefðu gert og þegar fram liðu stundir jukust að sjálfsögðu skatttekjur ríkisins en eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók fram gerðist það ekki fyrsta kastið því að tvö fyrstu árin eftir þessar breytingar urðu tekjur ríkisins af tekjusköttum fyrirtækja minni en áætlað hafði verið.

Virðulegi forseti. Það er ekki bara þessi aðgerð sem hefur áhrif á heildarskatttekjur ríkisins af hagnaði atvinnufyrirtækja. Við skulum ekki gleyma því að sá tími er nú að renna út sem fyrirtæki geta nýtt sér til niðurfærslu skattgreiðslna sinna tap frá fyrri árum. Sú regla hefur virkað þannig fram undir þetta að t.d. útgerðarfyrirtæki á Íslandi, fyrirtæki sem stunda undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar og voru fyrir örfáum dögum að fá í gjöf frá ríkisvaldinu 25 þús. millj. kr. með hækkun á kvótaúthlutunum í þorski, hafa öll saman ekki greitt í tekjuskatta til ríkisins nema um 230 millj. kr. þrátt fyrir það góðæri sem verið hefur undanfarin ár. Af hverju hafa þau ekki greitt hærri skatta til ríkisins? Hvernig skyldi standa á því að samanlögð útgerðarfyrirtæki á Íslandi hafa ekki greitt hærri tekjuskatta til ríkisins en t.d. starfsmenn Ríkisútvarpsins gera ef það væri lagt saman sem þeir greiða til ríkisins, hver er ástæðan fyrir því? Að þessi voldugi atvinnuvegur skuli ekki greiða nema svona lítið brot af sínum hagnaði í skatta til ríkisins, 236 millj. kr. á heilu ári? Ástæðan er sú að sjávarútvegsfyrirtækin njóta enn mikils uppsafnaðs taps frá fyrri árum en sjávarútvegurinn skuldaði um 200 milljarða kr. þegar skuldastaða sjávarútvegsins var tekin út á sínum tíma.

Hvernig skyldi standa á því að þessi fyrirtæki greiða ekki hærri gjöld til ríkisins? Það er vegna þess að þau hafa verið að nýta uppsafnað tap. Nú fer að koma að því að sú aðferð verður ekki lengur fær. Nú fer að koma að því að fyrirtækin þurfa að greiða fulla skatta af hagnaði sínum og geta ekki nýtt sér uppsafnað tap til frádráttar vegna þess að þær heimildir hafa þá verið að fullu nýttar. Þá fara þessi fyrirtæki fyrst að greiða skatta til hins opinbera. Þá fara skatttekjurnar að aukast allverulega. Það er ekki afleiðing af lækkun skatthlutfallstölunnar heldur afleiðing af því að það er ekki lengur hægt að draga uppsafnað tap frá hagnaði í jafnmiklum mæli og heimilt hefur verið á undanförnum árum. Það er án efa rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og Pétri Blöndal að á næstu árum má vænta þess að tekjur hins opinbera af tekjusköttum fyrirtækja fari vaxandi en það er ekki vegna þess að skattprósentan hafi verið lækkuð heldur vegna þess að heimildirnar til þess að nýta sér uppsafnað tap fyrri ára er að þrjóta og það er góðæri í landinu og fyrirtækin eru að hagnast og af sjálfu leiðir að skatttekjur ríkissjóðs af rekstri slíkra fyrirtækja hljóta að aukast.

[11:30]

Það er því fráleitt að gera fyrir fram ráð fyrir því að þessi fyrirsjáanlega þróun muni staðfesta að það hafi verið rétt ákvörðun sem þingmeirihlutinn tekur í dag að lækka skatthlutfallið á fyrirtæki vegna þess að sú aðgerð muni hafa það í för með sér að skatttekjur hækki. Það er bara ekki ástæðan. Ástæðan er sú að fyrirtækin eru að skila hagnaði. Ástæðan er sú að tap fyrri ára, heimildir til að draga það frá hagnaðinum eru að renna út og fyrirtækin þurfa þá að fara að greiða eðlilega hlutdeild af tekjum sínum eða hagnaði í ríkissjóð sem skatta, hvort heldur sem sú eðlilega hlutdeild telst vera 28%, 30% eða 33%.

En það er meira, virðulegi forseti, sem menn verða að skoða í þessu samhengi. Það er ekki nóg að horfa bara á skatthlutfallið sjálft heldur verða menn að líta á skattumhverfi fyrirtækjanna í heild. Það er auðvitað alþekkt að í mjög mörgum löndum í kringum okkur greiða atvinnufyrirtæki mjög há launatengd gjöld af öllu tagi, bæði launaskatta og hefðbundin launatengd gjöld sem við þekkjum reyndar úr okkar umhverfi líka. Þegar menn horfa á skattumhverfi fyrirtækja verða þeir að skoða þetta allt saman, þ.e. hvað það er sem fyrirtækin þurfa að bera af rekstrarhagnaði sínum. Ef menn skoða þann samanburð verður ekki annað sagt en að skattumhverfi fyrirtækja á Íslandi sé að vera talsvert gott miðað við mörg nálæg lönd jafnvel þó svo finna megi einstaka land þar sem hlutfallið sjálft, tekjuskattshlutfallið af hagnaði er lægra en verið hefur hér. Þegar litið er á skattumhverfi fyrirtækjanna í heild, þá held ég að íslenskir forstjórar fyrirtækja geti ekki kvartað yfir því að þeir beri skarðan hlut frá borði miðað við önnur lönd.

Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að það hefði verið gripið til þess ráðs á erfiðleikaárunum á sínum tíma að létta sköttum af fyrirtækjum og flytja þá yfir á fólkið með þeim rökum að það væri skynsamleg aðgerð í erfiðu árferði að létta skattbyrði fyrirtækja til þess að örva hagvöxt og auka atvinnu. En nú bregður svo við að sömu rök eru notuð í góðæri, þ.e. það á líka að vera æskileg ráðstöfun þegar fyrirtækin, a.m.k. þau sem vel eru rekin hagnast mikið að grípa til þess að lækka skatta á fyrirtækjum. Með öðrum orðum menn eru að komast að þeirri niðurstöðu að það skipti ekki máli hvernig efnahagsumhverfið sé, hvort það sé hagstætt eða óhagstætt, það sé alltaf af því góða að lækka skatta á fyrirtækjum. En gildir þetta ekki líka um fólk? Væri þá ekki frekar ástæða til þess, virðulegi forseti, að þeir tveir hv. þm. Sjálfstfl. sem hér hafa talað um fyrirtækjaskattana legðu þá fram tillögu um að lækka skatta á almenning (PHB: Það hefur verið gert.) um þá fjárhæð sem tekin var á sínum tíma af fyrirtækjunum og flutt yfir á fólkið? (PHB: Það er búið.) Nei, það er ekki búið, virðulegi forseti. Það er ekki búið að lækka skatta á fólki um þá fjárhæð. Það er ekki búið og væri meira vit í því að hv. þm. beittu sér fyrir því að létta þeim byrðum af fólkinu í skattamálum sem lagðar voru á bök þess þegar við tókum þá ákvörðun í erfiðu árferði að lækka fyrirtækjaskattana og flytja þá yfir á fólkið í staðinn.

Það var gaman að heyra hv. þm. Pétur Blöndal lýsa því yfir að hann teldi að lækkun á skatthlutfalli fyrirtækja úr 33% niður í 25% væri svona hæfilegt við þær aðstæður sem nú eru. Hvað teldi hv. þm. þá hæfilegt að lækka skatta mikið ef fyrir okkur ætti að liggja að lenda aftur í kreppuárferði eins og við vorum í fyrir fjórum árum síðan? Þá þyrfti væntanlega að grípa til sömu úrræða og þá gáfu svo góða raun til þess að koma atvinnulífnu aftur í gang og hvað teldi hv. þm. þá að ætti að lækka skattana á fyrirtækjum mikið?

Herra forseti. Ég skil ósköp vel áhuga manna á því að borga ekki skatta. Það er enginn, hvorki forstjóri fyrirtækis eða einstaklingur sem ég þekki, sem er afskaplega hrifinn af því að borga skatta og Íslendingar eru einu sinni þannig að ef þeir gætu sloppið við að borga skatta mundu þeir gjarnan gera það, a.m.k. þangað til þeir rækju sig á að þá fengju þeir ekki þá fyrirgreiðslu frá ríkisvaldinu sem þeir ella fengju. Það er ósköp skiljanlegt að menn vilji losna við að borga skatta eða hafa þá sem allra, allra lægsta. Hins vegar eru það ekki rök. Ég held að Bandaríkjamenn hafi lært það af reynslunni að það eru ekki rök að leiðin til að auka tekjur ríkisins sé að lækka skatta. Þetta var sú þumalfingursregla sem Ronald Reagan á sínum tíma ætlaði sér að sanna, að leiðin til þess að lagfæra hallann á ríkissjóði Bandaríkjanna og auka tekjur ríkissjóðs Bandaríkjanna væri að lækka skatta en það gekk aldeilis ekki upp eins og hv. þm. Pétur Blöndal veit sjálfsagt manna best.