Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 07. október 1997, kl. 13:37:13 (89)

1997-10-07 13:37:13# 122. lþ. 4.92 fundur 31#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[13:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Á bls. 432 í fjárlagafrv. er yfirlit yfir þær lagabreytingar sem þarf að gera til þess að fjárlagafrv. standist og geti staðist á næsta ári. Slíkar breytingar er venja að gera á hverju hausti. Það sem kannski einkennir núna þessar breytingar er hversu fáar þær eru. Þetta eru breytingar á nokkrum lögum sem eru talin upp á bls. 432 og þar á meðal þarf að breyta almannatryggingalöggjöfinni. Það er fyrst og fremst eitt sem rekur okkur til þess og það er að samkvæmt núgildandi lögum er ekki heimilt að hækka bætur almannatrygginga nema um 3% án þess að sérstök lög komi til. Það verður að flytja lagafrv. vegna þess að bætur almannatrygginga, þar á meðal bætur til eldra fólks, hafa hækkað talsvert umfram þessi 3%. Brýna nauðsyn ber til þess að flytja þetta lagafrv. því að ríkisstjórnin ætlar að tryggja að fullorðið fólk og þeir aðrir sem njóta bóta almannatrygginga fái bótahækkanir umfram þær launahækkanir sem hafa orðið í landinu. Um það snýst þetta lagafrv. en auk þess mun að sjálfsögðu, þó að ég þekki frv. ekki í einstökum atriðum, verða tekið á nauðsynlegum breytingum sem þarf að gera til þess að hægt sé að vinna á eðlilegum grundvelli í þessum málum. Ég vil taka fram að hér er fyrst og fremst átt við það að færa í löglegan búning það sem ríkisstjórnin gerði, og var kannski á tæpu vaði í sumar, þegar bætur voru hækkaðar nokkuð umfram launahækkanir. Þetta vildi ég að kæmi hér fram, virðulegi forseti. En vegna þess að hér er ekki ætlunin að fram fari efnisumræða um þetta mál, það getur beðið þar til í sjálfri umræðunni á eftir, þá vil ég upplýsa þingheim að ríkisstjórnin er að útbúa þau frv. sem hér eru tiltekin og þau munu væntanlega koma fram á hinu háa Alþingi innan tíðar.