Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. október 1997, kl. 16:18:06 (457)

1997-10-14 16:18:06# 122. lþ. 8.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur

[16:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki svo að einhverjum tilteknum stöðuveitingum eða mannaráðningum frá síðasta ári eða þessu ári hafi fylgt allur þessi vandi. Hann er á miklu breiðari grunni en það. Hann er að langstærstum hluta til afleiðing af almennt auknum umsvifum í starfsemi stofnunarinnar. Það rekur sig til nokkurra þátta sem ég fór yfir og þar á meðal breiðara verksviðs fjórðungssjúkrahússins sem hefur verið að koma til á síðustu árum vegna ráðningar fleiri sérfræðinga á fleiri sviðum, vegna fjölgunar aðgerða og vegna þess að meira af vandamálum er nú leyst í heimabyggð en áður var. Að síðustu vegna þess sem einkum hefur komið til á þessu ári og að einhverju leyti hinu síðasta að óleyst þörf annars staðar á landinu hefur að hluta til fengið úrlausn þar vegna þess að sérfræðingar í bæklunarlækningum og á fleiri sviðum hafa getað bætt við sig frá öðrum landshlutum og hafa leyst þannig úr brýnni þörf. Þannig hefur sú uppbygging, menntun, þekking og aðstaða sem fyrir hendi er á Akureyri nýst landsmönnum öllum að hluta til. En einkum og sér í lagi hefur vantað að gera ráð fyrir þeim auknu útgjöldum sem leiða af ýmiss konar tengdri starfsemi og fylgja óhjákvæmilega auknum umsvifum af þessu tagi. Sami vandi hefur vissulega verið á ferðinni að einhverju leyti á stóru sjúkrastofnununum í Reykjavík. Það er alveg ljóst að við erum að einhverju leyti að glíma við tilhneigingu sem er sambærileg hjá öllum stærri sérhæfðu stofnununum og út af fyrir sig að nokkru leyti í heilbrigðiskerfinu öllu vegna þess að tækninni fleygir fram, lyf eru að þróast og það kostar meira að veita þá fullkomnu og auknu þjónustu sem okkur er að takast að gera. Þetta er ekki bara íslenskur heldur alþjóðlegur vandi sem menn horfast í augu við og verður að mæta með einhverjum hætti og taka á ekki síður á Akureyri, úti á landsbyggðinni en í Reykjavík þó að það sé líka nauðsynlegt þar.