Ljósleiðari

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 14:11:48 (1150)

1997-11-12 14:11:48# 122. lþ. 23.9 fundur 222. mál: #A ljósleiðari# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JónK
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:11]

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Þau vekja upp fjölmargar spurningar, eins og ég kom reyndar að í fyrri ræðu minni, og ekki síst um það hvort rétt sé að Póstur og sími hf. fari út í stórfelldan sjónvarpsrekstur því dagskrárgerð er ekki nema hluti af því máli. Það er ljóst að fyrirtækið hefur fengið í forgjöf flýtingu á ljósleiðaranum, þó að þar sé um leigutekjur að ræða, og það skiptir máli hvernig stofnunin notar þá forgjöf.

Það er ljóst að hlutafélagið ræður framboðinu og það ræður verðinu, dagskrárgerð er ekki nema hluti af málinu, og það leggur í verulega fjárfestingu í þessum efnum. Einnig má spyrja hvort rétt sé að ráðast í þessar fjárfestingar nú því ljóst er að stórkostleg þróun og tæknibreytingar eru fram undan á þessu sviði, m.a. sendingar um gervihnetti.

Hvað varðar jöfnun á beinum útsendingum sjónvarpsefnis um ljósleiðara þá tel ég það sjálfsagt mál í kjölfarið á þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Ég skildi hæstv. samgrh. þannig að hann væri þeirrar skoðunar að það ætti að skoða þá hluti sérstaklega. Ég skildi það þannig að hann hefði svarað frá eigin brjósti þeim hluta fsp. minnar að það ætti að skoða og hann vildi beita sér fyrir slíkri skoðun.