Greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:24:50 (1586)

1997-12-03 14:24:50# 122. lþ. 33.4 fundur 280. mál: #A greiðslur langlegusjúklinga til sjúkrastofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GHelg
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:24]

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Þetta efni hefði þurft miklu lengri tíma en möguleiki er á í fyrirspurnaformi. Það alvarlega í þessu máli er að þeir einir sem eru 67 ára og eldri njóta ekki ókeypis sjúkrahúsvistar. Ég reyndar hélt þegar ég bar fram þessa fyrirspurn að búið væri að finna leiðir fram hjá þessu með því að stofna svokallaðar öldrunardeildir einstakra sjúkrahúsa, svo sem Landakots sem nú er orðin öldrunardeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Þetta er ekki svo. Það eru ósköp einfaldlega öll sjúkrahús, sem eru á föstum fjárlögum, sem taka þetta gjald hvort sem þau hafa svokallaðar öldrunardeildir eða ekki. Það er alltaf verið að útvíkka þetta. Það sem er skelfilegast af þessu öllu er að þeir sjúklingar innan við 67 ára aldur --- og um það kann ég dæmi --- sem eru svo ógæfusamir að þurfa að lenda inni á svokallaðri öldrunardeild vegna sjúkleika, og á það sérstaklega við um alzheimer-sjúklinga vegna þess að aðrir kostir gefast ekki, þó að þeir séu ekki orðnir 67 ára eru þeir líka látnir borga fyrir sig af því að það heitir að þeir séu á öldrunardeild.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, hæstv. forseti og hæstv. ráðherra, að hér séu brotin lög á fólki og ég mun kæra einstakt tilvik um þetta til tryggingaráðs mjög fljótlega eða sjá um að það verði kært.

Ég held líka að það geti vel verið að verið sé að brjóta stjórnarskrána með því að láta suma Íslendinga greiða fyrir sig sjúkrahúsvist og aðra ekki. Oftast er náttúrlega um eignaupptöku á áunnum lífeyrissjóðsgreiðslum að ræða. Auk þess held ég, hæstv. forseti, að lögin um málefni aldraðra veiti ekki lagastoð fyrir þeirri reglugerð sem gefin var út árið 1990. Þar er nefnilega talað um þjónustustig fyrir aldraða og þau eru bara tvö. (Forseti hringir.) Það eru almenn dvalarheimili og hjúkrunardeildir en það er ekkert talað um sjúkrahús. Það er talað um að slíkar deildir --- ég er rétt að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, --- skuli eftir því sem hægt er vera í nágrenni við sjúkrahús (Forseti hringir.) en það er ekki stafkrókur um að reka eigi elliheimili inni á sjúkrahúsunum. Ég held þess vegna, hæstv. forseti, að hér séu bæði brotin lög og stjórnarskrá.