Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 21:44:24 (2077)

1997-12-12 21:44:24# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[21:44]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, nefndi tölur í ræðu sinni og vitnaði til sömu heimilda og hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, hefur gert hér í dag.

Oft er erfitt að átta sig á staðreyndum þegar farið er með talnabálka. Hv. þm. fullyrti hér að framlög til heilbrigðismála færu minnkandi og vitnaði til þess að sem hlutfall af vergri landsframleiðslu væri um lækkun að ræða. En skoðum málið aðeins nánar. Á því tímabili sem um ræðir þá er landsframleiðslan að aukast, hv. 8. þm. Reykv., þannig að mælt í þeim mælikvarða ... (SvG: Er það þér að þakka eða hvað?) Já. Það er mjög ánægjulegt að hv. þm. skuli vekja athygli á þessu --- þá eru framlögin að aukast vegna þess að landsframleiðslan er að aukast. Þetta þyrfti hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir að athuga og fara betur ofan í þetta áður en reynt er að skjóta sér á bak við það að hlutfall fari lækkandi.

[21:45]

Annað vildi ég nefna sem hv. þm. fór einnig með. Hann vakti athygli á því að það væri mjög óeðlilegt að hjúkrunarheimilum væri að fjölga á Suðurlandi og þau væru alveg ótrúlega mörg á Vesturlandi. En hvað er þarna að gerast? Jú, á Suðurlandi er það þannig að í Hveragerði er Ás, svo er Kumbaravogur og þessi hjúkrunarheimili þjóna fólki af öllu landinu. Er eitthvað óeðlilegt við það? Ég segi nei. Það er ekkert óeðlilegt við það þó að hjúkrunarheimili séu tiltölulega mörg miðað við íbúa á þessu svæði þegar um það er að ræða að verið er að þjóna öllu landinu eða fólki alls staðar að af landinu.

Sama er að segja um Vesturland. Fellsendi er þar rekinn af geðdeild Ríkisspítalanna og hefur áhrif á þetta hlutfall þannig að það er mjög nauðsynlegt að fara varlega með tölur og nota þær til þess að draga ályktanir.