Ferill 72. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 72 – 72. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um atvinnusjóð kvenna.

Flm.: Drífa Hjartardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem endurskoði og geri tillögur um framhald á starfi atvinnusjóðs kvenna.
    Félagsmálaráðherra skipi tvo nefndarmenn, Byggðastofnun einn og Kvenfélagasamband Íslands einn og einn komi úr hópi atvinnuráðgjafa.

Greinargerð.


    Árið 1989 var gerð úttekt á atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni. Í þeirri könnun kom í ljós að þörf var á að styrkja konur sérstaklega til að koma sér upp eigin atvinnurekstri sem jafnframt veitti öðrum konum atvinnu. Frá árinu 1991 hefur félagsmálaráðherra veitt 20 millj. kr. á ári til styrktar atvinnumálum kvenna. Styrkur úr atvinnusjóði kvenna hefur án efa komið mörgum konum vel og styrkt búsetu á landsbyggðinni. Nú síðari ár hafa konur á höfuðborgarsvæðinu einnig fengið styrki úr sjóðnum.
    Enginn vafi er á því að þessir styrkir hafa farið til góðra mála og hafa nýst vel til að styrkja atvinnu kvenna. Á vegum Vinnumálastofnunar er nú unnið að úttekt á árangri þeirra styrkja sem veittir hafa verið til kvenna á vegum sjóðsins. Enn er mikil þörf, en síðan sjóðurinn hóf störf hafa ýmsar aðstæður breyst, bæði hvað varðar atvinnu- og byggðaþróun. Með tilliti til þess er rétt að endurmeta úthlutunarreglur sjóðsins.
    Gera þarf úttekt á því hvernig styrkir úr sjóðnum hafa verið nýttir og hvort ástæða sé til að endurskoða reglur. Einnig þarf að skoða samspil atvinnusjóðs kvenna og annarra sjóða og atvinnuþróunarverkefna.