Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 100 – 100. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um endurskoðun á ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breyting um.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Kristín Halldórsdóttir,


Lúðvík Bergvinsson, Guðni Ágústsson, Ögmundur Jónasson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða ákvæði laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 121. löggjafarþingi en var ekki rædd og er því flutt að nýju.
    Tillögunni er fyrst og fremst ætlað að vekja athygli á ákvæðum laganna um gjöld fyrir fullnustugerðir og búskipti fyrir sýslumanni. Sérstaklega verði skoðað ákvæði 5. gr. þar sem fjallað er um gjaldtöku vegna nauðungarsölu en þar er m.a. gert ráð fyrir að greitt sé 1% gjald þegar beiðni um nauðungarsölu til fullnustu peningakröfu er afhent sýslumanni. Gjald vegna beiðni um nauðungarsölu á fasteign eða eign sem verður ráðstafað eftir sömu reglum og fast eign sé þó ekki lægra en 9.000 kr. og eigi hærra en 30.000 kr. Gerðarbeiðandi krefur gerðar þola síðan um þetta gjald og með hliðsjón af framangreindum fjárhæðum er ljóst að sú staða getur komið upp að gerðarþoli verði krafinn um háar fjárhæðir ef margir gerðarbeiðendur hafa lagt fram beiðni um sölu á eign hans. Það gefur auga leið að einstaklingur í þessari stöðu ræður illa við slík útgjöld sem þrengja enn erfiða greiðslustöðu hans. Því er lagt til að athug að verði hvort ekki sé unnt að koma við undanþáguheimild, t.d. að sýslumanni verði heimilt að endurgreiða gjaldið, í þeim tilvikum þar sem ekkert hefur orðið af sölu eignar vegna úr ræða gerðarþola.