Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1358 – 683. mál.



Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Lúðvíks Bergvinssonar um meðlagsgreiðslur.

    Upplýsinga var aflað hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga.

     1.      Í hversu mörgum tilvikum hefur Innheimtustofnun sveitarfélaga krafist gjaldþrotaúrskurðar út af vangoldnum meðlagsgreiðslum á tímabilinu 1. janúar 1990 – 31. desem ber 1997?
    Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur í einu tilviki beðið um gjaldþrotaskipti á tímabilinu 1. janúar 1990–31. desember 1997.

     2.      Hversu margir einstaklingar greiða meðlag hér á landi? Hvernig er kynjaskiptingin meðal greiðenda?
    Heildarfjöldi meðlagsgreiðenda í apríl 1998 er 11.122, karlar 10.766 og konur 356.

     3.      Hjá hverjum innheimtir Innheimtustofnun sveitarfélaga meðlagsgreiðslur í tilvikum þar sem einstaklingur hefur undirritað faðernisyfirlýsingu vegna barns sem getið var meðan móðir þess var enn gift öðrum manni og mál til vefengingar á faðerni skv. 52. gr. barnalaga hefur ekki verið höfðað? Breytir það hvort sá sem var giftur móðurinni er útlendingur eða fluttur af landi brott einhverju um það að hverjum innheimtuað gerðum stofnunarinnar er beint? Er hugsanlegt að þau tilvik geti komið upp að ein staklingur sé skyldur til að greiða meðlag en eigi ekki rétt til umgengni við barn sök um þess að hann er ekki faðir þess samkvæmt lögum?
    Meðan mál hefur ekki verið höfðað til vefengingar skv. 52. gr. barnalaga telst eiginmaður faðir samkvæmt lögum og þar af leiðandi er ekki hægt að staðfesta faðernisyfirlýsingu annars manns eða úrskurða meðlag. Engu breytir hvort eiginmaður móður er útlendingur eða fluttur af landi brott, innheimtuaðgerðum er aðeins hægt að beina að þeim sem telst vera fað ir samkvæmt lögum og hefur verið gert að greiða meðlag.
    Samkvæmt framangreindu ætti það ekki að geta gerst að einstaklingur sé meðlagsskyldur en hafi ekki umgengnisrétt vegna þess að hann er ekki faðir samkvæmt lögum.
    Í tilefni af fyrirspurn þessari má geta þess að vitað er um eitt tilvik þar sem þau mistök urðu hjá sýslumanni að faðernisyfirlýsing var staðfest þrátt fyrir að móðir væri í hjúskap með öðrum manni á getnaðartíma barnsins. Var staðfesting þessi afturkölluð með vísan til 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga.