Fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 16:37:40 (3282)

1999-02-03 16:37:40# 123. lþ. 58.18 fundur 427. mál: #A fjöldi útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[16:37]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. félmrh. um fjölda útlendinga með atvinnuleyfi hér á landi. Hún er svona, með leyfi forseta:

,,1. Hve margir útlendingar hafa nú, í janúar 1999, atvinnuleyfi hér á landi?

2. Hvernig skiptist fjöldi þeirra eftir kjördæmum?

3. Hve stór hluti þeirra starfar við sjávarútveg og hvar starfa þeir (10--15 fjölmennustu staðirnir óskast tilgreindir)?

4. Hve hátt er hlutfall útlendinga meðal starfsfólks í sjávarútvegi og fiskvinnslu?

5. Hvaða ráðstafanir eru gerðar almennt og/eða í hverju tilviki til að veita þeim kennslu í íslensku?``

Varðandi 5. tölul. þá má segja að hann hafi verið ræddur hér áður að nokkru leyti vegna fsp. til hæstv. menntmrh. sem var á dagskrá fyrr í dag.

Tilefni fsp. er það sem allir í raun og veru þekkja, að útlendingar eru víða uppistaðan í starfsliði í fiskvinnslu víðs vegar um landið. Maður kemur vart svo í fiskvinnsluhús að maður rekist ekki á fjöldann allan af þessu prýðilega fólki, sem er ásamt íslenskum félögum sínum að framleiða undirstöðuverðmæti fyrir þjóðarbúið.

Þegar þetta fólk fer í kaffi og í mat þá er það ekki með íslenskum félögum sínum, það er sér. Þegar það fer heim til sín á kvöldin að þá fer það ekki í íbúðir sínar eða hús, eins og Íslendingarnir eru gjarnan að gera, heldur í verbúðir sem engir Íslendingar mundu nokkurn tíma sætta sig við. Það er alveg augljóst að mál innflytjenda og fjölskyldna þeirra á Íslandi eru að mörgu leyti í ólestri. Þeir eru nauðbeygðir, beygðir undir undir léleg lög um erlent vinnuafl.

Í greinum hefur verið fjallað um þessi mál og því m.a. haldið fram að fólkið sem hér er um að njóti ekki almennra mannréttinda á Íslandi og mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 væri brotin. Það ætla ég ekki að segja, herra forseti. En ég tel mjög brýnt að sett verði heildarlög um réttindi þessa fólks hér á landi. Þá er ég ekki að gera lítið úr þeim myndarlegu móttökum sem hópar útlendinga hafa fengið hér og hæstv. félmrh. hefur beitt sér mjög myndarlega fyrir. Ég geri engan veginn lítið úr því. Ég tel að í þessum efnum verði að halda mikið betur á hlutunum og ber þessa fsp. fram til hæstv. félmrh. til að koma málinu á dagskrá.