Beiðni um skýrslu

Föstudaginn 19. febrúar 1999, kl. 10:49:33 (3903)

1999-02-19 10:49:33# 123. lþ. 70.98 fundur 279#B beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 123. lþ.

[10:49]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi, þ.e. í fyrri hluta októbermánaðar, lagði ég ásamt átta öðrum þingmönnum fram beiðni um skýrslu frá umhvrh. um mat á umhverfisáhrifum af stækkun járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Samhljóða skýrslubeiðni var lögð fram á síðasta þingi en skýrsla hafði þá ekki borist fyrir þinglok. Því lagði ég hana aftur fram í upphafi þessa þings. Svo virðist sem eitthvað standi í hæstv. umhvrh. og ráðuneyti hans að gefa umbeðna skýrslu. Hún hefur enn ekki borist þótt samkvæmt þingsköpum sé fresturinn löngu, löngu liðinn.

Þar sem ég er sæmilega þolinmóð manneskja þá hef ég ekki áður vakið máls á þessu hér formlega en rætt þetta við hæstv. ráðherra sem hefur lofað bót og betrun. Sá frestur er líka liðinn og afgreiðslan verið þannig að mér er nóg boðið. Þess vegna geri ég alvarlega athugasemd við þessa afgreiðslu ráðuneytisins. Ég bið hæstv. forseta að koma þeirri athugasemd á framfæri og sjá til að þessi skýrsla berist sem allra fyrst.