Tilkynning um stofnun nýs þingflokks

Fimmtudaginn 01. október 1998, kl. 15:34:09 (10)

1998-10-01 15:34:09# 123. lþ. 1.92 fundur 24#B tilkynning um stofnun nýs þingflokks#, HG
[prenta uppsett í dálka] 1. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Þann 16. september sl. varð til nýr þingflokkur, þingflokkur óháðra, og þá var ritað svofellt bréf til forseta Alþingis sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta:

,,Forseti Alþingis, herra Ólafur G. Einarsson.

Við undirritaðir alþingismenn tilkynnum hér með að við höfum ákveðið að stofna þingflokk, þingflokk óháðra. Þessi ákvörðun tengist breyttum aðstæðum í íslenskum stjórnmálum. Þeir flokkar sem við buðum okkur fram fyrir eða í samstarfi við hafa nú horfið frá því að efna til framboðs í eigin nafni og á grundvelli eigin stefnu í komandi alþingiskosningum. Munu þessar breyttu aðstæður hafa margvísleg áhrif á stjórnmálin á komandi vetri og á starfsemi þingflokka. Með vísan til þessa höfum við undirrituð, sem erum utan stjórnmálaflokka um þessar mundir, ákveðið að starfa saman í þingflokki. Ákvörðun þessa höfum við tekið að höfðu samráði við varamenn okkar. Við væntum góðs samstarfs við forseta og forsn. þingsins.

Gjört í Reykjavík, 16. september 1998.``

Undir þetta rita sá sem hér talar, 4. þm. Austurl., Kristín Ástgeirsdóttir, 14. þm. Reykv., Steingrímur J. Sigfússon, 4. þm. Norðurl. e., og Ögmundur Jónasson, 17. þm. Reykv.

Við þetta er því einu að bæta að þessi nýi þingflokkur óskar að sjálfsögðu eftir sem bestu samstarfi við aðra þingflokka og Alþingi í heild.