Íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra

Þriðjudaginn 06. október 1998, kl. 13:36:31 (127)

1998-10-06 13:36:31# 123. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A íslenskt táknmál sem móðurmál heyrnarlausra# þál., Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 123. lþ.

[13:36]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég flyt í þriðja sinn í þessari virðulegu stofnun till. til þál. um að íslenska táknmálið verði viðurkennt móðurmál heyrnarlausra. Tillagan er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að undirbúa frumvarp til laga um að íslenska táknmálið verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra hér á landi.``

Tillagan er einföld og lætur lítið yfir sér. Þó hefur tekist að láta tvö þing líða án þess að hún yrði samþykkt. Í rauninni hefur þetta mál lent í útideyfu þannig að á því hefur ekki verið tekið eins og hefði þurft að gera. Það hefði með öðrum orðum að mínu mati þurft að taka um það ákvörðun að gera það sem þarf til að tryggja í verki að íslenska táknmálið verði raunverulega viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra hér á landi.

Þegar umræðan um þessi mál hófst er stofnuð var Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra fyrir 10 árum, var stigið mjög mikilvægt skref í þessa átt og þá var hreyft þeirri hugmynd að teknar yrðu ákvarðanir um það í lögum að íslenska táknmálið yrði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra. Þá þótti sú umræða býsna fjarri veruleikanum og að hún styddist kannski í mesta lagi við þau almennu rök að allir eigi að vera jafnir í landinu og það eigi að gera ráðstafanir til þess. Síðan sú umræða hófst árið 1990 hefur hins vegar það gerst að Alþingi hefur staðfest býsna mikilvæga mannréttindaþætti, bæði í mannréttindayfirlýsingu Evrópu og einnig í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem gerir það að verkum að heyrnarlausir eiga skilyrðislausan rétt á því í dag að fá þá þjónustu sem þeir þurfa til þess að njóta opinberrar þjónustu hér á landi, þ.e. táknmálstúlkun.

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður flutti á fundi Félags heyrnarlausra á laugardaginn var erindi um þessi mál þar sem hann sýndi skýlaust fram á að heyrnarlausir eiga þennan rétt á grundvelli þeirra mannréttindasáttmála sem við erum aðilar að og á grundvelli stjórnarskrár Íslands. Hann reyndar komst svo að orði í erindi sínu að þau ákvæði sem eru í lögunum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra væru of veik miðað við þær ákvarðanir sem við höfum síðan tekið um mannréttindi hér á landi.

Í greinargerð tillögunnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Málefni heyrnarlausra hafa oft komið til meðferðar á Alþingi. Fullyrða má að þar sé samstaða um að íslenska táknmálið eigi að geta orðið móðurmál heyrnarlausra. Það leiðir reyndar hugann að því að ekki er einfalt að setja slíkt í lög og hætta er á að lögin verði dauður bókstafur ef þeim er ekki fylgt eftir. Reyndar er íslenskan ekki viðurkennt móðurmál Íslendinga í lögum eða stjórnarskrá, og þess gerist reyndar ekki þörf þar sem hún er móðurmálið í raun og enginn dregur það í efa. Vaknar sú spurning hvort engu að síður væri rétt að setja lög um móðurmálið eða ákvæði um það í stjórnarskrá. Má hugsa sér í því sambandi almenn lög og breytingar á einstökum lögum, t.d. breytingu á lögum um þingsköp Alþingis þar sem tekið yrði fram að töluð skuli íslenska á Alþingi og að skjöl skuli vera á íslensku.

Sérstök lög um íslenska táknmálið sem móðurmál eru hins vegar annars eðlis, þau eru jafnréttismál sem snýst um að tiltekinn hópur hafi rétt á því að taka þátt í öllum athöfnum þjóðfélagsins til jafns við aðra og að hann eigi því rétt á túlkun. Jafnframt væri samfélagið með slíkri lagasetningu að ákveða að mennta túlka og að rannsaka og þróa íslenska táknmálið svo sem nauðsynlegt er. Hins vegar ráða fjármunir og fjárlög úrslitum. Auðvitað er unnt að taka ákvörðun um að táknmálið sé raunverulegt móðurmál heyrnarlausra með því að veita fjármuni til þess. Tryggja þarf að til sé nægur hópur táknmálstúlka og táknmálskennara, að heyrnarlausir og aðstandendur þeirra hafi tækifæri til að læra táknmálið og að foreldrar heyrnarlausra barna læri það, að heyrnarlaus börn í Vesturhlíðarskóla fái móðurmálskennslu í táknmáli og að allir kennarar kunni táknmál og geti verið málfyrirmyndir. Það þarf að tryggja að börnin fái táknmálstúlkun í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Til þess að allt þetta megi gerast þarf að þróa rannsóknir á íslenska táknmálinu.`` --- Að því hefur verið unnið á undanförnum árum en þarf að halda áfram. --- ,,Tryggja þarf að opinberar stofnanir, dómstólar, sjúkrahús o.s.frv. hafi táknmálstúlka. Loks þarf að sjá til þess að skýrt sé hver á að borga hvað svo að réttindi heyrnarlausra merjist ekki sundur á milli ríkis og sveitarfélaga eins og oft hefur gerst.``

Þar með lýkur tilvitnun í þessa greinargerð, herra forseti. Ég hef orðið var við það á undanförnum missirum að rætt er um að skynsamlegt sé að taka á málefnum heyrnarlausra eins og á málefnum fatlaðra og það eigi að vísa þessum málaflokki yfir til sveitarfélaganna þegar málefni fatlaðra flytjast til sveitarfélaganna. Hér er um grundvallarmisskilning að ræða vegna þess að hér er um að ræða spurninguna um það að tiltekinn hópur geti notað sér ákveðið mál, táknmálið, sem sitt móðurmál hvar svo sem menn eru staddir á Íslandi. Þess vegna er þetta þjóðarmál, ríkismál, en ekki bara mál sem hægt er að vísa til sveitarfélaganna. Þess vegna eru bæði praktísk rök og almenn jafnréttisrök fyrir því að á þessu máli sé tekið með sérstakri löggjöf héðan.

Spurningin er þá sú hvernig hún eigi að vera og í þeim efnum koma tvær leiðir aðallega til greina. Önnur leiðin er sú að sett verði almenn lög um táknmálið sem móðurmál heyrnarlausra og hvernig með það skuli farið, bæði að því er varðar notkun og rannsóknir. Hin leiðin er sú að setja inn í öll lög ákvæði um það að fólk skuli geta notið þjónustu opinberra stofnana og fengið þar táknmálstúlkun. Þá er ég að tala um í raun og veru öll dómsmálalög, lög um meðferð einkamála, lög um meðferð opinberra mála. Ég er að tala um þau lög sem snerta skólana, snerta kirkjuna, sjúkrahúsin og félagslega þjónustu af hvaða tagi sem er. Ég tel að það væri skynsamlegra að reyna að fara þá leið að setja inn í öll lög ákvæði um að heyrnarlausir skuli eiga rétt á táknmálstúlkun þar sem þeir þurfa að njóta þjónustu.

Nú vill þannig til, herra forseti, að þetta sérstaka vandamál liggur fyrir til meðferðar hjá opinberum aðilum. Stjórnvöld og Alþingi hafa tekið jákvætt á því, vil ég segja áður en lengra er haldið, með því að í lögunum um réttindi sjúklinga sem við settum í fyrra eða hittiðfyrra eru skýr ákvæði í þessum efnum sem snerta réttindi heyrnarlausra. Í þeim lögum er sjúklingum sem á þurfa að halda tryggð táknmálstúlkun og þar með viðurkennt að þeir sjúklingar sem þurfa á túlkuninni að halda mundu njóta annars flokks heilbrigðisþjónustu án túlkunarinnar.

[13:45]

Auk þess hefur það gerst núna ekki alls fyrir löngu að ákveðnir aðilar fengu ekki þjónustu hjá opinberri stofnun af því að viðkomandi var heyrnarlaus og opinbera stofnunin neitaði í raun og veru að veita viðkomandi þessa þjónustu. Slíkt mál frá ákveðnu sýslumannsembætti hér í landinu er nú til athugunar og úrskurðar í dómsmrn.

Embætti sem heyrir undir dómsmrn. synjaði heyrnarlausri konu um afgreiðslu máls vegna þess að hún gat einungis tjáð sig á táknmáli. Hún hafði þó boðað komu sína með þriggja daga fyrirvara og gert grein fyrir aðstæðum sínum. Ég tel að með hliðsjón af þeim mannréttindasáttmálum sem við höfum þegar staðfest og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar þá séu viðbrögð þessarar opinberu stofnunar óheimil og standist ekki og séu andstæð fyrrnefndum jafnréttis- og málsmeðferðarreglum. Að þeirri niðurstöðu komst Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður á fundi á vegum Félags heyrnarlausra núna á laugardaginn var.

Þess má geta, herra forseti, að þetta tiltekna mál er nú til meðferðar og ítarlegrar athugunar í dómsmrn. vegna þess að við því er að búast að úrskurður þess muni skapa fordæmi fyrir önnur íslensk stjórnvöld gagnvart þeim sem heyrnarlausir eru. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég er þess fullviss og læt það koma fram úr þessum ræðustól að úrskurður dómsmrn. verður jákvæður í þessu máli. Það væri algerlega fráleitt að annað gerðist vegna þess fyrst og fremst að ef þessum sjónarmiðum yrði hafnað þá væri verið að brjóta gegn grundvallarþáttum bæði mannréttindaákvæða okkar eigin stjórnarskrár og þeirra mannréttindasáttmála alþjóðlegra sem við höfum gerst aðilar að. Ég segi það því hér og nú án þess að hafa spurt dómsmrh. um það einu einasta orði: Ég er þess fullviss að það hljóti að vera þannig að dómsmrn. úrskurði í þessum málum í vil þeim heyrnarlausa einstaklingi sem leitaði þjónustu hjá sýslumannsembætti en var neitað um þjónustuna af því að embættið var ekki með aðstöðu til táknmálstúlkunar.

Ég tel, herra forseti, að hér sé um að ræða mjög mikilvægt almennt mannréttindamál og ég skora á hv. Alþingi að taka því vel. Ég skora á hv. menntmn. að afgreiða málið. Ég gagnrýni menntmn. fyrir að hafa ekki afgreitt málið síðustu tvö þing. Hún lá með það í allan fyrravetur og sinnti því lítið. Það var sent til umsagnar en engin niðurstaða kom úr því sem er mjög alvarlegur hlutur. Það er algerlega tilefnislaust að liggja á þessu máli þó það sé frá stjórnarandstæðingi, jafnvel þó að svo illa vilji til að stjórnarandstæðingur hafi flutt það. Mér skilst að stjórnarflokkarnir beri því við í þessu máli að það sé til athugunar í nefnd á vegum forsrn. Ég tel að það dugi ekki sem viðbára vegna þess að sú nefnd er almennt að fjalla um málefni sem snúa að þjónustu fatlaðra í þessu landi og ekki sérstaklega að málefnum heyrnarlausra og réttindum þeirra og íslenskra táknmálinu sem móðurmáli heyrnarlausra. Það er sérstakt mál og það á ekki að grauta því saman við almenna hluti nema ef menn vilja tefja málið enn lengur. Ég er fullviss um að það er ekki svo og vænti þess að málið verði afgreitt jákvætt á þessu þingi. Allt er þá þrennt er. Þetta er í þriðja sinn sem tillagan er flutt. Vonandi verður hún samþykkt áður en langur tími líður á þessu ágæta þingi sem núna hefur nýlega hafið störf.

Ég legg svo til, herra forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. menntmn.